Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 17:52:38 (2975)

1999-01-11 17:52:38# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[17:52]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hv. þm. fyrir ítarlega og málefnalega ræðu. Það er vissulega svo að alveg öndvert við málflutning annarra talsmanna stjórnarandstöðuflokkanna var lýst mjög umfangsmiklum hugmyndum um breytingar. Þó þær séu um margt umdeilanlegar var þeim vissulega lýst og ber að þakka það þó að þær hafi ekki verið lagðar fram skriflega. Það er kannski vegna þess að svo er að maður hefur ekki náð að grípa þær allar.

Ég skildi hv. þm. svo að hann hefði verið að lýsa því að vilji hans stæði til þess að banna með öllu framsal á veiðirétti smábáta og strandveiðiflota sem yrði skilgreindur nánar. Ég er ekki alveg viss um að ég hafi skilið þetta rétt. Þess vegna langar mig til þess að spyrja hvort það sé réttur skilningur hjá mér að hugmynd hans hafi verið sú að banna allt framsal á veiðirétti smábáta og strandveiðibáta og innkalla veiðiréttinn þegar veiðiréttarhafi hættir veiðiskap og deila út aftur, bara til þess að fá það á hreint hvort þetta hafi verið réttur eða rangur skilningur.