Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 21:03:49 (3009)

1999-01-11 21:03:49# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, KrP
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[21:03]

Kristinn Pétursson:

Hæstv. forseti. 75. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo:

,,Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.``

Þessi grein stjórnarskrárinnar er tilefni þeirra umræðna sem hér eru nú. Á sínum tíma, þegar ég var hér á Alþingi árin 1988--1991, vann Lagastofnun Háskóla Íslands álitsgerð fyrir sjávarútvegsnefndir Alþingis þar sem fram kom að útgerðarmenn ættu tiltekin atvinnuréttindi. Þegar þessar spurningar voru sendar til Lagastofnunar var því miður ekki spurt um atvinnuréttindi fiskverkafólks og sjómanna.

Þar sem hér er um að ræða löggjöf fyrir mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar er nauðsynlegt að þessum spurningum verði svarað. Ég ætla ekki endilega að halda því fram að þeir sem ekki hefur verið fjallað um, t.d. sjómenn, fiskverkendur og fiskvinnslufólk, eigi sérstök atvinnuréttindi. Kjarni málsins er sá að löggjöf í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar verður að vera hafin yfir allan vafa. Þess vegna þarf álitsgerð frá Lagastofnun Háskóla Íslands eða frá hópi virtra lögmanna um þessi atriði. Ég reyndi mikið að berjast fyrir þessu á sínum tíma og hafði m.a. hóað saman þremur valinkunnum lögmönnum sem ég ætla ekki að nefna. Þá var hins vegar enginn hljómgrunnur fyrir því í sjútvn. að halda áfram vinnunni, enda allt komið í tímahrak.

Því miður er það þannig með þessi lög að ég held að þau hafi upphaflega verið samin í tímahraki. Oftast þegar lögunum hefur verið breytt, þá hefur það einnig verið gert í tímahraki. Þar af leiðandi tel ég að stór hluti löggjafarinnar sé hálfgert fúsk og ekki Alþingi sæmandi að vanda ekki löggjöf í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. Þeim sem varað hafa við því að löggjöfin stæðist ekki stjórnarskrá, mér og fleirum, er alla vega ekki um að kenna þegar uppákomur, eins og fyrir nokkrum vikum síðan, verða.

Það er talað um potta, einhver tonn hingað og þangað, 1,2% þarna og 500 tonn þangað (Gripið fram í.) eða jafnvel 500 kg. Mér finnst þessi umræða á svo lágu plani að ég ætla ekki að taka þátt í henni. Ég ætla að halda mig við fagleg aðalatriði. Það er auðvitað alvarlegt fyrir Alþingi Íslendinga þegar eitt byggðarlag stendur skyndilega uppi með engan kvóta. Markmið laganna hjá ráðherrum og Alþingi þjóðarinnar, því að Alþingi samþykkti lögin, ekki ráðherrarnir, var að auka svokallaða hagræðingu. Ég verð að viðurkenna það að ég fæ óbragð í munninn þegar ég nefni þetta orð eða heyri það. Markmið laganna voru uppákomur eins og á Breiðdalsvík, það hlýtur að vera. Ef hagræðing á að fara fram þannig að byggðarlög sláist um kvóta þá hljóta einhverjir að lenda undir. Menn þurfa því ekki að vera voðalega hissa þegar slíkt gerist.

