Ferill 473. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 902 – 473. mál.



Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar og Margrétar Frímannsdóttur um stuðn ing Íslands við hugsanlegar loftárásir á Írak og afnot af íslenskum mannvirkjum.

     1.      Er ráðherra tilbúinn að axla fyrir hönd íslensku þjóðarinnar þá meðábyrgð sem kynni að skapast vegna loftárása á írösku þjóðina sem yllu enn frekari þjáningum ein staklinga og saklausra borgara, þar með talið barna?
    Frá því að fyrirspurnin kom fram hefur dregið, a.m.k. tímabundið, úr spennu í samskiptum Sameinuðu þjóðanna og Írak. Öryggisráðið hefur samþykkt að hækka þá upphæð sem Írak má afla með olíusölu á sex mánaða tímabili úr tveimur milljörðum Bandaríkjadala í 5,2 milljarða. Sem kunnugt er tókst framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, á elleftu stundu að gera samkomulag við írösk stjórnvöld sem fól það í sér að ekki yrði gripið til árása á Írak í því skyni að knýja Íraka til að virða ályktanir öryggisráðsins. Framkvæmda stjórinn setti sér tvö markmið fyrir ferðina til Írak, þ.e. að tryggja að Írakar hlíti í einu og öllu ályktunum öryggisráðsins um vopnaleit og skoðun í landinu og undanbragðalausa sam vinnu við eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna (UNSCOM). Ef ríkisstjórn Íraks fer í einu og öllu eftir samkomulaginu sem gert var sl. sunnudag þarf ekki að koma til loftárása.
    Utanríkisráðherra ber ábyrgð á starfi Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og hefur ekki í hyggju að víkja sér undan þeirri ábyrgð.

     2.      Telur ráðherra rétt að beita hervaldi gegn öllum ríkjum sem neita að framfylgja samþykktum öryggisráðsins?
    Ísland er hlynnt því að öll ríki leysi ágreining sín í millum með friðsamlegum samningum.
    Hafa skal hugfast að viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna á Írak hefur verið í gildi síðan 1991. Viðskiptabannið var sett á í því skyni að knýja írösk stjórnvöld til að virða ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og heimila vopnaleit og skoðun svo að heimsbyggðin gæti fullvissað sig um að Saddam Hussein stæði ekki að framleiðslu gereyðingarvopna sem hann hefur meðal annars beitt gegn eigin þegnum. Hótun um beitingu hervalds gegn Írak er ekki fyrstu viðbrögð Sameinuðu þjóðanna heldur eins konar neyðarúrræði þegar aðrar friðsam legar leiðir, þar á meðal samningaleiðin, hafa verið reyndar til þrautar.

     3.      Til hvaða refsiaðgerða telur ráðherra rétt að grípa gegn þeim ríkjum sem brjóta gegn samþykktum öryggisráðsins?
    Refsiaðgerðir eru ætíð óyndisúrræði. Mikilvægt er að átta sig á að slíkar aðgerðir örygg isráðsins byggjast ekki á sjálfstæðum ákvörðunum einstakra ríkja heldur stofnskrá Samein uðu þjóðanna. Mælt er fyrir um aðgerðir vegna ófriðarhættu, friðrofa og árása í VII. kafla stofnskrárinnar.

     4.      Hvaða ríki hafa neitað að hlíta samþykktum öryggisráðsins?
    Refsiaðgerðir öryggisráðsins eru nú í gildi gagnvart Írak, Sierra Leone, Angóla, Súdan og Líbýu. Ekki er kunnugt um að nokkurt ríki hafi neitað að framfylgja þessum refsiaðgerð um.

     5.      Telur ríkisstjórn Íslands að Bandaríkjamönnum sé heimilt að meta án samráðs og heimildar Sameinuðu þjóðanna undir hvaða kringumstæðum þeir ráðast með vopna valdi á Írak?
    Full samstaða er um það innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna að Írökum beri að virða viðeigandi ályktanir þess í einu og öllu. Aðildarríkin greinir ekki á um að Írakar hafi brotið gegn þessum ályktunum. Full samstaða er hins vegar ekki um viðbrögð við vanefndum Íraka.
    Af hálfu Bandaríkjanna er litið svo á að Írakar hafi brotið gegn vopnahlésskilmálum frá 1991 og því séu loftárásir eðlilegt framhald af aðgerðum þeirra í Flóabardaga, sjái Írakar ekki að sér. Bandarísk stjórnvöld hafa kynnt öryggisráðinu, Arabaríkjunum og öðrum sam starfsríkjum rækilega þessi sjónarmið og hafa þau hlotið umtalsverðan stuðning þótt ekki sé um þau full samstaða. Ef Bandaríkin hefðu talið sig geta beitt vopnavaldi gegn Írak án sam ráðs við önnur ríki sem sæti eiga í ráðinu hefðu þau ekki beðið útkomu ferðar framkvæmda stjóra Sameinuðu þjóðanna eða niðurstaðna úr samningaviðræðum fulltrúa Rússlands og Frakklands sem hafa reynt að miðla málum.

     6.      Hvað er það sérstaklega sem ríkisstjórnin telur óhjákvæmilegt að sprengja í Írak og hvað ekki, hversu lengi og hvað á svo að taka við?
    Markmið sprengjuárása yrði hið sama og markmið eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna, að koma í veg fyrir eða eyða búnaði sem gerir Írökum kleift að framleiða lífefna- og eitur vopn. Íslensk stjórnvöld eru ekki í aðstöðu til að meta á hertæknilegan hátt hvernig sprengju árásir, ef til þeirra kemur, skuli útfærðar.