Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 11:08:16 (2738)

1997-12-19 11:08:16# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[11:08]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Aðrir hv. þingmenn hafa gert frv. góð skil í umræðu í gær og í morgun og við fyrri umræður málsins en ég vík þó að nokkrum greinum. Í fyrsta lagi vil ég gagnrýna fyrirhugaðan niðurskurð á framlagi til fatlaðra, til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, og vil í því sambandi vísa til rökstuðnings sem fram kemur frá minni hluta félmn. um það efni, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Enn á ný eru tekjur Framkvæmdasjóðs fatlaðra skertar. Samkvæmt lögum er erfðafjárskattur ætlaður til framkvæmda í þágu fatlaðra. Þær tekjur eru áætlaðar 420 millj. kr. á næsta ári. Samkvæmt frumvarpinu fær framkvæmdasjóðurinn í sinn hlut 205 millj. kr. þannig að ríkið tekur í sinn hlut 215 millj. kr. Ríkisstjórnin hefur uppi áform um að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaganna. Ef það á að takast sómasamlega þurfa málefni fatlaðra að vera í góðu lagi, nema meiningin sé að leggja auknar byrðar á sveitarfélögin. Í Reykjavík og á Reykjanesi eru langir biðlistar eftir sambýlum og því ljóst að mikil þörf er fyrir framkvæmdafé eigi að takast að stytta biðlistana. Það er ólíðandi að framkvæmdarvaldið skuli ár eftir ár skerða eyrnamerkt fé. Þá er miklu nær að breyta lögunum í stað þess að hunsa þau með þessum hætti.``

Ég vil sérstaklega gera að umræðuefni það sem þarna er vikið að, þ.e. flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaganna. Ég held að í þjóðfélaginu almennt séu vaxandi efasemdir um hve heppileg ráðstöfun þetta er. Flutningur skólans yfir til sveitarfélaganna hefur reynst erfiðari en jafnvel bjartsýnustu menn höfðu gert sér vonir um og hvað varðar þung og kostnaðarsöm verkefni, bæði innan skólakerfisins og eins í þessum málaflokki, þar má ætla að erfiðleikarnir verði enn meiri.

Ég gerði að umtalsefni í umræðu, ég held í fyrradag, vanda skóla á landsbyggðinni að sinna börnum sem byggju við erfiðleika, hegðunarerfiðleika eða mikla námserfiðleika. Þar vék ég að einu ákveðnu tilviki. Í rauninni er þetta ekki einvörðungu spurning um peninga til að sinna tilteknum einstaklingum. Þetta er spurning um fjármagn til að rísa undir þeim skyldum sem settar eru á skólana. Í þessu tilviki t.d. má færa rök fyrir því að skólarnir á svæðinu, sem eiga að sinna þeim einstaklingi sem var til umfjöllunar, eru ekki í stakk búnir til að gera það. Litlir skólar eru ekki í stakk búnir margir hverjir til að sinna erfiðum verkefnum sem lögum samkvæmt eru lögð á þeirra herðar. Ég tek þetta sem dæmi um þann vanda sem verður uppi þegar sveitarfélögin fá málefni fatlaðra inn á sitt borð og það er mikið áhyggjuefni að í aðdragandanum að þeim flutningi skuli framlag til þessa málaflokks skert á þann hátt sem hér er gert.

