Ferill 24. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 24 – 24. mál.



Beiðni um skýrslu



frá forsætisráðherra um aðstöðumun kynslóða.

Frá Svanfríði Jónasdóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur, Ágústi Einarssyni,


Ástu R. Jóhannesdóttur, Gísla S. Einarssyni, Guðmundi Árna Stefánssyni,


Jóhönnu Sigurðardóttur, Jóni Baldvini Hannibalssyni, Lúðvík Bergvinssyni,


Sighvati Björgvinssyni og Össuri Skarphéðinssyni.



    Með vísun til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um aðstöðumun þeirrar kynslóðar Íslendinga sem fædd er 1965–1975 og þeirrar kynslóðar sem fæddist 1940–1964 og stofnaði heimili og haslaði sér völl í atvinnu lífinu á sjöunda og áttunda áratugnum.
    Í skýrslunni skal þeirri kynslóð sem fædd er 1940–1964 skipt í fimm hópa eftir fæðingar árum. Þá verði þeirri kynslóð sem fædd er 1965–1975 skipt í tvo hópa. Þrír fyrstu liðir skýrslubeiðninnar verði einnig greindir eftir kyni.
    Í skýrslunni skal m.a. gerð grein fyrir eftirfarandi þáttum:
1.      tekjum hinna fyrrgreindu sjö hópa á hverju fimm ára tímabili árin 1960–1995 á sambærilegu verðlagi og miða við meðaltalsfjárhæðir í hverjum hópi og dreifingu tekna,
2.      eigna- og skuldastöðu sömu sjö hópa á hverju fimm ára tímabili árin 1960 –1995 á sambærilegu verðlagi og miðað við meðaltalsfjárhæðir í hverjum hópi og dreifingu eigna og skulda innan hvers hóps,
3.      menntun (grunnskóli, iðnnám, annað framhaldsnám og háskólanám) sömu hópa eftir fimm ára tímabilum, þ.e. hve hátt hlutfall hvers hóps lauk námi á hinum mismunandi skóla stigum og hve margir luku þá einungis skyldunámi,
4.      raunverulegri endurgreiðslubyrði námslána frá LÍN miðað við námslok 1970, 1975, 1980, 1985, 1990 og 1995,
5.      skattgreiðslum (skattar, útsvör og söluskattur eða VSK) hinna fyrrgreindu sjö hópa á hverju fimm ára tímabili árin 1960– 1995 sem hlutfall af tekjum hjá hverjum hópi og dreifingu skattgreiðslna innan hópsins,
6.      stuðningi ríkisins við barnafólk (fjölskyldubætur, barnabætur, barnabótaauki o.s.frv.) í hinum fyrrgreindu sjö hópum á tímabilinu 1960–1995 sem hlutfall af tekjum í hverjum hópi,
7.      stuðningi hins opinbera við öflun íbúðarhúsnæðis og fjármögnun þess hjá hinum fyrrgreindu sjö hópum sem hlutfall af tekjum í hverjum hópi.
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á Alþingi fljótlega eftir að henni hefur verið útbýtt meðal þingmanna.

Greinargerð.


    Í umræðu um lífskjör á Íslandi hefur ítrekað verið bent á að aðstöðumunur sé milli kynslóða hvað varðar möguleika til að hafa bærilega afkomu og eignast húsnæði. Þessi meinti aðstöðumunur hefur m.a. verið nefndur sem ein af ástæðum þess að um 8% þjóðarinnar hafa nú kosið búsetu utan landsteinanna á móti 3% fyrir 25 árum. Sé svo er sannarlega ástæða til að kanna hann nánar.
    Í skýrslu, sem Dagur B. Eggertsson tók saman árið 1996 um „áhrif og afleiðingar breyttra laga um LÍN“, er hvatt til opinnar, öfgalausrar og lýðræðislegrar umræðu um þessi mál, umræðu sem „leiði eitthvað áþreifanlegt af sér. Það þarf að gerast ef ekki á að verða trúnaðar brestur milli kynslóðanna sem byggja Ísland“ eins og þar stendur. Einnig segir: „Hvernig sem málum er snúið virðist þó ljóst að kynslóðin sem nú situr að völdum virðist illa skilja þann gríðarlega aðstöðumun sem hún hefur skapað með aðgerðum sínum og ákvörðunum milli sinna uppvaxtarára og þeirra sem nú eru að reyna að koma undir sig fótunum. Verði ekkert úr aðgerðum er ekki aðeins viðbúið heldur eðlilegt að æ stærri hópur ungs fólks sæki út fyrir landsteinana í leit að tækifærum.“
    Þá kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins 17. ágúst sl. um skólagjöld það viðhorf eins af viðmælendum blaðsins að það sé „umhugsunarefni hvort velta eigi auknum kostnaði yfir á arftaka þjóðfélagsins. Umtalsverðum kostnaði hafi þegar verið komið á yngri kynslóðina bæði í húsnæðismálum og námslánum.“
    Á síðasta þingi var samþykkt þingsályktunartillaga frá Steingrími J. Sigfússyni og fleiri um gerð kynslóðareikninga. Með þeirri samþykkt var Alþingi að taka ákvörðun um að „reikna út og spá fyrir um líklega eða væntanlega nettóskattbyrði núlifandi og komandi kynslóða, óhjákvæmilega að gefnum ýmsum forsendum“ eins og sagði í greinargerð með tilllögunni. Kynslóðareikningar munu í framtíðinni reyna að segja fyrir um aðstöðumun kynslóðanna og mun gerð þeirra væntanlega verða aðhald fyrir ráðandi kynslóðir á hverjum tíma.
    Með þessari skýrslubeiðni er hins vegar verið að biðja um að skoðað verði aftur í tímann því að sú sannfæring manna að um umtalsverðan aðstöðumun kynslóðanna sé að ræða er útbreidd. Þeirri skýrslu, sem hér er óskað eftir að forsætisráðherra flytji Alþingi, er ætlað að varpa ljósi á hve mikill hann hefur verið og er og í hverju hann er aðallega fólginn. Hún ætti að geta orðið mikilvægt innlegg í umræðu um þessi mál sem full þörf er á.