Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 16:08:43 (2821)

1997-12-19 16:08:43# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[16:08]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gerði fjárhagsvanda spítalanna í Reykjavík að umræðuefni og ég þakka honum fyrir hversu skilmerkilega hann gerði grein fyrir vanda þeirra sem er ærinn eins og kemur fram í því nefndaráliti sem hann mælti fyrir. Sökum þeirrar erfiðu stöðu sem spítalarnir búa við þá liggur fyrir að óhjákvæmilegt er að skera niður bráðnauðsynlega þjónustu og líklega segja upp fólki. Í bréfi sem borgarráð samþykkti samhljóða að senda frá sér fyrir skömmu var því lýst yfir að hina pólitísku ábyrgð af því yrði ríkisstjórnin og hæstv. heilbrrh. að bera. Í umræðum um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar í gær sagði borgarstjórinn í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að sú spurning yrði æ áleitnari hvort ríkið ætti ekki að yfirtaka Sjúkrahús Reykjavíkur. Hæstv. heilbrrh. segir í DV í dag að hún fagni þessu frumkvæði borgarstjóra og hún telji rétt að ríkið yfirtaki Sjúkrahús Reykjavíkur. Í framhaldi af inngangi hv. þm. þá vil ég spyrja hann: Telur hann að það sé líklegt til verulegs sparnaðar að sameina þessi sjúkrahús og telur hann að jafnvel þó ráðist væri í það núna mjög bráðlega að það dragi að einhverju leyti úr þeirri fjárþörf sem hann lýsti svo ítarlega í sinni ræðu?