Annað atriði sem ég vildi gagnrýna í lagafrv. er hvernig staðið er að Atvinnuleysistryggingasjóði. Tekjur hans eru skertar en lagt til að hlutfall atvinnutryggingagjalds, sem rennur til atvinnuleysistrygginga, lækki um 0,15% en þetta er sett í samræmi við minnkandi fjárþörf sjóðsins vegna minna atvinnuleysis. Útgjöld launagreiðenda verða 400 millj. kr. minni fyrir vikið. Það má vel vera að atvinnuleysið sé á niðurleið og vonandi að svo sé og okkur takist að útrýma atvinnuleysi. En við vitum að á Íslandi búum við við mjög miklar sveiflur í efnahagslífi og ég held að það sé mjög vanhugsuð ráðstöfun að veikja undirstöður Atvinnuleysistryggingasjóðs því að það er ekki nóg með að tekjur sjóðsins séu skertar heldur eru einnig lagðar auknar byrðar á sjóðinn. Þannig er honum gert að taka þátt í kostnaði við svæðisvinnumiðlanir, hluta Vinnumálastofnunar, og er þar um að ræða framlag upp á 100 millj. kr. en áður höfðu verið settar ýmsar aðrar byrðar á sjóðinn, ýmis önnur verkefni, starfsmenntunarsjóður og atvinnusjóður kvenna. Það er því tvennt að gerast í senn. Tekjur sjóðsins eru að skerðast og auknar byrðar eru settar á hans herðar.

[11:15]

Á sama tíma hafa reyndar verið sett í önnur lög ákvæði þess efnis að ríkið er í rauninni ekki lengur í bakábyrgð fyrir sjóðinn. Sjóðnum er ætlað að vera sjálfstæður og sjálfbær og er það mjög í takt við þá hugsun sem er að finna víða í skipulagi sjóða og stofnana á vegum hins opinbera. Nefni ég þar sérstaklega nýskipan í lífeyrismálum opinberra starfsmanna. Þar er gert ráð fyrir því að ríkisábyrgð í gömlum stíl sé afnumin en sjóðunum gert, og búið svo um hnútana, að þeir rísi sjálfir undir skuldbindingum sínum. Þetta finnst mér allt hníga í þá átt að heppilegra hefði verið að treysta undirstöðu sjóðsins í stað þess að veikja hann, draga úr framlagi til hans og setja á hann auknar byrðar. Þetta var um Atvinnuleysistryggingasjóð.

Ég ætla þá að víkja að 9. gr. sem hefur verið mjög til umræðu og er mjög umdeild þótt ríkisstjórnin sé þar nokkuð að bakka frá því sem áður var ákveðið fyrir áramótin 1995 þegar tengingin sem var á milli almannatrygginga og atvinnuleysisbóta annars vegar og launataxta hins vegar var afnumin. Nú er komið nokkuð til móts við þær kröfur sem settar voru fram af ýmsum almannasamtökum og verkalýðshreyfingu og að ógleymdri stjórnarandstöðu á Alþingi. Í 9. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 59. gr.`` --- sem munu vera meðlög --- ,,og fjárhæðir skv. 17. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.``

Í umræðunni hefur verið vitnað til ályktana sem hafa komið frá verkalýðshreyfingunni, frá ASÍ, frá BSRB og ýmsum samtökum öðrum. Fyrr í morgun var vitnað í ályktun sem kom frá Sjálfsbjörg, landssambandi fatlaðra, þar sem því er mjög harðlega mótmælt hve skammt er gengið til móts við kröfur landssambandsins og segir m.a., með leyfi forseta:

,,Það mun því verða áframhald á geðþóttaákvörðunum ríkisstjórnar hvort okkar fólki hlotnast að lifa með þeirri virðingu og reisn sem öðrum þegnum þessa lands, að það fái búið við efnahagslegt öryggi í stað þess að vera dregið í niðurlægingu fátæktar.``

Þetta eru hörð orð sem koma frá landssambandi fatlaðra, Sjálfsbjörg, og rökin á bak við þessi hörðu orð eru þau að þótt menn hafi viljað láta líta svo út að verið væri að tryggja kjör fatlaðra, tryggja kjör elli- og örorkuþega, þá er í rauninni verið að undirbúa þarna stórfellda kjaraskerðingu. Lítum nánar á þetta orðalag: ,,Ákvörðun þeirra,`` þ.e. þessara bóta ,,skal taka mið af launaþróun,`` hér er ekkert handfast, ,,þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.``

Það er yfirlýst markmið verkalýðshreyfingar og alla vega á hátíðarstundum er það líka yfirlýst markmið ríkisstjórnar að stefna eigi að því að reisa við kaupmátt kauptaxtans. Hvað þýðir það? Hvað þýðir að reisa við kaupmátt kauptaxta? Jú, það er að tryggja að kauptaxtinn þróist umfram verðlag. Þannig verður kaupmáttaraukning hjá launafólki, hjá þeim sem taka laun samkvæmt kauptaxta. Þá verður kaupmáttaraukning.

