Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 16:55:00 (2688)

1997-12-18 16:55:00# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[16:55]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þegar frv. um húsaleigubætur var til 1. umr. voru nokkur atriði óljós af hálfu ríkisstjórnarinnar. Snerti það aðallega hvort bæturnar yrðu skattlagðar áfram og hver niðurstaðan yrði að því er varðar fjárhagslegt uppgjör ríkis og sveitarfélaga varðandi húsaleigubæturnar.

Það er alveg ljóst að félmn., sem hefur haft frv. til skoðunar, hefur haft mjög skamman tíma til að fjalla um málið og leita sér allra þeirra upplýsinga og gagna sem voru nauðsynleg. Fyrir liggur nú að svo skammur tími gafst hjá nefndinni til að skoða málið að nauðsynlegar upplýsingar, sem nefndin kallaði eftir, liggja ekki fyrir. Ég á aðallega við þann þátt málsins sem snýr að því hvaða áhrif það hefði ef sveitarfélögin færa leiguna á leiguíbúðum sínum upp í raunkostnað og fara þess í stað að greiða húsaleigubætur. Nefndin lagði sannarlega sitt af mörkum til að þeirra upplýsinga yrði aflað. Enn er verið að vinna þetta, m.a. af hálfu Reykjavíkurborgar, ég veit ekki hvort það er á vegum fleiri sveitarfélaga verið að skoða áhrifin af breytingunni vegna þess að hún er töluverð. Eftir því sem ég veit best munu þessar upplýsingar væntanlega ekki liggja fyrir fyrr en í janúarmánuði þegar frv. hefur þá orðið að lögum. Það er mjög slæmt, herra forseti, þegar við erum að fjalla um mál og kallað hefur verið eftir nauðsynlegum gögnum sem hafa mikla þýðingu varðandi umfjöllun málsins í þinginu og nefndinni að það skuli ekki geta legið fyrir vegna þess tímahraks sem málið er sett í í þinginu þegar það er lagt fram svo seint af hálfu hæstv. félmrh.

Niðurstaðan varðandi skattlagningu húsaleigubótanna veldur vissulega vonbrigðum. Ég hafði, herra forseti, vænst þess að hæstv. fjmrh., sem var fyrir skömmu í stól sínum, skýrði fyrir þingheimi þá afstöðu sína af hverju hann telur rétt og eðlilegt að skattleggja húsaleigubætur en ekki vaxtabætur vegna þess að eftir því sem manni hefur skilist, og ég hef reynslu af því sem fyrrverandi ráðherra, hefur hæstv. fjmrh. fyrst og fremst komið í veg fyrir það að húsaleigubætur yrðu skattfrjálsar með líkum hætti og vaxtabætur. Varla er hægt að búa við það að hæstv. fjmrh. skýri ekki afstöðu sína í ræðustóli því að ég er alveg sannfærð um að mikill meiri hluti er fyrir því í þinginu að láta jafnræði ríkja varðandi skattlagningu á húsaleigubótum og vaxtabótum.

(Forseti (ÓE): Hæstv. fjmrh. hafði samband við forseta fyrir stuttu og tjáði honum að hann þyrfti að fara frá um sinn en hans er von á fundinn að nýju.)

Herra forseti. Ég tek það auðvitað gott og gilt og við höfum a.m.k. tækifæri til að spjalla við hann síðar á fundinum eða ef verst lætur við 3. umr. um þennan þátt málsins.

Vil ég þá víkja að brtt. nefndarinnar sem kemur í kjölfar þeirrar niðurstöðu sem varð milli ríkis og sveitarfélaganna varðandi fjárhagslegt uppgjör vegna húsaleigubótanna. Hér er komin fram brtt., sem meiri hluti félmn. flytur, sem segir að ríkissjóður skuli greiða árlega 280 millj. kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem renni til sveitarfélaganna vegna greiðslu húsaleigubóta. Maður spyr hvernig þessi tala er fundin út. Menn vísa til þess að húsaleigubætur hafi ekki kostað nema 200 millj. kr. til þessa og sennilega er talan fundin út frá því.

