Ferill 171. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 171 – 171. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 89 26. maí 1997, um breytingu á lögum nr. 93 20. nóvember 1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Í stað ártalsins „1997“ í 4. gr. laganna kemur: 1998.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 89/1997, um breytingu á lögum nr. 93 20. nóvember 1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, var lögfestur samningur sérfræðinga EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins frá nóvember 1996 um að fella inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið samræmdar heilbrigðisreglur um dýr og dýraafurðir. Samningurinn felur í sér samningsbundna endurskoðun á I. viðauka við EES-samninginn frá 1992, afnám landamæraeftirlits á svæðinu og samræmdar reglur varðandi innflutning frá þriðju ríkjum. Með samningnum tekur Ísland upp gerðir er varða fisk, fiskafurðir, fiskmjöl, lifandi humar, lúðuseiði, barrahrogn og hrogn og svil Atlantshafslax, regnbogasilungs og bleikju. Samkomulag þetta þykir afar hagstætt Íslandi. Til að flýta sem mest fyrir framkvæmd samningsins var ákveðið að lögin tækju gildi 1. nóvember 1997. Það hefur komið í ljós að sá tími sem framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins ætlaði sér til að ljúka málsmeðferð í stofnunum sínum var ekki nægur og er henni ekki lokið. Framkvæmdastjórnin er nú að vinna úr nokkrum lagatæknilegum athugasemdum sem fram hafa komið í málsmeðferð hennar og varða eftirlitshlutverk Eftirlitsstofnunar EFTA. Er vonast til að þeirri vinnu ljúki á næstu vikum. Að því loknu fer samningurinn til umfjöllunar í ráðherraráði ESB og til kynningar í Evrópuþinginu. Að loknu þessu ferli verður ákvörðun um breytingu á I. viðauka við EES-samninginn lögð til samþykktar fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Miðað við hve skammt framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins er komin í afgreiðslu samningsins er ljóst að fresta þarf gildistöku laganna. Með frumvarpi þessu er lagt til að gildistökunni verði frestað um eitt ár, frá 1. nóvember 1997 til 1. nóvember 1998.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
nr. 89 26. maí 1997, um breytingu á lögum nr. 93 20. nóvember 1992,
um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.     

    Með frumvarpi þessu er lagt til að fresta um eitt ár gildistöku samnings sérfræðinga EFTA- ríkjanna og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um að fella inn í samninginn um Evr ópska efnahagssvæðið samræmdar heilbrigðisreglur um dýr og dýraafurðir.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.