Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 772 – 445. mál.



Frumvarp til laga



um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra .

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



A. Grunnskólakennarar og stjórnendur grunnskóla.


I. KAFLI

Starfsheiti.

1. gr.

    Rétt til að nota starfsheitið grunnskólakennari og til að starfa sem slíkur hér á landi við grunnskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla, sbr. lög nr. 66/1995, um grunn skóla, hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra.

2. gr.

    Leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari skv. 1. gr. má aðeins veita þeim sem lokið hefur:
     1.      prófi frá Kennaraskóla Íslands;
     2.      B.Ed.-prófi eða hærri prófgráðu frá Kennaraháskóla Íslands eða Háskólanum á Akureyri;
     3.      BA-prófi, BS-prófi eða hærri prófgráðu frá Háskóla Íslands eða Háskólanum á Akureyri í kennslugrein sinni/kennslugreinum sínum ásamt fullgildu námi í kennslu- og uppeldis fræði til kennsluréttinda;
     4.      prófi frá tónmenntakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík;
     5.      prófi frá teiknikennaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands;
     6.      prófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands;
     7.      prófi frá Hússtjórnarkennaraskóla Íslands;
     8.      öðru jafngildu námi samkvæmt úrskurði matsnefndar, sbr. 4. gr., sem hefur það að markmiði að veita undirbúning til kennslu á grunnskólastigi.
    Heimilt er að meta kennslureynslu sem hluta af kennslufræði til kennsluréttinda samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

3. gr.

    Menntamálaráðherra skal staðfesta leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari sam kvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ef viðkomandi leggur fram vottorð um viðurkennd kennsluréttindi í ríki innan svæðisins í samræmi við skilyrði til skipunar 89/48/EBE, sbr. lög nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, með áorðnum breytingum.

4. gr.

    Leiki vafi á hvort umsækjandi um leyfi til þess að nota starfsheitið grunnskólakennari skv. 1. gr. fullnægi skilyrðum 2. gr. skal leita umsagnar matsnefndar sem menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Kennaraháskóla Íslands, einum fulltrúa tilnefndum af heildarsamtökum kennara og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
    Nám kennara skal metið í námseiningum og skal hver eining jafngilda námsvinnu einnar viku.
    Nánar skal kveðið á um starfshætti nefndarinnar í reglugerð.

II. KAFLI

Starfsréttindi og ráðningarreglur.

5. gr.

    Til þess að verða ráðinn eða skipaður kennari við grunnskóla skal umsækjandi hafa lokið námi skv. 2. gr. og öðlast leyfi menntamálaráðherra til þess að nota starfsheitið grunnskóla kennari skv. 1. gr.
    Kennari, sem hefur sérhæft sig til kennslu í tiltekinni grein, skal hafa forgang til kennslu í sinni grein/sínum greinum í 8.–10. bekk. Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar málsgreinar.

6. gr.

    Sveitarstjórn ræður og skipar kennara, aðstoðarskólastjóra og skólastjóra við grunnskóla.
    Heimilt er að skipa kennara sem starfað hefur í a.m.k. eitt ár við grunnskóla með góðum árangri að mati hlutaðeigandi skólastjóra og skólanefndar.
    Grunnskólakennari á rétt á fastráðningu með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti eftir tveggja ára starf nema verklok séu fyrir fram ákveðin. Heimilt er þó að ráða grunn skólakennara ótímabundið með þriggja mánaða uppsagnarfresti frá fyrsta degi ráðningar. Skólastjórar ráða stundakennara, sbr. 9. gr., með samþykki skólanefnda.

7. gr.

    Til þess að verða ráðinn skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri við grunnskóla skal umsækj andi hafa kennsluréttindi og kennslureynslu á grunnskólastigi.
    Heimilt er að skipa skólastjórnanda sem starfað hefur í a.m.k. tvö ár við grunnskóla, þar af eitt ár sem skólastjórnandi, með góðum árangri að mati hlutaðeigandi skólanefndar og sveitarstjórnar.
    Við ráðningu skólastjóra og aðstoðarskólastjóra skal tekið tillit til menntunar, kennslu ferils, stjórnunarreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjanda.

8. gr.