[17:00]

En þegar maður skoðar þau gögn sem fylgja með frv. og borist hafa nefndinni, og eins þá skýrslu sem gerð var fyrr á þessu ári um framkvæmd húsaleigubótakerfisins, þá eru mjög skiptar skoðanir um það hver útgjöld sveitarfélaganna verða þegar húsaleigubótakerfið er að fullu komið til framkvæmda, þ.e. þegar skylt verður að öll sveitarfélög greiði húsaleigubætur og eins hvað húsaleigubæturnar munu kosta þegar sú kerfisbreyting gengur yfir sem sveitarfélögin munu hugsanlega öll taka upp, þ.e. að færa leiguna upp í raunkostnað. Nefndar hafa verið tölur á bilinu frá 390--650 millj. kr. Þjóðhagsstofnun hefur m.a. nefnt hærri töluna og kemur fram í skýrslunni frá því fyrr á þessu ári að Þjóðhagsstofnun áætlar á grundvelli skattframtala 1995 að ef allir leigjendur undir tekjumörkum ættu rétt á húsaleigubótum yrði heildarkostnaðurinn um 513 millj. kr. á ári. Þess vegna undrar mig nokkuð, herra forseti, að sveitarfélögin hafi samið við ríkið um einungis 280 millj. kr. þegar þau eru að yfirtaka þetta verkefni. Vil ég minna á það sem fram kemur í þessari skýrslu sem ég veit að vísu ekki hvort sveitarfélögin skrifa undir. Þar stendur, með leyfi herra forseta:

,,Þá er ítrekað að allar tillögur um breytingar á húsaleigubótakerfinu frá og með áramótum 1998 sem fela munu í sér aukin útgjöld til húsaleigubóta, eru sjálfkrafa tillögur um aukin útgjöld sveitarfélaga.``

Með öðrum orðum, ef húsaleigubótakerfið reynist dýrara en þessar 280 millj. kr. þá eru það greinilega orðin sjálfkrafa útgjöld sveitarfélaganna. Þess vegna undrar mig nokkuð að sveitarfélögin hafi sæst á þá niðurstöðu sem lýst er hér að hafi fengist í samskiptamálum ríkis og sveitarfélaga að því er þetta varðar. Vil ég t.d. vitna í því sambandi til þess sem sveitarfélögin hafa sjálf sagt um þetta mál. Í skýrslu sem þau hafa sett fram um ýmsa valkosti sem koma til greina varðandi húsaleigubótakerfið er einn valkosturinn nefndur, þ.e. óbreytt kerfi frá því sem nú er, en kerfið er tekið upp hjá öllum sveitarfélögum og greiðslur fari fram hjá sveitarfélögunum án þátttöku ríkis og húsaleigubætur nái til alls íbúðarhúsnæðis. Þetta er sú leið sem á að lögfesta í þessu frv. og um hana segja þau, með leyfi forseta:

,,Heildarupphæð bótanna verður um 620 millj. kr., þ.e. 320 millj. kr. nettó miðað við núverandi kerfi í öllum sveitarfélögunum að viðbættum um 300 millj. kr. nettó vegna félagslegs íbúðarhúsnæðis sveitarfélaganna og fleiri.``

Sveitarfélögin meta sem sagt að þetta geti kostað um 620 millj. kr. en engu að síður hafa þau sæst á, við samningaborðið með ríkisvaldinu, að þetta verði einungis metið af hálfu ríkisins og að ríkið leggi fram 280 millj. kr.

Og af hverju skyldi ég, herra forseti, hafa svona miklar áhyggjur af þessari lendingu varðandi framlagið sem fer frá ríkinu til sveitarfélaganna? Það er vegna þess að ég vil tryggja eins og hægt er að leigjendur verði jafnsettir eftir þessa breytingu sem á að fara að lögfesta og þeir voru áður. Ég óttast að töluverður fjöldi leigjenda geti þurft að taka á sig aukna leigu við framkvæmdina.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór mjög vel yfir þetta áðan og sýndi fram á hvað gæti gerst við það að setja leiguna upp í raunkostnað, greiða húsaleigubætur, ef sveitarfélögin bættu ekki við viðbót við húsaleigubæturnar sjálfar. Hann lýsti þar sláandi dæmum. Sum þeirra komu fram við 1. umr. málsins, og ég hef virkilegar áhyggjur af þessu. Þess vegna rýni ég mjög í þessar tölur, framlagið sem fer frá ríkinu til sveitarfélaganna við þessa breytingu, og er að reyna að átta mig á því og meta hvort tryggt verði að sveitarfélögin bæti leigjendum mismuninn sem skapast við þessa kerfisbreytingu.

