Vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 13:43:13 (2937)

1999-01-11 13:43:13# 123. lþ. 52.91 fundur 199#B vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), KHG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[13:43]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég tek undir þá skoðun forseta að flest af því sem menn hafa nefnt hér ætti betur heima undir umræðunni sjálfri og vil hvetja hv. þm. til þess að stuðla að því að hún geti hafist.

Ég vil hins vegar mótmæla því sem hefur komið fram að mörg atriði séu ófrágengin í þessu máli af hálfu meiri hluta sjútvn. Það eru tvö atriði sem meiri hlutinn hefur til skoðunar og það var kynnt fyrir stjórnarandstöðunni að þau væru til skoðunar í hópi stjórnarliða og það gæti leitt til þess að fram kæmu tillögur við 3. umr. um þau atriði.

Mér þykir leitt ef sá trúnaður sem ég sýni stjórnarandstöðunni verður til þess að hún fer upp í þingsölum til að gera úlfalda úr mýflugu og gera málið tortryggilegt og halda því fram að það sé vanbúið til þess að koma til umræðu.

Í öðru lagi var því haldið fram að sjútvn. hefði haldið þinginu verklausu. Ég bendi á að þingið var kvatt saman sl. miðvikudag sem þýðir eðli máls samkvæmt að umræðan getur ekki hafist fyrr en á fimmtudag. Hún er að hefjast nú á mánudegi, einum þingdegi seinna en áætlað var eða tveimur ef við reiknum með föstudegi sem þingdegi. Það eru ekki mikil frávik frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir í svo viðamiklu máli og sérstaklega í ljósi þess að stjórnarandstaðan hafði krafist þess að málinu yrði flýtt og það unnið og það var gert. Ég vænti þess að stjórnarandstaðan haldi sig við það að greiða fyrir því að málinu verði flýtt.