Nú hafa verið gerðir samningar sem eiga að tryggja að um næstu áramót fari lægstu launataxtar upp í 70 þús. kr. eða þar um bil. Þetta er hækkun hjá lægsta fólkinu, hjá þeim sem bjuggu við viðmiðunartaxta almannatrygginga áður. Þetta er talsverð hækkun umfram það sem almennt gerist á launamarkaðnum. Öryrkjunum og lífeyrisþegunum verður gert að hvíla á gólfi neysluverðsins, almennrar verðlagsþróunar á meðan lægstu kauptaxtarnir fara hraðar upp á við. Í þessu liggur kjaraskerðingin hjá þeim hópum. --- Ég leyfi mér að beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort hæstv. félmrh. sé í Alþingishúsinu því ég óska eftir því að hann verði viðstaddur það sem ég hef að segja um þessi efni.

(Forseti (ÓE): Hæstv. félmrh. er í húsinu og forseti gerir ráðstafanir til að hann komi í salinn.)

(VE: Geturðu ekki skammað einhvern annan á meðan?) Hv. formaður efh.- og viðskn. spyr hvort ég geti ekki skammað einhvern annan á meðan. Það væri eflaust hægt að gera það en við höfum andakt og nóg af þolinmæði. Það er enn langt til jóla og margt sem þarf að ræða rækilega. Hér kemur hæstv. félmrh. og ég vil gera hæstv. ráðherra grein fyrir því að ég er að fjalla um 9. gr. frv. (Félmrh.: Ég hef fylgst með ræðunni.) --- gott, um ráðstafanir í ríkisfjármálum þar sem gert er ráð fyrir því að elli- og örorkubætur taki mið eða breytingar á þeim taki mið af almennri launaþróun en fari þó ekki neðar en almenn verðlagsþróun í landinu. Ég er að vitna í yfirlýsingar sem fram hafa komið hjá Sjálfsbjörg, landssambandi fatlaðra þar sem því er harðlega mótmælt að bæturnar fylgi ekki launataxta. Það sem býr að baki harðorðri yfirlýsingu Sjálfsbjargar, verkalýðshreyfingar og fleiri samtaka er að samið hefur verið um það í kjarasamningum að lægstu taxtar, þeir sem þessar bætur voru áður miðaðar við fari upp í um 70 þús. kr. á næsta ári. Þá sjá menn það fyrir sér, alla vega hafa þeir ekki tryggingu fyrir því að þessar bætur hækki að sama skapi. Þarna er sem sagt verið að skerða þessi kjör.

