Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 20:15:30 (3002)

1999-01-11 20:15:30# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[20:15]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Það frv. sem hér um ræðir er viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar og hv. Alþingis við dómi Hæstaréttar. Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga vegna þess að sú skipan mála sem þar kemur fram er ekki sú sem þessir aðilar töldu heppilegasta í þessum málaflokki. Sá dómur sem hér um ræðir er þannig orðaður að menn telja sig geta túlkað hann hver á sinn hátt og oftast gera þeir það í samræmi við sína fyrir fram gerðu skoðun á því hvernig standa eigi að fiskveiðistjórn.

Dómurinn er hins vegar einungis skýr að því er varðar 5. gr. Ef Hæstiréttur telur að fleiri atriði standist ekki stjórnarskrána í fiskveiðilöggjöfinni þá þarf hann að tala jafnskýrt um þau atriði og hann talaði um 5. gr. ef það á að vera réttlætanlegt fyrir Alþingi að taka upp löggjöfina og gera á henni breytingar vegna dómsins.

Þær breytingar sem nauðsynlegast hefur reynst að gera hafa meiri áhrif á smábátakerfið en á hið almenna aflamarkskerfi. Og það gæti hugsanlega haft áhrif sérstaklega á þær byggðir sem byggja á smábátaútgerð umfram aðrar byggðir í landinu.

Ég ætla ekki að fara yfir frv. í heilu lagi hér. Það hefur verið gert af hálfu framsögumanna meiri hluta nefndarinnar og það skýrt í smáatriðum. Ég tel mér hins vegar skylt að fara yfir nokkur atriði sem ég tel að séu afar mikilvæg fyrir umræðuna og rétt að halda til haga.

Í fyrsta lagi er það sú breyting á smábátakerfinu sem gerir það að verkum að til verður sóknardagakerfi þar sem sóknardagar verða framseljanlegir. Ég hefði vissulega kosið að hægt hefði verið að gera þá breytingu á smábátakerfinu að allir smábátarnir væru inni í sama kerfinu og að það væri aflamarkskerfi. Það hefði verið betra að vera með eitt kerfi í gangi fyrir smábátana en tvö kerfi. Það er hins vegar enginn grundvallarmunur á því hvort um er að ræða sóknardagakerfi eða kvótakerfi. Það er vissulega munur á því en ekki grundvallarmunur. Það er enginn grundvallarmunur á því hvort sóknardagar séu framseljanlegir eða hvort kíló í kvóta séu framseljanleg.

Ég geri mér grein fyrir því að framsalið er mjög gagnrýnt. En það er grundvöllur þess kerfis sem við búum við í dag og grundvöllur þess árangurs sem við höfum náð. Ég treysti mér hins vegar til þess að styðja það sóknardagakerfi sem lagt er til í frv. vegna þess að stór hluti þeirra sem starfa í greinni og störfuðu í hinu eldra sóknarkerfi, ef svo má að orði komast, hafði gert ráðstafanir á þeim grundvelli að þeir væru að starfa innan sóknardagakerfis og að það kerfi sem hér er verið að búa til er líkara því umhverfi sem þeir bjuggu við fyrir dóminn. Ég tel því ástæðulaust að raska þeirra starfsumhverfi meira en nauðsynlegt er og tel ásættanlegt að þeir sem eru í smábátakerfinu geti valið um að fara inn í hið nýja sóknardagakerfi eða að fara inn í króka/aflamarkskerfið.

Í öðru lagi vil ég nefna hvernig standa á að því að reikna út aflareynslu vegna aukategunda í þorskaflahámarkskerfinu. Það er nýjung í því tilfelli að aflareynslan á að reiknast á tíma sem ekki er liðinn, þ.e. árið 1999 á að leggjast til grundvallar þegar aflareynsla í aukategundum eins og ýsu og steinbít verður reiknuð út. Ég tel að þetta sé varhugavert. Það er sérstaklega varhugavert út frá öryggi sjómanna því að þetta hvetur til óheftrar sóknar, hvetur til þess að menn sæki sjóinn þegar það jafnvel væri ekki skynsamlegt vegna þess ávinnings sem felst í því að afla sér mikillar reynslu. Ég tel líka að aflareynsla sem vinnst á þennan hátt geti leitt til ranglátra breytinga á þeirri reynslu sem bátarnir hafa þegar öðlast, þ.e. ef marka á heildarkvótann eins og hann er þegar orðinn í dag en skiptinguna á reynslu þess sem óliðið er af þessu ári þá þýðir það að þeir sem jafnvel tóku ekkert þátt í því að afla reynslunnar sem heildarkvótinn byggist á, geta náð til sín stærri hluta af kvótanum sem byggist á aflareynslu þess árs sem ekki er liðið.

