Aukatekjur ríkissjóðs

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 21:52:53 (2723)

1997-12-18 21:52:53# 122. lþ. 48.15 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv. 143/1997, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[21:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Þakka þér fyrir, herra forseti, mín er ánægjan, öll mín megin ánægjan. Alltaf er það nú jafnstórbrotinn málflutningur þegar menn byrja að koma og játa á sig skammirnar, eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson gerði hér, að þetta væru vandræðaleiðindaskattar. En málsvörnin var sú að þeir hefðu verið lagðir á einhvern tíma fyrr á öldinni af einhverjum öðrum og þar með væri Sjálfstfl. laus allra mála að halda því áfram og hækka þá.

Ef þessir skattar voru einhvern tíma fyrr á öldinni hækkaðir með ósanngjörnum hætti, af hverju lækkar þá ekki Sjálfstfl. þá? Þetta er ekki boðlegt, herra forseti. Við erum komin upp úr grunnskóla hvað röksemdafærslu snertir. Ef Sjálfstfl. telur þessi gjöld vera of há þá hefur hann meiri hlutann og valdið til að lækka þau. Hann ræður fjmrn. og er búinn að gera það í sex ár. Er það ekki nóg? Tekur meira en sex ár að koma slíku í verk?

Það er alveg hárrétt að þessi gjöld voru hækkuð nokkuð hressilega, einu sinni a.m.k. í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, enda höfðu þau þá ekki hækkað lengi. Þá var mikil verðbólga og miklir erfiðleikar í ríkisfjármálum eins og allir vita. Það kann vel að vera að í einhverjum einstökum tilvikum hafi sú hækkun verið fullhressileg, enda minnir mig að eitthvað af þeim hafi verið lækkað aftur þegar það kom á daginn að í einstökum tilvikum stóðu kannski ekki rök til að hækka þau svo hressilega. En þetta er sagnfræði og ég bara bendi aftur á þetta augljósa atriði að Sjálfstfl. er búinn að vera í ríkisstjórn í sex ár, eiga fjármálaráðherrann í sex ár, og hafi hann talið eða telji þessa gjaldtöku ósanngjarna þá er honum væntanlega í lófa lagið að lækka þau og þó fyrr hefði verið. Þannig að niðurstaða málsins er sú að Sjálfstfl. vill ekki lækka þessi gjöld, hann er að hækka þau.