Ferill 443. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 770 – 443. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum (öndunarsýni) .

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Við 4. mgr. 47. gr. laganna, sbr. lög nr. 48/1997, bætist: Vegna töku og rann sóknar öndunarsýnis skal sá sem sakfelldur er greiða 6.500 kr., sem teljast til sakarkostnaðar.

2. gr.

    102. gr. laganna, sbr. lög nr. 44/1993, orðast svo:

    Nú hefur stjórnandi vélknúins ökutækis brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 45. gr. eða neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. og skal hann þá sviptur ökurétti. Ef sérstakar málsbætur eru og ökumaður hefur ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður má sleppa sviptingu ökuréttar vegna brota á ákvæðum 1., sbr. 2., mgr. 45. gr.

    Nú hefur stjórnandi ökutækis brotið gegn ákvæðum 1., sbr. 3., mgr. 45. gr. eða neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. og skal svipting ökuréttar þá eigi vera skemur en eitt ár.

    Nú hefur stjórnandi ökutækis áður brotið gegn ákvæðum 45. gr. eða neitað að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. og hann gerist sekur um eitthvert þessara brota og skal svipting ökuréttar þá vera eigi skemur en tvö ár. Ef bæði brotin varða við ákvæði 1., sbr. 3., mgr. 45. gr. eða 3. mgr. 47. gr. skal svipting þó eigi vera skemur en þrjú ár.
    

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    

A t h u g a s e m d i r v i ð l a g a f r u m v a r p þ e t t a.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til tvær breytingar á ákvæðum umferðarlaga, nr. 50/1987. Þessar breytingar eru lagðar til í kjölfar lögfestingar heimildar til að láta sönnun um ölvunarástand ökumanns ráðast af mælingu á lofti sem hann andar frá sér, sbr. 45. gr. laganna, svo sem því ákvæði var breytt með lögum nr. 48/1997.
    Breytingarnar eru þessar:
     1.      Sakarkostnaður. Við athugun á vínandamagni í blóði ökumanns sem grunaður er um akstur undir áhrifum áfengis er greitt sérstaklega fyrir töku blóðsýnis úr ökumanni og rannsókn á því. Þessi kostnaður hefur talist til sakarkostnaðar máls, sem sakborningi er gert að greiða verði hann fundinn sekur um akstur undir áhrifum áfengis, sbr. XIX. kafla laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Kostnaður við töku blóðsýnis er misjafn eftir aðstæðum í hverju tilviki, en liggur yfirleitt á bilinu frá 6.500 til 7.000 kr. Fyrirhugað er að innan skamms verði hafist handa við að kanna ölvunarástand ökumanna með mælingu á vínandamagni í lofti sem þeir anda frá sér. Tækjabúnaður til þessara mælinga verður í umsjá lögreglunnar. Fjárfesting í búnaði þessum og rekstur hans er kostnaðarsamur og má vænta þess að fyrst um sinn verði rannsókn með þessum hætti einkum bundin við höfuðborgarsvæðið og stærri byggðarlög. Til að standa straum af þeim kostnaði er lagt til að 6.500 kr. teljist til sakarkostnaðar, sem sakborningi verði gert að greiða ef hann er fundinn sekur um ölvunarakstur. Þessi ráðstöfun mun þó hvergi nærri hrökkva til greiðslu á þeim kostnaði ríkissjóðs, sem er samfara kaupum á nauðsynlegum tækjabúnaði og rekstri hans. Aftur á móti er höfð hliðsjón af útlögðum kostnaði vegna rannsóknar á vínandamagni í blóði. Þannig verður jafnræði milli ökumanna sem reynast aka undir áhrifum áfengis án tillits til þess hvort gerð er rannsókn á vínandamagni í blóði ökumanns eða öndunarsýni.
     2.      Rannsókn vegna ölvunaraksturs. Samkvæmt 3. mgr. 47. gr. umferðarlaga er ökumanni skylt að hlíta þeirri meðferð sem talin er nauðsynleg við rannsókn skv. 2. mgr. greinarinnar. Þær aðgerðir geta falist í rannsókn á öndunarsýni, blóð- eða þvagrannsókn eða læknisskoðun. Ef kanna á ölvunarástand ökumanns með mælingu á vínandamagni í lofti sem hann andar frá sér þarf hann að vera tilbúinn til samvinnu við lögreglu. Verður ökumaður að vera fús til að gefa öndunarsýni með blæstri í viðeigandi tækjabúnað og jafnframt þarf hann að vera fær um það þrátt fyrir ölvunarástand eða aðrar aðstæður. Ef ekki er unnt að kanna ölvunarástand ökumanns með mælingu á vínandamagni í öndunarsýni verður að færa ökumann til töku blóðsýnis. Fyrirhugað er að festa kaup á færanlegum tækjabúnaði til mælinga á vínandamagni í öndunarsýni. Má vænta þess að slíkur búnaður bæti umferðareftirlit, m.a. á fjölmennum samkomum á landsbyggðinni. Til að svo verði er hins vegar nauðsynlegt að ökumaður hindri ekki mælingu á vínandamagni í lofti sem hann andar frá sér, þannig að aka þurfi honum um lengri veg til töku blóðsýnis. Með frumvarpinu er því lagt til að viðurlög verði ákveðin við vanrækslu ökumanns á að veita atbeina sinn við rannsókn máls skv. 3. mgr. 47. gr. og varði það sviptingu ökuréttar. Er gert ráð fyrir að það brot eitt leiði til sömu sviptingar og brot á 1., sbr. 3., mgr. 45. gr. laganna og hafi einnig sömu áhrif og það brot við ítrekun. Verði frumvarp þetta að lögum er jafnframt gert ráð fyrir að í reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum verði mælt fyrir um sekt fyrir brot á 3. mgr. 47. gr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að 6.500 kr. teljist til sakarkostnaðar máls vegna töku og rannsóknar öndurnarsýnis og að sakborningi verði gert að greiða þann kostnað ef hann er fundin sekur um akstur undir áhrifum áfengis.

