Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 21:21:52 (2860)

1997-12-19 21:21:52# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, GHelg
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[21:21]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir tveimur tillögum sem hér hafa verið lagðar fram. Hin fyrri er brtt. við frv. til fjárlaga, þ.e. breytingar á sundurliðun 2. Hér er ekki um að ræða að verið sé að biðja um aukna fjárveitingu heldur einungis að færa fjárveitingar til. Tillagan er í þá veru að liður 1.07 sem er liður undir Alþingi, þ.e. 00-201 Alþingi, að undirliður 1.07 Sérverkefni, lækki um 1 millj. kr. en í stað þess komi nýr liður sem verði liður 1.08 og heiti Hið íslenska Þjóðvinafélag og þar færist milljónin inn. Ástæðan fyrir þessu er sú að forsetar Alþingis ákváðu fyrir nokkrum árum að tryggja þessu gamla félagi öruggan sess í fjárlögum þannig að framtíð þess væri að nokkru tryggð.

Hv. þm. til upplýsingar skal þess getið að Hið íslenska þjóðvinafélag á upptök sín í deilum um stjórnarfrumvörp sem lögð voru fyrir Alþingi árið 1869 um stöðu Íslands og stjórnarskrá. Meiri hluti þingmanna var þá andvígur frv. og bundust 18 þjóðkjörnir þingmenn samtökum í því skyni að halda fast fram landsréttindum Íslands og lögðu fram nokkurt fé í sjóð til að vinna að framgangi þeirra. Forystu um þessi samtök hafði Jón Sigurðsson forseti Alþingis, eini maðurinn sem leyfilegt er að hafa mynd af í þessum sal. Ætlast var til að samtökin yrðu vísir að félagi allra þeirra Íslendinga sem vildu vinna að því að þjóðin fengi ,,viðurkenndan rétt sinn til að njóta þess þjóðfrelsis sem hún er borin til að réttum lögum guðs og manna,`` eins og Jón Sigurðsson komst að orði. Formleg stofnun félagsins beið næsta Alþingis en hinn 19. ágúst 1871 var Hið íslenska þjóðvinafélag stofnað og Jón Sigurðsson kjörinn forseti þess.

Þjóðvinafélagið hefur haldið aðalfundi sína hér á hinu háa Alþingi eins og menn muna og um langt skeið hefur Þjóðvinafélagið staðið að útgáfu rita. Á árinu 1874 hófst sú útgáfa með almanaki fyrir árið 1875 og Andvara, tímariti sem hóf feril sinn í framhaldi af Nýjum félagsritum, ársriti Jóns Sigurðssonar og samherja hans. Á árinu 1874 hafði félagið forgöngu um þjóðhátíð á Þingvöllum í minningu þúsund ára byggðar á Íslandi og alla tíð síðan hefur meginverkefni félagsins verið útgáfa bóka. Almanak og Andvari hafa komið út árlega og önnur rit birst jafnframt eftir efnum og ástæðum.

Ég tel að það sé alveg lágmark að Alþingi Íslendinga sýni þessu gamla félagi þá virðingu sem forsetar Alþingis ákváðu fyrir nokkrum árum, þ.e. að félagið standi sem sérstakur liður í fjárlögum. Ég get ekki ímyndað mér að einn einasti þingmaður geti verið því andvígur. Hér er einungis um bókfærsluatriði að ræða, en þó atriði sem setur þessu gamla félagi ákveðinn sess í fjárlögum sem sýnir þar með hug hins háa Alþingis til félagsins.

Aðra brtt. hef ég borið fram sem liggur hér frammi á þskj. 652. Þar er að vísu beðið um nokkurt fé, en ekki er nú þar um stóra upphæð að ræða þegar litið er til ýmissa annarra upphæða sem hér er verið að fara með. Tillagan er á þá leið að við sérstakt yfirlit 9, Ýmis framlög, sem er liður 02-999 1.90, bætist nýr liður, svohljóðandi:

Lýðskólinn við Hverfisgötu í Reykjavík 5 millj.

Ég hafði rætt við flesta hv. fjárlaganefndarmenn um að líta til þessarar stofnunar og hafði satt að segja fengið góðar undirtektir bæði frá formanni og öðrum hv. nefndarmönnum. Eitthvað virðist þetta hafa mætt andstöðu. Alla vega fæ ég ekki séð að til skólans sé ætlað neitt fé. Lýðskólinn var stofnaður 1996 og átti Torben Rasmussen, þáv. forstjóri Norræna hússins, nokkurn þátt í því og lánaði raunar Norræna húsið undir skólann fyrsta árið. Þessi stofnun er byggð á gömlu, dönsku lýðskólahugmyndinni þar sem lítið er lagt upp úr prófum en meira lögð áhersla á að nemendur njóti sín og geri það sem þeir gera best.

Í skólanum sem nú er til húsa í íbúð við Hverfisgötu eru 30 unglingar á aldrinum 16--18 ára. Ég vil minna á að nú höfum við samþykkt að sjálfræðisaldur verði hækkaður í 18 ár þannig að við berum þar með ábyrgð á þessum aldursflokki. Þarna er um að ræða nemendur sem af einhverjum ástæðum hafa ekki fallið vel til í öðrum skólum. Skólinn hefur einnig tekið nemendur sem ekki hafa getu til að vera í framhaldsskólum. Ég hef nokkuð fylgst með starfsemi þessa skóla. Þarna eru góðir skólamenn eins og Guðrún Halldórsdóttir sem við öll þekkjum til, bæði af störfum hér á hinu háa Alþingi og sem skólastjóra Námsflokkanna, og Oddur Albertsson sem áður hafði stjórnað slíkum skóla í Reykholti.

