Ferill 377. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 661 – 377. mál.



Skýrsla



viðskiptaráðherra um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis.

(Lögð fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)


Inngangur.
    Í skýrslu þessari er greint frá fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis, eins og kveðið er á um í 12. gr. laga nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
    Í skýrslunni kemur fram að á síðasta ári jókst mjög fjárfesting erlendra aðila í atvinnu rekstri hérlendis. Kemur það að mestu til af stækkun álversins í Straumsvík. Erlend fjárfesting var rúmlega 5,6 milljarðar kr. á árinu 1996 eða 1,14% af landsframleiðslu. Til samanburðar nam samanlögð erlend fjárfesting rétt rúmum milljarði á árunum 1990–95. Bein fjármunaeign erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis nam rúmum 13,2 milljörðum króna í árslok 1996 og hækkaði um 4,8 milljarða króna frá árslokum 1995. Erlend fjárfesting vegna álvers Norðuráls á Grundartanga og stækkunar járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga mun koma fram á þessu ári og því næsta.
    Skýrslunni er skipt í þrjá hluta. Í þeim fyrsta er greint frá erlendri fjárfestingu áranna 1990–96 eftir löndum og atvinnugreinum, tekjum erlendra aðila af fjárfestingum hérlendis og samanburði við önnur lönd. Talnaefnið er unnið af Seðlabanka Íslands. Í öðrum hluta er skýrt frá aðgerðum stjórnvalda til að auka erlenda fjárfestingu og í þriðja hluta er fjallað um starf nefndar um erlenda fjárfestingu.

1.     Fjárfesting erlendra aðila 1990–96.
    Bein fjárfesting hefur verið lítil hér á landi. Í töflu 1 kemur fram að í árslok 1996 nam bein fjármunaeign erlendra aðila í atvinnustarfsemi hérlendis rúmum 13,2 milljörðum króna. Fjármunaeign samanstendur annars vegar af eigin fé og hins vegar af hreinni lánastöðu innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum eignaraðilum. Erlent móðurfyrirtæki sem veitir t.d. lán til dótturfyrirtækja hérlendis er því að auka fjármunaeign sína á sama hátt og ef um aukið hlutafjárframlag væri að ræða.
    Fjármunaeign hefur sveiflast verulega á síðustu árum sem skýrist aðallega af sveiflum í rekstrarafkomu stóriðjufyrirtækja. Árin 1991–93 var verulegt tap í rekstri stóriðjufyrirtækja hérlendis en hagnaður næstu þrjú ár á eftir. Sveiflur í lánastöðu á milli innlendra dóttur fyrirtækja og erlendra móðurfyrirtækja hafa einnig haft áhrif á fjármunaeign á milli ára. Aukning fjármunaeignar í stóriðju á síðasta ári kemur að mestu til af stækkun álversins í Straumsvík. Fjármunaeign í stóriðju, þ.e. Íslenska álfélagsins og Íslenska járnblendifélagsins, er um 70% af fjármunaeign erlendra aðila hérlendis í árslok 1996.
    Þess skal geta að greinarmunur er gerður á beinni fjárfestingu og viðskiptum með hlutabréf. Munurinn felst í því að með beinni fjárfestingu hefur fjárfestir stjórnunarleg áhrif á rekstur viðkomandi fyrirtækis í krafti stórs eignarhlutar. Ef eignarhlutur fjárfesta er hins vegar óveru legur er hann talinn til verðbréfaviðskipta. Þumalfingursreglan er sú að ef eignarhlutur fjár festis er yfir 10% þá er um beina fjárfestingu að ræða, annars verðbréfaviðskipti.

Tafla 1. Bein fjármunaeign erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis.

Staða í árslok eftir atvinnugreinum

M.kr. á verðlagi hvers árs 1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996
Stóriðnaður
5.013 5.973 4.764 5.251 5.802 4.824 9.212
Annar iðnaður
583 605 560 543 504 584 724
Verslun
2.140 2.111 2.225 2.283 1.713 1.896 2.028
Fjármálaþj. og tryggingar
50 170 209 176 302 393 202
Annað
343 342 183 248 415 707 1.045
Samtals
8.129 9.201 7.940 8.501 8.736 8.404 13.210
Samkvæmt vísitölu neysluverðs í árslok 1996
Samtals
9.700 10.246 8.632 8.958 9.056 8.572 13.210
Undanskilin er verðbréfaeign og fasteignir einstaklinga.
Heimild: Seðlabanki Íslands.