    Um ráðningu og skipun kennara og skólastjórnenda grunnskóla fer eftir ákvæðum laga þessara og laga nr. 66/1995, um grunnskóla, sbr. 2. gr. laga nr. 72/1996, um réttindi og skyld ur kennara og skólastjórnenda grunnskóla.
    Auglýsa skal öll laus kennslu- og stjórnunarstörf. Í auglýsingum skal m.a. tilgreina sérsvið, þ.e. aðalkennslugreinar og aldursstig nemenda. Nú er heimilt að ráða stundakennara skv. 9. gr. og getur skólastjóri þá ráðið grunnskólakennara án undangenginnar auglýsingar. Stefnt skal að því að ráðningar í stöður kennara og skólastjórnenda fari fram eigi síðar en 1. maí ár hvert.
    Sæki fleiri en einn kennari um sama starf og uppfylli allir umsækjendur þær kröfur sem gerðar eru skal við veitingu starfsins m.a. taka tillit til menntunar, kennsluferils, starfsaldurs, starfsreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjenda.
    Samband íslenskra sveitarfélaga skal setja leiðbeinandi reglur um umsóknareyðublöð og meðferð umsókna um kennslu- og stjórnunarstörf.

9. gr.

    Kennsla skal falin föstum kennurum eftir því sem við verður komið. Stundakennara má þó ráða:
     1.      ef um er að ræða minna en 1/ 3 hluta starfs;
     2.      til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga skemur en í tvo mánuði;
     3.      þann sem gegnir öðru launuðu aðalstarfi.
    Stundakennara skv. 1. og 3. tölul. skal ráða með ráðningarsamningi eigi lengur en til eins árs í senn með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti.

10. gr.

    Óheimilt er að ráða eða skipa aðra en þá sem uppfylla ákvæði laga þessara til kennslu við grunnskóla á vegum opinberra aðila eða hliðstæða skóla, sbr. lög nr. 66/1995, um grunnskóla.
    Nú sækir enginn grunnskólakennari samkvæmt lögum þessum um auglýst kennslustarf þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar og getur skólastjóri þá sótt um heimild til undanþágunefndar grunnskóla við menntamálaráðuneytið um að lausráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs í senn. Undanþágunefnd metur umsóknir og úr skurðar hvort heimila skuli að lausráða tiltekinn réttindalausan umsækjanda til kennslustarfa.
    Málsaðili getur skotið ákvörðun undanþágunefndar til menntamálaráðherra. Málskot til menntamálaráðherra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar undanþágunefndar.
    Ef hvorki skólastjóri né neinn skólanefndarmanna mælir með umsókn grunnskólakennara um kennslustarf getur skólastjóri þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. leitað til undanþágunefndar grunn skóla og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan starfsmann.
    Nú fæst heimild frá undanþágunefnd til að lausráða starfsmann skv. 2. eða 4. mgr. og skal hann þá ráðinn með sérstökum ráðningarsamningi til ákveðins tíma með þriggja mánaða gagn kvæmum uppsagnarfresti. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið grunnskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.
    Menntamálaráðherra skipar undanþágunefnd grunnskóla til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð þremur fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af heildarsamtökum kennara, einum fulltrúa tilnefndum sameiginlega af Kennaraháskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
    Starfsreglur undanþágunefndar skal ákveða nánar í reglugerð.

B. Framhaldsskólakennarar og stjórnendur framhaldsskóla.


III. KAFLI

Starfsheiti.

11. gr.

    Rétt til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari og til að starfa sem slíkur hér á landi við framhaldsskóla, sbr. 1. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra. Í leyfisbréfi skal tilgreina kennslugrein eða sérsvið við komandi framhaldsskólakennara samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

12. gr.

    Leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari skv. 1l. gr. má aðeins veita þeim sem lokið hefur:
     1.      námi á háskólastigi sem veitir undirbúning til kennslu í faggrein eða á fagsviði framhaldsskóla og jafngildir a.m.k. 90 námseiningum ásamt fullgildum lokaprófum; þar af skulu eigi færri en 60 einingar vera í aðalgrein og 30 einingar í aukagrein; til viðbótar þessu námi komi 30 eininga nám í kennslufræði til kennsluréttinda;
     2.      námi á háskólastigi sem veitir undirbúning til kennslu í faggrein eða á fagsviði framhaldsskóla og jafngildir a.m.k. 120 námseiningum ásamt fullgildum lokaprófum; þar af skulu 60–90 einingar vera í aðalgrein og 30–60 einingar í aukagrein; til viðbótar þessu námi komi 15 eininga nám í kennslufræði til kennsluréttinda;
     3.      námi í tæknifræði eða meistaranámi í iðngrein; til viðbótar þessu námi komi 15 eininga nám í kennslufræði til kennsluréttinda, enda hafi viðkomandi starfsreynslu og hafi haft nema í samningsbundnu námi, annars komi 30 eininga nám í kennslufræði;
     4.      öðru fagnámi sem menntamálaráðuneytið viðurkennir og miðast við kennslu í framhaldsskóla ásamt 30 eininga námi í kennslufræði til kennsluréttinda;
     5.      öðru jafngildu námi samkvæmt úrskurði matsnefndar, sbr. 14. gr., sem hefur það að markmiði að veita undirbúning til kennslu á framhaldsskólastigi.
    Þeir sem lokið hafa námi frá Kennaraskóla Íslands fullnægja kröfum um nám í kennslu fræði til kennsluréttinda.
    Heimilt er að meta kennslureynslu sem hluta af kennslufræði til kennsluréttinda samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

13. gr.

    Menntamálaráðherra skal staðfesta leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ef viðkomandi leggur fram vottorð um viðurkennd kennsluréttindi í ríki innan svæðisins í samræmi við skil yrði tilskipunar 89/48/EBE, sbr. lög nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskír teinum, með áorðnum breytingum.

14. gr.

    Leiki vafi á hvort umsækjandi um leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari skv. 11. gr. fullnægi skilyrðum 12. gr. skal leita umsagnar matsnefndar sem menntamálaráð herra skipar til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Háskóla Íslands, einum fulltrúa tilnefndum af heildarsamtökum kennara og einum fulltrúa án tilnefn ingar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
    Nám kennara skal metið í námseiningum og skal hver eining jafngilda námsvinnu einnar viku.
    Nánar skal kveðið á um starfshætti nefndarinnar í reglugerð.

IV. KAFLI

Starfsréttindi og ráðningarreglur.

15. gr.

    Til þess að verða ráðinn til kennslu í framhaldsskóla skal umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið framhaldsskólakennari. Miða skal við að framhaldsskólakennari kenni þær greinar eða á því sviði sem hann er menntaður á, sbr. ákvæði 11. og 12. gr.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er skólameistara heimilt að ráða sérfræðing tímabundið til að kenna sína sérgrein enda sé aðeins um að ræða kennslu sem nemur sex kennslustundum eða minna á viku.
    Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar, þar með talið um mat á menntun til kennslu í sérgreinum framhaldsskóla.

16. gr.

    Framhaldsskólakennarar skulu ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnar fresti. Skal sá frestur vera þrír mánuðir að loknum reynslutíma, nema um annað sé samið í kjarasamningi.
    Heimilt er þó að ráða framhaldsskólakennara til starfa tímabundið og er unnt að taka fram í ráðningarsamningi að segja megi slíkum samningi upp af hálfu annars hvors aðila áður en ráðning fellur sjálfkrafa úr gildi við lok samningstíma. Tímabundin ráðning skal þó aldrei vara samfellt lengur en tvö ár.

17. gr.

    Við ráðningu í stjórnunarstörf við framhaldsskóla skal umsækjandi hafa kennsluréttindi. Tekið skal tillit til menntunar, kennsluferils, stjórnunarreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjanda.

18. gr.

    Um ráðningu skólastjórnenda og framhaldsskólakennara fer eftir ákvæðum laga þessara, laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, og laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Auglýsa skal öll laus kennslu- og stjórnunarstörf. Í auglýsingum skal tilgreina í hvaða kennslugrein/kennslugreinum eða á hvaða sérsviði eru lausar stöður eða störf. Heimilt er þó að ráða framhaldsskólakennara til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga og aðra sér fræðinga, sbr. 2. mgr. 15. gr., án undangenginnar auglýsingar.
    Stefnt skal að því að ráðningar í stöður kennara og skólastjórnenda fari fram eigi síðar en 1. maí ár hvert.
    Sæki fleiri en einn kennari um sama starf og uppfylli allir umsækjendur þær kröfur sem gerðar eru skal við veitingu starfsins m.a. taka tillit til menntunar, kennsluferils, starfsreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjanda.

