Ferill 226. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 258 – 226. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 6/1996, um Siglingastofnun ríkisins.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)


1. gr.

    Í stað 3. mgr. 3. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Siglingastofnun Íslands er heimilt með samþykki samgönguráðherra að stofna og eiga aðild að hlutafélögum, öðrum félögum með takmarkaðri ábyrgð eða sjálfseignarstofnunum með það að markmiði að vinna að rannsóknum og þróun á starfssviði stofnunarinnar og hagnýta niðurstöður þess starfs.
    Enn fremur er Siglingastofnun Íslands heimilt með samþykki samgönguráðherra að stofna hlutafélag til að markaðsfæra og selja þjónustu stofnunarinnar.
    Þá er Siglingastofnun Íslands heimilt með samþykki samgönguráðherra að eiga aðild að hlutafélögum, öðrum félögum með takmarkaðri ábyrgð eða sjálfseignarstofnunum og fela þeim að annast framkvæmd og rekstur á einstökum þjónustuþáttum á starfssviði stofnun arinnar, enda sé slíkum félögum eða stofnunum gagngert komið á fót í þessu skyni.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á undanförnum árum hefur mikil umræða orðið um rekstur ríkisstofnana, hlutverk þeirra og hvernig hagkvæmni þeirra verði aukin.
    Í því sambandi hefur samstarf ríkisstofnana við íslensk og erlend fyrirtæki aukist og frekari aukning er í vændum, enda eru tækifærin mörg. Markmið samstarfs af þessu tagi er að sjálfsögðu bæði að efla þekkingu og framfarir hér á landi, auka rannsóknir og bæta áætlunar gerð og enn fremur að koma á framfæri á erlendum mörkuðum búnaði og þekkingu sem fyrir hendi er hér á landi og selja þjónustu. Því er nauðsynlegt að hlutaðeigandi stofnanir hafi svigrúm til að taka þátt í slíku samstarfi, t.d. með stofnun hlutafélaga eða annarri þátttöku í fyrirtækjarekstri í þessu augnamiði. Slíkt svigrúm hafa stofnanirnar ekki nú að óbreyttum lögum. Með því að heimila þeim þátttöku í fyrirtækjarekstri er stofnunum gert kleift að nýta tækifæri sem gefast til að auka sjálfstæði þeirra, ná meiri hagkvæmni og bæta afkomu á breyttum tímum.
    Ákvæði 1. gr. hafa þríþættan tilgang. Í fyrsta lagi er lagarammi settur um samstarf Sigl ingastofnunar Íslands við aðila utan stofnunarinnar. Er um þetta fjallað í 1. mgr., en fyrirmynd hennar er sótt í gildandi lög um Háskóla Íslands.
    Jafnframt er lagt til að Siglingastofnun Íslands verði heimilað að stofna fyrirtæki til að selja þjónustu stofnunarinnar.
    Samkvæmt 3. mgr. er hins vegar opnuð leið fyrir þann möguleika að færa hluta af starfsemi Siglingastofnunar Íslands í hendur sjálfstæðra aðila sem starfa mundu í nánum tengslum við embættið en erlendis er nokkuð tíðkað að stofna sérstök félög um ákveðna þætti slíkrar þjónustu.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/1996,
um Siglingastofnun Íslands.

    Með frumvarpinu er lagt til að Siglingastofnun Íslands verði heimilt með samþykki samgönguráðherra að stofna til og eiga hlutdeild í fyrirtækjum eða sjálfseignarstofnunum.
Þess eru dæmi að A-hluta stofnunum sé heimilt að stofna eða eiga hlut í fyrirtækjum. Hins vegar mun það færast í vöxt á næstu árum að ríkisstofnunum verði gert skylt að aðgreina rekstur sem er í samkeppni við einkafyrirtæki frá öðrum hlutum starfseminnar.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það að lögum, muni leiða til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.