Ferill 642. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1105 – 642. mál.



Frumvarp til laga



um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum .

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    Ákvæði 5. gr. laga nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, gilda ekki um úthlutun veiðiheimilda úr norsk-íslenska síldarstofninum.

2. gr.

    Á árunum 1998, 1999 og 2000 skulu eftirfarandi reglur gilda um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum:
     a.      Allar veiðar eru óheimilar án sérstaks leyfis Fiskistofu. Fiskistofu er aðeins heimilt að veita þeim skipum leyfi til síldveiði sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðiland helgi Íslands.
     b.      Skipta skal a.m.k. 90% af þeim árlegu heildarveiðiheimildum sem í hlut Íslands koma milli þeirra skipa sem veiðar stunduðu úr norsk-íslenska síldarstofninum á árunum 1995, 1996 og 1997 eða komið hafa í þeirra stað, þannig að 60% sé skipt milli þeirra miðað við burðargetu þeirra en 40% skal skipt jafnt. Allt að 10% af árlegum heildarveiðiheimildum skal skipt milli annarra skipa á grundvelli reglna sem ráðherra setur, þó þannig að aldrei komi meira magn í hlut hvers skips en sem nemur 25% af meðaltalsaflahámarki skv. 1. málsl. þessa stafliðar.
     c.      Innan hvers árs er heimilt að framselja ákveðinn hluta árlegs aflahámarks hvers skips miðað við aflareynslu þess við veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á þremur síðustu vertíðum og leyfilegan heildarafla hvers árs. Skal það magn, sem heimilt er að framselja, nema 50% af sama hlutfalli heildarveiðiheimilda og nam hlutdeild sama skips í heildarafla síðustu þriggja síldarvertíða.
     d.      Sjávarútvegsráðherra skal setja með reglugerð nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar. Getur ráðherra m.a. ákveðið að sérstakar reglur skuli gilda um úthlutun á tak mörkuðu aflamagni sem íslenskum skipum er heimilt að veiða innan lögsögu annarra. Þá getur ráðherra ákveðið að endurúthluta skuli afla eftir tiltekinn tíma sýnist það nauð synlegt til að fullnýta leyfðan heildarafla íslenskra skipa.
     e.      Að öðru leyti gilda á þessu tímabili ákvæði laga nr. 151 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum eftir því sem við getur átt.

3. gr.

