Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 17:56:51 (2837)

1997-12-19 17:56:51# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, GE
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[17:56]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það er að draga að lokum umfjöllunar um fjárlög vegna ársins 1998. Það er ekki ástæða, herra forseti, til þess að vera að setja á langar ræður um það sem er fyrir fram búið að ákveða. Þegar komið er að þessari stundu er ekkert eftir nema ákveðið uppgjör, uppgjör á milli manna um meiningarmun þannig að ég ætla ekki að flytja langa ræðu.

Ég ítreka þakkir mínar til allra þeirra sem hafa lagt sitt af mörkum til að gefa sem gleggstar upplýsingar um fjárlögin fyrir árið 1998. Félögum mínum í minni hluta, hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, Kristínu Halldórsdóttur og Sigríði Jóhannesdóttur þakka ég sérstaklega fyrir að hafa tekið að hluta á sig meiri fyrirhöfn við álitsgerð en undirritaður. Meiri hluta fjárln. er þakkað fyrir samstarf og þrátt fyrir ágreining í ýmsum málum, sérstaklega hvað varðar tekjujöfnun ríkissjóðs ásamt og með áherslu í heilbrigðismálum hefur verið góð samvinna og ástæða til að þakka það.

Það sem mér er verst við, herra forseti, er að nú er verið að leggja upp með fjárlög sem eru með halla sem nemur a.m.k. 2--2,5 milljörðum. Þessa fullyrðingu styð ég með eftirfarandi skýringu: Hluti tekna ríkissjóðs eða 2,7 milljarðar vegna eignasölu stenst ekki. Ég get fallist á að hluti af eignasölunni, þ.e. 500 millj. vegna járnblendifélagsins komi í ríkissjóð þegar af sölu verður en ég get líka fallist á að sala hlutabréfa í Fjárfestingarbanka gefi 300 millj. í auknar tekjur frá fyrri áformum. En 1.900 millj. sem standa eftir munu ekki koma í ríkissjóð ef af sölu þeirra eigna verður samtímis. Af þeim sökum verður, herra forseti, að fjármagna ríkissjóð með lántökum. Þetta skiptir máli þó að af sölunni verði.

[18:00]

Rétt er að benda á að stöðugt lengist listi þeirra eigna sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að selja. Nýjustu áform ríkisins eru að selja Borgartún 6 sem er ráðstefnusalur ríkisins og Borgartún 22 sem er húsnæði kjaramálanefndar og ríkissáttasemjara. Vel má vera að ástæða sé til að selja þær eignir. Það getur vel verið að engin ástæða sé fyrir ríkisstjórn eða ríkissjóð að eiga þessar eignir en fróðlegt verður að sjá hvernig til tekst með sölu þessa húsnæðis sem er á löngum lista yfir heimildir til að selja og ég tel mjög hæpið að það gangi eftir að þeir fjármunir séu í hendi. Ég veit ekki hvort þessar eignir eru vel seljanlegar en það mun koma í ljós. Eftir stendur að fjármagna áformaða eignasölu. Þeir fjármunir eru í skógi en ekki í hendi. Sama má segja um þær tekjur sem endurskoðuð tekjuöflun gerir ráð fyrir.

Einhvern tíma sagði hv. formaður fjárln. að óvarlegt væri að ráðstafa tekjum sem væru ekki í hendi. Svo er einnig nú. Það er mjög óvarlegt að ráðstafa tekjum sem menn sjá ekki örugglega fyrir. Ég tek undir þau orð hv. formanns fjárln., a.m.k. þegar þau voru sögð á þeim tíma: Orð skulu standa og þau ættu að standa enn varðandi nákvæmlega þennan sama hlut og átt var við fyrir nokkrum árum þegar hv. þm. sat í stjórnarandstöðu.