Stór hluti aflans hefur flust frá fiskverkuninni út á sjó. Hæstv. sjútvrh. lét semja álitsgerð, varðandi það að setja allan fisk á markað, fyrir ári síðan. Að henni stóð Viðar Már Matthíasson, prófessor í lögum, og hún birtist 15. desember 1997. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Komist er að þeirri niðurstöðu að um sé að ræða tvenns konar eignarréttindi sem njóti verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. eignarréttindi sem tengjast lausafé og fasteignum, sem nýtt hafa verið til vinnslu sjávarafla, og atvinnuréttindi, þ.e. rétturinn til þess að nýta þessar fjárfestingar. Talið er að lög um söluskyldu skerði þessi réttindi með þeim hætti að það farið í bága við síðastnefnt stjórnarskrárákvæði.``

Ég tel að þessi álitsgerð gefi sterklega til kynna að fiskvinnslan hafi alltaf átt tiltekin atvinnuréttindi en þau hafa því miður aldrei verið skilgreind. Til þess að ég eða aðrir þingmenn geti haft skoðun á því hvort fiskvinnslan eigi tiltekin atvinnuréttindi þarf að láta vinna slíka álitsgerð. Það er einn þátturinn í þeirri fagvinnu sem fram þarf fara svo löggjöf í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar sé ekki afgreidd á nokkrum klukkutímum. Sé það gert eins og oft hefur verið gert, þá kalla ég það fúsk.

Ég átti þess kost að kynnast þessu málefni þegar ég var á Alþingi 1988--1991. Ég komst að því mér til mikillar furðu að til voru tvær kenningar um hvernig ná ætti hámarksafrakstri í fiskstofnum. Við vitum hver kenning Hafrannsóknastofnunar er. Það er að friða fiskinn til þess að auka afraksturinn. Það hefur gengið frekar illa. Ég varð því forvitinn um hina kenninguna og fór að kynna mér hana. Ég hef kynnt mér þetta mál og stöðuna í Norður-Atlantshafi í 10 ár og niðurstaðan er ekki mjög fögur. Það lítur út fyrir að friðun á fiskstofni geti í sumum tilfellum verið hættuleg. Margt bendir til þess að algert þorskleysi við Kanada og Grænland eigi rætur sínar að rekja til of mikillar friðunar á fiski.

Eins og ég sagði áðan þá varðar þetta stjórnarskrá lýðveldisins. Almannaheill þarf að vera í húfi til að takmarka megi þá atvinnu sem menn kjósa. ,,Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum,`` segir í 75. gr., ,,enda krefjist almannahagsmunir þess.`` Skilgreiningin ,,almannahagsmunir`` á ekki við, t.d. á Breiðdalsvík. Ég tel að almannahagsmunum á Breiðdalsvík stafi frekar hætta af þessum lögum en að almannaheill njóti þar verndar. Svo er um mörg byggðarlög úti á landi. Þess vegna þarf að vinna þetta allt upp á nýtt og ég vona að Alþingi beri gæfu til að láta þá vinnu fara faglega fram og sem minnst verði um flokkspólitískt hnútukast í þeirri vinnu.

Varðandi afla þorsks í Norður-Atlantshafi, þá hefur hann minnkað um 2/3 síðan friðun hófst. Ég get ekki kallað það árangur. Í upphafi var ætlunin að ná meiri árangri. Þróunin hefur öll orðið aftur á bak og ég kem nánar að því á eftir.

Ég tel hins vegar að rannsóknastarfsemi Hafrannsóknastofnunar sé þokkalega góð. Eftir sem áður væri rétt að alþingismenn íhuguðu að fleiri fengju leyfi til þess að stunda hafrannsóknir og túlka niðurstöður þannig að samkeppni kæmi í þessa grein eins og ýmsar fleiri. Til dæmis hefur fiskifræðingurinn Jón Kristjánsson sótt um leyfi til að fá að stunda hafrannsóknir. Sjútvrn. heimilaði honum að hefja rannsóknir með slíkum afarkostum að Jón túlkaði það sem synjun. Ég tel fráleitt að Hafrannsóknastofnun hafi faglegt lögregluhlutverk og geti einokað rannsóknir og túlkun rannsóknargagna. Þannig virðist mér það vera í dag. Við sjáum hvað samkeppni í tölvuiðnaði og símafyrirtækjum upp á síðkastið hefur flýtt fyrir framþróun. Samkeppni í rannsóknum og túlkun rannsóknargagna getur flýtt þróun þar jafnhratt. Raunar hefur eðlileg gagnrýni á veiðiráðgjöf verið nánast útilokuð og alltaf kæfð í fæðingu. Þeir sem gagnrýna eru því alltaf á byrjunarreit. Hafrannsóknastofnun rannsakar hafið, dæmir rannsóknirnar og kemst að niðurstöðu. Síðan spyrjum við út í niðurstöðurnar og þá skýrir hún sjálf skekkjurnar með röksemdum sem ég tel að standist ekki. Þar við situr, hvað eftir annað.