Við erum ekki að tala um neinn hátekjuhóp þegar við erum að ræða um leigjendur eða þá sem fengið hafa húsaleigubætur eða eru í niðurgreiddu húsnæði hjá sveitarfélögunum. Hverjir eru þetta aðallega, herra forseti? Það liggur fyrir í þessari skýrslu sem ég nefndi að á liðnu ári voru 300 einstaklingar atvinnulausir af 2.300 sem fengu bætur. Ellilífeyrisþegar voru 108. Nemar voru 568 og öryrkjar 357. Þessi hópur er um 1.300 manns af þessum 2.300. Og hverjar eru tekjur fólks sem er í leiguhúsnæði og fær húsaleigubætur? Eru þær nokkuð voðalega háar? Þær hafa komið nokkuð hér til umræðu, herra forseti. Félmn. fékk upplýsingar frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur um þá sem hafa fengið húsaleigubætur. Og hverjar skyldu tekjurnar vera sem þetta fólk hefur? 305 sem fengu húsaleigubætur höfðu engar tekjur, 1.158 höfðu 700 þús. kr. og minna, 1.635 höfðu frá 701 þús. kr. upp í 1.500 þús. kr., en þá byrja húsaleigubæturnar að skerðast og falla út við 2,5 millj. kr. og það eru einungis innan við 200 manns sem eru með tekjur á bilinu 1,6--2,5 millj. kr. Stærsti hluti þessa hóps eða liðlega 3.000 manns af þeim sem fengu húsaleigubætur 1997, sem voru 3.200, eru með tekjur innan við 1.500 þú. kr. og langflestir af þeim með tekjur innan við milljón og 1.158 með 700 þús. kr. og minna.

Úr þessum ræðustóli hafa verið rakin dæmi, herra forseti --- það var gert við 1. umr. og áðan af hv. þm. Ögmundi Jónassyni --- einmitt af fólki sem rétt skríður yfir 700 þús. kr. í árstekjur. Það getur staðið uppi með að þurfa að borga verulega hærri leigu en það greiddi áður. Við erum að tala um fátækt fólk, herra forseti. Það er ekki hægt annað en segja að fjölskyldufólk, gjarnan einstætt foreldri með tvö börn sem er með 700.000 í árstekjur, sé annað en fátækt fólk. Þetta skýrist af þessari kerfisbreytingu sem ég og fleiri hv. þm. höfum áhyggjur af og fyrirvari ýmissa nefndarmanna í félmn. byggist á.