Það er eitt annað sem vekur athygli manna og það er spurningin um kjör atvinnulausra. Það er spurningin um atvinnuleysisbætur. Óneitanlega hafa yfirlýsingar hæstv. félmrh. vakið athygli og reiði í þjóðfélaginu þess efnis að óeðlilegt sé að atvinnuleysibætur fylgi lægstu launatöxtum. Það þurfi að vera hvatning fyrir fólk til að vinna, eins og hann hefur orðað það. Í þessu felst sá skilningur að atvinnulausir séu án atvinnu að eigin vali og að eigin ósk og sérstaka hvatningu þurfi til þess að þeir finni sér vinnu. Það er ógæfa þúsunda manna að fá ekki starf. Það er ógæfa þessa fólks líka að það hrapar niður í tekjum. Margir missa eignir sínar við atvinnuleysið og verða fyrir miklum búsifjum, því það er nú einu sinni svo að þótt yfirvinna sé að dragast saman í þjóðfélaginu, þá erum við enn þá yfirvinnuþjóðfélag og víða hefur í kjarasamningum, ekki síst hjá þeim sem búa við lægstu taxtana eins og í fiskvinnslunni, verið samið um alls kyns bónusa sem hvíla ofan á þessum lágu töxtum. Ef atvinnuleysisbætur, sem nú eru um 57 þús. kr. fyrir fullan mánuð, verða lægri en lægstu taxtar þá er ekki nóg með það að fólk sé að verða af yfirvinnunni sem það áður fékk greitt fyrir og bónusnum sem það áður fékk greitt fyrir heldur er líka hrap frá þessum lægstu töxtum. Við erum þá komin niður í lífskjör sem eru svo langt frá því að vera nokkrum manni bjóðandi og langt frá því að eiga nokkra samleið með heilbrigðri skynsemi, að ég fæ ekki skilið hvað það er sem ríkisstjórnin hugsar þessu fólki. Ég fer þess á leit við hæstv. félmrh. að hann skýri hvaða hugmyndir ríkisstjórnin hefur gagnvart atvinnulausum og atvinnuleysisbótunum og hvort samsvarandi breytingar eru hugsaðar og varðandi elli- og örorkubæturnar, eða hvað hugsar ríkisstjórnin í þessu efni? Sjálfum finnst mér ekkert annað koma til greina en að þessar bætur fylgi þróun þeirra launataxta sem hefur verið miðað við og er þó allt of lágt því það er samdóma álit allra, held ég, að það lifi enginn af þessum lægstu töxtum, það gerir enginn. Þess vegna reynir fólk að ná til sín allri þeirri aukavinnu sem það á mögulega kost á auk þess sem það hefur sumt hvert kost á því að fá ávinning af margs kyns bónusgreiðslum sem hinn atvinnulausi fær ekki.

Sú spurning sem ég vildi beina til hæstv. félmrh. er hvernig hann hyggst bregðast við meirihlutaályktun Atvinnuleysistryggingasjóðs sem hefur farið þess á leit að jólauppbót á atvinnuleysisbætur verði tryggð atvinnulausu fólki. Meiri hluti stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs samþykkti á fundi sínum í fyrradag eða daginn þar áður mun það hafa verið, að beina þeim tilmælum til hæstv. félmrh. að atvinnulausir fái jólauppbót á atvinnuleysisbætur. Áætlað er að þetta muni kosta sjóðinn 80 millj. kr. og að atvinnulaus einstaklingur með full réttindi fengi 25.100 kr. í jólauppbót. Hvað ætlar hæstv. félmrh. að gera gagnvart þessari eindregnu kröfu sem fram hefur komið frá Atvinnuleysistryggingasjóði sem setur þá kröfu á hendur ríkisstjórninni að hún komi til móts við atvinnulaust fólk að þessu leyti? Atvinnulausir þurfa líka að halda jól og áramót eins og aðrir og það kostar peninga á þeim heimilum eins og öðrum heimilum. Þessu fólki sem býr þegar við mjög þröngan kost veitir ekki af þeim fáu þúsundkrónuseðlum sem þetta mundi færa þeim en gæti skipt sköpum fyrir marga. Hvað hyggst hæstv. félmrh. gera í þessu efni?

Ef þarf lagabreytingu til að koma þessu í kring, þá trúi ég ekki öðru en Alþingi og hv. alþingismenn munu allir leggjast á eitt ef það er einlægur vilji ríkisstjórnarinnar að koma til móts við atvinnulaust fólk að þessu leyti. Þess vegna er spurning mín sú: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera gagnvart þessum kröfum sem fram hafa komið frá Atvinnuleysistryggingasjóði og telur hæstv. ráðherra að þörf sé á lagabreytingu og er hann reiðubúinn að beita sér fyrir slíkri lagabreytingu áður en þingi verður slitið fyrir jólahátíðina?