Ferill 401. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 796 – 401. mál.



Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um útboðsskilmála í vegagerð.

     1.      Hvaða reglur hafa gilt um fjárhag, veltu og skil á opinberum gjöldum hjá fyrirtækjum sem valin hafa verið til verktöku í vegagerð á sl. fimm árum í ljósi almennra útboðs- og samningsskilmála ÍST 30:1997 um verkframkvæmdir með sérskilmálum sem gilda m.a. fyrir útboð á vegaframkvæmdum (kafli 7.5(b) og 7.5.1)? Er gerð krafa um ákveðið eiginfjár- eða lausafjárhlutfall? Ef svo er, hvaða viðmiðanir eru notaðar? Er gert að skilyrði við tilboðsgerð að verktaki sé ekki í vanskilum með opinber gjöld?
    Samkvæmt grein 7.5.2 í ÍST 30 með sérskilmálum Vegagerðarinnar frá 1. júní 1990 var Vegagerðinni heimilt að óska eftir staðfestum upplýsingum um fjárhag og veltu þeirra fyrir tækja, sem til greina kom að semja við, þar með taldar upplýsingar um greiðslu opinberra gjalda ásamt yfirlýsingu viðskiptabanka bjóðanda um viðskipti hans. Jafnframt var yfirleitt nánar tiltekið í útboðslýsingum hvaða gagna yrði krafist af þeim bjóðendum sem til greina kæmu.
    Á árinu 1993 var ákveðið að krefjast þess að verktaki skyldi leggja fram, áður en gengið yrði til samninga um útboðsverk, skriflega yfirlýsingu frá innheimtuaðilum ríkis- og sveit arfélaga þess efnis að hann væri ekki í vanskilum með opinber gjöld.
    ÍST 30 með sérskilmálum Vegagerðarinnar voru endurskoðaðir og endurútgefnir 1. júlí 1997 í samvinnu við Flugmálastjórn og Siglingastofnun. Var þá hert á ákvæðum um upplýs ingaskyldu bjóðenda og er nú tiltekið í grein 7.5(b) eftir hverju verður gengið hjá þeim bjóð endum sem til greina kemur að ganga til samninga við, en það eru í fyrsta lagi ársreikningar síðastliðinna tveggja ára, í öðru lagi yfirlýsing viðskiptabanka bjóðanda um viðskipti hans og í þriðja lagi skrifleg yfirlýsing frá innheimtuaðilum ríkis og viðkomandi sveitarfélags þess efnis að bjóðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld. Þá segir í grein 7.5.1 að við val á verktaka muni verkkaupi taka mið af fyrri verkum verktaka og fjárhagsstöðu. Skilyrði er að hann sé ekki í vanskilum með nein opinber gjöld og æskilegt að hann hafi unnið sambærileg verk fyrir verkkaupa eða aðra aðila.
    Hagdeild vegagerðarinnar fær framangreind gögn frá bjóðendum til umfjöllunar og leggur mat á fjárhagsstöðu þeirra. Er þá m.a. litið til veltu, lausafjárstöðu og eiginfjárstöðu. Ekki er gerð krafa um ákveðið eiginfjár- og lausafjárhlutfall en þau atriði skoðuð með hliðsjón af öðrum atriðum, svo sem stærð verks og reynslu og tæknilegri getu verktaka. Áður en geng ið er til samninga er gert að skilyrði, sbr. framanritað, að verktaki sé ekki í vanskilum með opinber gjöld. Athygli er vakin á því að skilyrt er að hann sé ekki í vanskilum en hins vegar getur verið um skuld að ræða við opinbera aðila.

     2.      Er hægt með breyttum samningsskilmálum að skilyrða greiðslur til verktaka því að þeir standi í skilum við undirverktaka sína eða herða kröfur um viðunandi fjárhags stöðu verktakafyrirtækja sem gengið er til samninga við um vegaframkvæmdir?
    Undanfarin ár hafa farið fram umræður um hvernig tryggja megi hag undirverktaka gagn vart aðalverktökum, enda mörg dæmi um að undirverktakar hafi borið skarðan hlut frá borði í slíkum viðskiptum. Niðurstaða þessarar umræðu hefur orðið sú í aðalatriðum að þessir aðilar verði að bera ábyrgð á samningum sínum innbyrðis og að ekki sé eðlilegt að verkkaupi setji þar fram leikreglur eða skilyrði. Þó er reynt í ÍST 30 með sérskilmálum Flugmálastjórn ar, Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar að veita leiðbeinandi aðhald varðandi þessi sam skipti en þar segir í grein 12.1.3: „Óski undirverktaki greiðsluábyrgðar er aðalverktaka skylt að veita slíka ábyrgð, enda leggi þá undirverktaki fram tryggingu fyrir því að hann muni ljúka verki. Óski aðalverktaki eftir slíkri tryggingu skal undirverktaki leggja hana fram, enda útvegi aðalverktaki þá greiðsluábyrgð.“
    Vissulega er unnt að herða kröfur um fjárhagsstöðu verktakafyrirtækja sem gengið er til samninga við um vegaframkvæmdir, en hafa ber í huga að auknar kröfur til bjóðenda leiða til hærri tilboða og skerða samkeppni. Vegagerðin gerir kröfu til þess að verktaki sem samið er við leggi fram verktryggingu sem nemi 15% af samningsfjárhæð. Tryggingar þessar eru oftast bankatryggingar eða tryggingar útgefnar af tryggingafélögum. Því fær Vegagerðin yfirleitt tjón sitt bætt ef um vanefndir vektaka eða gjaldþrot er að ræða, þ.e. þá er gengið að þessum ábyrgðaraðilum. Þykir því nær þeim standa að leggja mat á þau fyrirtæki sem til þeirra leita með ábyrgðarumsóknir, en því miður virðist vera misbrestur á að þar fari fram raunhæft mat á fjárhagslegri stöðu verktakafyrirtækja, áður en ábyrgðir eru veittar.