Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 197 – 194. mál.



Frumvarp til laga



um hollustuhætti.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



I. KAFLI
Markmið, skilgreiningar og framkvæmd.
1. gr.

    Markmið þessara laga er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi.

2. gr.

    Lögin taka til hvers konar starfsemi og framkvæmda hér á landi, í lofthelgi, efnahags lögsögu og farkostum sem ferðast undir íslenskum fána, sem hafa eða geta haft áhrif á þá þætti sem tilgreindir eru í 1. gr., að svo miklu leyti sem önnur lög taka ekki til þeirra.

3. gr.

    Með hollustuháttum er í lögum þessum átt við heilbrigðiseftirlit og mengunarvarnir.
     Heilbrigðiseftirlit tekur til eftirlits með matvælum, eiturefnum og hættulegum efnum þeim tengdum, húsnæði, öðrum vistarverum og umhverfi þeirra. Einnig tekur það til sóttvarna og fræðslu í þessum efnum, m.a. með tilliti til manneldismála.
     Mengunarvarnir taka til eftirlits með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlits með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðslu um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarna.
    Með mengun er átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.
    Með bestu fáanlegri tækni er átt við framleiðsluaðferð og tækjakost sem beitt er til að lágmarka losun mengunarefna og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins, svo og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.
     Eftirlit merkir athugun á vöru, þjónustu, hönnun vöru, ferli eða verksmiðju til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur.
     Faggilding merkir aðferð sem þar til bær aðili beitir til að veita formlega viðurkenningu á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni. Um faggildingu fer samkvæmt lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu.
     Prófun merkir tæknilega framkvæmd sem felur í sér ákvörðun á einu eða fleiri einkennum tiltekinnar vöru, ferlis eða þjónustu samkvæmt fyrir fram tilgreindum verklagsreglum.
     Vottun merkir aðferð sem þriðji aðili beitir til að veita formlega staðfestingu á því að vara, ferli eða þjónusta sé í samræmi við tilgreindar kröfur.
     Vöktun merkir kerfisbundna og síendurtekna skráningu einstakra breytilegra þátta í umhverfinu.

4. gr.

    Til þess að stuðla að framkvæmd heilbrigðiseftirlits setur ráðherra í reglugerð almenn ákvæði um:
          1.      starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem fellur undir þessa grein og er útgáfa þess í höndum heilbrigðisnefnda,
          2.      umgengni og þrifnað utanhúss,
          3.      meindýr og eyðingu þeirra, svo og ónytjadýr, vargfugla og aflífun þeirra,
          4.      hreinsun hunda, m.a. vegna sullaveiki, katta og gæludýra,
          5.      íbúðarhúsnæði, starfsmannabústaði og starfsmannabúðir,
          6.      gistihús, matsöluhús og aðra veitingastaði,
          7.      skóla og aðra kennslustaði,
          8.      rakarastofur, hárgreiðslustofur, nuddstofur og hvers konar aðrar snyrtistofur,
          9.      leikskóla og leikvelli,
          10.      heilbrigðisstofnanir, dvalarheimili og meðferðar- og vistunarstofnanir og stofnanir fyrir fatlaða,
          11.      íþróttastöðvar, íþróttahús, sundstaði, baðhús, gufubaðstofur, sólbaðstofur og almenna baðstaði, baðvatn og því um líkt,
          12.      fangelsi og aðrar vistarverur handtekinna manna,
          13.      samkomuhús, þar á meðal kirkjur,
          14.      farþegaskip, almenningsbifreiðar, farþegaflugvélar og því um líkt,
          15.      þátttöku heilbrigðisnefnda í sóttvörnum og framkvæmd þeirra,
          16.      töku sýna og úrvinnslu þeirra,
          17.      viðmiðanir fyrir eðlis-, efna- og örverufræðilega þætti,
          18.      önnur sambærileg atriði.

5. gr.

    Til þess að stuðla að framkvæmd mengunarvarna setur ráðherra í reglugerð almenn ákvæði um:
          1.      starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, þar á meðal ákvæði um staðsetningu, viðmiðunarmörk, mengunarvarnir í einstökum atvinnugrein um, vöktun, eftirlitsmælingar og rannsóknir, svo og rekstur og viðhald mengunar varnabúnaðar; krafist skal bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnu greinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint og skulu ákvæði um mengunarvarnir taka mið af því,
          2.      endurskoðun starfsleyfa vegna verulegra breytinga á atvinnurekstri eða vegna tækniþróunar,
          3.      áhættumat fyrir atvinnurekstur þar sem hætta er á stórslysum vegna aðferða og efna sem notuð eru við starfsemina og endurskoðun áhættumats, svo og upplýsingar sem ábyrgðaraðilum atvinnurekstrar er skylt að láta í té beri slys að höndum,
          4.      eftirlit, skráningu og tilkynningarskyldu,
          5.      umhverfisstjórn, vöktun og eftirlitskerfi fyrirtækja, svo og viðurkenningu, úttekt og eftirlit með slíkum kerfum,
          6.      umhverfismerki á vörur, m.a. um veitingu þeirra og gjaldtöku,
          7.      eftirlit með flutningi úrgangs milli landa og tilkynningarskyldu þeirra sem meðhöndla og flytja slíkan úrgang,
          8.      úttekt á hugsanlegri mengunarhættu,
          9.      meðferð vatns og sjávar í atvinnurekstri þar sem m.a. skulu koma fram viðmiðunarmörk vegna losunar tiltekinna efna,
          10.      úrgangsefni, svo sem eyðingu sorps og annars úrgangs,
          11.      fráveitur og skolp þar sem m.a. skulu koma fram reglur um hreinsun skolps og viðmiðunarmörk í fráveitum og viðtaka,
          12.      varnir gegn vatnsmengun þar sem m.a. skulu koma fram viðmiðunarmörk fyrir mengandi efni og/eða gæðamarkmið fyrir grunnvatn og yfirborðsvatn,
          13.      varnir gegn loftmengun þar sem m.a. skulu koma fram viðmiðunarmörk fyrir loftgæði, mengandi efni og losun þeirra út í andrúmsloftið,
          14.      varnir gegn jarðvegsmengun og viðmiðunarmörk fyrir jarðveg og mengandi efni,
          15.      hávaða og titring þar sem fram koma viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða og titring með hliðsjón af umhverfi,
          16.      varmamengun þar sem fram skulu koma reglur um takmörkun hennar,
          17.      önnur sambærileg atriði.

6. gr.

    Umhverfisráðherra gefur út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun ef samanlögð fjárfesting er meiri en 950 millj. kr. Fjárhæð þessi miðast við bygg ingarvísitölu í september 1997, 225,9 stig, og breytist í samræmi við breytingar á henni.
    Hollustuvernd ríkisins og heilbrigðisnefndir gefa út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, í öðrum tilvikum en segir í 1. mgr., eftir því sem fyrir er mælt í reglugerð.
    Hollustuvernd ríkisins skal vinna tillögur að starfsleyfi skv. 1. mgr. og auglýsa opinber lega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Heimilt er að gera skriflegar athuga semdir við tillögur Hollustuverndar ríkisins innan átta vikna frá auglýsingu.
    Hollustuvernd ríkisins skal innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athuga semdir við tillögur að starfsleyfi rennur út senda ráðherra tillögu sína að starfsleyfi ásamt greinargerð um fram komnar athugasemdir og afgreiðslu þeirra. Þá skal umsækjanda um starfsleyfi og þeim er athugasemdir hafa gert tilkynnt um afgreiðsluna og gerð grein fyrir hvort og þá að hve miklu leyti athugasemdirnar hafa verið teknar til greina. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögu Hollustuverndar til umhverfisráðherra innan fjögurra vikna frá tilkynningu um afgreiðslu.
    Að þeim fresti liðnum sem tilgreindur er í 4. mgr. tekur umhverfisráðherra ákvörðun um útgáfu starfsleyfis. Starfsleyfi sem gefið er út skv. 1. mgr. skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.

7. gr.

    Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar eða Hollustuverndar ríkisins, veitt tímabundna undanþágu í allt að 12 mánuði frá einstökum greinum reglugerða sem settar eru skv. 4. og 5. gr.
    Ráðherra setur almenn ákvæði í reglugerð um valdsvið, skyldur og starfstilhögun heil brigðisnefnda, heilbrigðisfulltrúa og Hollustuverndar ríkisins, svo og dagsektir.
    Við setningu reglugerða samkvæmt lögum þessum skal haft samráð við Samband ís lenskra sveitarfélaga um atriði er varða skyldur sveitarfélaga.

8. gr.

    Sveitarstjórnir, byggingarnefndir og önnur yfirvöld sveitarfélaganna, sem og ríkisstofn anir, skulu leita álits heilbrigðisnefndar um hvers konar ráðstafanir vegna framkvæmda sem lög þessi taka til.

II. KAFLI
Stjórn, skipan og starfsmenn.
9. gr.

    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Á varnarsvæðum fer utanríkisráðherra með lögsögu samkvæmt lögum nr. 106/1954 og skal hann semja við þar til bæra aðila samkvæmt mati Hollustuverndar ríkisins um framkvæmd eftirlits á varnar svæðum. Utanríkisráðherra skal hafa samráð við umhverfisráðherra um alla framkvæmd eftirlits á varnarsvæðum og gilda lög þessi eftir því sem við á.
    Landlæknir er ráðgjafi ráðherra um það er að lögum þessum lýtur og undir embætti hans fellur.

10. gr.

    Ekkert sveitarfélag skal vera án heilbrigðiseftirlits og mengunarvarna og greiða sveitar félögin kostnað við eftirlitið að svo miklu leyti sem lög mæla ekki fyrir á annan veg.

11. gr.

    Landið skiptist í eftirlitssvæði og skal heilbrigðisnefnd, kosin eftir hverjar sveitar stjórnarkosningar, starfa á hverju svæði. Í hverri nefnd skulu eiga sæti fimm menn. Fjórir skulu kosnir af hlutaðeigandi sveitarstjórnum, þar af skal einn vera formaður. Einn skal tilnefndur af samtökum atvinnurekenda á svæðinu. Sömu reglur gilda um varamenn.
    Eftirlitssvæði skv. 1. mgr. eru:
          1.      Reykjavíkursvæði.
             Starfssvæði: Reykjavíkurborg.
          2.      Vesturlandssvæði.
              Starfssvæði: Vesturlandskjördæmi.
          3.      Vestfjarðasvæði.
                       Starfssvæði: Vestfjarðakjördæmi.
          4.      Norðurlandssvæði vestra.
                       Starfssvæði: Norðurlandskjördæmi vestra.
          5.      Norðurlandssvæði eystra.
                       Starfssvæði: Norðurlandskjördæmi eystra.
          6.      Austurlandssvæði.
                       Starfssvæði: Austurlandskjördæmi.
          7.      Suðurlandssvæði.
                       Starfssvæði: Suðurlandskjördæmi.
          8.      Suðurnesjasvæði.
                       Starfssvæði: Reykjanesbær, Grindavíkurkaupstaður, Sandgerði, Gerðahreppur og Vatnsleysustrandarhreppur.
          9.      Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæði.
                       Starfssvæði: Hafnarfjarðarbær, Bessastaðahreppur, Garðabær og Kópavogsbær.
          10.      Kjósarsvæði.
                       Starfssvæði: Seltjarnarnesbær, Mosfellsbær og Kjósarhreppur.
    Umhverfisráðherra getur í reglugerð, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins, kveðið á um sameiningu eftirlitssvæða.
    Heimilt er heilbrigðisnefndum að gera samkomulag um annað fyrirkomulag eftirlits á milli eftirlitssvæða. Í slíkum tilvikum hafa heilbrigðisfulltrúar sama rétt til afskipta þar og á eigin svæði.

12. gr.

    Sveitarfélög bera ábyrgð á fjármálum og rekstri heilbrigðiseftirlits og mengunarvarna á viðkomandi svæði. Þau hafa umsjón með fjármálum þess, gerð fjárhagsáætlunar, skiptingu kostnaðar milli sveitarfélaga og álagningu eftirlitsgjalda. Við kostnaðarskiptingu skal miða við að allar tekjur af eftirlitsskyldri starfsemi á svæðinu renni í sameiginlegan sjóð til greiðslu rekstrarkostnaðar heilbrigðiseftirlits og mengunarvarna á svæðinu. Sá kostnaður sem eftirlitsgjöld standa ekki undir greiðist af sveitarfélögunum í samræmi við íbúafjölda næstliðins árs.
    Náist ekki samkomulag milli sveitarfélaga innan eftirlitssvæðis um hvaða sveitarfélag annist fjárreiður fyrir eftirlitið skal umhverfisráðherra úrskurða hvert þeirra skuli annast fjárreiðurnar að fenginni umsögn hlutaðeigandi sveitarfélaga.
    Heimilt er sveitarfélögum, að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefnda, að inn heimta gjald af eftirlitsskyldri starfsemi sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Umhverfisráð herra, utanríkisráðherra á varnarsvæðum, setur, að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkis ins, hámarksgjaldskrá sem sveitarstjórnir geta innheimt eftir. Upphæðin skal byggð á rekstr aráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi.