Minni hluta fjárln. er ljóst að tekjur ríkissjóðs verður að auka vegna þess að a.m.k. verður eins milljarðs gat vegna heilbrigðiskerfisins og það verður að segja um einn milljarð í fjáraukalög ársins 1998. Nú er komið upp sama dæmi, hæstv. fjmrh., og nákvæmlega á sama tíma í fyrra benti minni hluti fjárln. á bæði vanáætlun útgjalda og vanáætlun tekna. Núna er fyrst og fremst verið að tala um vanáætluð útgjöld. Ég vona satt að segja að teknahlutinn standist. Ég dreg það þó í efa með þeim orðum sem ég lét áðan falla.

Í raun er um sýndarniðurstöðu að ræða hvað varðar tillögu meiri hluta fjárln. sem gerir ráð fyrir tekjujöfnun sem nemur aðeins 153,7 millj. kr. eftir síðustu tillögu á borð hv. alþm. núna rétt áðan og eftir því sem ég best veit eru einhverjar aðrar tillögur líka á leiðinni. Mér sýnist að það sé að verða heldur rýrt sem eftir stendur til tekjujöfnunar. Ætli það sé ekki farið að nálgast að vera einar litlar 100 millj. og gott ef ekki á eitthvað eftir að fæðast meira í umfjöllun á milli ágætra meirihlutamanna í fjárln. og kannski einhverra annarra aðila sem telja sig hafa völd til að taka þann kúf af sem er á tekjujöfnuninni.

Herra forseti. Ég nefni nokkur atriði sem mér finnst miður að ekki er gert ráð fyrir við gerð fjárlaga fyrir árið 1998. Ég segi að það séu ófullkomnar tillögur vegna heilbrigðiskerfisins og ég styð það með því að vitna til plagga sem við höfum frá Ríkisspítölunum, frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur, frá Ríkisendurskoðun og frá fjölmörgum aðilum sem hafa bent á að það mun vera um rekstrarfjárskort að ræða sem nemur um það bil 900 millj. kr. þrátt fyrir þá pottagerð sem meiri hlutinn hefur staðið að og hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Það eru ófullkomnar áætlanir um tekjuöflun, það segi ég og ég bendi á að sú tekjuöflun sem menn hafa horft til á að koma til með betri innheimtu. Það er það eina sem menn horfa til að menn halda að þeir fái betri innheimtu árinu 1998 en 1997. Þetta hef ég ástæðu til að fjalla um, herra forseti. Engar tillögur eru um sparnað. Hvernig er með mennina sem kalla hæst eftir því að almenningur ætti að fara að spara og þeir kalla eftir því á þann hátt að það er enginn hvati, ekki er nokkur hvati settur fram fyrir almenning til að spara. Aðeins er hvati um aukna eyðslu og það er slæmt, herra forseti. Það er engin tilraun, herra forseti, til að draga úr sjálftöku ýmissa aðila sem eru með krumlurnar í sjálfsskömmtunarpottum eða eins og ég hef leyft mér að segja það, með ranann í ýmsum risnupottum. Engin tilraun er gerð, herra forseti, til þess að draga úr þessu, ekki er með einni einustu aðgerð í fjárlögum íslenska ríkisins fyrir 1998 gerð tilraun til að draga úr þeirri risnusóun sem ýmsir aðilar geta tekið sér. Það er um að ræða tiltölulega lítinn hóp manna eða kannski fáa sem taka mikið til sín í ýmiss konar fríðindum á kostnað almennra skattgreiðenda. Þarna má taka á, hæstv. fjmrh. Þarna er ástæða til þess að skoða hlutina.

Einnig er réttlætanlegt að draga saman á ýmsan hátt hvað varðar veru ráðuneytisfulltrúa erlendis. Ég er þess fullviss að þar má spara. Ég get, herra forseti, nefnt mörg fleiri dæmi, kannski ekki milljónatugi í hverju tilviki en margt smátt gerir eitt stórt og ekki er vanþörf á núna.