Ég verð að segja að reynsla mín af þessari gagnrýni er ekki mjög fögur. Maður hefur eilíft hlaupið á veggi með gagnrýnina en ég veit að málið er mikilvægt og mér dettur ekki í hug að hætta að tala um það jafnvel þó erfitt sé í umræðum. Ég ætla að vitna í grein sem Magnús Jónsson veðurfræðingur skrifaði í Morgunblaðið í haust, í nóvember. Hann segir m.a. að á árunum upp úr 1980 hafi farið fram miklar umræður og skoðanaskipti um rannsóknaraðferðir, áhrif veiða, áreiðanleika stofnmælinga, nýliðun og fleira. Síðan segir Magnús orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

[21:15]

,,Þegar síðan aflamarkskerfið var tekið upp má segja að smám saman hafi myndast ,,skoðanamúr`` í kring um Hafrannsóknastofnun, múr sem nánast hefur verið óvinnandi eftir að frjálsa framsalið var sett á og stjórnvöld og útgerðarmenn sameinuðust í hagsmunagæslunni um fiskveiðistjórnunarkerfið. Engu er líkara en að allt í einu hafi vísindin verið orðin svo þróuð, að öll vafaatriðin sem menn ræddu áður séu ekki lengur til staðar, þegar um fiskifræðina er að ræða. Er nú svo komið að flestar efasemdarraddir eru þagnaðar enda menn úthrópaðir sem sérvitringar, falsspámenn eða jafnvel ábyrgðarlausir óvinir þjóðarinnar. Margir náttúrufræðingar og fleiri sem gagnrýnt hafa forsendur fiskveiðistjórnunarkerfisins eru hættir að þora að láta skoðanir sínar í ljósi þar sem þeir eiga á hættu að missa vinnuna eða verða fyrir öðrum beinum eða óbeinum óþægindum eða jafnvel mannorðsmissi.``

Svona skrifar veðurstofustjóri Íslendinga um þá upplifun sem hann hefur orðið fyrir vegna þess að hann er einn af þeim sem hafa leyft sér að gagnrýna þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar því að friða þorska.

Ég verð að segja að ég hef upplifað þetta á svipaðan hátt. Sem dæmi get ég nefnt að fyrir fjórum árum var ég í prófkjöri Sjálfstfl. á Austurlandi og kvöldið fyrir prófkjörið var með fyrstu fréttum á Stöð 2 í beinni útsendingu að ég ætti engan séns í prófkjörinu því að ég hefði málað mig út í horn með gagnrýni minni á fiskifræðinga. Tilteknir voru aðrir menn sem þættu frambærilegir og í orðunum fólst að ég væri náttúrlega ekki frambærilegur þegar ég vogaði mér að hafa sjálfstæðar skoðanir á verkum fiskifræðinga. Svona fagleg vinnubrögð við fréttamennsku finnst mér náttúrlega fyrir neðan allar hellur og það er mjög alvarlega komið í þjóðfélaginu þegar menn sem koma með heilbrigða og vel rökstudda gagnrýni eru afhausaðir í beinni útsendingu ef svo má segja. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að ég ætla ekki að gefa kost á mér aftur í pólitík.

En það eru margar ástæður fyrir því að ég ætla ekki að gefa kost á mér að svo stöddu, ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, það kemur í ljós síðar.