    Tafla 2 sýnir beina fjármunaeign erlendra aðila eftir löndum. Svisslendingar hafa fjárfest mest allra þjóða hérlendis en fjármunaeign þeirra var tæpir 8,1 milljarður kr. í árslok 1996. Þetta kemur til af því að móðurfélag Íslenska álfélagsins hf. er staðsett í Sviss. Í öðru sæti kemur Danmörk með rúmlega 1,3 milljarða kr. fjármunaeign en Danir hafa aðallega fjárfest hérlendis í malbikunarstöð og byggingar- og olíuverslunarfyrirtæki. Frá árinu 1990 hefur orðið stöðugur samdráttur í fjárfestingum Bandaríkjamanna á Íslandi en það ár var fjármunaeign þeirra um 1,6 milljarðar kr. á verðlagi þess árs og voru þeir í öðru sæti. Í árslok 1996 voru Bandaríkjamenn í fjórða sæti á eftir Norðmönnum með fjármunaeign fyrir um 700 millj. kr.

Tafla 2. Bein fjármunaeign erlendra
aðila í atvinnurekstri hér á landi.


Staða í árslok eftir löndum
M.kr. á verðlagi hvers árs 1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996
Danmörk
720 769 813 856 969 1.249 1.334
Finnland
64 75 63 40 43 52 85
Noregur
962 869 190 385 475 639 874
Svíþjóð
143 355 323 377 390 535 351
Bretland
439 477 490 489 504 534 680
Sviss
3.576 4.676 4.546 4.736 5.147 3.954 8.071
Þýskaland
103 123 161 174 209 435 470
Önnur Evrópulönd
33 50 70 80 191 114 239
Bandaríkin
1.610 1.375 1.191 1.173 570 560 708
Japan
479 432 93 191 238 331 398
Samtals
8.129 9.201 7.940 8.501 8.736 8.404 13.210
Undanskilin er verðbréfaeign og fasteignir einstaklinga.
Heimild: Seðlabanki Íslands.

    Tafla 3 sýnir fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi. Samkvæmt skilgreiningu OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins geta beinar fjárfestingar á milli landa verið á þrjá vegu, þ.e. í formi hlutabréfaviðskipta, endurfjárfestinga og lánaviðskipta. Fjárfesting er stöðustærð í töflum 1 og 2 en flæðistærð í töflu 3. Fjárfesting á tilteknu ári þarf ekki að endurspeglast í mismuninum á eignastöðu í upphafi og lok árs. Ástæðan er sú að stöðustærðir eru gerðar upp á bókhaldsgrunni en flæðistærðir á greiðslugrunni.
    Fjárfesting á síðasta ári var rúmir 5,6 milljarðar kr. og vega þar áhrif stækkunar álversins í Straumsvík langþyngst. Fjárfesting á árunum 1990–95 var mjög lítil og sum árin neikvæð.

Tafla 3. Fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri
á Íslandi eftir atvinnugreinum.


M.kr. á verðlagi hvers árs 1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996
Stóriðnaður
728 1.072 -754 -69 248 -1.376 5.278
Annar iðnaður
68 4 -1 -45 46 68 168
Verslun
518 -100 66 139 -628 157 117
Fjármálaþj. og tryggingar
-83 86 150 -40 110 92 -407
Annað
38 10 -103 -5 226 397 474
Samtals
1.268 1.071 -641 -20 2 -662 5.630
Undanskilin er verðbréfaeign og fasteignir einstaklinga.
Heimild: Seðlabanki Íslands.

    Tafla 4 sýnir fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri eftir löndum.

Tafla 4. Fjárfestingar erlendra aðila í
atvinnurekstri á Íslandi eftir löndum.


M.kr. á verðlagi hvers árs 1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996
Danmörk
93 22 77 -7 97 325 87
Finnland
13 8 -1 -23 2 10 29
Noregur
-68 -146 -170 161 83 158 231
Svíþjóð
-24 232 111 155 -17 125 -441
Bretland
24 29 -7 -18 14 16 72
Sviss
830 1.291 -436 -329 122 -1.587 5.024
Þýskaland
73 8 30 4 85 397 28
Önnur Evrópulönd
-57 10 5 12 89 -120 158
Bandaríkin
417 -310 -166 -55 -515 -76 379
Japan
-34 -73 -85 80 42 90 63
Samtals
1.268 1.071 -641 -20 2 -662 5.630
Undanskilin er verðbréfaeign og fasteignir einstaklinga.
Heimild: Seðlabanki Íslands.