13. gr.

    Heilbrigðisnefnd ber að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða regl um sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Nefndin skal vinna að bættu heilbrigðiseftirliti og mengunarvörnum á svæði sínu, annast fræðslu fyrir almenning og efla samvinnu við önnur yfirvöld og aðila sem vinna að þessum málum.

14. gr.

    Heilbrigðisnefnd skiptir með sér verkum og ræður meiri hluti atkvæða afgreiðslu máls. Telst afgreiðsla fullnægjandi séu þrír nefndarmanna viðstaddir. Um vanhæfi nefndarmanna til afgreiðslu mála gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga.
    Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits og mengunarvarna eða heilbrigðisfulltrúi í umboði hans skal sitja fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétti. Hann getur krafist þess að fundir verði haldnir og að tekin verði þar fyrir tiltekin mál.
    Héraðslæknir eða sá heilsugæslulæknir sem hann tilnefnir skal vera ráðgjafi og heil brigðisnefndum til aðstoðar um heilbrigðisþjónustu. Héraðslæknir á seturétt á fundum heil brigðisnefndar með málfrelsi og tillögurétti. Héraðslæknir getur krafist þess að haldinn verði fundur í heilbrigðisnefnd.

15. gr.

    Á hverju eftirlitssvæði skulu starfa a.m.k. tveir heilbrigðisfulltrúar í fullu starfi og skal annar þeirra jafnframt vera framkvæmdastjóri eftirlitsins.
    Sveitarstjórnir ráða heilbrigðisfulltrúa að fengnum tillögum heilbrigðisnefnda til að annast eftirlit sveitarfélaganna með þeim viðfangsefnum sem undir lögin falla. Sveitarstjórnir setja þeim starfslýsingar að fengnum tillögum heilbrigðisnefndar og ákveða í sam ráði við heilbrigðisnefnd aðsetur þeirra. Eingöngu má ráða í starf heilbrigðisfulltrúa þá sem fengið hafa leyfi umhverfisráðherra til starfans. Heilbrigðisfulltrúar starfa í umboði heil brigðisnefndar.
    Umhverfisráðherra setur reglugerð um menntun, réttindi og skyldur heilbrigðisfulltrúa.

16. gr.

    Heilbrigðisfulltrúar, fulltrúar í heilbrigðisnefndum og aðrir sem starfa samkvæmt lögum þessum eru bundnir þagnarskyldu um atriði er varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
    Upplýsingar og tilkynningar heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu. Sama gildir um aðra sem starfa samkvæmt lögum þessum.

17. gr.

    Ráðherra skipar hollustuháttaráð til fjögurra ára í senn sem hefur það hlutverk að fjalla um þá þætti sem falla undir lögin og varða atvinnustarfsemi, svo sem samhæfingu krafna og eftirlits, stefnumörkun um atvinnustarfsemi og gera tillögu um framkvæmdina. Ráðherra skal leita álits ráðsins um þá þætti er varða atvinnustarfsemi, svo sem um lagabreytingar og stefnumarkandi reglugerðir, samþykktir og gjaldskrár.
    Í ráðinu eiga sæti fimm menn: Fulltrúi umhverfisráðherra er formaður, forstjóri Hollustu verndar ríkisins skal eiga sæti í ráðinu, Vinnuveitendasamband Íslands tilnefnir einn, Vinnumálasambandið einn og Samband íslenskra sveitarfélaga einn.
    Ráðherra setur ráðinu starfsreglur að fengnum tillögum þess.

III. KAFLI
Hollustuvernd ríkisins.
18. gr.

    Ríkið starfrækir stofnun sem nefnist Hollustuvernd ríkisins og annast hún eftirlit með framkvæmd laga þessara og er stjórnvöldum til ráðuneytis um málefni er undir lögin falla.
    Stofnunin hefur yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti og mengunarvörnum og skal sjá um vöktun og að rannsóknir þessu tengdar séu framkvæmdar. Í yfirumsjón felst samræming eftirlits þannig að framkvæmdin sé með sama hætti á landinu öllu.
    Stofnunin fer því aðeins með beint eftirlit að lög mæli svo fyrir eða ráðherra ákveði það með reglugerð að höfðu samráði við stofnunina þegar um landið allt er að ræða og við heil brigðisnefndir þegar um einstök svæði er að ræða. Öll starfsemi stofnunarinnar, sem er eða gæti verið í samkeppnisrekstri, skal vera fjárhagslega aðgreind frá annarri starfsemi hennar. Undir þetta fellur m.a. sala á þjónustu, ráðgjöf, rannsóknum og prófunum og hvers konar eftirlitsstarfsemi sem þar kann að vera stunduð.
    Stofnunin skal sjá um gerð fræðsluefnis og upplýsa og fræða þá er starfa að heilbrigðis eftirliti og mengunarvörnum.

19. gr.

    Hollustuvernd ríkisins skal vinna að samræmingu eftirlits í landinu og koma á samvinnu þeirra er að málum þessum starfa og skal í slíkum tilvikum sérstaklega gæta að hagkvæmni í eftirliti og fyrirbyggja tvíverknað og skörun eftir því sem frekast er unnt. Stofnunin skal hafa nána samvinnu við heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúa og veita þá ráðgjöf og þjónustu varðandi heilbrigðiseftirlit og mengunarvarnir sem hún getur og aðstæður krefjast. Þá skal stofnunin vinna að samræmingu krafna sem gerðar eru til starfsemi á sviði heilbrigð iseftirlits og mengunarvarna og að því að slíkum kröfum sé framfylgt. Til þess að stuðla sem best að þessu markmiði gefur stofnunin út leiðbeiningar og viðmiðunarreglur um fram kvæmdina.

20. gr.

    Við stofnunina skal starfa forstjóri skipaður af ráðherra til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa háskólamenntun og þekkingu á verksviði stofnunarinnar. Forstjóri fer með stjórn stofn unarinnar, mótar stefnu í störfum hennar og ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri.
    Stofnuninni skal skipt í svið og skal forstöðumaður starfa yfir hverju þeirra. Forstöðu menn skulu hafa háskólamenntun og sérþekkingu eða starfsreynslu á viðkomandi sviði. Forstjóri ræður forstöðumenn. Einn forstöðumanna skal gegna starfi staðgengils forstjóra.
    Forstjóri ræður annað starfsfólk stofnunarinnar.
    Ráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum forstjóra, nánari ákvæði um skipulag stofnunarinnar.

21. gr.

    Ráðherra setur, að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins, gjaldskrá fyrir veitta þjón ustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast eða stofnunin tekur að sér, sbr. 18. gr. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds við hlutað eigandi eftirlit byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi.

IV. KAFLI
Faggilding og innra eftirlit.
22. gr.

    Ráðherra getur, að höfðu samráði við Hollustuvernd ríkisins, ákveðið með reglugerð að stofnunin skuli hljóta faggildingu vegna prófunar á vegum stofnunarinnar. Ráðherra er jafn framt heimilt að ákveða með reglugerð, að höfðu samráði við Hollustuvernd ríkisins, að starfsemi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga skuli hljóta faggildingu vegna prófunar og eftirlits og þá hvernig að henni skuli staðið. Um faggildingu fer samkvæmt lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu.

23. gr.

    Ráðherra ákveður í reglugerð kröfur um gæðastjórnun og innra eftirlit í fyrirtækjum sem eru eftirlitsskyld samkvæmt lögum þessum. Þar skal m.a. kveðið á um umfang opinbers eftirlits og ákvörðun eftirlitsgjalda sem taka mið af innra eftirliti þeirra fyrirtækja sem eftir litið beinist að.

24. gr.

    Heilbrigðisnefndum og Hollustuvernd ríkisins er heimilt að fela tiltekna þætti eftirlitsins faggiltum skoðunaraðilum. Skal í slíkum tilvikum gerður sérstakur samningur við hinn fag gilta skoðunaraðila. Heimild til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar og annað sem greint er frá í VI. kafla er þó eingöngu í höndum heilbrigðisnefndar eða Hollustuverndar ríkisins eftir því sem við á.

V. KAFLI
Samþykktir sveitarfélaganna.
25. gr.

    Sveitarfélög geta sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim enda falli þau undir lögin. Heimilt er auk annars að setja í slíkar samþykktir ákvæði um:
     1.      bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds,
     2.      meðferð úrgangs og skólps,
     3.      gjaldtöku vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu,
     4.      ábyrgðartryggingar.
    Upphæð gjalda skal ákveðin í sérstakri gjaldskrá sem ráðherra staðfestir. Ráðherra getur, að fengnum tillögum Sambands íslenskra sveitarfélaga og umsögn Hollustuverndar ríkisins, sett hámarksgjaldskrá fyrir eftirlit og þjónustu sveitarfélaga sem sveitarfélög geta nýtt sér kjósi þau það fremur en að setja sér sérstaka gjaldskrá. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Skulu gjöld tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign tvö ár eftir gjalddaga þegar leyfi, leiga eða þjónusta er tengd notkun fasteignar. Samþykktir og gjaldskrár sam kvæmt þessari grein skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi.
    Heilbrigðisnefnd semur drög að samþykktum og breytingum á þeim og leggur fyrir við komandi sveitarstjórn sem afgreiðir þau í formi samþykktar til ráðherra. Sé um að ræða nýmæli í samþykktum sveitarfélaga skal ráðherra leita umsagnar Hollustuverndar ríkisins áður en hann staðfestir samþykktina.
    Synji ráðherra staðfestingar endursendir hann samþykktina til sveitarstjórnar með leið beiningum um hvað þurfi til að til staðfestingar komi.

VI. KAFLI
Valdsvið og þvingunarúrræði.
26. gr.

    Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum þessum, reglugerðum, sam þykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum samkvæmt þessum ákvæðum geta heilbrigðis nefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt eftirfarandi aðgerðum:
     1.      veitt áminningu,
     2.      veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta,
     3.      stöðvað eða takmarkað viðkomandi starfsemi eða notkun, þar með lagt hald á vörur og fyrirskipað förgun þeirra.
    Stöðvun starfsemi og förgun á vörum skal því aðeins beitt að um alvarlegri tilvik eða ítrekað brot sé að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Sé um slík brot að ræða getur heilbrigðisnefnd afturkallað starfsleyfi viðkomandi reksturs.
    Þar sem innsiglun er beitt við stöðvun skal nota sérstök innsigli er auðkenni viðkomandi eftirlitssvæði heilbrigðisfulltrúa.

27. gr.

    Þegar aðili sinnir ekki fyrirmælum innan tiltekins frests getur heilbrigðisnefnd ákveðið honum dagsektir þar til úr er bætt. Dagsektir renna til rekstraraðila heilbrigðiseftirlits og skal hámark þeirra ákveðið í reglugerð sem ráðherra setur. Jafnframt er heilbrigðisnefnd heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af viðkomandi heilbrigðiseftirliti en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi. Kostnað og dagsektir má innheimta með fjárnámi.
    Þegar verk það sem heilbrigðisnefnd lætur vinna er komið til vegna vanhirðu og óþrifa eða heilsuspillandi aðstæðna í húsi, á lóð eða í farartæki er kostnaður tryggður með lögveðs rétti í viðkomandi húsi, lóð eða farartæki tvö ár eftir að greiðslu er krafist.

28. gr.

    Heilbrigðisnefndum og heilbrigðisfulltrúum skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal töku sýna og myndatöku, að öllum þeim stöðum sem lög þessi, reglu gerðir og samþykktir ná yfir og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Sama gildir um starfsmenn Hollustuverndar ríkisins þegar um er að ræða starfsemi sem stofnunin hefur eftirlit með.
    Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laganna og ber þeim endurgjaldslaust að afhenda sýni sem talin eru nauðsynleg vegna eftirlits.

29. gr.

    Telji Hollustuvernd ríkisins svo alvarlega hættu stafa af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið er henni heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef þurfa þykir, en tilkynna skal það hlutaðeigandi heilbrigðis nefnd.

30. gr.