Ég ætla aðeins að fara yfir þessa gagnrýni frá 1975. Þá ætla ég að byrja á að nefna að mjög hátt veiðiálag var á þorskstofninum 1972--1975 eða 43% af stofnstærð þorsks og ég er alltaf að miða við tölu Hafrannsóknastofnunar því ég er ekki að búa til neinar tölur um þetta. Ég hef alltaf notað gögnin þeirra þegar ég kafa ofan í það hvað þeir hafa ráðlagt og hvað svo reyndist rétt. Veiðiálag var 43% að meðaltali þessi fjögur ár.

Hvað gerist síðan í kjölfarið? Svarta skýrslan kom út 1975, seinast á þessum árum. Hún hlaut ekki nafnið svarta skýrslan fyrir annað en að hún var talin kolsvört. Þorskstofninn var talinn vera að hrynja samkvæmt skilgreiningu ráðgjafa. Ég hef verið að grúska í þessum gögnum og ég ætla að sýna þeim fáu hv. alþm. sem eru hér hver spáin var. Í skýrslu Rannsóknaráðs ríkisins, sem kom út mánuði eftir að svarta skýrslan kom, er rauð lína teiknuð beint niður sem sýnir hvernig þorskstofninn átti að hrynja ef ekki yrði farið eftir tillögum stofnunarinnar. Hæstv. forseti má gjarnan sjá þetta líka.

(Forseti (ÓE): Ég sé þetta.)

En gula línan sýnir það sem gerðist þó haldið væri áfram að veiða þar sem þeir sögðu að mætti ekki veiða. Það var haldið áfram að veiða 330--370 þús. tonn á ári og þorskstofninn stækkaði og stækkaði og stækkaði. Hvernig gat það gerst? Þorskstofninn var 890 þús. tonn 1975. Mér sýnist að hann hafi verið kannski 200 þús. tonnum minni en hann er í dag og við vorum að veiða 370 þús. tonn. Er það eitthvað hættulegt? Nei. Árið eftir stækkaði þorskstofninn í 950 þús. tonn og við veiðum 350 þús. tonn 1976. Síðan höldum við áfram að veiða. 1977 veiðum við 340 þús. tonn og þorskstofninn stækkar alveg upp í 1.214 þús. tonn, heljarstökk upp á við, við ofveiðina. Hvernig getur svona gerst?

Árið 1978 er sama sagan. Við veiðum 330 þús. tonn, stofninn stendur í stað. 1979 veiðum við 370 þús. tonn og stofninn er kominn í 1.300 þús. tonn. Svo kemur árið 1980. Þá veiðum við 434 þús. tonn og þorskstofninn er kominn í 1.600 þús. Eru þetta áreiðanleg vísindi, hæstv. forseti?

Er það ekki frekar hæpin löggjöf sem er sett til að vernda almannaheill þar sem forsendurnar standast svona vel? Ég er ekki að vara við þessu af tilefnislausu vegna þess að aðrar þjóðir standa uppi þorsklausar með enga veiði eins og í Kanada og við Grænland eftir að hafa farið eftir tillögu ráðgjafa upp á punkt og prik í mörg ár og um það hef ég áreiðanleg gögn. Ráðgjöfin leiddi til þess að við 600 þús. tonna ofveiði á fimm árum, miðað við skýrsluna 1975, stækkaði stofninn í 700 þús. tonn og því er þetta reikningsskekkja upp á 1,3 milljónir tonna af þorski á fimm árum. Þetta er ekki voðalega flókinn reikningur. En ef menn vilja draga þessar tölur í efa, eins og stundum er reynt að gera, þá á ég það nefnilega til góða að stofninn hrundi ekki neitt. Þar eru 800 þús. tonn til viðbótar.

