Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.





122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 27 – 27. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun á ákvæðum laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Flm.: Pétur H. Blöndal, Árni R. Árnason.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd eða fá nefnd á vegum sjávarút vegsráðuneytisins, sem þegar hefur verið skipuð, til að endurskoða ákvæði laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996.
    Sérstaklega verði skoðað ákvæði 3. gr. með það í huga hvort ekki sé rétt að skipstjóri geti ákveðið við löndun hve mikinn hluta afla skips skuli telja til kvóta þess og að allur annar afli skipsins teljist eign rannsóknastofnana sjávarútvegsins. Útgerðin sjái þá um að selja afla rannsóknastofnana og greiða þeim söluverðmætið að frádregnu gjaldi vegna kostnaðar við flutning í land, geymslu, löndun og sölumeðferð aflans.

Greinargerð.


    Þingsályktun þessi er endurflutt. Hún var flutt á síðasta þingi en einhverra hluta vegna ekki send til umsagnar. Hafa því ekki fengist fram sjónarmið aðila sem hún varðar og varð tillagan ekki útrædd í nefnd.
    Lagt er til að tekið verði til sérstakrar skoðunar hvort ekki sé rétt að breyta lögum um um gengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, með það að markmiði að sú regla verði tekin upp að skipstjóri ákvarði hve mikill hluti afla skips teljist til kvóta þess og að allur annar afli teljist eign rannsóknastofnana sjávarútvegsins. Þetta yrði þá í samræmi við ákvæði 1. mgr. 2. gr. lag anna því að samkvæmt því er ekki unnt að skylda sjómenn til þess að koma með allan afla að landi nema tekið sé á því hvað um þann afla verður.
    Gera má ráð fyrir að útgerðinni verði greitt upp í kostnað við að flytja aflann, landa honum og sjá um sölu hans. Með þessu fyrirkomulagi yrðu minni líkur á að afla yrði hent. Flestum finnst slæmt að henda góðum fiski sem slæðist eðlilega með í mismiklu magni. Sá fiskur, sem núna er veiddur og hent, mun skila sér í land þar sem nú er beinlínis refsivert að koma með hann að landi. Ekki á að koma fólki í þá aðstöðu að verða að brjóta lög.
    Gjaldið, sem útgerðin fær fyrir að flytja aflann, landa honum og sjá um sölu hans, gæti hugsanlega verið á bilinu 5–15% og mætti vera ákveðið af ráðuneytinu með hliðsjón af teg und afla, veiðum og framboði slíks afla. Mikilvægt er að gjaldið verði nægilega hátt til þess að hvetja sjómenn til þess að koma með aflann að landi en þó ekki svo hátt að sjómenn fari að gera út á þann afla.
    Fernt mun hvetja sjómenn til þess að koma með utankvótaafla að landi. Í fyrsta lagi fara þeir með því að lögum, í öðru lagi fá þeir nokkurt verð fyrir aflann, í þriðja lagi þykir flestum leitt að henda verðmætum og að síðustu rennur verðmæti aflans til rannsókna fyrir sjávarút veginn. Þessi aðferð hefur kosti og galla. Búast má við að miklu meiri afli berist að landi. Bæði mun allur sá afli sem nú er hent berast að landi, sem að sjálfsögðu er mikill kostur því að þessi fiskur er deyddur hvort sem er, en jafnframt munu útgerðir ekki forðast, eins og núna, þau mið sem mest gefa af bönnuðum meðafla, t.d. af þorski. Þannig munu utankvótaveiðar aukast eitthvað. Að sjálfsögðu er það galli en á móti kemur að allur þessi afli kemur þjóðfél aginu í heild til góða. Auk þess verður vitað með meiri vissu hve mikið er veitt en það liggur ekki fyrir í dag. Verðmæti utankvótaaflans mun auk þess verða lyftistöng fyrir sjávarrann sóknir og létta byrðum af ríkissjóði.
    Einnig er rétt að skoða ákvæði 9. gr. um undirmálsfisk. Ákvæði gildandi laga um að undir málsfiskur teljist aðeins að hluta með í aflamarki verður óþarft ef framangreind atriði verða tekin til skoðunar og samþykkt.