    Fulltrúar Hollustuverndar ríkisins eiga rétt til setu á fundum heilbrigðisnefnda með tillögurétti og málfrelsi.
    Fulltrúum Hollustuverndar er heimilt í samráði við heilbrigðisnefndir að taka sýni þar sem starfræksla fer fram og lög þessi, reglugerðir settar samkvæmt þeim og samþykktir sveitarfélaga ná til. Í þeim tilvikum þar sem Hollustuvernd ríkisins fer með eftirlit fer um valdsvið og þvingunarúrræði í samræmi við þennan kafla laganna.

VII. KAFLI
Málsmeðferð og úrskurðir.
31. gr.

    Rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, heilbrigðis samþykkta sveitarfélaganna og/eða ákvarðana yfirvalda er heimilt að vísa málinu til sér stakrar úrskurðarnefndar. Þetta gildir þó ekki í þeim tilvikum þegar umhverfisráðherra fer með úrskurðarvald samkvæmt lögunum, sbr. ákvæði 32. gr., eða gefur út starfsleyfi sam kvæmt ákvæðum 1. mgr. 6. gr.
    Í úrskurðarnefnd skv. 1. mgr. eiga sæti þrír lögfræðingar sem uppfylla skulu starfsgengis skilyrði héraðsdómara, formaður tilnefndur af Hæstarétti, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn.
    Úrskurðir nefndarinnar eru fullnaðarúrskurðir innan stjórnsýslunnar.

32. gr.

    Rísi ágreiningur milli heilbrigðisnefndar og sveitarstjórna um framkvæmd laga þessara skal vísa málinu til fullnaðarúrskurðar ráðherra.

VIII. KAFLI
Viðurlög.
33. gr.

    Fyrir brot gegn lögum þessum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga og fyrirmælum heilbrigðisnefnda skal refsa með sektum, varðhaldi eða fangelsi séu sakir miklar.
    Með mál sem rísa út af brotum gegn lögum þessum, reglugerðum eða samþykktum sveitarfélaga skal farið að hætti opinberra mála.

IX. KAFLI
Gildistaka.
34. gr.

    Lögin öðlast gildi 1. janúar 1998. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 81/1988, um hollustu hætti og heilbrigðiseftirlit, ásamt síðari breytingum, og lög nr. 7/1953, um hundahald og varnir gegn sullaveiki.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Þrátt fyrir ákvæði 34. gr. skal sú skipan sem kveðið er á um í 11. gr. ekki taka gildi fyrr en 1. ágúst 1998. Þar til skulu núverandi heilbrigðisnefndir starfa og fer um störf þeirra sam kvæmt þessum lögum. Núverandi svæðisnefndir skulu starfa áfram til sama tíma og gegna því hlutverki sem kveðið er á um í lögum nr. 81/1988, með áorðnum breytingum.

II.


    Þær reglugerðir sem í gildi eru samkvæmt lögum nr. 81/1988, með áorðnum breytingum, skulu halda gildi sínu þar til þeim hefur verið breytt, að svo miklu leyti sem þær fara ekki í bága við ákvæði þessara laga.

III.


    Þrátt fyrir breytingar á eftirlitsstarfsemi Hollustuverndar ríkisins varðandi innflutnings eftirlit með matvælum og eiturefnum skal starfsemin haldast óbreytt þar til reglugerð hefur verið sett sem kveður á um eftirlitshlutverk aðila.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.



A. Skipun og störf stjórnskipaðrar nefndar.
    Frumvarp til laga um hollustuhætti er í megindráttum samið af nefnd sem umhverfisráð herra, Guðmundur Bjarnason, skipaði 16. febrúar 1996. Hlutverk nefndarinnar var að endur skoða lög nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum. Í nefndinni áttu sæti Ingimar Sigurðsson skrifstofustjóri, formaður, Guðjón Ólafur Jónsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra, Ingunn St. Svavarsdóttir, stjórnarformaður Hollustu verndar ríkisins, tilnefnd af Hollustuvernd ríkisins, Karl Björnsson bæjarstjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Baldur Hjaltason framkvæmdastjóri, tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands, og Halldór Runólfsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa. Sigurbjörg Sæmundsdóttir deildarstjóri var skip aður ritari og starfsmaður nefndarinnar.
    Auk framangreindra aðila tóku þátt í störfum nefndarinnar Óskar Maríusson, efnaverk fræðingur, varamaður Baldurs Hjaltasonar, Jón Erlingur Jónsson, varaformaður stjórnar Hollustuverndar ríkisins, varamaður Ingunnar St. Svavarsdóttur, og Guðrún Hilmisdóttir verkfræðingur, varamaður Karls Björnssonar.
    Í skipunarbréfi nefndarinnar var ekki kveðið á um hvernig endurskoðun laganna skyldi háttað þannig að nefndinni var falið að móta vinnuna. Við upphaf starfa í nefndinni var lagt fram frumvarp til laga um hollustuvernd og mengunarvarnir sem unnið var á vegum stjórn skipaðrar nefndar sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og umhverfisráðherra settu á fót í desember 1991 og lauk störfum í janúar 1993. Það frumvarp var aldrei lagt fram í heild heldur aðeins tilteknir þættir þess sem vörðuðu starfsemi Hollustuverndar ríkisins.
    Í október 1996 sendi nefndin í samráði við umhverfisráðherra drög að frumvarpi til holl ustuháttalaga til þeirra sem tilnefndu í nefndina, þ.e. stjórnar Hollustuverndar ríkisins, Sam bands íslenskra sveitarfélaga, Vinnuveitendasambands Íslands og Félags heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa. Auk þess sendi nefndin drögin til allra ráðuneyta, Neytendasamtakanna, Vinnumálasambandsins, landshlutasamtaka sveitarfélaganna, heilbrigðiseftirlitssvæðanna sem eru 13, landlæknisembættisins og framkvæmdastjóra og forstöðumanna Holl ustuverndar ríkisins. Í bréfi sem fylgdi með drögunum var þess sérstaklega farið á leit að fjallað yrði um fjölda starfssvæða og fækkun heilbrigðisnefnda, samsetningu heilbrigðis nefnda, stjórn Hollustuverndar ríkisins og gjaldskrármál. Umsagnir og athugasemdir voru að berast nefndinni fram í febrúarmánuð 1997. Af þeim 42 sem fengu frumvarpið til umsagnar bárust athugasemdir frá 26, misjafnlega ítarlegar. Umsagnir og athugasemdir bárust frá eftirtöldum aðilum:
    Framkvæmdastjóra og forstöðumönnum Hollustuverndar ríkisins,
    Heilbrigðiseftirliti Akranessvæðis,
    Heilbrigðiseftirliti Austurlands,
    Heilbrigðiseftirliti Eyjafjarðar,
    Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðarsvæðis,
    Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis,
    Heilbrigðiseftirliti Kópavogssvæðis,
    Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra,
    Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur,
    Heilbrigðiseftirliti Suðurlands,
    Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja,
    Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða,
    Heilbrigðiseftirliti Vesturlands,
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti,
    Neytendasamtökunum,
    Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
    Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum,
    Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi,
    Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Eyþingi,
    Sambandi sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra,
    Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu,
    Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga,
    Stjórn Hollustuverndar ríkisins,
    Vinnumálasambandinu og
    Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Nefndin vann úr umsögnum og athugasemdum þessara aðila með það að leiðarljósi að samræma þau sjónarmið sem þar komu fram og leita frekari skýringa þar sem þess gerðist þörf.

B. Þróun hollustuháttalöggjafar frá 1982.
    Lög nr. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem öðluðust gildi 1. ágúst 1982, voru tímamótalög um margt. Þótt lögunum hafi verið breytt verulega í tvígang frá 1981 eru þau að grunni til hin sömu og þá. Í lögunum var í fyrsta skipti kveðið á um að heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit skyldi rekið í landinu öllu með skipulegum hætti og að ekkert sveitar félag væri án viðhlítandi heilbrigðiseftirlits. Jafnframt var kveðið á um að heil brigðisfulltrúar með tilskilin réttindi, byggð á menntun, reynslu og hæfni, skyldu starfa á öllum eftirlitssvæðum en þau voru upphaflega 12 en var fjölgað með reglugerð í 13 skömmu síðar er Akranes og nærsveitir voru gerðar að sérstöku svæði. Heilbrigðisnefndum var fækkað úr rúmlega 200 niður í 46, en áður voru heilbrigðisnefndir í hverju sveitarfélagi. Í lögunum var í fyrsta skipti tekið skipulega á mengunarmálum í íslenskri löggjöf og kveðið á um setningu sérstakrar mengunarvarnareglugerðar. Í lögunum var kveðið á um stofnun og starfsemi Hollustuverndar ríkisins og voru þar sameinaðar nokkrar ríkisstofnanir í einni stofnun, þ.e. Heilbrigðiseftirlit ríkisins, Matvælarannsóknir ríkisins og Geislavarnir ríkisins, auk þess sem stofnað var sérstakt svið innan stofnunarinnar, mengunarvarnasvið. Auk þess voru þau nýmæli í lögunum að kveðið var á um þvingunarúrræði fyrir heilbrigðiseftirlitið til þess að auðvelda því starfsemina. Með lögum nr. 117/1985 voru Geislavarnir teknar undan stofnuninni og gerðar að sjálfstæðri stofnun.
    Á vegum Hollustuverndar ríkisins var þannig starfrækt undir einum hatti starfsemi sem átti sér nokkra sögu en Heilbrigðiseftirlit ríkisins tók til starfa 1970, Matvælarannsóknir ríkisins 1977 og Geislavarnir ríkisins höfðu verið starfandi sem hluti af starfsemi Land spítalans um tveggja áratuga skeið. Að öðru leyti var um að ræða nýja starfsemi, svo sem mengunarvarnir, og fór því skiljanlega mestur tími fyrstu árin í að byggja upp þá starfsemi sem og að aðstoða sveitarfélögin við að koma á viðhlítandi heilbrigðis- og mengunar varnaeftirliti í landinu en það var fyrir gildistöku laganna aðeins rekið í Reykjavík og nágrenni og á Eyjafjarðarsvæðinu á ásættanlegan hátt, fyrst og fremst matvælaeftirlit og hí býlaeftirlit.
    Frá því að lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit voru sett, sbr. lög nr. 50/1981, hefur þeim verið breytt nokkrum sinnum, þar á meðal tvisvar að verulegu leyti. Með lögum nr. 109/1984 voru gerðar veigamiklar breytingar á lögunum í tengslum við gjaldtöku og gjald skrármál. Þá var skotið inn í lögin heimild fyrir sveitarfélögin og Hollustuvernd ríkisins til þess að ákveða í gjaldskrá sem ráðherra staðfesti leyfis- og eftirlitsgjöld í samræmi við þá stefnu að opinber þjónustustarfsemi skyldi sem mest standa undir sér fjárhagslega. Í lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, þar sem felld eru saman lög nr. 109/1984 og lög nr. 30/1988, er að finna veigamiklar breytingar á lögunum í tengslum við starfsemi Hollustuverndar ríkisins. Samkvæmt þeim breytingum skyldi starfa framkvæmdastjóri yfir Hollustuvernd ríkisins en ekki forstjóri og auk þess skyldu starfa forstöðumenn sviða sem bæru faglega ábyrgð gagnvart stjórn stofnunarinnar en ekki gagnvart forstjóra eins og verið hafði. Með þessu var ætlunin að leggja meiri áherslu á faglega starfsemi stofnunarinnar sem aukist hafði verulega og um leið var sett á stofn sérstakt eiturefnasvið við stofnunina þannig að sviðin urðu fjögur; heilbrigðiseftirlitssvið, rannsóknarsvið, mengunarvarnasvið og eitur efnasvið.
    Í 8. gr. laga nr. 47/1990, sem breyta ýmsum lögum er varða yfirstjórn umhverfismála, þar sem kveðið er á um starfsemi umhverfisráðuneytis er ákvæði um að þeir þættir í starfsemi Hollustuverndar ríkisins sem snerta mengun skuli heyra undir umhverfisráðuneyti í stað heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og færðist málaflokkurinn milli ráðuneytanna í febrúar 1990. Með lögum nr. 54/1994 voru öll mál er falla undir lög nr. 81/1988, um holl ustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, færð frá heilbrigðis- og trygginga málaráðuneyti yfir til umhverfisráðuneytis og varð sú breyting 1. júní 1994 þannig að frá og með þeim degi fellur málaflokkurinn allur sem og öll starfsemi Hollustuverndar ríkisins undir umhverfisráðuneytið.
    Í lögum nr. 70/1995 er kveðið á um að mengunardeild Siglingamálastofnunar ríkisins skuli færast yfir til Hollustuverndar ríkisins sem sérstakt svið og sú starfsemi sem deildin annaðist samkvæmt lögum og alþjóðasamþykktum einnig og fór yfirfærslan fram 1. júlí 1995.
    Auk áðurnefndra breytinga hefur lögunum verið breytt með lögum nr. 28/1990 þar sem kveðið er á um þvingunarúrræði fyrir Hollustuvernd ríkisins til að fylgja eftir málum, með lögum nr. 64/1993, vegna eftirlits á varnarsvæðum, og með lögum nr. 65/1994, vegna samn ingsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Nú er liðinn hálfur annar áratugur frá því lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit öðl uðust gildi og hefur reynslan af löggjöfinni verið góð að mestu leyti. Þannig hefur tekist að koma heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirliti á í landinu öllu undir stjórn vel menntaðra og þjálfaðra heilbrigðisfulltrúa. Hollustuvernd ríkisins hefur verið byggð upp sem matvæla- og umhverfisstofnun og starfar nú á fimm sviðum sem eru: matvæla- og heilbrigðis eftirlitssvið, mengunarvarnasvið, eiturefnasvið, mengunarvarnir sjávar og rannsóknarstofa.
    Á þeim hálfa öðrum áratug sem lögin hafa gilt hafa orðið verulegar breytingar innan málaflokksins, ekki síst á sviði mengunarmála, auk þess sem aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hefur kallað á lögfestingu Evrópugerða sem tilheyra samn ingnum. Hollustuvernd ríkisins þarf að fylgjast með um 400 Evrópugerðum sem tengjast þeim málaflokkum sem stofnunin annast á sviði matvæla, mengunarmála, eiturefna og rann sókna. Hefur þetta kallað á gríðarlega vinnu af hálfu stofnunarinnar sem og umhverfisráðu neytisins. Þetta hefur m.a. leitt til þess að stjórnsýsluhlutverk Hollustuverndar ríkisins hefur aukist verulega frá því sem áður var og beinist endurskoðun laganna m.a. að þeirri staðreynd auk annarra atriða sem sérstaklega verður gerð grein fyrir hér á eftir.