    Í töflu 5 eru sýndar tekjur erlendra aðila af fjárfestingum þeirra hérlendis. Tekjurnar geta verið á þrjá vegu, þ.e. í formi arðgreiðslna, endurfjárfestinga og hreinna vaxtatekna. Sam kvæmt skilgreiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er talið eðlilegt að flokka endurfjárfestingu ekki einungis sem fjárfestingu heldur einnig sem fjárfestingartekjur. Eins og sjá má í töflunni virðist endurfjárfesting ráða mestu um hvernig tekjur erlendra aðila af fjárfestingum þeirra þróast á milli ára.

Tafla 5. Tekjur erlendra aðila
af fjárfestingum á Íslandi.


M.kr. á verðlagi hvers árs 1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996
Arðgreiðslur
1.184 524 255 118 116 647 242
Endurfjárfesting
-768 -2.021 -1.828 -1.366 804 157 923
Hreinar vaxtagreiðslur
67 191 333 292 267 240 275
Samtals
483 -1.305 -1.240 -956 1.187 1.043 1.439
Undanskilin er verðbréfaeign og fasteignir einstaklinga.
Heimild: Seðlabanki Íslands.

    Samanburður við önnur vestræn ríki, sem nota sömu uppgjörsaðferðir, er Íslendingum mjög í óhag, eins og sést í töflu 6. Beinar fjárfestingar á Íslandi voru að meðaltali 0,21% af landsframleiðslu á árunum 1990–96. Innstreymi beinna fjárfestinga á sama tímabili var hlutfallslega minnst til Þýskalands, um 0,13%, en mest til Nýja-Sjálands, um 4,47% af landsframleiðslu.

Tafla 6. Árlegar fjárfestingar erlendra aðila
í hlutaðeigandi löndum í hlutfalli við VLF.


1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 Meðaltal 90-96
Ástralía
2,21 1,36 1,75 1,06 1,20 4,09 1,54 1,89
Bandaríkin
0,87 0,39 0,30 0,69 0,75 0,87 1,16 0,72
Bretland
3,32 1,60 1,54 1,65 1,01 2,05 2,89 2,01
Finnland
0,60 -0,19 0,37 1,02 1,53 0,84 0,99 0,74
Holland
4,35 2,20 2,45 2,80 2,19 2,72 1,60 2,62
Ísland
0,36 0,27 -0,16 0,00 0,00 -0,15 1,14 0,21
Mexíkó
0,98 1,65 1,33 1,09 2,61 2,49 1,77 1,70
Nýja-Sjáland
3,95 3,06 5,10 5,69 4,96 4,20 4,31 4,47
Sviss
2,20 1,38 0,52 0,48 2,07 1,13 ... 1,29
Þýskaland
0,17 0,24 0,13 0,10 0,04 0,37 -0,14 0,13
Meðaltal landa
1,90 1,20 1,33 1,46 1,64 1,86 1,70 1,58
Heimildir: International Financial Statistics IMF, Main Economic Indicators OECD.

