Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 20:35:50 (2853)

1997-12-19 20:35:50# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[20:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Gallinn í þessu öllu er náttúrlega fyrst og fremst sá að við ráðum litlu um markaðsverð eigna í þessum stórborgum og það liggur ljóst fyrir að markaðsverð eigna þar er mjög hátt. Hins vegar höfum við ákveðið sem þjóð að hafa starfsemi í þessum borgum og teljum öll að það sé mikilvægt og við verðum innan þeirra marka og innan þess ramma að taka eins skynsamlegar ákvarðanir og við mögulega getum. Það verður fyrst og fremst gert með því að sinna þessum eignum á eðilegan hátt, halda þeim við og grípa tækifærið ef menn sjá einhvern annan hagkvæmari kost með því að selja og kaupa annað og reyna að gera það þegar markaðurinn er frekar í lágmarki en í hámarki. Það erum við að reyna að gera og munum halda áfram að vinna að því.

Ég endurtek það að auðvitað erum við tilbúin til þess að upplýsa þessi mál öll. Þetta eru opinber mál sem ber að upplýsa og ef þingmenn vilja kalla eftir frekari upplýsingum eins og hv. þm. gerði að því er varðar sendiráðið í Berlín, þá munum við að sjálfsögðu láta þær upplýsingar í té.

Ég vænti þess að umræðan hafi orðið til þess að varpa skýrara ljósi á málið og upplýsa það að hér er ekkert óeðlilegt á ferðinni. Þó að hérna séu háar tölur sem er rétt, þá er það fyrst og fremst vegna þessara markaðsaðstæðna sem við ráðum ekki við.