C. Endurskoðun laganna.
    Þótt ákveðið hafi verið að taka til endurskoðunar alla þætti laganna eftir því sem ástæða þótti til beindist endurskoðunin fyrst og fremst að tilteknum grundvallaratriðum, svo sem hvort ástæða væri til þess að stíga skrefið til fulls sem stigið var með lögum nr. 50/1981 og fækka heilbrigðisnefndum verulega og að starfssvæði heilbrigðisnefnda yrðu hin sömu og eftirlitssvæði. Í dag eru eftirlitssvæðin 13 en heilbrigðisnefndirnar 46. Í sumum tilvikum falla eftirlitssvæðin og starfssvæði heilbrigðisnefnda saman eins og í Reykjavík, Kópavogi, á Akranessvæði, Suðurnesjasvæði og Kjósarsvæði. Í hinum tilvikunum er um að ræða misjafnlega margar heilbrigðisnefndir innan hvers svæðis. Þannig eru fjórar nefndir á Vesturlandssvæði, sex á Vestfjarðasvæði, fjórar á Norðurlandssvæði vestra, þrjár á Eyja fjarðarsvæði, fjórar á Norðurlandssvæði eystra, níu á Austurlandssvæði, níu á Suðurlands svæði og tvær á Hafnarfjarðarsvæði. Skipan heilbrigðisnefnda var einnig til endurskoðunar og umræðu. Fram kom það viðhorf fulltrúa sveitarfélaga og atvinnulífs í nefndinni að atvinnulífið á viðkomandi eftirlitssvæði tilnefni einn af fimm fulltrúum í heilbrigðisnefnd og skapi þannig samstarfsgrundvöll þeirra aðila sem að eftirlitinu koma. Ekki voru allir sam mála þessu og töldu sumir að sveitarstjórnir eigi einar að skipa fulltrúa í heilbrigðisnefndir.
    Annar meginþáttur í endurskoðun laganna tengdist hlutverki Hollustuverndar ríkisins, stjórnskipulagi hennar og starfsemi. Að undanförnu hafa þær breytingar orðið á starfsemi stofnunarinnar að sá þáttur sem snertir beina stjórnsýslu hefur aukist þannig að stofnunin er í ríkari mæli en áður orðin framkvæmdaaðili innan málaflokksins. Það eru ekki síst Evrópumálin og aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði sem breytt hafa starfsgrundvelli stofnunarinnar. Þannig var sérstaklega fjallað um hvort æskilegt væri að halda í það stjórnarfyrirkomulag sem gildandi lög gera ráð fyrir sem er sérstök stjórn, framkvæmda stjóri og forstöðumenn sviða. Í því tilviki er enn fremur rétt að benda á ný starfsmannalög, þ.e. lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og breytingar á ýmsum lögum þar sem meira er lagt upp úr starfi forstjóra en áður og sú stefna mörkuð að ekki skulu vera stjórnir yfir stjórnsýslustofnunum ríkisins. Er það einnig í samræmi við þá starfsvenju sem myndast hefur við stjórn systurstofnana annars staðar á Norðurlöndum. Enn fremur var sérstaklega litið á hvernig og í hvaða mæli Hollustuvernd ríkisins skyldi koma að umhverfisvöktun en í lögunum eru engin ákvæði um hver og hvernig sinna skuli um hverfisvöktun. Sérstaklega var fjallað um starfsleyfisvinnslu í tengslum við starfsemi er fellur undir lögin og útgáfu starfsleyfa en ljóst er að skilgreina þarf betur þessa þætti en gert er í gildandi löggjöf og kveða skýrt á um það í lögunum hver skuli gefa út starfsleyfi. Þessu tengist starfsemi sérstakrar úrskurðarnefndar sem starfað hefur samkvæmt lögunum frá því að þau öðluðust gildi 1. ágúst 1982 og í hvaða tilvikum hún skal fara með fullnaðarúrskurð arvald á stjórnsýslustigi.
    Fjallað var um gjaldskrármál og ákvarðanir um gjaldtöku samkvæmt lögunum. Þannig var fjallað um hvort æskilegt væri að umhverfisráðherra gæfi út sérstaka hámarks- eða viðmiðunargjaldskrá að höfðu samráði við sveitarfélögin sem heilbrigðis- og mengunar varnaeftirlitið gætu notað í stað þess að sveitarfélögin settu sérstakar gjaldskrár fyrir hvert eftirlitssvæði.
    Sérstaklega var fjallað um eftirlitsþáttinn og í hvaða mæli hann ætti að vera í höndum Hollustuverndar ríkisins í stað heilbrigðisnefnda en sveitarfélögin annast heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og sveitar stjórnarlögum, nr. 8/1986. Ekki er ætlunin að breyta því. Eigi að síður var ákveðið að fara sérstaklega yfir þá þætti sem snerta eftirlit Hollustuverndar ríkisins og að hún færi eingöngu í undantekningartilvikum með eftirlit og þegar um meiri háttar eftirlit væri að ræða og þá að höfðu samráði við sveitarfélögin. Sem dæmi um slíkt meiri háttar eftirlit má nefna eftirlit með stóriðju, förgun úrgangs, innflutningi matvæla og innflutningi eiturefna og hættulegra efna. Nefndin álítur að draga eigi úr beinu eftirliti Hollustuverndar ríkisins en leggja skuli meiri áherslu á stjórnsýslu- og samræmingarhlutverk stofnunarinnar og að nauðsynlegt sé að fulltrúar atvinnulífsins komi meira að málaflokknum en verið hefur með hliðsjón af því að meginhluti kostnaðar er borinn af atvinnulífinu í formi þjónustugjalda, svo sem vegna eftirlits og útgáfu leyfa. Einnig telur nefndin að nauðsynlegt sé að taka á faggildingarmálum í tengslum við eftirlit og rannsóknir í samræmi við gildandi lög þar að lútandi.