19. gr.

    Kennsla skal falin föstum kennurum eftir því sem við verður komið. Stundakennara má þó ráða:
     1.      ef um er að ræða minna en 1/ 3 hluta starfs;
     2.      til tímabundinnar forfallakennslu eða afleysinga skemur en í tvo mánuði;
     3.      þann sem gegnir öðru aðalstarfi.
    Stundakennara skv. 1. og 3. tölul. skal ráða með ráðningarsamningi eigi lengur en til eins árs í senn með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti.

20. gr.

    Óheimilt er að ráða til kennslu við framhaldsskóla, sbr. 11. gr., aðra en þá sem uppfylla ákvæði laga þessara.
    Nú sækir enginn sem fullnægir ákvæðum þessara laga um auglýst kennslustarf þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar og getur skólameistari þá sótt um heimild til undanþágunefndar fram haldsskóla við menntamálaráðuneytið um að lausráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa til bráðabirgða, þó aldrei lengur en til eins árs í senn. Undanþágunefnd metur umsóknir og úr skurðar hvort heimila skuli að lausráða tiltekinn réttindalausan umsækjanda til kennslustarfa. Skólameistara er ekki skylt að leita til undanþágunefndar í slíkum tilvikum sé um að ræða kennslu sem nemur sex kennslustundum á viku eða minna, sbr. 15. gr.
    Málsaðili getur skotið ákvörðun undanþágunefndar til menntamálaráðherra. Málskot til menntamálaráðherra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar undanþágunefndar.
    Ef hvorki skólameistari né neinn skólanefndarmanna mælir með umsókn framhaldsskóla kennara um kennslustarf getur skólameistari þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. leitað til undanþágu nefndar framhaldsskóla og óskað eftir heimild nefndarinnar til að lausráða annan starfsmann sem hefur sérmenntun í auglýstri kennslugrein.
    Nú fæst heimild frá undanþágunefnd til að lausráða starfsmann skv. 2. eða 4. mgr. og skal hann þá ráðinn með sérstökum ráðningarsamningi til ákveðins tíma með þriggja mánaða gagn kvæmum uppsagnarfresti. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið framhaldsskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.
    Menntamálaráðherra skipar undanþágunefnd framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Nefnd in skal skipuð þremur fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af heildarsamtökum kennara, einum fulltrúa tilnefndum af Háskóla Íslands og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.
    Starfsreglur undanþágunefndar skal ákveða nánar í reglugerð.

21. gr.

    Ákvæði laga þessara taka ekki til kennslustarfa í listgreinum á framhaldsskólastigi.

22. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 48/1986.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þessa efnis var lagt fram á 121. löggjafarþingi en varð eigi útrætt. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju m.a. með þeirri breytingu að ákvæði varðandi skil sveitarstjórna til menntamálaráðuneytisins á upplýsingum um menntun grunnskólakennara er fellt niður í ljósi þess að kennaraskrá grunnskóla er ekki lengur í umsjá menntamálaráðuneytisins. Aðrar breyt ingar á frumvarpinu lúta að orðalagi eða tæknilegum atriðum.
    Í ákvæði til bráðabirgða með lögum nr. 48/1986 er kveðið á um endurskoðun laganna innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra. Lögin voru fyrst endurskoðuð árið 1990 og var þá lagt fram frumvarp á 113. löggjafarþingi sem hlaut ekki afgreiðslu.
    Við gerð frumvarpsins hefur verið tekið mið af því að kennaranám er unnt að stunda við Háskólann á Akureyri og höfð er hliðsjón af ákvæðum laga varðandi flutning grunnskóla til sveitarfélaga sem Alþingi samþykkti vorið 1996, svo og sérstökum samþykktum sem gerðar voru af sama tilefni.
    Undirbúningur að gerð frumvarps þessa fór fram í menntamálaráðuneytinu og síðan var efnt til viðræðna við fulltrúa kennarasamtakanna, þ.e. Hins íslenska kennarafélags og Kenn arasambands Íslands.
     1.      Frumvarpinu er skipt í hluta og fjallar fyrri hlutinn um grunnskóla og sá síðari um framhaldsskóla. Með þessu verða lögin aðgengilegri og framsetning skýrari en í gildandi lög um.
     2.      Með frumvarpinu er m.a. leitast við að leggja áherslu á þýðingu aukinnar fagmenntunar kennara. Þetta kemur fram í 5. gr. þar sem tekið er fram að kennari, sem hefur sérhæft sig til kennslu í tiltekinni grein, skuli hafa forgang til kennslu í sinni grein í 8.–10. bekk grunnskóla og í 15. gr. er miðað við að framhaldsskólakennari kenni þær greinar sem hann er menntaður til.
                  Einnig er tekið fram í 11. gr. að í leyfisbréfi framhaldsskólakennara skuli tilgreina kennslugrein eða sérsvið þeirra samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
                  Þá kemur fram í 12. gr. frumvarpsins að framhaldsskólakennari, sem hefur aflað sér fagmenntunar sem er verulega umfram það lágmark sem frumvarpið gerir ráð fyrir sem almennri reglu, þurfi aðeins að taka 15 einingar í kennslufræði. Lagt er til að sama gildi um kennara í iðngreinum, að uppfylltum vissum skilyrðum, en margir þeirra koma beint úr atvinnulífinu og búa yfir dýrmætri reynslu sem skólakerfinu er nauðsynleg.
     3.      Kveðið er á um að próf frá Kennaraskóla Íslands sé fullnægjandi undirbúningur í kennslufræði fyrir framhaldsskólakennara. Til þessa hefur þetta próf aðeins gefið 15 ein ingar af 30 sem krafist hefur verið til kennsluréttinda við framhaldsskóla. Allmargir kennarar munu fá réttindi til kennslu við framhaldsskóla samkvæmt þessu ákvæði.
     4.      Í 2. og 12. gr. frumvarpsins er kveðið á um að heimilt sé að meta kennslureynslu sem hluta af kennslufræði til kennsluréttinda samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð og er þetta nýmæli.
     5.      Í frumvarpinu eru ákvæði þess efnis að menntamálaráðherra skuli staðfesta leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari eða framhaldsskólakennari samkvæmt umsókn ríkis borgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Er þetta í samræmi við tilskipun 89/48/EBE sem felld var inn í íslenskt lagakerfi með lögum nr. 83/1993, um viðurkenn ingu á menntun og prófskírteinum, með áorðnum breytingum.
     6.      Í 7. gr. gildandi laga er kveðið á um menntun kennara við tiltekna sérskóla og í tilteknu sérnámi. Þessi upptalning er felld brott, sjá 15. gr. frumvarpsins, og í staðinn er lagt til að kveðið verði á um þessi atriði í reglugerð. Þessi breyting er nauðsynleg vegna örrar þróunar á vinnumarkaði og þar af leiðandi breytilegra krafna til skólakerfisins hvað varð ar námsframboð.
     7.      Ákvæði laganna um matsnefndir, sbr. 4. og 14. gr., eru einfölduð. Ákvæði um starfshætti nefndanna eru felld brott og er lagt til að kveðið verði á um þessi atriði í reglugerð.
     8.      Í 15. gr. frumvarpsins er kveðið á um að skólameistara sé heimilt að ráða sérfræðing tímabundið til að kenna sína sérgrein án þess að viðkomandi hafi öðlast heimild til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari. Þessi heimild miðast við að um sé að ræða kennslu sem nemur sex kennslustundum á viku eða minna. Hér er um nýmæli að ræða sem gerir skólameisturum kleift að ráða til starfa sérfræðinga sem ekki hafa kennslu sem aðal starf en þetta getur skipt miklu máli varðandi tengsl atvinnulífs og framhaldsskóla.
     9.      Í 21. gr. frumvarpsins er kveðið á um að lögin taki ekki til kennslu í listgreinum á framhaldsskólastigi. Þetta er gert til þess að auðvelda framhaldsskólum að fá til starfa viður kennda listamenn en það er vandkvæðum bundið samkvæmt gildandi lögum.
     10.      Ákvæði um undanþágunefndir hafa verið endurskoðuð í ljósi stjórnsýslulaga og staða nefndanna sem lægra settra stjórnvalda gerð skýrari. Hlutverk þeirra er eftir sem áður að fjalla um heimild til ráðningar þegar enginn umsækjandi uppfyllir skilyrði laganna um menntun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæðið er óbreytt nema hvað vísað er til laga nr. 66/1995, um grunnskóla.

