Vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 13:44:59 (2938)

1999-01-11 13:44:59# 123. lþ. 52.91 fundur 199#B vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[13:44]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þegar það mál sem hér á að fara að ræða var tekið til 1. umr. voru lögð fyrir Alþingi tvö frumvörp sem voru rædd saman um sama mál. Þetta frv. og frv. til laga um breytingu á lögum um fiskveiðar í landhelgi Íslands er varðaði grásleppubátana. Nú er bara annað af þessum tveimur málum til umræðu og umfjöllunar við 2. umr. Því langar mig til að spyrjast fyrir um það hvernig stendur á því að bæði frv. fá ekki að verða samferða við 2. umr. í gegnum þingið. Í öðru lagi: Er þá ætlun meiri hluta sjútvn. að taka hið síðara frv. til umræðu á morgun?

Virðulegi forseti. Það er mjög eðlilegt að spurt sé að þessu, ekki síst þegar athugað er að það frv. sem á að fara að ræða er allt annað frv. en það sem kynnt var fyrir nokkrum dögum. Meginhlutinn af því frv. sem á að fara að ræða varðar með engum hætti dóm Hæstaréttar heldur allt önnur atriði auk þess sem frv. er, eins og það er nú úr garði gert, svo illskiljanlegt að jafnvel gleggstu menn geta ekki svarað ýmsum spurningum sem rísa við lestur frv. Þess vegna hefur hv. formaður sjútvn. þegar ákveðið nú áður en umræðan hefst að kalla nefndina til fundar aftur á morgun til þess að skýra þá væntanlega betur það sem felst í tillögum nefndarinnar. En ég spyr: Hvað dvelur hitt frv.? Af hverju fáum við ekki að sjá tillögur sjútvn. um afgreiðslu þess við 2. umr. um málið? Í öðru lagi: Komi ekki slík niðurstaða fram við 2. umr. málsins í dag, og ég spyr formann sjútvn. að því --- hann getur svarað því hér á eftir --- er þess að vænta að hið síðara frv. komi til 2. umr. á morgun?