2.     Aðgerðir stjórnvalda til að auka fjárfestingu.
Markaðsstarf.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að vinna skuli að frekari erlendri fjárfestingu í atvinnulífinu, m.a. með því að efla markaðsstarfsemi og endurskoða lög um erlenda fjárfestingu. Rökin fyrir efldu markaðsstarfi og nýjum lögum liggja í mikilvægi erlendrar fjárfestingar fyrir þjóðarbúið. Það er ekki aðeins mikilvægt að fá erlent fjármagn til að styrkja íslenskt efnahagslíf og skapa ný atvinnutækifæri. Það er ekki síður mikilvægt að með erlendri fjárfestingu flyst inn þekking á sviði markaðsmála, tækni og stjórnunar.
    Mikið starf hefur verið unnið í þessu skyni og áhugi erlendra aðila á Íslandi sem fjárfestingarkosti hefur aukist. Tvær fjárfestingarskrifstofur bera hitann og þungann af því markaðsstarfi að laða erlenda fjárfestingu til landsins. Það er annars vegar Markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar (MIL) sem einbeitir sér að erlendri fjárfestingu á sviði stóriðju og hins vegar Fjárfestingarskrifstofa viðskiptaráðuneytis og Útflutningsráðs (FÍ) sem laðar að erlenda fjárfestingu á öðrum sviðum en stóriðju.
    Mikill árangur hefur orðið af þessu markaðsstarfi, sér í lagi í stóriðju. Þrír nýir stóriðjusamningar, þ.e. stækkun álversins í Straumsvík og járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og nýbygging álvers Norðuráls á Grundartanga, hafa verið undirritaðir á kjörtímabilinu og mörg verkefni á sviði stóriðju eru til athugunar á vegum MIL. Hér skal vísað til skýrslu iðn aðar- og viðskiptaráðherra um framgang verkefna á sviði stóriðju sem lögð var fyrir Alþingi í október 1997.
    FÍ var komið á fót árið 1995 í því skyni að veita áhugasömum erlendum fjárfestum alhliða þjónustu þegar leitað er upplýsinga um fjárfestingarvalkosti á öðrum sviðum en stóriðju. Á þessu var mikil þörf enda réð tilviljun því hvert erlendir fjárfestar leituðu með fyrirspurnir sínar áður en FÍ hóf starfsemi og enginn innlendur aðili fylgdi fjárfestingartækifærum mark visst eftir. Mikið kynningar- og undirbúningsstarf hefur verið unnið síðustu tvö árin í þessu skyni og er árangurinn af því farinn að skila sér í nýjum fjárfestingum.

Lög um erlenda fjárfestingu.
    Lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, var breytt með lögum nr. 46/1996. Með þeim lögum var rutt úr vegi nokkrum hindrunum fyrir fjárfestingu erlendra aðila.
    Meginreglan er sú að erlendir aðilar geta fjárfest í atvinnurekstri hér á landi. Frá því eru þó nokkrar mikilvægar undantekningar; sú mikilvægasta er bann við eignarhaldi erlendra aðila í veiðum og vinnslu sjávarafurða. Í lögunum er þó kveðið á um að óbein fjárfesting erlendra aðila í fiskveiðum og fiskvinnslu sé heimil upp að vissu marki.
    Með lögunum var hömlum aflétt af eignarhaldi og fjárfestingu erlendra aðila á orkusviðinu og í flugrekstri. Breytingarnar voru í samræmi við ákvæði EES-samningsins um rétt aðila á EES-svæðinu til að fjárfesta í þessum greinum hér á landi. Hins vegar eru áfram takmarkanir á fjárfestingum aðila utan EES-svæðisins. Jafnframt eru í lögunum tekin af öll tvímæli varð andi heimildir erlendra aðila, sem öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign, til að nýta jarð hita beint í atvinnurekstri.
    Nefnd er nú að störfum um endurskoðun á þessum lögum. Nefndinni er m.a. ætlað að kanna hvort breyta megi ákvæðum laganna þannig að þau verði jákvæðari í garð erlendra fjárfesta.