    Sjávarútvegsráðherra skal fyrir 1. nóvember árið 2000 leggja fyrir Alþingi frumvarp um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum eftir árið 2000.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Um fiskveiðar utan lögsögu Íslands gilda lög nr. 151/1996. Samkvæmt 4. gr. þeirra skal sjávarútvegsráðherra binda veiðar íslenskra skipa á úthafinu sérstökum leyfum sé það nauð synlegt vegna alþjóðlegra samningsskuldbindinga Íslands. Skulu leyfin bundin skilyrðum sem nauðsynleg eru. Á síðustu vertíð voru veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum leyfisbundnar á grundvelli þessarar heimildar. Öll skip, sem leyfi höfðu til veiða í atvinnuskyni, áttu kost á leyfi til síldveiðanna. Að öðru leyti miðaði stjórn síldveiðanna fyrst og fremst að því að tryggja að heildarafli íslenskra skipa færi ekki yfir leyfilegt heildarmagn. Kom því hvorki til úthlutunar aflahlutdeildar né aflamarks til einstakra skipa. Flestir eru sammála um að sú leið sem farin var til stjórnar veiðanna á síðustu síldarvertíð er mjög óhagkvæm, m.a. fyrir þær sakir að hún stuðlar að aukinni sókn vanbúinna skipa til veiðanna. Er því ekki fýsilegt að stjórna veiðum áfram á sama hátt. Í því sambandi er einnig rétt að benda á að komið hafa fram skoðanir um að draga megi í efa að þessi aðferð hafi fullnægjandi lagastoð.
    Norsk-íslenski síldarstofninn veiðist bæði innan og utan íslenskrar lögsögu og er því svo nefndur deilistofn. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 151/1996 er gert ráð fyrir mismunandi leiðum til stjórnar veiða úr deilistofnum eftir því hvort samfelld veiðireynsla er úr þeim stofnum eða ekki. Veiðireynsla telst samfelld samkvæmt þessari grein hafi ársafli íslenskra skipa úr við komandi stofni þrisvar á undangengnum sex árum svarað til a.m.k. þriðjungs þess heildarafla sem til ráðstöfunar er af hálfu íslenskra stjórnvalda.
    Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 151/1996 segir að sé ákvörðun tekin um að takmarka heildarafla úr ákveðinni tegund sem samfelld veiðireynsla hefur fengist í skuli aflahlutdeild einstakra skipa ákveðin á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú bestu veiðitímabil á undangengnum sex veiðitímabilum. Sé hins vegar ekki fyrir hendi samfelld veiðireynsla úr ákveðnum stofni er ráðherra heimilt við ákvörðun skiptingar aflahlutdeildar milli skipa að taka mið af fleiri þáttum en aflareynslu eins og fyrri veiðum skips, stærð þess, gerð eða búnaði og öðrum atriðum sem máli skipta, sbr. 6. mgr. 5. gr. Afli úr norsk-íslenska síldarstofninum hefur á þremur síðustu vertíðum verið áþekkur þeim afla sem til ráðstöfunar er á komandi vertíð.
    Á grundvelli núgildandi laga er því heimilt að skipta leyfilegum aflaheimildum Íslands úr stofninum milli einstakra skipa með úthlutun varanlegrar aflahlutdeildar til þeirra, enda byggist sú aflahlutdeild alfarið á veiðireynslu þeirra. Heimilt væri skv. 4. mgr. 5. gr. að binda úthlutun því skilyrði að skip afsöluðu sér á móti veiðiheimildum innan lögsögunnar er næmi allt að 15% af þeim aflaheimildum sem þau fengju í síld.
    Norsk-íslenski síldarstofninn hefur um margt sérstöðu sem leiðir til þess að ekki er tíma bært að ákveða nú skipulag veiða úr honum til frambúðar. Fyrir hrun stofnsins í lok sjöunda áratugarins var þetta stærsti fiskstofn í Norður-Atlantshafi. Héldu hinir eldri árgangar hans sig að mestu innan þess svæðis sem nú er íslensk lögsaga að sumarlagi og höfðu vetursetu fyrir austan land. Veiðar úr þessum stofni voru mikilvæg uppistaða í atvinnulífi víða um norðan- og austanvert landið og hrun stofnins var eitt mesta efnahagsáfall sem Ísland hefur orðið fyrir á síðustu áratugum. Síðustu árin hefur stofninn rétt nokkuð við og hefur hinn kynþroska hluti hans aftur farið að leita vestur á bóginn út frá ströndum Noregs. Langt er þó frá því að stofninn hafi tekið upp sitt fyrra göngumynstur og hafa veiðar íslenskra skipa úr honum á síðustu þremur vertíðum að langmestu leyti farið fram utan íslenskrar lögsögu. Veiðarnar hafa farið fram á fáum vikum í maí og júní og hefur síldin á þeim tíma verið erfið til manneldisvinnslu, m.a. vegna átu. Afli íslenskra skipa hefur því að mestu farið í bræðslu. Við þessar aðstæður hefur loðnuflotinn hentað mjög vel til veiðanna, en í honum eru öflug skip sem vel henta til að sækja langt og veiða mikið magn á skömmum tíma.
    Taki síldin aftur upp sitt fyrra göngumynstur mun mjög margt breytast varðandi veiðar og nýtingu síldarinnar. Veiðitímabilið verður væntanlega mun lengra, frá júní og fram á vetur. Veiðisvæðin verða að mestu nærri landi og líklegt er að öll veiði íslenskra skipa verði innan íslenskrar lögsögu. Nýting síldarinnar mun í auknum mæli verða til manneldis.
    Kröfur Íslands til hlutdeildar í veiðiheimildum úr norsk-íslenska síldarstofninum hafa m.a. byggst á því að miklar líkur séu á að hann taki aftur upp sitt fyrra göngumynstur. Hvenær það verður er hins vegar óvíst. Verður í ljósi þessa að telja óeðlilegt að ákveða til framtíðar skipulag veiða úr þessum stofni og láta veiðireynslu sem myndast hefur við aðstæður sem væntanlega eru gjörólíkar þeim sem ríkja munu í framtíðinni ráða aflahlutdeild einstakra skipa. Er því lagt til að sett verði lög er kveði á um að tímabundið skuli gilda sérstakar reglur um stjórn þessara veiða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í þessari grein segir að ákvæði 5. gr. laga nr. 151/1996 um veiðar utan lögsögu Íslands gildi ekki varðandi úthlutun veiðiheimilda úr norsk-íslenska síldarstofninum. Vísast í því efni til almennra athugasemda.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er í meginatriðum kveðið á um hvernig skuli standa að stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árunum 1998, 1999 og 2000.
    Í a-lið er kveðið á um að veiðarnar séu leyfisbundnar en að öll skip sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni eigi kost á slíku leyfi.
    Í b-lið er kveðið á um hvernig standa skuli að skiptingu veiðiheimildanna milli einstakra skipa og er gert ráð fyrir að allt að 90% heildarveiðiheimildanna komi í hlut þeirra skipa sem veiðar stunduðu úr þessum stofni á árunum 1995, 1996 og 1997. Eftirstöðvunum verði skipt milli þeirra skipa sem ekki hafa stundað veiðar, þó þannig að hvert skip fái aldrei meira en sem nemur 25% af meðaltalsaflahámarki þeirra skipa sem veiðar hafa stundað. Með þessu móti er opnaður möguleiki til að veita nýjum skipum leyfi til veiða úr norsk-íslenska síldar stofninum.
    Í c-lið eru settar ákveðnar takmarkanir á heimild til framsals árlegra veiðiheimilda og er miðað við að óheimilt sé að framselja frá hverju skipi meira magn en nemur 50% af sama hlutfalli þess úr árlegum heildarafla og sem nam hlutfalli þess úr heildarafla þriggja síðustu vertíða. Með þessu móti er komið til móts við þau sjónarmið að heimild til flutnings veiði heimilda stuðli að hagkvæmni í rekstri og fullri nýtingu hlutdeildar Íslands í heildaraflanum. Hins vegar er jafnframt til þess litið að veiðiheimildunum er skipt milli skipa án tillits til aflareynslu. Þykir óeðlilegt að útgerðir, sem ekki hafi sannað veiðihæfni skipa sinna, geti framselt veiðiheimildir þær sem úthlutað er á grundvelli þessara laga.
    Í d-lið er ráðherra veitt heimild til að setja frekari reglur um framkvæmd þessarar greinar, þar með talið hvernig standa skuli að endurúthlutun veiðiheimilda til að tryggja fulla nýtingu þeirra.
    Í e-lið er áréttað að önnur ákvæði en 5. gr. laga nr. 151/1996 gildi eftir því sem við á.

Um 3. og 4. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstof a:


Umsögn um frumvarp til laga um stjórn veiða
úr norsk-íslenska síldarstofninum.

    Með frumvarpi þessu er gerð tillaga um hvernig skipta eigi veiðiheimildum úr norsk-ís lenska síldarstofninum milli einstakra skipa.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarps þessa hafi sérstakan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.