D. Helstu breytingar og nýmæli.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir helstu breytingum og nýmælum sem fram koma í frum varpinu:
     1.      Lagt er til að lögin heiti „Lög um hollustuhætti“ í stað „Lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit“. Þegar hefur skapast rík venja um þessa orðnotkun en hið samsetta orð hollustuhættir er tiltölulega stutt og markvisst. Ganga lögin ætíð undir heitinu hollustu háttalög. Nafnið er þjált og hefur öðlast fasta merkingu og sess í málinu. Til að ekkert fari á milli mála er í 3. gr. frumvarpsins skýrt hvað átt er við með hugtakinu hollustu hættir en það er annars vegar heilbrigðiseftirlit og hins vegar mengunarvarnir.
     2.      Lagt er til í 2. gr. að gildissvið laganna nái yfir efnahagslögsöguna og til farkosta sem ferðast undir íslenskum fána.
     3.      Í 3. gr. frumvarpsins koma fram orðskýringar sem eru nauðsynlegur grundvöllur túlkunar laganna. Þar er lögð til skilgreining á hugtakinu hollustuhættir. Auk þess eru skil greind önnur atriði sem ekki eru skilgreind í gildandi lögum, svo sem besta fáanleg tækni, eftirlit, faggilding, prófun, vottun og vöktun.
     4.      Í 4. gr. er fjallað um framkvæmd heilbrigðiseftirlits, þ.e. setningu heilbrigðisreglugerðar, og í 5. gr. um mengunarvarnir, þ.e. setningu mengunarvarnareglugerðar. Þar eru skilgreindir þeir þættir sem reglugerðirnar eiga að ná yfir. Gerð er tillaga í 6. gr. um hvernig staðið skuli að útgáfu starfsleyfa fyrir starfsemi sem fellur annars vegar undir heilbrigðisreglugerð og hins vegar mengunarvarnareglugerð. Sú stefna er mörkuð að starfsleyfi fyrir starfsemi sem fellur undir heilbrigðisreglugerð verði í höndum heilbrigðisnefnda og sé um að ræða starfsleyfi gefið út samkvæmt mengunarvarna reglugerð skuli það vera í höndum umhverfisráðherra sé um að ræða meiri háttar atvinnurekstur, en annars í höndum Hollustuverndar ríkisins eða heilbrigðisnefnda.
     5.      Lagt er til í 4. gr. að þau ákvæði laga nr. 7/1953, um hundahald og varnir gegn sullaveiki, sem ekki rúmast innan nýsamþykktra laga um sóttvarnir, nr. 19/1997, verði færð inn í heilbrigðisreglugerð, þ.e. um hreinsun hunda og annarra gæludýra. Lagt er til í 34. gr. að lög um hundahald verði felld úr gildi þegar lögin hafa öðlast gildi.
     6.      Lagt er til í frumvarpinu að krafist verði bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnugreinum þar sem hún hefur verið skilgreind og að ákvæði um mengunar varnir skuli taka mið af því. Slík ákvæði yrðu sett í mengunarvarnareglugerð.
     7.      Lagt er til í 7. gr. að umhverfisráðherra einn geti veitt tímabundnar undanþágur í allt að 12 mánuði frá einstökum greinum reglugerða sem settar verða skv. 4. og 5. gr., þ.e. heilbrigðisreglugerðar og mengunarvarnareglugerðar. Engin ákvæði eru um það í gildandi lögum hvernig staðið skuli að veitingu undanþága frá reglugerðum önnur en að um slíkt skuli kveðið á í heilbrigðisreglugerð og mengunarvarnareglugerð. Hér yrði aðeins um tímabundnar undanþágur að ræða.
     8.      Lagt er til í 7. gr. að haft skuli samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um þau atriði er varða skyldur sveitarfélaganna og framkvæmd laganna, svo sem setningu reglugerða.
     9.      Lagt er til í 8. gr. að ekki aðeins sveitarstjórnir, byggingarnefndir og önnur yfirvöld héraðanna skuli leita álits heilbrigðisnefndar um hvers konar ráðstafanir sem fram kvæmdar eru samkvæmt lögunum heldur skuli það og gilda um ríkisstofnanir.
     10.      Lagt er til í 2. mgr. 11. gr. að heilbrigðisnefndum verði fækkað í tíu og að þær verði jafnframt svæðisnefndir þannig að saman fari starfssvæði heilbrigðisnefndar og eftirlitssvæði. Lagt er til að í hverri heilbrigðisnefnd sem kjörin skal eftir sveitar stjórnarkosningar verði fimm aðilar og fimm til vara. Gert er ráð fyrir að samtök atvinnulífs á eftirlitssvæðinu tilnefni einn fulltrúa en aðrir verði kosnir af sveitar stjórnum og skal einn vera formaður.
     11.      Lagt er til í 3. mgr. 11. gr. að umhverfisráðherra geti, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins, ákveðið enn frekari sameiningu eftirlitssvæða og að heilbrigðisnefndir geti með samkomulagi kveðið á um skiptingu eftirlitsins sín í milli.
     12.      Lagðar eru til í 12. gr. skýrar línur um fjármál og rekstur heilbrigðiseftirlitsins og að hann sé í höndum viðkomandi sveitarfélaga, þ.e. þeirra sem standa að eftirlitssvæðinu, og á ábyrgð allra sveitarfélaganna á svæðinu sem heildar. Jafnframt er lagt til að umhverfisráðherra geti úrskurðað með hvaða hætti sveitarfélög skuli annast fjárreiður náist ekki samkomulag milli sveitarfélaganna innan heilbrigðiseftirlitssvæðisins.
     13.      Lagt er til í 12. gr. að umhverfisráðherra og utanríkisráðherra á varnarsvæðum setji, að fengnum tillögum sveitarfélaganna og umsögn Hollustuverndar ríkisins, hámarksgjald skrá sem sveitarstjórnir geta innheimt eftir af eftirlitsskyldri starfsemi en samkvæmt gildandi kerfi setur hvert svæði sér gjaldskrá sem ráðherra staðfestir.
     14.      Í stað þess að héraðslæknir verði formaður svæðisnefndar er lagt til í 14. gr. að hann hafi seturétt á fundum heilbrigðisnefndar með málfrelsi og tillögurétti og geti krafist þess að fundur verði haldinn í nefndinni.
     15.      Í 1. mgr. 15. gr. er lagt til að ekki skuli starfa færri en tveir heilbrigðisfulltrúar í fullu starfi á hverju svæði.
     16.      Lagt er til í 2. mgr. 15. gr. að sveitarstjórnir ráði heilbrigðisfulltrúa að fengnum tillögum heilbrigðisnefnda í stað þess að svæðisnefndir ráði þá.
     17.      Í 16. gr. er lögð til fortakslaus þagnarskylda er nái til allra sem starfa samkvæmt lögunum um atriði er varða framleiðslu- og verslunarleynd.
     18.      Í 17. gr. er lagt til að ráðherra skipi „hollustuháttaráð“ sem hafi það hlutverk að fjalla um þá þætti sem undir lögin falla og varða atvinnustarfsemi, svo sem um samhæfingu krafna og stefnumörkun varðandi atvinnustarfsemi og að gera tillögur um framkvæmd ina.
     19.      Í 1. málsl. 3. mgr. 18. gr. er gert ráð fyrir því að Hollustuvernd ríkisins fari aðeins með beint eftirlit að lög mæli svo fyrir eða að ráðherra ákveði það með reglugerð. Getur þá verið um tvenns konar eftirlit að ræða, annars vegar eftirlit sem tekur til landsins alls og hins vegar til ákveðins svæðis.
     20.      Lagt er til í 2. málsl. 3. mgr. 18. gr. að öll starfsemi Hollustuverndar ríkisins, sem er eða getur verið í samkeppnisrekstri, skuli vera fjárhagslega aðgreind frá annarri starfsemi hennar.
     21.      Ekki er gert ráð fyrir stjórn yfir Hollustuvernd ríkisins heldur er lagt til í 20. gr. að yfir stofnuninni verði forstjóri sem fari með stjórn hennar. Forstjóri skal hafa háskóla menntun og þekkingu á verksviði stofnunarinnar.
     22.      Gerð er tillaga í 22. gr. um faggildingu. Umhverfisráðherra getur, að höfðu samráði við Hollustuvernd ríkisins, ákveðið með reglugerð að stofnunin hljóti faggildingu vegna prófunar á vegum stofnunarinnar og sama gildir um starfsemi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.
     23.      Lagt er til í 23. gr. að umhverfisráðherra ákveði í reglugerð kröfur um gæðastjórnun og innra eftirlit með starfsemi sem er eftirlitsskyld. Heilbrigðisnefndum og Hollustuvernd ríkisins er heimilt samkvæmt tillögu í 24. gr. að fela tiltekna þætti eftirlitsins faggiltum skoðunaraðilum.
     24.      Gerð er tillaga í 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. um að ráðherra geti, að fengum tillögum Sambands íslenskra sveitarfélaga og umsögn Hollustuverndar ríkisins, sett viðmiðunar gjaldskrá fyrir eftirlit og þjónustu sveitarfélaga sem sveitarfélög geta nýtt sér kjósi þau það fremur en að setja eigin gjaldskrár.
     25.      Lagt er til í 29. gr. að Hollustuvernd ríkisins geti gripið til aðgerða ef svo alvarleg hætta stafar af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið. Slík stöðvun yrði til bráðabirgða.
     26.      Lögð er til í 2. mgr. 31. gr. sú breyting á úrskurðarnefnd sem starfar samkvæmt lögunum að í henni skuli eiga sæti þrír lögfræðingar sem uppfylli starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Jafnframt er lagt til í 3. mgr. að úrskurðir nefndarinnar séu fullnaðarúrskurðir innan stjórnsýslunnar. Lagt er til að Hollustuvernd ríkisins verði ekki úrskurðaraðili eins og gildandi lög gera ráð fyrir, en samkvæmt þeim skal vísa málum til stjórnar stofnunarinnar áður en þau fara til úrskurðarnefndar.
     27.      Til þess að taka af allan vafa um að úrskurðarnefndinni sé ekki ætlað að úrskurða í málum sem ráðherra afgreiðir er sérstaklega tekið fram í 2. málsl. 1. mgr. 31. gr. um hvaða mál sé að ræða.
     28.      Lagt er til í 33. gr. að viðurlög við brotum gegn lögunum verði hert og geti varðað sektun, varðhaldi eða fangelsi séu sakir miklar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. gr. frumvarpsins kemur fram markmið laganna en það er efnislega það sama og í gild andi lögum.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. kemur fram gildissvið laganna en það verður land, lofthelgi, efnahagslögsaga og farkostir sem ferðast undir íslenskum fána.

Um 3. gr.

    Í greininni eru skilgreind nokkur grundvallarhugtök sem lögunum er ætlað að byggja á. Gerð er tillaga um skilgreiningu á hugtakinu hollustuhættir, sbr. heiti lagafrumvarpsins, en það tekur til heilbrigðiseftirlits og mengunarvarna. Lagt er til að eiturefni og hættuleg efni sem tengjast matvælum og matvælaframleiðslu falli undir heilbrigðiseftirlit og að eiturefni og hættuleg efni sem tengjast mengun lofts, láðs eða lagar falli undir mengunarvarnir. Þannig eru eiturefni og hættuleg efni ekki sjálfstæður þáttur löggjafarinnar heldur geta þau ýmist fallið undir heilbrigðiseftirlit eða mengunarvarnir.
    Hugtakið heilbrigðiseftirlit er skilgreint. Rétt er að taka fram að rannsóknir og prófanir eru liður í heilbrigðiseftirliti og felast í rannsókn sýna bæði vegna opinbers eftirlits og innra eftirlits á vegum eftirlitsskyldra aðila.
    Þá er hugtakið mengunarvarnir skilgreint. Reglubundnar mælingar á einum eða fleiri mengunarþáttum í umhverfi eru þáttur í mengunarvarnaeftirliti, svo og mat á mengunar áhrifum vegna fyrirhugaðrar starfsemi í tengslum við mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt taka mengunarvarnir til eftirlits með þeim sem valda eða valdið geta mengun.
    Fram kemur að vöktun umhverfisins telst til mengunarvarna og er það nýmæli en í íslenskri umhverfislöggjöf eru nánast engin ákvæði um vöktun ef frá eru talin ákvæði um vöktun náttúru og náttúrufars í lögum er um slíkt fjalla.
    Lögð er til skilgreining á hugtakinu besta fáanlega tækni, „Best Available Techniques“ (BAT). Hér er í fyrsta skipti í löggjöf, svo vitað sé, lagt til að krafan um bestu fáanlegu tækni verði lögfest með beinum hætti. Skilgreiningin er í samræmi við skilgreiningu í tilskipun ráðsins nr. 96/61/EB sem fjallar um mengunarvarnir. Þessi ákvæði er einnig efnislega að finna í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum, t.d. í 2. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 37. gr. reglugerðarinnar. Lögð er til skilgreining á hugtakinu eftirlit sem er í sam ræmi við lög nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, og merkir samkvæmt þessari grein athugun á vöru, þjónustu, hönnun vöru, ferli eða verksmiðju til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur eða almennar kröfur og skal þá byggjast á faglegum úrskurði. Þar sem eftirlitið er svo snar þáttur í framkvæmd laganna þarf að liggja ljóst fyrir hvað er átt við með eftirliti og er hér um mjög víða skilgreiningu að ræða í samræmi við viðtekna venju um að eftirlit skuli skýrt rúmt.
    Lögð er til skilgreining á hugtökunum faggilding, prófun og vottun og er það einnig í samræmi við lög nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu.
    Loks er hugtakið vöktun skilgreint sem kerfisbundin og síendurtekin skráning einstakra breytilegra þátta í umhverfinu. Slíkar breytingar geta átt sér náttúrulegar orsakir eða verið af manna völdum. Vöktun er óaðskiljanlegur hluti af öllum tilraunum til að stjórna auðlinda nýtingu á sjálfbæran hátt.

Um 4. gr.

    Í greininni er fjallað um framkvæmd heilbrigðiseftirlits sem lagt er til að verði sem áður framkvæmt samkvæmt heilbrigðisreglugerð. Lagt er til, svo ekkert fari milli mála, að starfs leyfi fyrir atvinnurekstur sem starfræktur er í samræmi við ákvæði greinarinnar eða á þeim vettvangi sem hún tekur til falli undir heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna. Einnig er lagt til að almenn ákvæði yrðu sett um starfsleyfisvinnslu og útgáfu starfsleyfanna í heilbrigðis reglugerð eins og verið hefur.
    Lagt er til að þau ákvæði laga nr. 7/1953, um hundahald og varnir gegn sullaveiki, er varða hundahreinsun fari inn í heilbrigðisreglugerð, sbr. 4. tölul., en það eru einu ákvæði laganna sem hafa í raun þýðingu í dag eftir að ný sóttvarnalög hafa verið sett, sbr. lög nr. 19/1997, sem taka gildi 1. janúar 1998 en áður voru komin inn í hollustuháttalög ákvæði er varða samþykktir sveitarfélaga um hundahald, gjaldtöku, ábyrgðartryggingar o.s.frv. Enn fremur er lagt til að hægt sé að grípa til sömu ráðstafana eigi hlut að máli kettir og önnur gæludýr.

Um 5. gr.

    Lagt er til í greininni að við framkvæmd mengunarvarna verði stuðst við ákvæði í meng unarvarnareglugerð eins og verið hefur.
    Lagt er til að krafist verði bestu fáanlegrar tækni við mengunarvarnir í þeim atvinnu greinum þar sem slíkt hefur verið skilgreint og skulu ákvæði um mengunarvarnir taka mið af því, sbr. nánar það sem segir um 3. gr. hér á undan og er hér um nýmæli að ræða.
    Að öðru leyti er 5. gr. efnislega óbreytt frá 3. gr. gildandi laga.

Um 6. gr.