Ég vil nefna nokkur atriði sem eru að mínu mati vandamál. Ég nefndi áðan stöðu háskólans. Samkvæmt framsetningu frá háskólarektor vantar að lágmarki 230 millj. til þess að háskólinn geti verið í eðlilegum rekstri. Hvar á að taka þá peninga? Ætla menn að svelta undirstöðustofnun atvinnuveganna á Íslandi? Ekki er hægt að taka þessa peninga nema með ákveðnum aðgerðum. Þess vegna hefur minni hlutinn lagt til að tekjuskattur á fyrirtækjum verði hækkaður lítillega, að tekjuskatturinn verði til jafns hjá fyrirtækjunum og einstaklingunum. Það er sanngirniskrafa á velmektartímum að tekjuskattur fyrirtækjanna verði sá sami og hjá einstaklingunun. Við í minni hluta fjárln. höfum nefnt hugmynd um að hækka tryggingagjald um 0,5% sem gerir um það bil 1,2 milljarða og við teljum að þær tillögur sem við höfum verið að gera grein fyrir ásamt og með bættri skattheimtu með því að ná í eitthvað af þeim fjármunum sem eru í gangi í neðanjarðarhagkerfi Íslands getum við mætt þeim vandamálum sem blasa við varðandi útgjöld. Ég held að þetta séu hlutir sem hæstv. fjmrh. ætti að hafa áhuga á. En kannski er hann farinn að hugsa sér til hreyfings til annarra starfa og fullsáttur við að eftirmaður hans komi og glími við þessi mál. E.t.v. er það þannig að einhverjar breytingar séu að gerast í hæstv. ríkisstjórn. E.t.v. er það þannig að það séu bara mannabreytingar á næstu grösum og þá hafi hæstv. fjmrh. ekki stórar áhyggjur af þessum málum ef annað sæti er honum þóknanlegra einhvers staðar á vegum hæstv. ríkisstjórnar.

Kannski er ástæða til að velta þessu fyrir sér í sambandi við þá stöðu sem uppi er.

Kannski er ástæða að nefna það sem út af stendur í hugsuninni um tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 1998. Hver ætli þjóðhagslegur sparnaður þyrfti að vera ef það ætti að vera nokkurn veginn jafnvægi í málunum? Ætli það sé ekki nálægt 10--20%? Gaman væri að heyra hv. formann fjárln. svara því hvað hann teldi að þjóðhagslegur sparnaður þyrfti að vera ef það ætti að vera ásættanleg staða í þessum málum. Þá væri gaman að velta fyrir sér hvað vaxtastig þyrfti að vera á Íslandi ef það ætti að vera viðunandi miðað við nágrannalöndin. Ætli vaxtastig sé ekki einhvers staðar nálægt 5,75%? Ætli vaxtamunur sé ekki einhvers staðar nálægt 5%?

Hvernig væri að sjá einhverja sparnaðarspá með útgjaldaspánni, hæstv. fjmrh.? Engin sparnaðarspá er í gangi. Það er ekkert annað sem maður sér en hvati að aukinni þenslu með þeim tillögum sem fyrir liggja. Það vantar fjáröflunartillögur fyrir 2,5--2,7 milljörðum. Ég nefni það, herra forseti að ég skal benda á þetta að ári, að þetta hafi verið sagt úr þessum stól nákvæmlega eins og fyrir ári þegar undirritaður benti á að það mundi verða liðlega 5 milljarða meiri tekjur að ræða og um verulega meiri útgjöld sem sannast auðvitað á því að gert var ráð fyrir lántökum ríkissjóðs í fyrra upp á 12,5 milljarða. Hver varð niðurstaðan? 22 milljarðar. Rétt er að minnast þess að við höfum fengið þær upplýsingar í hv. fjárln. að við fróðustu mönnum blasir að hagsveiflan sé að renna sitt skeið á enda. Ég heyrði sagt að hagsveiflan væri langt komin og verður vart miklu lengri. Hvað þýðir þetta? Hvað þýðir að hagsveiflan sé verulega langt komin? Er verið að spá því að það sé um litla rýmd að ræða til aukinna útgjalda? Ég gæti trúað því. Ætli það verði þá ekki að mæta auknum útgjöldum sem blasa við með aukinni tekjuöflun? Ég hygg að hv. formaður fjárln. sé mér meira sammála en hann vill vera láta um þessi mál.

