Ferill 697. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1227 – 697. mál.



Skýrsla



dómsmálaráðherra um útgjöld vegna laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

(Lögð fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, skal dómsmálaráðherra á ári hverju til ársloka 2000 gera Alþingi grein fyrir þeim útgjöldum sem lögin hafa í för með sér. Í skýrslu þessari er gerð grein fyrir útgjöldum áranna 1996 og 1997 ásamt fleiri upplýsingum.
    Lögin um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota tóku gildi 1. júlí 1996. Gilda þau um tjón sem leiðir af brotum á almennum hegningarlögum sem framin voru 1. janúar 1993 og síðar. Samkvæmt lögunum var sett á laggirnar sérstök nefnd, bótanefnd, sem metur hvort skilyrði eru uppfyllt til greiðslu bóta úr ríkissjóði samkvæmt lögunum. Í nefndinni eiga sæti Hákon Árnason hrl., sem jafnframt er formaður, Erla Árnadóttir hrl. og Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari.
    Á árinu 1996 bárust nefndinni 93 umsóknir, 54 frá körlum en 39 frá konum. Á árinu 1997 bárust nefndinni 104 umsóknir, 62 frá körlum og 42 frá konum. Alls bárust því nefndinni 197 umsóknir árin 1996 og 1997. Sjö umsóknir hafa borist það sem af er árinu 1998. Nefndin hefur fallist á 110 umsóknir að hluta eða öllu leyti, 52 hefur verið hafnað, 2 voru afturkallaðar og 33 umsóknir eru enn til meðferðar hjá nefndinni.
    Heildargreiðsla úr ríkissjóði vegna þessa árið 1996 nam 15.387.511 kr. í 43 málum, eða 357.849 kr. að meðaltali. Heildargreiðsla úr ríkissjóði árið 1997 nam 37.937.651 kr. í 62 málum, eða 611.898 kr. að meðaltali. Hæsta einstaka greiðsla á tímabilinu nam 3.152.162 kr. Heildargreiðsla úr ríkissjóði árin 1996 og 1997 er því samtals 53.325.162 kr. Meðaltal greiðslu á þessum tveimur árum er 507.858 kr.