Samkeppni við önnur lönd.
    Erlend fjárfesting í heiminum hefur aukist gríðarlega á þessum áratug. Þannig var erlend fjárfesting á árinu 1995 um 22.000 milljarðar kr., sem er um þreföld meðalfjárfesting áranna 1984–89. Fjárfestingin fer að tveimur þriðju hlutum til þróaðra ríkja en að einum þriðja til vanþróaðra. Stærstu viðtakendur erlendrar fjárfestingar árið 1995 voru Bandaríkin, Bretland og Frakkland. Stærstu iðnríkin laða enn til sín stærstan hluta erlendrar fjárfestingar en smátt og smátt hefur dregið úr hlut þeirra. Þannig hafa fyrirtæki verið að fjárfesta í stórum stíl á nýjum mörkuðum sem eru að opnast, svo sem í Suðaustur-Asíu og Austur-Evrópu. Erlendri fjárfestingu er engu að síður mjög misskipt. Þau tíu lönd sem laða til sín mesta fjárfestingu eru með tvo þriðju hluta allrar erlendrar fjárfestingar á meðan þau hundrað lönd sem minnsta fjárfestingu fá hafa samanlagt minna en 1% af kökunni.
    Samfara auknum erlendum fjárfestingum hefur samkeppnin aukist. Flest ríki heims leggja mikið upp úr að laða til sín erlenda fjárfestingu. Þau bjóða fyrirtækjum stuðning af ýmsu tagi í því skyni að hvetja þau til fjárfestinga. Þessi stuðningur er oft í formi skattalegra ívilnana, aðstöðu eða jafnvel beinna peningastyrkja. Síðustu missirin hafa beinir peningastyrkir aðallega verið notaðir í Evrópu. Mörg dæmi eru um tugþúsunda dollara peningastyrki fyrir hvert starf sem skapast. Sér í lagi á þetta við um hátæknigreinar.
    Fjárfestingarskrifstofur gegna mikilvægu hlutverki í því skyni að greiða fyrir erlendum fjárfestingum. Slíkum skrifstofum hefur farið mjög fjölgandi á undanförnum árum með fjölmörgum nýjum aðilum sem keppa að því að fá sneið af kökunni. T.d. er talið að í Bretlandi séu starfandi um 400 fjárfestingarskrifstofur.
    Margar ástæður eru fyrir því að fyrirtæki velja í auknum mæli að fjárfesta erlendis í stað þess að framleiða vörur í heimalandi sínu. Þannig má t.d. nefna að aukin samkeppni í viðskiptum hvetur fyrirtæki til að tryggja sér aðgengi að mörkuðum og framleiða þar sem kostnaður er í lágmarki. Umgjörð um erlendar fjárfestingar hefur líka víðast tekið miklum breytingum á undanförnum árum og mikilvægum hindrunum hefur verið rutt úr vegi, t.d. á sviði fjármagnsflutninga. Mikið verk er þó óunnið. Þannig standa nú yfir formlegar samninga viðræður á milli aðildarríkja OECD sem leiða eiga til fjölþjóðlegs fjárfestingarsáttmála. Þær hófust árið 1995 og er búist við að þeim ljúki snemma á næsta ári. Megintilgangur sáttmálans er að auðvelda fjárfestingar ríkja á milli og að slíkar fjárfestingar njóti samræmdrar verndar á svæði því sem sáttmálinn tekur til. Þótt samningaviðræður fari fram á vettvangi OECD er jafnframt gert ráð fyrir útvíkkun gildissviðs væntanlegs sáttmála með þátttöku ríkja utan OECD. Viðskiptaráðuneytið tekur fyrir Íslands hönd virkan þátt í þessum samningaviðræðum.
    
Möguleikar Íslendinga.
    Íslendingar eiga óhægt um vik að keppa við þjóðir sem boðið geta upp á háa styrki til fjárfestinga, ódýrt vinnuafl eða aðgang að stórum mörkuðum. Markaðsstarf Íslendinga þarf því að vera sértækt og miðast við vel skilgreindan markhóp. Almennar markaðsaðgerðir skila litlu í hinni hörðu samkeppni sem ríkir á markaði fyrir erlendar fjárfestingar. Mestu mögu leikar Íslendinga felast í fjárfestingum sem nýta sér auðlindir landsins eða aðra staðarkosti, svokallaða staðbundna fjárfestingu. Íslendingar eiga minni möguleika á færanlegum fjárfest ingum sem hægt er að setja niður og taka upp með skömmum fyrirvara, eftir því hver býður best í það skiptið.
    Mikil áhersla hefur hins vegar verið lögð á að kynna kosti Íslands sem fjárfestingarkosts á öðrum sviðum en stóriðju. Það markaðsstarf er langtímaverkefni og þess ekki að vænta að það valdi umbyltingu á skömmum tíma. Möguleikar Íslendinga eru á mun fleiri sviðum en í raforkufrekum iðnaði. Þannig má nefna mikla möguleika í heilsutengdri ferðaþjónustu, líf tækni, fiskeldi og annarri sérhæfðri matvælaframleiðslu, smærri iðnferlum sem samnýta gufu og rafmagn og hugbúnaði svo fátt eitt sé nefnt.
    Í kynningu á Íslandi sem fjárfestingarkosti hefur verið lögð áhersla á:
*      Stöðugt efnahagslíf.
*      Stöðugleika í stjórnmálum.
*      Hreint og ómengað land og vatn.
*      Aðild að EES og tollfrjálsan aðgang að ES.
*      Vel menntað og sveigjanlegt vinnuafl.
*      Góð lífskjör.
*      Samkeppnisfæran launakostnað.
*      Lág símagjöld.
*      Lágan orku- og veitukostnað, heitt og kalt vatn, gufu og rafmagn.
*      Lítið skrifræði.