Herra forseti. Eina leiðin til bættrar stöðu ríkissjóðs er minnkun útgjalda. Hvar er tilraun til minnkunar útgjalda? Einhvers staðar í ráðuneytunum? Hvergi nokkurs staðar í ráðuneytunum er gerð tilraun til neins samdráttar. Eina hugsunin sem kemst að er að það hljóti að vera hægt að spara í stærstu útgjaldaliðunum. Það eru heilbrigðiskerfið og skólakerfið. Þar er leiðin til sparnaðar. Hvergi nokkurs staðar er vilji til þess að taka á annars staðar í ríkisgeiranum eða ég hef a.m.k. ekki séð það.

Spá er um að hagvöxtur verði 3,6--3,7% á næstu tveimur árum en þá má búast við að fari að halla undan fæti. Ætli það sé ekki óhætt að fara að gera ráð fyrir því hvernig eigi að mæta þeim málum? Staðan okkar er þannig að við höfum verið tiltölulega heppin að sumu leyti að gengisbreytingar sem við miðum við hafa lækkað en þær vörur sem við seljum frá okkur í pundi og dollar hafa hækkað þar á móti. Það hefur líka haft þær afleiðingar að Ísland er ekki ferðavænt land, t.d. fyrir Þjóðverja, og ferðaskrifstofurnar hafa verið að segja frá því á undanförnum dögum að þær hafi tapað verulegum fjármunum. Við þurfum að hugsa fyrir því líka.

Kannski er hægt að gleðjast yfir að gert er ráð fyrir 3--4% aukningu verðmæta úr sjávarútvegi og það er vegna þess að gert er ráð fyrir að 3% aukning verði vegna aukinnar veiði og 1% verðmætaaukning vegna vöruvöndunar. Kannski er ástæða til að hafa orð á því, herra forseti, að við þurfum að leggja miklu meira í vöruvöndun. Við þurfum að leggja í að allar matvörur sem frá þessu landi fara séu vottaðar, viðurkenndar vörur sem aflað er á vistvænan máta. Þetta eru hlutir sem ég vildi aðeins drepa á.

Ég held að ekki sé ástæða til þess að flytja lengri ræðu. Ég hafði hugsað mér að nefna það örlítið að ég þakka fyrir þau viðbrögð sem urðu við gagnrýni minni á átaksverkefnið í lífrænum og vistrænum búskap þegar menn ætluðu sér að skera það verkefni niður um helming. Ég þakka sérstaklega viðbrögð meiri hluta fjárln. og síðan þingflokksformönnum sem hafa komið að máli og lagst á árar með undirrituðum um að snúa því til betri vegar og ég nota tækifærið, herra forseti, og þakka formanni og varaformanni fjárln. fyrir atbeina þeirra og þeirra sem ég nefndi áðan. Ég tel að þar sé mjög þarft verkefni í gangi og ég vona að hægt sé að ljúka því þannig að til sóma verði og lagður verði grunnur að því á næstu tveimur árum að öll matvara, öll framleiðsla okkar Íslendinga sem fer á erlendan markað sé vottuð og viðurkennd sem vistvæn framleiðsla. Ef okkur tekst það er mikið komið heim.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að flytja lengri ræðu um þessi mál. Ég hef áhyggjur af því að það er fyrirsjáanlegt gat og það er meðvitað af fjölmörgum stjórnarliðum. Þeir vita að verið er að leggja af stað með fjárlög sem eru í rauninni með gati. Þessar 100 millj. sem menn eru að tala um að séu núna í tekjujöfnuð er óraunveruleg tala þar sem ég er í ræðu minni búinn að benda á vöntun upp á a.m.k. 1.500 millj. til þess að ná endum saman. Það er í algeru lágmarki.