Um 2. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 102. gr. verði breytt þannig að neitun ökumanns á að veita atbeina sinn við rannsókn máls sem nauðsynleg er skv. 2. mgr. 47. gr., sbr. 3. mgr., varði sviptingu ökuréttar. Þannig yrði nauðsynlegt að beita þeim viðurlögum ef ökumaður hafnar því að láta í té öndunarsýni. Ökumaður kann eftir sem áður að vera færður til blóðtöku og frekari rannsóknar og sakfelldur fyrir ölvunarakstur. Ákvæði þetta á hins vegar ekki við ef nauðsynlegt er að færa ökumann til rannsóknar vegna þess að hann er ófær um að gefa öndunarsýni sökum ölvunar eða af öðrum ástæðum.
    Þá er lagt til að 2. mgr. 102. gr. verði breytt þannig að neitun ökumanns á að veita atbeina við rannsókn þessara mála varði sviptingu ökuréttar eigi skemur en í eitt ár. Þannig er þessi háttsemi lögð að jöfnu við brot á 1., sbr. 3., mgr. 45. gr. laganna.
    Loks er lagt til að 3. mgr. 102. gr. verði breytt þannig að neitun ökumanns á að veita atbeina við rannsókn hafi sömu áhrif varðandi ítrekun og þegar brotið er gegn 45. gr. laganna. Sama gildir ef annað brotið varðar við 45. gr. en hitt við 3. mgr. 47. gr. Skal svipting ökuréttar þá eigi vara skemur en tvö ár. Ef brotin varða hins vegar við 1., sbr. 3., mgr. 45. gr. eða 3. mgr. 47. gr., hvort heldur bæði brotin varða við annað þessara ákvæða eða annað við 1., sbr. 3., mgr. 45. gr. og hitt við 3. mgr. 47. gr., skal svipting eigi vera skemur en þrjú ár. Um skilyrði þess að brot hafi ítrekunaráhrif fer eftir 71. gr. almennra hegningarlaga.
         

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting
á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er veitt heimild til gjaldtöku vegna töku og rannsóknar öndunarsýna til könnunar á ölvunarástandi ökumanns. Gjaldtakan er sambærileg við gjald vegna töku og rann sóknar blóðsýna í sama tilgangi. Í gildandi umferðarlögum er heimild til töku þessara sýna og nokkur tæki hafa þegar verið keypt. Því er ekki talinn sérstakur kostnaðarauki af þessu ákvæði frumvarpsins og er lögregluembættum ætlað að standa undir þeim kostnaði sem til fellur innan núverandi fjárlagaramma.
    Í frumvarpinu er einnig heimild til að svipta ökumann ökuleyfi neiti hann samvinnu við lög reglu vegna töku öndunarsýna og hefur það ákvæði ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.