Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 17:51:40 (2701)

1997-12-18 17:51:40# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[17:51]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Til mín var beint nokkrum spurningum. Ein var sú hvort ég vildi stuðla að því að fjölga leiguíbúðum. Ég tel mjög mikilvægt við endurskipulagningu Húsnæðisstofnunar eða lagabreytingar þar um að gefa aukið svigrúm til að fjölga leiguíbúðum. Ég tel að við höfum of lítinn leigumarkað og jafnframt vil ég breyta félagslegum eignaríbúðum sem sveitarfélögin hafa orðið að yfirtaka í leiguíbúðir. Í öðru lagi tel ég að það komi alveg til greina ef einhver sveitarfélög hugsa sér að nota húsaleigubæturnar til að efla sveitarsjóð að minna þau formlega á skyldur sínar í húsnæðismálum. Það tel ég koma til greina. Að sjálfsögðu mun ég reyna að fylgjast með þróun þessara mála. Ég vil ekki lofa skýrslu á einhverjum ákveðnum degi en við munum að sjálfsögðu fylgjast með þróun mála. Ég tel að sveitarfélögin hafi alveg burði til að gegna þessu verkefni vel. Jöfnunarsjóðstillagið til sveitarsjóðanna vegna húsaleigubótanna er 250 millj., þ.e. þau fá 250 millj. frá ríkinu til að standa undir húsaleigubótum eins og þær voru og vegna fjölgunarinnar. Síðan hafa þau 55 millj. vegna þess að bæturnar eru ekki skattfrjálsar og eðlilegast væri að þau notuðu þær 55 millj. til að hækka húsaleigubæturnar. Útreikningar þar að lútandi gætu náttúrlega af þeirri ástæðu lagast töluvert mikið.

Hv. 13. þm. Reykv. talaði í lok ræðu sinnar áðan um að hún hefði samið við ríkið um 400 millj. kr. framlag til húsaleigubótanna. Það er nú svo með þá samninga en á móti var framlag ríkisins til Byggingarsjóðs verkamanna lækkað um 400 millj. svo mér finnst það hafa verið innanhússákvörðun hjá henni í félmrn. að færa 400 millj. úr Byggingarsjóði verkamanna yfir í húsaleigubæturnar. Ekki þurfti á þessum 400 millj. að halda til þessa verkefnis og hefði kannski verið skynsamlegra að halda þeim áfram í Byggingarsjóði verkamanna eða í einhverjum öðrum verkefnum hjá félmrn. því þetta víkkaði ekkert ramma félmrn. ef ég veit rétt.