Verkefni MIL og FÍ.
    Verkefni MIL og FÍ eru mörg og fjölbreytileg. Skrifstofurnar svöruðu yfir 100 fyrir spurnum frá erlendum aðilum á síðasta ári og unnu með yfir 20 erlendum aðilum að könnun á uppsetningu hér á landi. Bæklingar um möguleika fjárfesta hafa verið gefnir út á ensku, þýsku, japönsku, kóreönsku og kínversku. Mikil vinna fer í að veita nauðsynlega aðstoð við erlenda fjárfesta, standa fyrir almennu kynningarstarfi og safna upplýsingum um mat á samkeppnisþáttum og önnur atriði sem varða möguleika erlendra aðila til að fjárfesta hér á landi.
    Þrátt fyrir mikinn fjölda fyrirspurna er ekki beðið eftir fjárfestum heldur er markviss leit að fjárfestum mikilvægur þáttur í starfsemi beggja skrifstofanna. Sökum mannfæðar og tak markaðra fjárráða hefur athyglin beinst að vel skilgreindum markhópum í fáum löndum.
    Skrifstofurnar eiga mikil samskipti við sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki. Víða um land hafa átaksverkefni verið sett af stað til að skilgreina kosti viðkomandi svæðis og kanna mögu leika á erlendri fjárfestingu á svæðinu.
    Hér að neðan er listi yfir helstu verkefni sem MIL og FÍ hafa unnið að á árinu eða eru í burðarliðnum:
*      Samningur um álver Norðuráls.
*      Samningur um stækkun járnblendiverksmiðjunnar.
*      Viðræður við Hydro-Aluminum um álver.
*      Viðræður við Atlantsáls-hópinn um álver á Keilisnesi.
*      Frumathugun á pólýolverksmiðju.
*      Frumathugun á olíuhreinsunarstöð.
*      Framlag til athugunar á vetnisperoxíðverksmiðju.
*      Þátttaka í athugun á hagkvæmni magnesíumverksmiðju.
*      Markaðsátak í stóriðjumöguleikum í Þýskalandi.
*      Staðarvalsrannsóknir fyrir orkufrekan iðnað í Eyjafirði.
*      Rannsóknir á stóriðjumöguleikum á Reyðarfirði.
*      Athugun á einkristallaframleiðslu.
*      Samningur við erlendan fjárfesti í smáþörungaeldi.
*      Aðstoð við erlendan fjárfesti í sandhverfueldi.
*      Samstarfsverkefni á Suðurnesjum um samnýtingu gufu og rafmagns.
*      Rannsókn á fjárfestingarhvötum.
*      Fjárfestingarverkefni um matvælavinnslu í Eyjafirði.
*      Fjárfestingarverkefni eru að fara af stað á Norðurlandi vestra og Suðurlandi.
*      Fjárfestingarverkefni á Austurlandi um fullvinnslu síldar.
*      Fjárfestingarverkefni á Austurlandi um sumarhúsaþyrpingu.
*      Fjárfestingarverkefni um frekari erlenda fjárfestingu í Þörungaverksmiðjunni.
*      Fjárfestingarverkefni um flutning starfandi erlendra fyrirtækja til Íslands.
*      Fjárfestingarverkefni á Húsavík um þurrkun á harðvið.

3.     Nefnd um erlenda fjárfestingu.
    Í 12. gr. laga nr. 34/1991, með síðari breytingum, kemur fram að sérstök nefnd um erlenda fjárfestingu skuli fylgjast með að ákvæðum 4. gr. um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri sé framfylgt. Nefndin er skipuð fimm mönnum, kosnum hlutfallskosningu á Alþingi að afstöðnum almennum þingkosningum.
    Nefndin hefur haldið fimm fundi á þessu kjörtímabili. Nefndin fer á fundum sínum yfir til kynningar um erlenda fjárfestingu sem viðskiptaráðherra berast skv. 7. gr. laganna auk annarra upplýsinga og gagna sem nefndin aflar til að fylgjast með að ákvæðum laganna sé framfylgt.
    Nefndin hefur einu sinni á kjörtímabilinu úrskurðað að erlend fjárfesting bryti í bága við lögin. Erlendur aðili eignaðist í því tilviki beint í fyrirtæki sem framleiðir meltu, en það stangast á við 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna.
    Viðskiptaráðherra hefur á kjörtímabilinu ekki beitt öryggisákvæði því sem fram kemur í 2. mgr. 12. gr. laganna.