Þremur árum eftir að þorskstofninn hefur náð tæplega 1.600 þús. tonna stærð setur Alþingi lög á mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar vegna meintrar ofveiði. Þrjú ár liðu og þorskstofninn var tæp 1.600 þús. tonn. Þá voru þau lög sett sem við stjórnum eftir í dag. Hvað gerðist þá þessi ár? 1982 vantaði 70 þús. tonn upp á við næðum að veiða samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. 1983 vantaði 50 þús. tonn upp á að við næðum að veiða samkvæmt ráðgjöfinni. Þá fóru allir á taugum og hrópuðu: Ofveiði. Þannig varð þessi löggjöf til á forsendum meintrar ofveiði. Ég áttaði mig ekki fyllilega á öllum þeim mótsögnum sem eru í skýrslu Hafrannsóknastofnunar fyrr en um það leyti sem ég var að hætta á Alþingi 1991. Skýringa á rangri veiðiráðgjöf 1983 er að leita í ónothæfu reiknilíkani sem byggir á svokallaðri stærðfræðilegri fiskifræði. Stærðfræðileg fiskifræði telur að það sé ofveiði þegar fiskstofn minnkar af náttúrulegum ástæðum, þ.e. þegar vaxtarhraði dettur niður vegna versnandi umhverfisskilyrða og minnkandi fæðuvals. Þá er flotanum kennt um að hann hafi veitt það sem vantar í bókhaldið hjá Hafrannsóknastofnun.

Þessu til rökstuðnings get ég bent á að árin 1980--1983, akkúrat á þeim árum sem það skrýtna gerðist, fellur vaxtarhraði í þorskstofninum yfir 30%, í sumum tilfellum allt að 50%. Þessi staðreynd er í algerri mótsögn við að það hafi verið ofveiði. Fæðuframboð minnkaði, loðnan átti í erfiðleikum á þessum árum og ég held að þetta hafi bara verið eðlileg náttúrusveifla eins og alltaf hefur verið í öllum fiskstofnum alls staðar í Norður-Atlantshafi. Ofveiði og minnkandi vaxtarhraða getur ekki farið saman samkvæmt grundvallaratriðum í fiskilíffræði eins og hún er kennd í líffræðideildum háskóla út um allan heim. Reiknilíkanið gefur því falskar upplýsingar um að flotinn hafi drepið fiskinn sem vantar í bókhaldið þegar náttúruleg sveifla verður niður á við. Þannig verður til kenningin um of stóran flota.

Þetta reiknilíkan er með þeim ósköpum gert að það gerir ráð fyrir föstu fæðuframboði í sjónum sem allir vita að er alls ekki og það gerir líka ráð fyrir föstum náttúrulegum dánarstuðlum. Þegar fæðuframboð minnkar, þá hækkar eðlilega náttúrulegur dánarstuðull. Þannig margfalda skekkjurnar hver aðra upp í tölvunni og útkoman verður náttúrlega tóm vitleysa. Þá koma rosalega fínir ráðgjafar og segja: Við höfum ofmetið stofninn. Og við eigum að trúa því. En þegar sveiflan verður í hina áttina höfum við vanmetið stofninn. Þetta er textinn og punktur. Í staðinn fyrir að segja sannleikann að reiknilíkanið sé afskaplega vafasamt og að það taki ekki tillit til náttúrusveiflna í umhverfisskilyrðum.

Ég tel því að í réttarríki, eins og við teljum að við séum í, gangi alls ekki að löggöf í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar sé sett á forsendum ágiskana sem standast ekki eins og ég hef rifjað upp. Slík löggjöf er á mjög hálum ís hvað varðar takmörkun á atvinnufrelsi.

Ég ætla aðeins að koma inn á að vegna þess að ég var kannski ekki alveg viss þegar ég var að skoða þessi gögn 1991--1993 þá ákvað ég að skoða gögn annars staðar í Norður-Atlantshafinu til þess að sjá hver þróunin hafi verið og bera það saman við það sem hér var að gerast.