Þetta fólk er að vinna, að mínu viti, mjög gott starf með ótrúlega litlum kostnaði. Skólinn hefur aðallega verið rekinn af Reykjavíkurborg gegnum Námsflokkana. En ég er ekki hissa á því þó að borgarstjóri hafi hreyft þeirri hugmynd að eðlilegt væri að ríkið kæmi að einhverju leyti til móts við borgina. Ég held að borgin muni áfram styðja við bakið á skólanum en mér þykir ekki óeðlilegt að hið háa Alþingi komi þar á móti þar sem ekki er nú beðið um hærri upphæð en þetta.

Ég átti þess kost að sækja samkomu hjá þessum skóla ekki alls fyrir löngu þar sem meðal gesta voru nemendur frá dönskum lýðskóla og horfði þarna á nemendur flytja afskaplega skemmtilega sýningu sem unnin var upp úr Völuspá. Það var alveg ljóst hverjum manni sem sjá vildi að ýmsir þeirra nemenda sem þarna voru höfðu fengist við ýmislegt annað en að stunda menningarstörf og leika forn fræði og það var satt að segja ótrúlega ánægjulegt að sjá þann árangur sem þarna hafði náðst í þessum litla skóla.

[21:30]

Ég vil nú biðja hv. alþingismenn að bregða einu sinni frá vana sínum og láta ekki flokkslínur ráða öllum gerðum sínum. Ég hygg að fólk með ólíkar pólitískar skoðanir eigi börn í þessum skóla og kunni vel að meta hvað þar er verið að gera fyrir þau og þar held ég að flokkspólitískar línur skipti engu máli. Ég býst við að allir foreldrar geti komist í þá stöðu að þurfa að leita til stofnunar sem þessarar og þar er áreiðanlega ekki í kot vísað. Ég vil því fara fram á, hæstv. forseti, að hv. alþingismenn skoði mjög vel hvort ekki sé nú mögulegt að samþykkja þetta litla fjárframlag.

Annað erindi á ég eiginlega ekki, hæstv. forseti. Þó langar mig aðeins að segja nokkur orð um eitt mál þó að það sé ekki á dagskrá þannig séð. Það er búið að mæla fyrir þeirri tillögu. Ég tók að sjálfsögðu ekki til máls þegar hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir mælti fyrir brtt. um heiðurslaun listamanna. Það hefur verið vani að deila aldrei um þær úthlutanir á hinu háa Alþingi heldur afgreiða þær einróma og það mun ég að sjálfsögðu gera. Það er heldur ekki vegna þess að ég hafi neitt að athuga við þá ágætu listamenn sem við heiðrum að þessu sinni eins og við höfum gert áður. Ég hef hins vegar nokkrar áhyggjur af því að einungis 14 listamenn njóta þessara heiðurslauna nú. Ég man eftir að í minni þingtíð voru listamennirnir a.m.k. 17 (Gripið fram í: 18 stundum.) og það fer ekkert fram hjá neinum að auðvelt er að nefna listamenn sem ættu að vera þarna. Launin hafa heldur ekki hækkað. Það er sama talan, ef ég man rétt, síðan í fyrra, 1 millj. á ári. Mér finnst mjög mikilvægt að Alþingi sýni listamönnum þjóðarinnar þann sóma að heiðra þá sem fram úr hafa skarað. Oft er það svo og ég býst við að það hafi m.a.verið hugmyndin á sínum tíma, að slíkir menn eru oft mjög illa settir þegar þeir eldast, hafa léleg lífeyriskjör, fyrir utan að ég hygg að hv. alþingismenn hafi viljað sýna þennan þakklætisvott sínum bestu sonum og dætrum í hópi listamanna.

Ég vil, hæstv. forseti, óska eftir því að hann veki athygli hæstv. forsn. á því að þessum úthlutunum fer sífellt fækkandi og ég vona að það merki ekki að menn hafi meira og minna misst áhuga á þessum úthlutunum og sjái fyrir sér að þær hverfi smám saman. Það held ég að megi ekki gerast. Það þarf ekki nema lesa þennan lista til að sannfærast um að þar eru svo sannarlega menn sem verðugir eru þessa heiðurs því tæplega er nú hægt að tala um fjárupphæðina sem eitthvað sem veglegt getur talist enda býst ég ekki við að það sé fyrst og fremst það sem menn kunna að meta sem þessa heiðurs verða aðnjótandi. Ég hygg það sé frekar þakklæti fyrir að hið háa Alþingi skuli kunna að meta lífsverk þeirra.

Ég vil taka fram, hæstv. forseti, að ég hef sjálf átt sæti í hv. menntmn. og ég er alveg sammála þeim sem þá sátu þar að varlega beri að fara við þessa úthlutun og ástæðulaust sé að fjölga þeim úr hófi. Þetta á að vera þakklætisvottur til þeirra sem allra manna best hafa unnið hinum ýmsu listgreinum. En við verðum jafnframt að standa vörð um að þetta fari ekki að minnka í sífellu þangað til þetta er orðið þannig að menn kannski gætu hugsað sér að leggja það niður.

Þetta vildi ég segja um það, en mun að sjálfsögðu styðja tillögu hv. menntmn. að þessu sinni sem ævinlega áður.