Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 12:48:20 (2622)

1997-12-18 12:48:20# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[12:48]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gat um það áðan að við værum að tala um réttindi feðra og þau réttindi ættu að taka til allra feðra óháð sambúðarformi. En við erum líka að tala um réttindi barna til að vera samvistum við feður sína. Það ætti að tryggja óháð því sambúðarformi sem faðir og móðir hafa valið sér. Á hitt er líka að líta að það er mjög algengt á Íslandi að fyrsta barn fæðist áður en fólk giftir sig. Þegar hæstv. félmrh. talar um hjónabandið og sambúðina og mikilvægi þess, þá ég tek alveg undir það en hef þó í huga að stundum á fólk í erfiðleikum í upphafi sambúðar sinnar. Þetta eru mjög stór skref í lífi hvers og eins og ég held að þessi sjálfstæði réttur allra feðra óháð sambúðarformi sé til þess að treysta hjónabandið og farsæla sambúð. Þannig held ég að hvernig sem á málið er litið, sé rétt að taka annan pól í hæðina en þann sem kom fram í máli hæstv. félmrh.