    Í greininni er lagt til, svo ekkert fari á milli mála varðandi útgáfu starfsleyfa sé um mengandi starfsemi og meiri háttar atvinnurekstur að ræða, að hún skuli vera í höndum umhverfisráðherra. Í því tilviki er miðað við að samanlögð fjárfesting sé meiri en 950 milljónir króna miðað við byggingarvísitölu í september 1997, 225,9 stig. Hollustuvernd ríkisins eða heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna gefa út starfsleyfi í öðrum tilvikum eftir því sem mælt er fyrir í reglugerð. Bent hefur verið á að hvergi komi beint fram í lögunum hver skuli gefa út starfsleyfi að öðru leyti en því að fram kemur í 16. gr. gildandi laga, sbr. breytingu nr. 70/1995, að umhverfisráðherra setji í mengunarvarnareglugerð ákvæði um útgáfu starfsleyfa á vegum Hollustuverndar ríkisins. Frá setningu reglugerðar nr. 164/1972, um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna, hefur starfsleyfisútgáfa þegar um mengandi starfsemi er að ræða verið í höndum ráðherra, fyrst í höndum heil brigðisráðherra og síðan eftir stofnun umhverfisráðuneytis í höndum umhverfisráðherra. Með mengunarvarnareglugerð nr. 396/1992 var stærsti hluti starfsleyfa færður yfir til Holl ustuverndar ríkisins án lagabreytinga. Í lögum nr. 50/1981, um hollustuhætti og heilbrigðis eftirlit, er tekið fram í ákvæðum til bráðabirgða að reglugerð nr. 164/1972 skuli halda gildi sínu og það endurtekið í lögum nr. 81/1988, en fyrsta mengunarvarnareglugerð kom út á árinu 1989 og tók gildi 1. janúar 1990.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að önnur starfsleyfi en þau sem ráðherra gefur út skuli vera í höndum Hollustuverndar ríkisins eða heilbrigðisnefnda og að kveðið skuli á um það í reglugerð. Þannig mundu stærri og tæknilega flóknari mál vera í höndum Hollustuverndar ríkisins en allur þorri starfsleyfa í höndum heilbrigðisnefnda. Í gildandi mengunarvarna reglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum, kemur ferlið skýrt fram og yrði um óveru legar breytingar á því að ræða að öðru leyti en því að starfsleyfin yrðu kæranleg beint til úrskurðarnefndar eigi heilbrigðisnefnd hlut að máli í stað þess að vera kæranleg fyrst til Hollustuverndar ríkisins og síðar til úrskurðarnefndar eins og gildandi lög kveða á um, sbr. nánar athugasemdir við 31. gr.
    Í 3.–5. mgr. er kveðið á um hvernig staðið skuli að undirbúningi, auglýsingu og útgáfu starfsleyfis skv. 1. mgr., þ.e. þegar ráðherra gefur út leyfi. Þá er kveðið á um rétt manna til að koma að athugasemdum áður en starfsleyfi er gefið út, svo og um meðferð þeirra athugasemda. Rétt þykir að kveða á um í lögum með ótvíræðum hætti hvernig staðið skuli að útgáfu starfsleyfa sem ráðherra gefur út og um rétt manna til athugasemda fyrir útgáfu þeirra. Er almenningi tryggður víðtækur réttur til að koma að athugasemdum sínum, bæði áður en Hollustuvernd ríkisins sendir ráðherra tillögu sína að starfsleyfi, og eins áður en ráðherra tekur endanlega ákvörðun um útgáfu þess. Skv. 3. mgr. skal Hollustuvernd ríkisins vinna starfsleyfistillögur, sbr. 1. mgr., og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast tillögurnar. Gera má athugasemdir skriflega til Hollustuverndar ríkisins við auglýstar tillögur innan átta vikna frá auglýsingu. Þegar sá frestur er liðinn hefur stofnunin skv. 4. mgr. fjórar vikur til að senda ráðherra tillögu sína að starfsleyfi þar sem búið er að fara yfir innkomnar athugasemdir. Tillögunni á að fylgja greinargerð um þær athugasemdir sem gerðar voru og afgreiðslu þeirra. Þá er Hollustuvernd ríkisins gert að tilkynna umsækj anda um starfsleyfi um afgreiðslu sína, svo og þeim sem gerðu athugasemdir og skal þeim gerð grein fyrir hvort og þá að hve miklu leyti athugasemdirnar voru teknar til greina. Enn má koma að athugasemdum og er heimilt að gera skriflegar athugasemdir við starfsleyfis tillögu Hollustuverndar ríkisins til umhverfisráðherra innan fjögurra vikna frá tilkynningu um afgreiðslu. Ráðherra er óheimilt að taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfis fyrr en að þeim tíma liðnum, sbr. 1. málsl. 5. mgr. Í 2. málsl. 5. mgr. er kveðið á um birtingu starfsleyfis sem ráðherra gefur út í Stjórnartíðindum.


Um 7. gr.

    Í greininni er lagt til að umhverfisráðherra geti, að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar og Hollustuverndar ríkisins, veitt tímabundna undanþágu frá einstökum greinum heilbrigðisreglugerðar, sbr. 4. gr., og mengunarvarnareglugerðar, sbr. 5. gr., eða öðrum reglugerðum sem ráðherra setur samkvæmt þeim greinum. Samkvæmt gildandi lögum skulu vera almenn ákvæði í reglugerðunum um undanþágur og hafa þær verið með ýmsu móti allt frá því að ráðherra hafi veitt þær að fenginni umsögn Hollustuverndar og heilbrigðisnefndar til þess að vera í höndum heilbrigðisnefnda að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélag og að fengnum meðmælum Hollustuverndar ríkisins. Hefur þar verið um að ræða bæði tímabundnar og ótímabundnar undanþágur. Hér eftir er eingöngu gert ráð fyrir tímabundnum undanþágum í allt að 12 mánuði og að þær skuli vera í höndum umhverfisráðherra.
    Lagt er til í 2. mgr. að ráðherra setji í reglugerð ákvæði um valdsvið, skyldur og starfs tilhögun heilbrigðisnefnda og heilbrigðisfulltrúa og Hollustuverndar ríkisins, svo og um dagsektir, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Við setningu reglugerða sem fjalla um atriði er varða skyldur sveitarfélaga skal hafa samráð við sambandið, sbr. það sem lagt er til í 3. mgr. Þar sem framkvæmd málaflokksins er í höndum sveitarfélaganna og um er að ræða verkefni sveitarfélaganna samkvæmt sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, má segja að nánast allar reglugerðir um framkvæmd laganna varði sveitarfélögin.

Um 8. gr.

    Greinin er samhljóða 8. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að lagt er til að ekki aðeins sveitarstjórnir, byggingarnefndir og önnur yfirvöld héraðanna skuli leita álits heilbrigðis nefndar um hvers konar ráðstafanir um framkvæmdir sem lögin taka til á þeirra starfssvæði heldur skuli hið sama gilda um ríkisstofnanir, þ.e. ráðuneyti og stofnanir þeirra.

Um 9. gr.

    Hér er fjallað um yfirstjórn málaflokksins en hann verður í höndum umhverfisráðherra og utanríkisráðherra á varnarsvæðum. Er þetta í samræmi við 4. gr. gildandi laga. Gert er ráð fyrir því að landlæknir verði áfram ráðgjafi ráðherra um það er að lögunum lýtur og undir embætti hans fellur, sbr. 4. gr. gildandi laga. Mjög brýnt er að treysta sem best tengsl umhverfismála við heilbrigðiskerfið og er landlæknir kjörinn aðili til þess enda hefur verið náið samstarf milli umhverfisráðuneytis, Hollustuverndar ríkisins og landlæknis um málefnið. Auk þess eru tengsl landlæknis við héraðslækna mikil en þeir gegna veigamiklu hlutverki samkvæmt lögunum, sbr. nánar 14. gr. frumvarpsins.

Um 10. gr.

    Greinin er samhljóða 1. og 2. mgr. 5. gr. gildandi laga.

Um 11. gr.

    Lagt er til að starfandi verði tíu heilbrigðisnefndir í landinu á tíu eftirlitssvæðum í staðinn fyrir 46 nefndir á 13 eftirlitssvæðum eins og gildandi lög gera ráð fyrir. Talið er rétt að stíga nú til fulls það skref sem stigið var við gerð laganna 1981 þegar heilbrigðisnefndum var fækkað úr rúmlega 200 niður í 46 og ákveðið að heilbrigðiseftirlitið skyldi rekið svæðis bundið með mismunandi mörgum heilbrigðisnefndum á hverju svæði allt frá því að vera eitt og hið sama upp í níu nefndir. Reynsla undanfarinna ára bendir ótvírætt til þess að nú sé tímabært að stíga skrefið til fulls en eftirlitsstarfsemi hefur verið rekin í landinu öllu í meira en áratug. Æskilegt er að starfandi sé ein nefnd yfir hverju svæði en ekki svæðisnefnd og mismunandi margar heilbrigðisnefndir sem fari með valdið en svæðisnefndirnar eru sam ræmingaraðilar og nokkurs konar eftirlitsaðilar í héraðinu með því að eftirlitinu sé fylgt. Í stað 13 svæða eru lögð til tíu svæði og er breytingin fólgin í því að lagt er til að Akranes- og Vesturlandssvæði verði eitt svæði, „Vesturlandssvæði“, Eyjafjarðarsvæði og Norður landssvæði eystra verði eitt svæði, „Norðurlandssvæði eystra“, og að Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæði verði sameinuð og heiti „Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæði“. Með þessu yrðu sveitarfélögin á viðkomandi svæði sem heild ábyrg fyrir rekstri eftirlitsins innan hvers svæðis en ekki einstök sveitarfélög, þ.e. þar sem ákvörðun er framkvæmd. Þetta mun styrkja eftirlitið því í mörgum tilvikum eru teknar ákvarðanir um framkvæmdir í sveitarfélögum sem eru fámenn og því lítt fær um að standa undir kostnaði jafnvel þótt endurgreiðslur séu tryggðar með lögunum. Þetta er og viðleitni í þá átt að sameina sveitarfélögin í landinu enn frekar um að standa sameiginlega að verkefnum en lög nr. 50/1981 mörkuðu á sínum tíma stefnu í sameiningarmálum sveitarfélaganna.
    Lagt er til að í heilbrigðisnefndum verði fimm aðilar skipaðir af hlutaðeigandi sveitar stjórnum. Fjórir skulu kosnir af hlutaðeigandi sveitarstjórnum á svæðinu, þar á meðal for maður nefndarinnar. Fimmti aðilinn í nefndinni skal skipaður samkvæmt tilnefningu samtaka atvinnurekenda á svæðinu. Samband íslenskra sveitarfélaga, sem og VSÍ, hafa lagt á það mikla áherslu að samtök atvinnurekenda tilnefni í nefndina, enda stendur atvinnulífið undir stærstum hluta kostnaðar við eftirlitið eða 70–80%.
    Ekki er gerð tillaga um að ráðherra geti fjölgað eftirlitssvæðum og þar með heilbrigðis nefndum heldur aðeins kveðið á um nánari sameiningu með reglugerð.
    Gert er ráð fyrir að með samkomulagi geti heilbrigðisnefndir kveðið á um skiptingu eftirlits sín í milli og að heilbrigðisfulltrúar sem taka að sér slíkt eftirlit hafi sama rétt til afskipta þar og geti beitt sömu þvingunarúrræðum og á eigin svæði. Í nokkrum tilvikum hefur reynst nauðsynlegt að gera slíka samninga vegna aðstæðna og staðhátta en ákvæði skortir í lög um valdsvið heilbrigðiseftirlitsins í slíkum tilvikum og er hér reynt að bæta úr því.

Um 12. gr.

    Í greininni er haldið í það fyrirkomulag að sveitarfélögin bera ábyrgð á fjármálum og rekstri heilbrigðiseftirlitsins á viðkomandi svæðum. Sú breyting er lögð til að sveitarfélögin sjálf hafi umsjón með fjármálum, geri fjárhagsáætlanir og annist skiptingu kostnaðar milli sveitarfélaga um álagningu eftirlitsgjalda. Þannig er sveitarfélögunum ætlað að annast þessa þætti í stað þess að blanda svæðisnefndum í málið en þær verða lagðar niður. Ekkert er því þó til fyrirstöðu og er reyndar eðlilegt að framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits geri tillögu að fjárhagsáætlun til heilbrigðisnefndar sem sendir hana til viðkomandi sveitarfélaga til afgreiðslu. Þar sem um er að ræða starfsemi á vegum sveitarfélaganna er rétt að sveitar félögin annist þetta með sama hætti og aðra starfsemi sem þau fara með.
    Í þeim tilvikum þar sem ekki næst samkomulag milli sveitarfélaga um hvaða sveitarfélag annist fjárreiður fyrir eftirlitið er í 2. mgr. lagt til að umhverfisráðherra skuli úrskurða í slíkum málum að fenginni umsögn sveitarfélaganna. Þannig á að vera tryggt að frá málum verði gengið en samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir að stærsta sveitarfélagið taki að sér reksturinn í slíkum tilvikum en slík fyrirmæli í lögum hafa sætt gagnrýni.
    Í 3. mgr. er lagt til að í stað þess að sveitarfélögin setji sér sjálf gjaldskrár innan hvers eftirlitssvæðis eins og verið hefur setji umhverfisráðherra hámarksgjaldskrá að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins. Slík gjaldskrá verður sett í samræmi við ákvæði 3. mgr. 7. gr. þar sem kveðið er á um samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og 1. mgr. 17. gr. þar sem kveðið er á um hlutverk hollustuháttaráðs. Mestur hluti eftirlitsgjalda er borinn af atvinnuvegunum eða á bilinu 70–80%. Fulltrúar atvinnuveganna hafa ítrekað lýst þeirri skoðun að í landinu verði að gilda samræmd gjaldskrá fyrir eftirlit hvort sem sveitarfélögin vilja nýta sér slíka gjaldskrá að öllu leyti, að hluta til eða alls ekki. Gjaldskrár, bæði sem sveitarfélög setja sjálf, svo og hámarksgjaldskrá, verða að byggja á sannanlegum rekstrar kostnaði við eftirlitið því um er að ræða þjónustu- og eftirlitsgjald en ekki skatt.