Ég vil koma með tilvitnun varðandi Kanada frá árinu 1989. Þar er um að ræða viðtal við Jakob Jakobsson, fyrrv. forstjóra Hafrannsóknastofnunar, sem var formaður Alþjóðahafrannsóknaráðsins í 20 ár og viðtalið tekið við hann sem formann Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Fyrirsögnin er ,,Skálmöld í Norðursjó, hrun í Barentshafi`` og þá átti hann við hrun í Barentshafi. Hér er lína tekin einmitt beint niður í Barentshafi en þar sem línan endar, þá er komið mokfiskerí í Barentshafinu svo að hver er áreiðanleikinn í þessari spá? Ég ætla að lesa aðeins upp úr þessu viðtali:

,,Vestan megin í Norður-Atlantshafinu. Í lögsögu Kanada er betur á málum haldið, segir Jakob. Þó áætlanir Kanadamanna um uppbyggingu þorskstofnsins hafi ekki gengið eftir er staðreyndin þó sú að sóknin í þorskstofninn við Labrador er helmingi vægari en sóknin í íslenska stofninn. Niðurstaða mín er því sú, segir Jakob, að við vestanvert Atlantshaf sé mjög ábyrg fiskveiðistjórn sem versnar þegar austar dregur í Atlantshafinu.``

Síðar segir í þessu viðtali um þorskinn við Kanada: ,,Þorskaflinn var 1 milljón tonna árið 1970.`` Við Kanada, ekkert smáræði. ,,En var kominn niður í 400 þús. tonn þegar fiskveiðilögsagan var færð út 1978. Kanadíska stjórnin mótaði ákveðna fiskveiðistefnu sem miðaðist við að fiskstofnarnir skyldu nýttir við svokallaða kjörsókn, með öðrum orðum að aflinn yrði um eða innan við 20% af stofnstærð og tekinn á sem hagkvæmastan hátt. Í langtímaspá var gert ráð fyrir að þorskaflinn ykist jafnt og þétt og yrði kominn í 1 millj. tonna árið 1990.``

Árið 1990 var Labradorsvæðinu lokað vegna meintrar ofveiði. Ég náði mér í gögn um vaxtarhraða þorskstofna á þessu svæði og það er nóg að ég sýni ykkur þessa mynd frá Grænlandi. Hún er svipuð frá Kanada. Hér sjáið þið hrunið í vexti þorskstofnanna, það var ekki til nema sjö ára gamall fiskur árið 1992 við Grænland. Þetta er svipað svæði hinum megin við hafið. Þróunin var sú sama á báðum stöðum en við Kanada var þyngsti þorskurinn sem fannst í togararalli Kanadamanna, ég er með gögnin hérna, 830 grömm og það var hrygningarstofninn, sjö ára gamall. Allir eldri árgangar drápust árið 1992 og hurfu út úr töflunum. Rannsókn á gögnunum þeirra sem ég er með hérna og ég er ekkert að búa þetta til þó að þetta sé ótrúleg saga.

Ég ætla að vitna örstutt í upplýsingar um Barentshafið, með leyfi hæstv. forseta. Hérna sjáum við sveiflurnar í vaxtarhraðanum þar og síðustu árin, þetta nær nú ekki nema til 1995, var húrrandi niðurleið á vaxtarhraða fisks í Barentshafi. Strax 1996 benti ég á þetta á fundum og það yrðu allar líkur á að þetta færi eins og fór síðast í Barentshafinu því vaxtarhraði sex ára fisks hafði hrunið t.d. um 46% á fjórum árum.