Ég fagna því hins vegar að sjútvn. hefur ákveðið að fjalla sérstaklega og frekar um þetta mál á milli 2. og 3. umræðu og ég treysti því að hún komist að ásættanlegri niðurstöðu sem forðar okkur frá þessari sókn, setur henni einhverjar hömlur og kemur í veg fyrir að um verði að ræða ranglátar breytingar á skiptingu heildaraflans sem þegar er ljós.

Í þriðja lagi vil ég nefna þau 1.500 tonn sem ætlað er að úthluta til Byggðastofnunar. Þetta er gert í samræmi við það að menn höfðu áhyggjur af því að ýmsar byggðir landsins gætu orðið fyrir áföllum vegna þeirra breytinga sem hæstaréttardómurinn kallar á. Ég er ekki viss um að ýkja mikið tilefni sé til þess að setja stóran hluta af kvótanum í pott sem þennan. Ég er heldur ekki viss um að það sé rétta leiðin út úr vandanum að Byggðastofnun hafi kvóta til þess að rétta mönnum sem eru í vanda. Sjái menn fram á það að geta fengið ókeypis kvóta hjá Byggðastofnun til þess að leysa vanda sinn þá munu þeir síður leita lausna á vandanum sjálfir.

Ég sé líka ýmis vandkvæði á því að úthluta úr pottinum þessum 1.500 tonnum. Hvað ætla menn að leggja til grundvallar? Jú, það er talað um að þetta eigi að fara til byggða sem eru í vandræðum vegna þess að kvóti hefur horfið í byggðarlaginu. Á þá að úthluta úr þessum potti til þeirra sem áður höfðu selt frá sér kvótann? Hvernig á að marka það hvort byggðarlagið sé í vandræðum vegna flutningsins á kvótanum úr byggðarlaginu? Er það atvinnuleysi? Er það hátt hlutfall erlendra verkamanna í fiskvinnslu? Eða hvað er það annað sem að gagni má koma til þess að marka erfiðleika sveitarfélagsins?

Ég held að þetta sé hættulegt fordæmi því að jafnvel þó að 1.500 tonn séu ekki ýkja mikið af heildarkvótanum þá gætu 1.500 tonnin orðið að mun stærri potti í framtíðinni ef menn héldu áfram á sömu braut.

Ég tel hins vegar ekki, eins og ég sagði, að þetta sé svo ýkja stórt hlutfall af heildarkvótanum að það þurfi að vera okkur til stórskaða, sérstaklega ekki ef Byggðastofnun heldur vel á og skynsamlega og úthlutar réttlátlega úr pottinum og gætir þess að rýra ekki vilja manna til þess að leysa vanda sinn sjálfir með því að vera of reiðubúin að rétta fram hjálparhönd áður en það er nauðsynlegt. Ég ætla því ekki að gera þennan pott að úrslitaatriði við stuðning minn við þetta frv.

Síðan vil ég nefna þau 3.000 tonn sem ætlað er að úthluta hinum svokölluðu vertíðarbátum. Þetta er hinn gleymdi floti sem verst hefur farið út úr kvótakerfinu og ég fagna því að honum sé rétt hjálparhönd þótt vissulega væri ánægjulegt ef um hærri hlutdeild gæti verið að ræða. En á það verður ekki kosið að þessu sinni. Vonandi mun það nýtast einhverjum til þess að viðhalda þessum flota því hann er mikilvægur fyrir okkur og hefur verið það um langan tíma og mun væntanlega verða það áfram.

Að lokum, herra forseti, þá er ekki hægt að láta hjá líða að minnast á afstöðu stjórnarandstöðunnar í þessu máli. (Gripið fram í: Hvaða afstöðu?) Hvaða afstöðu, spyr hv. þm. og það er von að hann spyrji. Afstaða stjórnarandstöðunnar var í upphafi sú að hraða ætti afgreiðslu málsins vegna dóms Hæstaréttar. (Gripið fram í.) Síðan kvartar stjórnarandstaðan mest yfir því hvað hún hafi stuttan tíma til þess að vinna í málinu, hversu hratt sé unnið í hv. sjútvn. En ekki kemur stjórnarandstaðan með tillögur.

Þegar langt var liðið á umræðuna voru veitt afbrigði í sérstakri atkvæðagreiðslu fyrir því að leggja mætti fram tillögu stjórnarandstöðunnar og þá var tillaga stjórnarandstöðunnar sú að fresta málinu um fjögur ár.

Upphaflega var krafan sú að það ætti að hraða afgreiðslu málsins vegna þess að dómurinn án viðbragða skapi óvissu. En hversu mikla óvissu skapar ekki frestun í fjögur ár? Tilgangur þessa frv. er að eyða óvissunni. Hún mun hverfa þegar frv. hefur verið samþykkt, a.m.k. hvað varðar þá þætti sem tekið er á í frv. Hvað framtíðin síðan ber í skauti sér er ekki gott að segja. En að svo stöddu er ekki tilefni til frekari aðgerða af hálfu hv. Alþingis.