Um 2. gr.


    Breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á gildandi lögum, eru þessar:
     1.      Þar sem kennaranám hefur verið tekið upp við Háskólann á Akureyri er þeirri stofnun bætt við í efni 2. og 3. tölul.
     2.      Í 8. tölul. er bætt inn ákvæði um að námið skuli hafa það að markmiði að búa viðkomandi undir kennslu á grunnskólastigi.
     3.      Þá er og gert ráð fyrir að meta megi kennslureynslu sem hluta af kennslufræði til kennsluréttinda samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

Um 3. gr.


    Greinin er ný og fjallar um ríkisborgara innan Evrópska efnahagssvæðisins sem hafa aflað sér kennsluréttinda sem viðurkennd eru í einhverju ríki innan svæðisins, sbr. lög nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, með áorðnum breytingum. Þetta felur í sér að þeir hafa jafna stöðu og íslenskir ríkisborgarar til þess að sækja um kennslustarf hér á landi.

Um 4. gr.


    Í gildandi lögum er kveðið á um að matsnefnd skuli úrskurða um rétt kennara til að nota starfsheitið grunnskólakennari þegar um vafatilvik er að ræða. Hér er lagt til að nefndin veiti umsögn um leyfisveitingu en að lokaákvörðun verði tekin af menntamálaráðherra.
    Nokkur atriði, er varða starfshætti nefndarinnar, eru felld út og gert ráð fyrir að þau komi í reglugerð.

Um 5. gr.


    Greinin kveður á um skilyrði þess að verða ráðinn eða skipaður kennari við grunnskóla, en hliðstæð ákvæði er að finna í 4. gr. gildandi laga. Hér er þó lagt til að upptalning á mennt unargráðum verði felld út sem skilyrði ráðningar eða skipunar og þess í stað vísað til almennra menntunarskilyrða í 2. gr. Einnig eru felld út ákvæði í 4. gr. gildandi laga um skilyrði þess að vera skipaður eða ráðinn sérkennari við sérskóla eða sérdeildir grunnskóla þar sem þessar deildir og skólar eru hluti af almennum grunnskóla.
    Ákvæði 2. mgr. er nýmæli. Er ákvæðinu ætlað að stuðla að því að kennarar kenni fyrst og fremst þær greinar sem þeir hafa sérhæft sig í. Gert er ráð fyrir að í reglugerð verði kveðið nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.

Um 6. gr.


    Ákvæðum um ráðningu og skipun kennara er breytt til samræmis við lög nr. 66/1995, um grunnskóla, sbr. b-lið 1. mgr. 57 gr. laganna sem og tillögur réttindanefndar vegna flutnings grunnskóla til sveitarfélaga, sbr. fylgiskjal II með frumvarpi til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, samþykkt sem lög nr. 72/1996.

Um 7. gr.


    Greinin fjallar um ráðningu skólastjóra og aðstoðarskólastjóra við grunnskóla og er efnis lega samhljóða ákvæðum 9. gr. gildandi laga. Hér er lagt til að við ráðningu skólastjóra verði tekið tillit til menntunar, kennslureynslu og stjórnunarreynslu líkt og gert hefur verið við ráðningu kennara, sbr. 5. mgr. 11. gr. gildandi laga.

Um 8. gr.


    Í 1. mgr. er vísað til þeirra laga sem gilda um ráðningu og skipun kennara og skólastjórn enda við grunnskóla.
    Í 2. mgr. er miðað við að ráðningum kennara og skólastjórnenda skuli lokið eigi síðar en 1. maí ár hvert. Þetta ákvæði er sett til þess að tryggja betur að gengið sé frá öllum ráðningum það tímanlega að þær trufli ekki undirbúning næsta skólaárs.
    3. mgr. er samhljóða 5. mgr. 11. gr. gildandi laga.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að Samband íslenskra sveitarfélaga skuli setja leiðbeinandi reglur um umsóknareyðublöð og meðferð umsókna um kennslu- og stjórnunarstörf.

