Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 15:55:16 (2676)

1997-12-18 15:55:16# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[15:55]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins gera athugasemd við það sem fram kom í máli hæstv. félmrh. varðandi hækkun húsaleigu íbúða í eigu sveitarfélaga sem mun fylgja í kjölfarið á þeirri ákvörðun í frv. að greiða húsaleigubætur til leigjenda í íbúðum sveitarfélaga. Það er alveg augljóst mál að með þeirri breytingu að styrkja leigjendur í íbúðum sveitarfélaga hlýtur meiningin að vera sú að styrkja fjárhag leigjendanna. Þannig er málið sett fram, en við vitum hins vegar og út frá því er gengið bæði af hálfu flutningsmanns málsins eða ríkisstjórnarinnar og annarra sem hafa talað í þessari umræðu, að sveitarfélögin muni hækka húsaleiguna hjá sér. Með öðrum orðum, hin lága húsaleiga sem er í dag á þessum leiguíbúðum sveitarfélaga muni hækka upp í markaðsverð. (Gripið fram í: Nei, ekki upp í markaðsverð.) Upp í markaðsverð. Og það þýðir að greiðslurnar sem eiga upphaf sitt úr ríkissjóði munu enda ofan í sveitarsjóði, ekki ofan í vasa leigjandans og styrkja fjárhag hans. Ég spyr: Til hvers eru menn að þessu? Ef meiningin er sú að hlutirnir eigi að endurspegla raunverulegar aðstæður á markaði, hvers vegna á þá ríkið að niðurgreiða vexti niður í 1% á leiguíbúðum sveitarfélaga ef hinn endi málsins, húsaleigan, er ákvörðuð með öðrum hætti? Ég sé ekki rök fyrir því, herra forseti, að hafa félagslega niðurgreiðslu til sveitarfélaganna í gegnum lága vaxtaprósentu en gefa þeim frelsi til að innheimta húsaleigu með öðrum hætti.