Um 13. gr.

    Greinin er efnislega samhjóða 7. gr. gildandi laga.

Um 14. gr.

    Í greininni er fjallað um starfsemi heilbrigðisnefnda, svo sem um vægi atkvæða og afgreiðslu mála. Sú breyting er lögð til að héraðslæknir skuli sitja fundi nefndanna með málfrelsi og tillögurétti en samkvæmt gildandi lögum er héraðslæknir formaður svæðis nefndar um heilbrigðiseftirlit sem lagt er til að verði lögð niður í samræmi við breytta skipan, sbr. það sem segir hér að framan um 11. gr. Mikilvægt er eigi að síður að treysta sambandið við héraðslækna en alls eru starfandi átta héraðslæknar í læknishéruðum landsins sem eru þau sömu og kjördæmin. Héraðslæknir getur auk þess krafist þess að haldnir séu fundir í heilbrigðisnefnd en hann er ekki atkvæðisbær í nefndinni enda æskilegt að starfs menn ríkisins hafi ekki áhrif á starfsemi sveitarfélaganna, þar á meðal fjármál, með atkvæðisrétti. Héraðslæknar eru starfsmenn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og undir faglegri stjórn landlæknis.

Um 15. gr.

    Sú breyting er lögð til í 1. mgr. að á hverju eftirlitssvæði skuli ekki starfa færri en tveir heilbrigðisfulltrúar en í dag gilda engin ákvæði um fjölda þeirra að öðru leyti en því að á hverju hinna 13 eftirlitssvæða verður að vera starfandi heilbrigðisfulltrúi eigi þar að fara fram viðhlítandi eftirlit eins og lögin kveða á um. Mikilvægt er að ekki starfi færri en tveir heilbrigðisfulltrúar á hverju eftirlitssvæði bæði til þess að tryggja að ætíð sé heilbrigðisfull trúi á staðnum og eins til þess að fyrirbyggja faglega einangrun aðila. Vegna eðlis starfans er mjög mikilvægt að ávallt sé heilbrigðisfulltrúi tiltækur auk þess sem sú verkaskipting hefur komist á í eftirlitinu með auknum kröfum til mengunarvarna að einn heilbrigðisfulltrúi sérhæfi sig í mengunarvarnaeftirliti.
    Lögð er til sú breyting í 2. mgr. að sveitarstjórnir ráði heilbrigðisfulltrúa samkvæmt tillögum heilbrigðisnefnda í stað þess sem nú er að svæðisnefndir ráði heilbrigðisfulltrúa. Telja verður eðlilegt að sveitarfélögin sjálf annist ráðningu heilbrigðisfulltrúa enda eru þeir starfsmenn sveitarfélaganna. Hins vegar verður að tryggja aðkomu heilbrigðisnefnda að málinu enda fara heilbrigðisnefndir með sjálfstætt vald gagnvart sveitarfélögunum og eru ekki settar undir boð þeirra í faglegu starfi. Brýnt er hins vegar að ekki komi til ágreinings milli sveitarstjórnar og heilbrigðisnefndar um ráðninguna en tryggt er að aðeins megi ráða þá til starfa sem til þess hafa leyfi umhverfisráðherra.


Um 16. gr.

    Í greininni er lagt til að allir sem starfa samkvæmt lögunum séu bundnir þagnarskyldu um atriði er varða framleiðslu og verslunarleynd. Þótt ákvæði hér að lútandi sé í lögum um ríkisstarfsmenn, sbr. ný lög nr. 70/1996, og gildi einnig um starfsmenn sem starfa samkvæmt sveitarstjórnarlögum er mikilvægt að ítreka hér að innan þessa málaflokks gildir fullur trúnaður um framleiðslu- og verslunarleynd enda oft um mjög viðkvæm mál að ræða. Þessu tengt er og ákvæði um upplýsingar og tilkynningar þeirra sem starfa samkvæmt lögunum til fjölmiðla og að þær verði að vera efnislega rökstuddar og þess skuli gætt að einstaka atvinnugreinar, stofnanir og fyrirtæki verði ekki fyrir tjóni og álitshnekki að óþörfu.

Um 17. gr.

    Í greininni er lagt til að umhverfisráðherra skipi sérstakt ráð, hollustuháttaráð, til fjögurra ára í senn, sem hafi það hlutverk að fjalla um þá þætti sem undir lögin falla og varða atvinnu starfsemi, svo sem samhæfingu krafna og eftirlits, stefnumörkun varðandi atvinnustarfsemi og gera tillögu um framkvæmdina. Ráðherra skal leita álits ráðsins um þá þætti er varða atvinnustarfsemi, svo sem lagabreytingar, stefnumarkandi reglugerðir, samþykktir og gjaldskrár. Lagt er til að í ráðinu eigi sæti fulltrúi umhverfisráðherra sem verði formaður, forstjóri Hollustuverndar ríkisins, Vinnuveitendasamband Íslands tilnefni einn, Vinnumála sambandið einn og Samband íslenskra sveitarfélaga einn.
    Í samræmi við þá niðurstöðu að ekki er lagt til að stjórn verði yfir Hollustuvernd ríkisins, sbr. 18. gr., er æskilegt að þeir aðilar sem áður eru taldir komi að málum með lögskipuðum hætti, hafandi hugfast að stærsti hluti kostnaðar við eftirlitið er borinn af atvinnuvegunum, þar á meðal ríki og sveitarfélögum. Vinnuveitendasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa lagt á það mikla áherslu að þessari skipan verði komið á en það ætti að auðvelda framgang mála þannig að síður komi til deilna, t.d. um eftirlitsgjöld, framkvæmd og samræmingu eftirlitsins.
    Í stuttu máli má segja að þessi grein taki mið af því að þeim aðilum sem ætlað er að standa undir kostnaði við eftirlitið gefist færi á að taka þátt í stefnumótun innan málaflokksins með lögbundnum hætti.

Um 18. gr.

    Lagt er til að hlutverk Hollustuverndar ríkisins verði að mestu leyti óbreytt sem er að hafa yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti, mengunarvörnum og eiturefnaeftirliti, svo og að sjá um vöktun og að rannsóknir þessu tengdar séu framkvæmdar. Í þessu felst m.a. samræming eftirlits þannig að framkvæmdin sé með sama hætti í landinu öllu. Meginhlutverk Hollustu verndar ríkisins verður að annast eftirlit með framkvæmd laganna og að vera stjórnvöldum til ráðuneytis í málum er falla undir lögin. Stofnuninni er ekki ætlað að vera yfirvald í þeim skilningi að hún fari með eftirlitsmál en eftirlitið verður í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna og aukin áhersla lögð á uppbyggingu þess samkvæmt lögunum.
    Í stað þess að stofnunin fari með tiltekið eftirlit eins og gildandi lög gera ráð fyrir, svo sem innflutningseftirlit með matvælum og eiturefnum og hættulegum efnum og eftirlit með starfsemi sem veldur meiri háttar mengun, er lagt til að stofnunin fari eingöngu með eftirlit þegar um slíkt er samið við sveitarfélögin og getur þá tvennt komið til, annars vegar eftirlit sem nær yfir landið allt, svo sem innflutningseftirlit með matvælum og eiturefnum og hættu legum efnum og hins vegar eftirlit sem getur náð til ákveðinna eftirlitssvæða, m.a. vegna þess að of dýrt þyki að byggja upp sérfræðiþekkingu í fámennum eftirlitssvæðum.
    Enn fremur segir í 2. málsl. 3. mgr. greinarinnar að öll starfsemi stofnunarinnar, sem er og gæti verið í samkeppnisrekstri, skuli vera fjárhagslega aðgreind frá annarri starfsemi hennar. Hér er einkum átt við rannsóknarstarfsemi en matvælarannsóknir stofnunarinnar eru reknar í samkeppni við einkafyrirtæki að hluta til.
    Helsta nýmælið varðandi starfsemi stofnunarinnar er að lagt er til að stofnunin verði einnig vöktunarstofnun, þ.e. annist umhverfisvöktun í samræmi við skilgreiningu sem er að finna í 3. gr., sbr. það sem segir í athugasemd við hana. Mjög mikilvægt er að umhverfis vöktun verði sinnt skipulega og að hana annist aðili sem ekki fer með beint eftirlit. Vöktunaraðilinn verður að vera sjálfstæður gagnvart eftirlitsaðila, í þessu tilviki heilbrigðis eftirliti sveitarfélaganna.

Um 19. gr.

    Greinin er efnislega samhjóða 3., 6. og 8. mgr. 13. gr. gildandi laga.

Um 20. gr.

    Í greininni er gerð tillaga um að yfir Hollustuvernd ríkisins starfi forstjóri skipaður til fimm ára í senn, í stað þess að yfir stofnuninni starfi sérstök stjórn, rekstrarlegur fram kvæmdastjóri og forstöðumenn sem eru faglega ábyrgir gagnvart stjórn. Er þetta í samræmi við breytta stefnu í rekstrarmálum ríkisstofnana, sbr. og lög um starfsmenn ríkisins, nr. 70/1996. Hafa verður og í huga að Hollustuvernd ríkisins hefur í auknum mæli færst yfir í það að vera stjórnsýslustofnun, ekki síst í tengslum við þær skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir í samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Engum tilgangi þjónar að vera með sérstaka stjórn yfir stofnun sem byggir starfsemi sína á framkvæmd laga og reglugerða sem bæði að formi og efni eru ljós. Í staðinn er lagt til í 17. gr., sbr. það sem áður segir, að sérstakt hollustuháttaráð starfi sem hafi það hlutverk m.a. að gera tillögur um mótun stefnu og samræmingu eftirlits. Forstjóri skal fara með stjórn stofnunarinnar og móta stefnu í störfum hennar og ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri og snýr ábyrgðin beint að um hverfisráðherra. Sem fyrr er gert ráð fyrir að stofnuninni verði skipt í svið og að forstöðu maður með sérþekkingu starfi yfir hverju sviði. Forstöðumenn verða ábyrgir gagnvart for stjóra enda ræður forstjóri þá.

Um 21. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 17. gr. gildandi laga.

Um 22. gr.

    Hér er fjallað um faggildingu Hollustuverndar ríkisins vegna prófunar á vegum stofn unarinnar og að með sama hætti geti ráðherra ákveðið með reglugerð að faggilda starfsemi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna vegna prófunar og eftirlitsþátta eftirlitsins. Um fag gildingu gilda sérstök lög, sbr. lög nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu.

Um 23. gr.

    Gerð er tillaga um að ráðherra ákveði í reglugerð kröfur um gæðastjórnun og innra eftirlit með starfsemi sem er eftirlitsskyld samkvæmt lögunum. Ráðherra getur m.a. kveðið á um umfang eftirlitsins og tekið ákvörðun um eftirlitsgjöld er taki mið af innra eftirliti þeirrar starfsemi sem eftirlitið beinist að og þá gefst tækifæri fyrir hlutaðeigandi fyrirtæki til að lækka þann kostnað sem hlýst af eftirliti hins opinbera.

Um 24. gr.

    Hér er gerð tillaga um að heilbrigðisnefndum og Hollustuvernd ríkisins sé heimilt að fela faggiltum skoðunarstofum ákveðna hluta eftirlitsins og að þá skuli gerður sérstakur samn ingur um framkvæmdina. Þar sem heilbrigðisnefndum eru fengin í hendur þvingunarúrræði til þess að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar þykir rétt að það komi skýrt fram að það vald sé ekki hægt að framselja til skoðunarstofu og þurfi að beita þvingunarúrræðum laganna skuli heilbrigðisnefndin eða Hollustuvernd ríkisins standa fyrir slíku eftir því sem við á.

Um 25. gr.

    Greinin er að mestu leyti samhljóða 18. gr. gildandi laga þar sem fjallað er um samþykktir sveitarfélaganna en einhugur hefur ríkt um framkvæmd hennar frá því að hún var sett inn í lög 1981. Sú breyting er lögð til að ráðherra geti sett gjaldskrá að fengnum tillögum Sam bands íslenskra sveitarfélaga og umsögn Hollustuverndar ríkisins til viðmiðunar fyrir eftirlit og þjónustu sveitarfélaga í tengslum við sérstakar samþykktir þeirra. Hins vegar er sú heimild ekki tekin af sveitarfélögunum að setja sér sérstakar gjaldskrár sem verða að vera í samræmi við þann kostnað sem af eftirliti og þjónustunni hlýst.
    Lagt er til að innheimta megi gjöld samkvæmt þessari grein með fjárnámi enda um lág gjöld að ræða sem vefja oft mikið upp á sig þar sem í dag þarf að fara dómstólaleiðina og fá aðfarardóm. Með þessu er og gætt samræmis við 12. gr.