Um 9. gr.


    Greinin á samstöðu með 12. gr. gildandi laga en hefur verið breytt þannig að a-liður er felldur brott þar eð hann á ekki lengur við. Aðrar breytingar eru gerðar í samræmi við reglur fjármálaráðuneytis, Kennarasambands Íslands og Hins íslenska kennarafélags um greiðslur til stundakennara/leiðbeinenda á föstum mánaðarlaunum, undirritaðar 22. júlí 1993, sbr. við auka 3 með kjarasamningi þessara aðila frá 1. mars 1995.

Um 10. gr.


    Greinin er í stórum dráttum óbreytt.
    Í 1. mgr. eru felld út ákvæði um sérdeildir og skóla fyrir börn með sérþarfir þar sem sér deildir og sérskólar eru hluti af hinum almenna grunnskóla.
    Ákvæði um undanþágunefnd eru endurskoðuð í ljósi stjórnsýslulaga og staða nefndarinnar sem lægra setts stjórnvalds gerð skýrari. Hlutverk nefndarinnar er eftir sem áður að fjalla um heimild til ráðningar þegar enginn umsækjandi uppfyllir skilyrði laganna um menntun, eða hvorki skólastjóri né neinn skólanefndarmanna treysta sér til þess að mæla með grunnskóla kennara.
    Skýrt er tekið fram að málsaðilum ber að hlíta ákvörðun undanþágunefndar þrátt fyrir mál skot.

Um 11. gr.


    Í greininni er það nýmæli að í leyfisbréfi skal tilgreina kennslugrein eða sérsvið viðkom andi framhaldsskólakennara. Með ákvæði þessu er lögð áhersla á mikilvægi sérmenntunar framhaldsskólakennara og að sú sérþekking nýtist til kennslu.

Um 12. gr.


    Leitast er við að kveða skýrar á um þá menntum sem krafist er til kennsluréttinda en gert er í gildandi lögum, auk þess sem lögð er áhersla á aukna fagmenntun kennara og kennslu reynslu. Helstu áherslur og breytingar eru þessar:
    Kveðið er á um að nám kennara skuli veita undirbúning til kennslu í faggrein eða á sérsviði á framhaldsskólastigi.
    Í 2. tölul. er kveðið á um að þeir sem lokið hafa a.m.k. 120 eininga háskólanámi og þar af 60–90 einingum í aðalgrein og 30–60 einingum í aukagrein þurfi að ljúka 15 eininga námi í kennslufræði til kennsluréttinda í stað 30 áður.
    Í 3. tölul. er kveðið á um að þeir sem lokið hafa námi í tæknifræði eða meistaranámi í iðn grein skuli auk þess ljúka 15 eininga námi í kennslufræði til kennsluréttinda í stað 30 eininga áður. Þessi breyting er gerð til þess að auðvelda samskipti milli atvinnulífs og skóla og tekur til þeirra sem búa yfir mikilli sérþekkingu á tilteknu sviði, hafa auk þessa verulega starfs reynslu og/eða hafa haft nema í samningsbundnu námi. Að teknu tilliti til þessara þátta er talið raunhæfast að þessum kennurum verði gert að taka fyrst og fremst þá þætti kennslufræðinnar sem lúta beint að kennslustarfinu samkvæmt nánari skilgreiningu. Þeir sem ekki uppfylla þessi skilyrði verða að taka 30 einingar í kennslufræði.
    Bætt er inn ákvæði um að þeir sem luku námi frá Kennaraskóla Íslands fullnægi skilyrðum um nám í kennslufræði.
    Þá er kveðið á um að heimilt sé að meta kennslureynslu sem hluta af kennslufræði sam kvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Einnig er gert ráð fyrir að með reglugerð verði sett ítar legri ákvæði um menntunarkröfur í sérhæfðu námi, svo sem vélstjórnarnámi og skipstjórnar námi.

Um 13. gr.