Leigan í leiguíbúðum sveitarfélaga hefur verið frá 7--15 þús. kr. og skríður stundum rétt yfir 20 þús. kr. Nú mun þessi leiga hækka upp í allt að 45 þús. kr., fer upp í raunkostnað og síðan á fólk að fá húsaleigubætur. En húsaleigubæturnar eru það lágar að þær duga ekki nema til að greiða hluta leigunnar. Mismuninn verður fólkið sjálft að bera í kostnað, allt upp í 20 þús. kr., herra forseti, nema sveitarfélögin taki sjálf ákvörðun um að greiða einstaklingunum þennan mismun. Það skyldi því engan undra að ég og nokkrir hv. þm. sem hér höfum talað höfum verulegar áhyggjur af framkvæmdinni á húsaleigubótakerfinu, ekki síst miðað við þá niðurstöðu sem fékkst í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Hægt væri að taka mörg dæmi. Ég skal halda mig við allra tekjulægsta fólkið með 700 þús. kr. Hér er einstætt foreldri með eitt barn, með liðlega 700 þúsund, sem hefur borgað núna í leigu 14.800 kr. Nú fer leigan hjá þessu einstæða foreldri upp í 32 þús. kr. Viðkomandi fær 12.900 kr. í húsaleigubætur og situr eftir með mismun upp á 9.740 kr. sem er stór hluti af launum þessa einstæða foreldris sem er kannski með rúmlega 50 þús. kr. í tekjur. Það situr uppi með mismun upp á 9.700 kr. sem er fimmtungur af launum viðkomandi. Þessi einstæða móðir stendur í algerri óvissu um það í dag hvort henni verður bættur þessi mismunur. Sem betur fer hefur komið fram yfirlýsing. Ég hef ekki heyrt hana lesna upp úr þessum ræðustól en hv. formaður nefndarinnar, Kristín Ástgeirsdóttir, hefur sagt í þinginu og væntanlega haft það eftir Reykjavíkurborg, að Reykjavíkurborg ætli að tryggja að leigjendurnir verði jafnsettir á eftir. Maður verður því að túlka og áætla sem svo að Reykjavíkurborg ætli að greiða þennan mismun. (ÖJ: Núverandi leigjendum.) Núverandi leigjendum.

Þá ætla ég að spyrja hv. formann nefndarinnar: Af því það stendur í frv. ... (Gripið fram í.) Gott og vel. Segjum svo að Reykjavíkurborg ætli að tryggja að þessi mismunur verði greiddur til þeirra sem fá núna húsaleigubætur. En þá spyr ég um það sem fram kom í frv. að áætla megi að nærri fjórðungur þeirra sem nú er í leiguhúsnæði hjá borginni detti út úr kerfinu, þ.e. leigan hjá þeim fer upp í raunkostnað. Þeir halda íbúðinni en þeir munu ekki fá húsaleigubætur af því þeir fara yfir tekjumörkin sem þýðir að leigan hjá þeim getur hækkað um 15--20 þús. kr. Er þetta fólk talið með þegar Reykjavíkurborg segir: ,,Þetta fólk verður jafnsett á eftir?`` (ÖJ: Það er ekki vitað.) Eða er bara verið að tala um fólkið sem fær einhverjar húsaleigubætur? Getur það virkilega verið svo, herra forseti, að verið sé að setja fjórðung þeirra sem nú eru í leiguíbúðum á vegum sveitarfélaga hreinlega út á kaldan klakann, að það þurfi allt í einu að standa uppi með 20 þús. kr. meira í húsaleigu en það þarf að borga í dag? Um þetta er ekkert vitað, herra forseti, vegna þess að nefndin fékk ekki eðlilegan tíma til að fjalla um þetta mál. Það er mjög erfitt að þurfa að afgreiða þetta frv. svona vegna þess að þetta mál er mjög gott. En við erum að fara út í ákveðna kerfisbreytingu sem við vitum ekkert hvert leiðir okkur og stóran hóp fólks sem nú er í leiguhúsnæði. Ef ég skil hv. þm. Ögmund Jónasson rétt, en hann á sæti í nefndinni, þá er ekkert vitað hvort þessi fjórðungur sem nú er í leiguíbúðum sveitarfélaganna fái nokkrar bætur frá Reykjavíkurborg. (Gripið fram í: Það er verið að reikna hvern einasta mann.) Eru þetta endilega einstaklingar með mjög háar tekjur? Þetta allt hefðum við þurft að fá upp á borðið, herra forseti. Mig grunar að stærsti hlutinn af þeim fjórðungi sem hér er nefndur og hugsanlega dettur algerlega út, fer að borga raunkostnað í leigu hjá sveitarfélögunum og fær engar húsaleigubætur, án þess ég viti það vegna þess að það er nú verið að skoða og kafa ofan í þetta mál, sé fólk sem ekki er hægt að skrifa upp á að sé tekjuhátt fólk.