Um 26. og 27. gr.

    Greinarnar eru samhljóða 23. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að tekið er mið af breyttu fyrirkomulagi.

Um 28. gr.

    Greinin er að efni til eins og 8., 10. og 11. mgr. 23. gr. gildandi laga.

Um 29. gr.

    Greinin er að efni til eins og 2. mgr. 25. gr. gildandi laga en fellt er úr lögunum ákvæði 1. mgr. 25. gr. þar sem gert er ráð fyrir að Hollustuvernd ríkisins geri tillögu til ráðherra um framkvæmd ráðstöfunar í þeim tilvikum þar sem heilbrigðisnefnd lætur ekki málið til sín taka eða gengur ekki nægjanlega ríkt eftir framkvæmdinni þrátt fyrir ábendingar stofn unarinnar. Þessi grein telst óþörf með hliðsjón af efni greinarinnar eins og hún birtist hér.

Um 30. gr.

    Greinin er samhljóða 5. og 6. mgr. 25. gr. gildandi laga.

Um 31. gr.

    Greinin er að mestu leyti samhljóða 26. gr. gildandi laga þar sem fjallað er um ágreining er rís um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, heilbrigðissamþykkta sveitarfélaganna og ákvarðana yfirvalda og úrskurð sérstakrar úrskurðarnefndar í slíkum málum. Lagt er til að í þeim tilvikum þar sem ráðherra fer með afgreiðslu mála verði þeim afgreiðslum ekki vísað til úrskurðarnefndarinnar enda kemur úrskurðarnefndin í stað ráðherra sem endanlegur úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi og getur ekki úrskurðað í málum sem ráðherra fer með ákvörðunarvald eða úrskurðarvald í. Er þetta gert til þess að taka af allan vafa um hvernig túlka beri greinina. Einnig er lagt til að Hollustuvernd ríkisins sé ekki milli úrskurðaraðili eins og samkvæmt gildandi lögum enda óeðlilegt að vera með mörg úr skurðarstig. Þetta hefur í för með sér að ágreiningi um framkvæmd samkvæmt þessari grein við heilbrigðisnefndir eða Hollustuvernd ríkisis, t.d. um starfsleyfi, skal vísa beint til úrskurðarnefndar sem er endanlegur úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi.
    Gerð er sú breyting á samsetningu úrskurðarnefndarinnar að þar skuli sitja þrír lögfræð ingar sem uppfylli skilyrði til þess að geta verið héraðsdómarar en ekki aðeins einn eins og gildandi lög gera ráð fyrir. Jafnframt er lagt til að í stað þess að landlæknir tilnefni einn full trúa í nefndina skipi umhverfisráðherra einn án tilnefningar. Þau atriði sem hafa komið til kasta nefndarinnar eru fyrst og fremst lögfræðilegs eðlis, bæði að formi og efni til. Er því viðbúið að sé einn löglærður fulltrúi í nefndinni ráði sjónarmið hans mestu um úrlausn mála og er því ástæða til að allir nefndarmenn hafi lögfræðiþekkingu og standi þannig sem mest jafnir. Eðlilegt hlýtur að teljast að umhverfisráðherra sem færi með úrskurðarvald ef ekki væri kveðið á um sérstaka úrskurðarnefnd skipi fulltrúa í hana án tilnefningar í stað landlæknis en hafa verður í huga að landlæknir hefur ráðgjafarhlutverki að gegna samkvæmt lögunum, sbr. nánar 2. mgr. 9. gr., auk þess sem hann fer með faglegt eftirlit með starfsemi heilbrigðisfulltrúa. Það samrýmist því lítt hutverki hans að hann tilnefni þar að auki aðila í úrskurðarnefnd til að fjalla um framkvæmd laganna.
    Í 3. mgr. er lagt til að úrskurðir nefndarinnar séu fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi og er það gert til þess að ekki fari á milli mála að um fullnaðarúrskurð sé að ræða þar sem nefndin kveður upp úrskurði en í gildandi lögum kemur það ekki fram.

Um 32. gr.

    Þessi grein er að efni til samhljóða 3. mgr. 27. gr. gildandi laga. Gert er ráð fyrir að ráð herra fari með úrskurðarvald í þeim tilvikum þar sem rís upp ágreiningur milli heilbrigðis nefndar og sveitarstjórnar um framkvæmd laganna en hafa verður í huga að heilbrigðis nefndir eru ekki settar undir vald sveitarstjórna í ákvörðunum sínum en sætti sveitarstjórn sig ekki við ákvörðun heilbrigðisnefndar hefur hún þann möguleika að óska eftir úrskurði ráðherra í málinu en getur ekki ógilt ákvörðun heilbrigðisnefndar né breytt henni. Ekki er talið eðlilegt að úrskurðarnefnd skv. 31. gr. fjalli um mál sem þessi, enda hefur svo ekki verið til þessa.

Um 33. gr.

    Lagt er til að fyrir brot gegn lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga og fyrir mælum heilbrigðisnefnda skuli refsa með sektum og varðhaldi eða fangelsi séu sakir miklar í stað þess að refsa með sektum og varðhaldi. Það er nokkuð sammerkt með umhverfislög gjöfinni hér á landi að refsiákvæði eru væg og sæta þeir sem brjóta gegn henni í fáum tilvikum meiri refsingu en varðhaldi séu sakir miklar. Ástæða er til þess að breyta þessu og taka eins á málum þar sem brotið er gegn umhverfislöggjöfinni og öðrum brotum á stjórn sýslulöggjöf landsins eins og gert er í löggjöf nágrannalandanna.

Um 34. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. janúar 1998 að öðru leyti en varðar skipan sem kveðið er á um í 11. gr., sbr. ákvæði til bráðabirgða.
    Lagt er til að lög nr. 7/1953, um hundahald og varnir gegn sullaveiki, falli niður en öll ákvæði þeirra laga er að finna í öðrum lögum, svo sem gildandi lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, með síðari breytingum, og í sóttvarnarlögum, nr. 19/1997, sem og í frumvarpi þessu.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Lagt er til að sú skipan sem kveðið er á um í 11. gr. taki ekki gildi fyrr en 1. ágúst 1998. Þangað til skulu núverandi heilbrigðisnefndir starfa og um störf þeirra fer samkvæmt þessum lögum. Núverandi svæðisnefndir skulu starfa áfram til sama tíma og gegna því hlutverki sem kveðið er á um. Hafa verður í huga að sveitarstjórnarkosningar fara fram vorið 1998 og þannig gefst sveitarfélögunum kostur á að koma á hinu nýja nefndakerfi sem frumvarpið gerir ráð fyrir þegar að afloknum þeim kosningum. Annað er ekki talið raunhæft.
    Þær reglugerðir sem settar hafa verið samkvæmt lögum nr. 81/1988, með áorðnum breyt ingum, svo sem heilbrigðisreglugerð og mengunarvarnareglugerð, halda gildi sínu þar til þeim hefur verið breytt, að svo miklu leyti sem þær fara ekki í bága við ákvæði laganna. Að sjálfsögðu verða þessar reglugerðir endurskoðaðar fljótlega til þess að laga þær að breyttum lögum. Hvorki er að finna í gildandi heilbrigðisreglugerð né mengunarvarnareglugerð ákvæði sem stríða gegn þeim ákvæðum frumvarpsins sem fjalla um framkvæmd mála að öðru leyti en varðar uppbyggingu stjórnkerfisins.
    Með frumvarpinu er mörkuð sú stefna, sbr. 18. gr., að Hollustuvernd ríkisins fari aðeins með beint eftirlit að lög mæli svo fyrir eða ákvörðun sé tekin um það af umhverfisráðherra í reglugerð að höfðu samráði við stofnunina og sveitarfélögin í landinu. Samkvæmt lögum nr. 81/1988, með síðari breytingum, fer stofnunin með eftirlit með innflutningi matvæla og skráningu upplýsinga um framleiðslu og dreifingu matvæla í þágu matvælaeftirlits, eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum í nauðsynjavörum og vöruskráningu vegna eiturefna og hættulegra efna, svo og eftirlit með atvinnurekstri sem hefur í för með sér meiri háttar mengun, í samræmi við ákvæði mengunarvarnareglugerðar. Þessu er ekki ætlunin að breyta samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II fyrr en settar hafa verið reglur um það, þ.e. eftirlits hlutverk sveitarfélaganna á þessu sviði. Eftir sem áður mun stofnunin annast beint eftirlit séu ákvæði um það í sérlögum eins og lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, og lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um hollustuhætti.


    Frumvarpið er samið af nefnd sem umhverfisráðherra skipaði í febrúar 1996 til að endurskoða núgildandi lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988. Frumvarpið felur í sér breytingar á heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga sem miða að því að skýra og einfalda það. Lagðar eru til breytingar á starfsemi Hollustuverndar ríkisins, meðferð gjaldskrármála er einfölduð og að lokum eru refsiákvæði gerð skýrari.
    Umsögnin er samin í samráði við umhverfisráðuneyti en að mati fjármálaráðuneytis munu eftirfarandi þættir hafa áhrif á kostnað ríkissjóðs:
1.    Samkvæmt núgildandi lögum skal umhverfisráðherra skipa Hollustuvernd ríkisins stjórn en í frumvarpinu er lagt til að leggja hana niður. Á móti kemur skipan hollustuháttaráðs sem er nýtt en hefur svipað hlutverk og núverandi stjórn Hollustuverndar ríkisins að því frátöldu að hollustuháttaráð mun ekki hafa afskipti af rekstri stofnunarinnar. Ráðið skal skipað fimm mönnum en gert er ráð fyrir að umsvif þess verði heldur minni en stjórnar innar og að heildaráhrif af þessari breytingu verði lítils háttar sparnaður.
2.    Samkvæmt frumvarpinu verður hlutverk Hollustuverndar ríkisins að mestu óbreytt. Gert er ráð fyrir breytingum á yfirstjórn stofnunarinnar þar sem forstjóra er ætlað að bera bæði faglega og fjárhagslega ábyrgð á starfseminni. Í núgildandi lögum bera forstöðu mennirnir faglega ábyrgð gagnvart stjórn en framkvæmdastjóri ber rekstrarlega ábyrgð. Þessi breyting mun gera starfsemi stofnunarinnar skilvirkari og skapa möguleika til sparnaðar eða betri nýtingar fjármuna.
3.    Í frumvarpinu er kveðið á um að starfsemi Hollustuverndar ríkisins sem er í samkeppni skuli vera fjárhagslega aðgreind frá öðrum rekstri. Gjaldskrá stofnunarinnar hefur ekki endurspeglað raunkostnað við prófanir, rannsóknir o.fl. Talið er að þessi breyting muni hafa þau áhrif að gjaldskrá hækki til samræmis við raunkostnað og að tekjur stofnun arinnar aukist þar með. Einnig gæti breytingin leitt til þess að umsvif minnki. Að óbreyttu ætti þessi breyting að leiða til lækkunar ríkisframlags en ógerlegt er að áætla að hve miklu marki.
4.    Í 22. gr. frumvarpsins segir að stofnunin skuli hljóta faggildingu vegna prófunar og eftirlits hennar en þetta hefur verið í undirbúningi hjá stofnuninni á þessu ári. Að mati fram kvæmdastjóra Hollustuverndar ríkisins mun heildarkostnaður nema 3–4 m.kr. en nokkur kostnaður hefur þegar fallið til. Það sem eftir stendur mun væntanlega falla til á næsta ári. Að mati fjármálaráðuneytis á stofnunin að geta kostað það af fjárveitingu sinni þar sem skilvirkari starfsemi mun draga úr vinnumagni og kostnaði.
    Að öllu samanlögðu er það mat fjármálaráðuneytis að frumvarpið hafi ekki för með sér teljandi breytingar á útgjöldum ríkissjóðs. Fjárhagsleg aðgreining þess rekstrar Hollustu verndar ríkisins sem er í samkeppni gæti leitt til lækkunar ríkisframlags en ekki er ljóst hvort það verður og þá að hve miklu marki.
    Frumvarpið leiðir til breytinga á skipulagi heilbrigðiseftirlits hjá sveitarfélögum og má ætla að það leiði til hagræðis. Gert er ráð fyrir að leggja niður svæðisnefndir, fækka eftirlits svæðum og að ein heilbrigðisnefnd starfi á hverju svæði. Hefur það í för með sér fækkun nefnda. Einnig er lagt til að a.m.k. tveir heilbrigðisfulltrúar starfi á hverju svæði. Loks eru ákvæði er snúa að gjaldskrám og gjaldtöku sem ættu að auðvelda sveitarfélögum umsýslu þeirra mála.