Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 935 – 550. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um Argos-staðsetningartæki til leitar og björgunar.

Flm.: Ólafur Örn Haraldsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að finna leiðir til þess að auka og auðvelda notkun Argos-staðsetningartækja meðal þeirra sem ferðast um hálendi Íslands og auðvelda þannig leit og aðstoð við þá sem týnast eða þurfa á hjálp að halda.

Greinargerð.


    Ferðalög um hálendi Íslands aukast ár frá ári og eru ferðir við erfiðar aðstæður æ algeng ari, svo sem að vetri til. Þeim sem leggja í slíkar ferðir getur verið hætta búin vegna þess hve veður eru válynd og torleiði mikið í óbyggðum. Alloft þarf að fá fjölmennt lið og búnað björgunarsveita, Landhelgisgæslu, lögreglu, slökkviliðs o.fl. til björgunar. Eins og vera ber er þá ekkert til sparað til að bjarga lífi og heilsu þeirra sem týnst hafa á fjöllum.
    Argos-staðsetningartækið hefur valdið byltingu í átt til aukins öryggis og auðveldari og ódýrari leitar að týndu fólki. Tækið sendir stöðugt út merki um hvar það er statt og segir þannig til um staðsetningu þess sem það ber. Merkið frá Argos-tækinu berst til gervihnatta og þaðan um alþjóðlegt kerfi til móttökustöðvar hjá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Þannig er hægt að fylgjast nákvæmlega með ferðum þess sem tækið ber og vita nákvæmlega hvar hann er staddur ef hann þarf á björgun eða aðstoð að halda. Tækið er þar að auki búið sérstakri merkjasendingu með 16 möguleikum sem sendandinn getur notað til þess að segja til um hvers hann óskar. Hann getur þannig gefið til kynna hvort um bráðan háska er að ræða og björgunar sé óskað strax eða hvort vandinn er minni háttar og aðeins er óskað eftir minni háttar aðstoð vegna bilana á búnaði o.s.frv. Einn augljós kostur tækisins er að ekki þarf að biðja um leit þó að ferðamaðurinn tefjist án þess að vera í nokkrum vanda staddur. Með ein faldri merkjasendingu getur hann gefið merki um slíka óvænta en hættulausa töf.
    Argos-kerfið hefur verið í notkun hérlendis í fjögur ár og hefur þegar orðið til þess að bjarga lífi fólks á hálendinu og um leið komið í veg fyrir umfangsmiklar og kostnaðarsamar leitir. Að undanförnu hafa ferðamenn í vanda tvívegis notað tækið til þess að kalla eftir hjálp. Hægt hefur verið að koma þeim samstundis til bjargar og ganga að dvalarstað þeirra með lágmarksfyrirhöfn og kostnaði.
    Uppsetning og fjárfesting við Argos-kerfið hér á landi hefur verið um 6 milljónir króna og auk þess er rekstrarkostnaður kerfisins allnokkur vegna afnotagjalda og leigu á gervi hnattasambandi. Þá þarf einnig að greiða sérstakt gjald, sem þó er lágt, af hverju tæki sem ferðamaður tekur með sér. Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík hefur borið þennan kostnað. Það eru hins vegar augljósir hagsmunir allra sem að öryggismálum og björgunarmálum vinna að sem flestir noti Argos-tækið í ferðum þar sem búast má við töfum, erfiðleikum eða hættu. Nægir í því sambandi að benda á þá hagsmuni sem felast í færri og markvissari útköllum á þyrlum Landhelgisgæslunnar. Láta mun nærri að rekstrarkostnaður kerfisins á einu ári nemi kostnaði af einu útkalli stóru þyrlunnar í eina umfangsmikla leit. Þá er ótalinn allur beinn og óbeinn kostnaður björgunarsveita og einstaklinga sem af mikilli ósérhlífni inna af hendi sjálfboðaliðastarf og leggja fram dýr tæki.
    Nauðsynlegt og eðlilegt er að ríkisvaldið leggi sitt af mörkum til þess að auka notkun Argos-tækjanna. Með því er öryggi þegnanna aukið og um leið sparað fé, fyrirhöfn og áhyggjur.