Það er mikil óvissa í þessu máli, herra forseti, og er mér skapi næst að vera smátíma í ræðustólnum og fara yfir öll þessi dæmi, þessi 40 dæmi sem við erum með, til að sýna fram á hvað við skiljum málið eftir í mikilli óvissu. En bæði er að þingið er önnum kafið og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur gert þessu máli ágætlega skil og farið yfir einstök dæmi, sem ég gerði einnig við 1. umr. málsins, þannig að ég skal ekki tefja tíma þingsins með þeim lestri. En þetta eru hrikalegar tölur. Við erum að tala um að þetta fólk þurfi hugsanlega að greiða 10--20 þús. kr. meira í leigu, fólk sem er með 50--80 þús. kr. á mánuði. Þetta er drjúgur peningur. Við erum kannski að tala um 20--25% af ráðstöfunartekjum þessa fólks sem það allt í einu þarf að fara að greiða meira í leigu.

Það kemur fram hjá Reykjavíkurborg í gögnum sem lögð hafa verið fram að samkvæmt athugun á húsaleigubótaþegum í Reykjavík eru heimilistekjur á mánuði --- þetta er að vísu meðaltal --- um 64 þús. kr. Það er því sama hvar maður ber niður í tölum og talnalegum upplýsingum sem liggja fyrir um þetta mál, þær staðfesta allar að hér sé um tekjulægstu hópana að ræða.

[17:15]

Ég viðurkenni vel, herra forseti, að erfitt er að taka á þessu máli vegna þess að það er fyrst og fremst undir sveitarfélögunum sjálfum komið hvernig framkvæmdin á þessu verður og þau eru ekki skyldug til að færa leiguna upp í raunkostnað. En ég minni á það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi, þ.e. skýringu við ákvæði I til bráðabirgða. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið gerir ráð fyrir þeirri meginbreytingu frá gildandi fyrirkomulagi að húsaleigubætur komi í stað niðurgreiðslna félagslegra íbúða.``

Það er því gengið út frá því að þetta verði meginreglan.

Herra forseti. Ég var að færa fyrir því rök áðan að mjög nauðsynlegt hefði verið að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur þessa umræðu. En það er líka ástæða til að hæstv. félmrh., sem ber ábyrgð á þessu máli og er mjög annt um að það nái fram að ganga, sem ég skil mætavel, heiðri okkur með nærveru sinni. (Félmrh.: Hann er hér.)

(Forseti (ÓE): Hann er í hliðarsal.)

Ég veit að hæstv. ráðherra veit vel af áhyggjum mínum af framkvæmdinni á þessum húsaleigubótum og mér er kunnugt um að að frumkvæði Ögmundar Jónassonar, alþingismanns og formanns BSRB, fór sendinefnd á fund hæstv. ráðherra til að lýsa áhyggjum sínum af þessari framkvæmd. Í henni voru m.a. fulltrúar Leigjendasamtakanna, BSRB og ASÍ. Þeir fóru yfir stöðu málsins og lýstu áhyggjum sínum af framkvæmdinni.

Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. ráðherra greindi okkur ítarlegar frá því en komið hefur fram í máli hans, hvort hann hafi engar áhyggjur af þessu plaggi, þeim útreikningum sem liggja fyrir frá Reykjavíkurborg varðandi þennan mismun. Mér er kunnugt um að ráðherra hefur a.m.k. verið afhent þetta plagg og ég vona að hæstv. ráðherra hafi lesið það og stúderað varðandi þennan mismun. Mun hann beita sér fyrir því, þegar þetta frv. er orðið að lögum, að skrifa t.d. öllum sveitarfélögunum í landinu og beina því til þeirra að þau tryggi eins og hægt er að leigjendur verði jafnsettir eftir þessa breytingu og áður? Ég held það gerði mann nú strax aðeins rórri ef maður vissi að hæstv. ráðherra ætlaði aðeins að fylgjast með hvernig framkvæmdin yrði á þessu og hugsanlega að óska eftir því við sveitarfélögin að þau skoði það vel að leigjendur verði jafnsettir eftir sem áður. Ég veit ekki til þess og ég spyr hv. formann nefndarinnar hvort það liggi fyrir frá einhverjum öðrum en Reykjavíkurborg --- Reykjavíkurborg ætlar að tryggja að leigjendur verði jafnsettir eftir sem áður þótt ekkert sé vitað um þá sem ekki eiga rétt á húsaleigubótum --- hvort slík yfirlýsing hafi komið frá öðrum sveitarfélögum, Akureyri, Hafnarfirði, Kópavogi eða Sambandi íslenskra sveitarfélaga? Hver er skoðun Sambands íslenskra sveitarfélaga á þeim mismun sem kemur þarna fram? Hann hlýtur að hafa verið ræddur í nefndinni við forystumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hafa þeir lýst því yfir að þeir muni beita sér fyrir því eins og hægt er --- mér er mætavel kunnugt um sjálfstæði sveitarfélaga. Þetta er fyrst og fremst í þeirra höndum. En þó má alltént reyna að hafa áhrif á að sveitarfélögin tryggi að farið sé að markmiðum laganna eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á --- að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda en ekki hækka hann miðað við þessa kerfisbreytingu.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri. Mér er nokkuð órótt yfir þessu máli af því við erum að afgreiða frv. frá okkur og málið verður komið í hendur sveitarfélaganna eftir þessa lagasetningu. Ég held það væri mjög nauðsynlegt, þegar vitað er hvernig sveitarfélögin ætla að haga þessu máli í framkvæmd, að hæstv. ráðherra gefi Alþingi skýrslu um framkvæmdina. Ég spyr ráðherrann hvort hann muni hafa frumkvæði að því að beita sér fyrir því að lögð verði fram skýrsla á Alþingi --- hvort sem það yrði nú á vorþingi eða í upphafi næsta þings --- um hvernig framkvæmdinni verður háttað, hvernig einstök sveitarfélög ætla að framfylgja þessum lagaákvæðum, hvort þau hafi farið út í þessa kerfisbreytingu að færa leiguna upp í raunkostnað og hvort margir hafi verið skildir eftir við þá breytingu sem fá þá hvorki niðurgreiðslu né húsaleigubætur. Ég held það væri mjög gagnlegt, herra forseti, ef ráðherrann lýsti því yfir að hann mundi strax og það lægi fyrir gefa Alþingi skýrslu um stöðu þessara mála, sérstaklega þar sem ráðherrann setur þingið í þessa þröngu stöðu að hafa ekki tíma til að vinna málið til enda og bíða eftir nauðsynlegum gögnum sem eru núna í vinnslu hjá Reykjavíkurborg og munu liggja fyrir eftir hálfan mánuð til þrjár vikur. Væntanlega hefði verið farið fyrr í þessa vinnu og kallað fyrr eftir þessum gögnum ef frv. hefði komið fyrr inn í þingið. Þess vegna finnst mér ráðherrann skulda þinginu að leggja fyrir þingið eins fljótt og verða má skýrslu um framkvæmd á þessum nýju lögum og hvernig einstök sveitarfélög ætla að framfylgja þeim.

Í lokin vil ég spyrja hæstv. ráðherra af því við erum að fjalla um leiguíbúðir og húsaleigubætur: Er eitthvað á döfinni af hálfu ráðherra til að fjölga leiguíbúðum sem sárlega vantar, ekki síst í þessu sveitarfélagi? Í tíð hæstv. ráðherra hefur verið dregið verulega saman í félagslegum eignaríbúðum og félagslegum leiguíbúðum. Sveitarfélögin hafa ekki --- sérstaklega Reykjavíkurborg og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu --- fengið úthlutað eins mörgum íbúðum og þau hafa óskað eftir, t.d. til þess að fjölga félagslegum leiguíbúðum sem ég tel að sárlega vanti í sveitarfélagið. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort eitthvað sé á döfinni af hans hálfu til að hægt sé að taka á í uppbyggingu leiguíbúða.

Ég læt hér með lokið máli mínu, herra forseti, en ítreka það að ég hef verulegar áhyggjur af framkvæmd laga þessara þótt frv. eins og það er úr garði gert sé allgott. En þátturinn varðandi framkvæmdina er skilinn eftir í óvissu, ekki síst af því nefndin hafði ekki eðlilegan tíma til að fjalla um málið.