    Greinin er ný og fjallar um ríkisborgara innan Evrópska efnahagssvæðisins sem hafa aflað sér kennsluréttinda sem viðurkennd eru í einhverju ríki innan svæðisins, sbr. lög nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, með áorðnum breytingum. Í þessu felst að þeir hafa jafna stöðu og íslenskir ríkisborgarar til þess að sækja um kennslustarf hér á landi.

Um 14. gr.


    Í gildandi lögum er kveðið á um að matsnefnd skuli úrskurða um rétt kennara til að nota starfsheitið grunnskólakennari þegar um vafatilvik er að ræða. Hér er lagt til að nefndin veiti umsögn um leyfisveitingu en lokaákvörðun verði tekin af menntamálaráðherra.
    Nokkur atriði er varða starfshætti nefndarinnar eru felld út og gert ráð fyrir að þau komi í reglugerð.

Um 15. gr.


    Þar sem ákvæði framhaldsskólalaga um skipun kennara og skólastjórnenda breyttust með hliðsjón af lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þannig að skipun þeirra var afnumin, sbr. það sem segir í almennum athugasemdum, hefur ráðningarreglum gildandi laga verið breytt í samræmi við það.
    Í sömu málsgrein er kveðið á um að framhaldsskólakennari skuli fyrst og fremst kenna þær greinar sem hann hefur sérhæft sig í.
    Í 2. mgr. er ákvæði þess efnis að skólameistara sé heimilt að ráða sérfræðing til kennslu tímabundið án þess að hann uppfylli skilyrði um menntun í kennslufræði enda sé um að ræða kennslu sem nemur sex kennslustundum á viku að hámarki. Hér er um nýmæli að ræða.
    Gert er ráð fyrir að menntamálaráðherra setji reglugerð um framkvæmd greinarinnar. Felld er brott upptalning á menntunarkröfum til kennslu í sérhæfðu námi sem eru í 7. gr. gildandi laga, en gert ráð fyrir að hliðstæð ákvæði verði sett í reglugerð. Við ráðningu vísast til al mennra menntunarskilyrða í 12. gr.

Um 16. gr.


    Greinin tekur mið af efni 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkis ins.

Um 17. gr.


    Greinin er hliðstæð 9. og 11. gr. gildandi laga. Ekki er um efnisbreytingar að ræða en kveð ið er á um að taka eigi tillit til menntunar, kennslureynslu, stjórnunarreynslu og umsagna, líkt og gert hefur verið við ráðningu í kennslustörf.

Um 18. gr.


    Í 1. mgr. er vísað til þeirra laga sem gilda um ráðningu kennara og skipun skólastjórnenda við framhaldsskóla.
    Í 3. mgr. er miðað við að ráðningum kennara og skólastjórnenda skuli lokið eigi síðar en 1. maí ár hvert. Þetta ákvæði er sett til þess að tryggja betur að gengið sé frá öllum ráðningum það tímanlega að þær trufli ekki undirbúning næsta skólaárs.

Um 19. gr.


    Sjá athugasemdir við 9. gr.

Um 20. gr.


    Sjá athugasemdir við 10. gr.
    Nýmæli er að skólameistara er ekki skylt að leita til undanþágunefndar ef um er að ræða kennslu sem nemur sex kennslustundum á viku að hámarki.

Um 21. gr.


    Ákvæði þetta er sett inn til þess að greiða fyrir því að viðurkenndir listamenn á viðkomandi sviði fáist til kennslu í listgreinum á framhaldsskólastigi.

Um 22. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.

    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögverndun starfsheita og starfsréttinda kennara og skólastjóra í samræmi við reynslu af framkvæmd gildandi laga og breyttri löggjöf á síðustu árum.
    Að því er séð verður mun frumvarpið hafa óveruleg áhrif á kostnað ríkissjóðs. Ástæða er til að nefna tvennt. Annars vegar að lagt er til að meta megi kennslureynslu sem hluta af kennslufræði til réttinda og að dregið verði úr kröfum um að kennarar framhaldsskóla hafi lokið námi í uppeldisfræðum til kennsluréttinda. Hins vegar er gert ráð fyrir að erindum til mats- og úrskurðarnefnda geti fækkað, sérstaklega þeirra nefnda sem fjalla um framhalds skólann.