Þá komum við að öðru sem við erum einmitt vitni að í dag. Ég er hérna einhvers staðar með ljósrit úr Dagblaðinu frá því í síðustu viku. Það er allur þessi smáfiskur sem er verið að landa fyrir vestan og allir eru að hneykslast á. Hvað er þetta gamall fiskur? (Gripið fram í: Í Barentshafinu.) Þetta er fiskur úr Barentshafinu. Ég er náttúrlega ekki með tölurnar frá því í fyrra en ég með töluna frá því í hittiðfyrra. Sambærilegur þungi þorsks hér við land er frá 2--2,8 kg með haus og hala en fiskurinn þarna samkvæmt gögnum sem ég hef fengið þaðan er 500 grömm til 1 kg, jafngamall fiskur. Því dreg ég í efa að skilgreining um ofveiði standist í Barentshafinu. Ég dreg það mjög í efa.

[21:30]

Ég nefndi áðan fjölmiðla. Frétt í Dagblaðinu í síðustu viku: rányrkja --- smáfiskadráp. Þó að þeir hafi ekki notað orðið þá liggur það náttúrlega í augum uppi, glæpamenn, er það ekki? Eru þetta ekki glæpamenn? (Gripið fram í.) Svona stilla fjölmiðlar þessu öllu saman upp. Stundum er talað um að valdið í landinu eigi að vera þrískipt. Svo er það haft í flimtingum að fjórða valdið sé fjölmiðlarnir. Ég held að fjölmiðlar eigi mikinn þátt í því hvernig komið er fyrir þorskstofninum í Norður-Atlantshafi. Það er tíska að friða þorsk eins og það er tíska í Bandaríkjunum að friða hval. Þið vitið að það er ekki mikið hlustað á þá sem vilja leyfa hvalveiðar í Bandaríkjunum. Það er ekki mikið hlustað á þá. Það er álíka mikið hlustað á þá og mig hér á Íslandi. Þegar ég segi að veiða megi meiri þorsk þá er ekkert hlustað á það. Maður er afgreiddur eins og einhver sérvitringur þó að maður komi með fullt af gögnum og sýni fram á að heilmikið sé til af þorski. Ég ætla ekkert að fullyrða um hvort ég fari með rétt mál en gögnin eru ískyggileg, hæstv. forseti.

Ég ætla ekki að horfa þegjandi á að þorskstofninum á Íslandi verði slátrað eða fórnað á altari einhvers reiknilíkans eins og ég tel að hafi gerst við Kanada og Grænland. Á það mun ég ekki horfa þegjandi. Ef hv. alþingismenn vilja alls ekki fjalla sjálfir um þetta efnislega, kynna sér það nákvæmlega og mynda sér sjálfstæðar skoðanir á því, þá er illa farið. Ég trúi því ekki.

Ég velti því fyrir hvort auglýsingasamkeppni fjölmiðla og auglýsingaskrumið allt, nútíminn, Ísland í dag eða hvað á að kalla það, sé svo mikið að engu máli skipti hvort heilbrigð og vel rökstudd gagnrýni er afhausuð þegar jafnmikilvægt mál og þetta er rætt. Ég ætla að leyfa mér að líkja þessu saman við það að það eru ekki nema 300 ár síðan menn héldu því fram að jörðin væri flöt, það er ekki lengra síðan. Af hverju drógu menn þá ályktun að jörðin væri flöt? Af bestu ríkjandi vísindalega þekkingu sem þá var til. Ekki rétt? Segja menn ekki í dag að friðunarkenning Hafrannsóknastofnunar sé besta vísindalega þekking sem til er, þó svo gagnrýni komi frá sérvitringum eins og þeim sem hér talar? Ég er hins vegar ekki hræddur við að vera kallaður sérvitringur. Mér er alveg sama. En þorskstofninn skal ekki verða fórnarlamb þessara kenninga.

Mér er sagt að það sé skilti uppi í Háskóla Íslands með sama texta og er hérna í hornsteini Alþingishússins og hann er: ,,Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.`` Það er slæmt ef hvorki háskólinn né Alþingi Íslendinga vilja komast að því hver sannleikurinn í þessari gagnrýni er. Þá er málið ekki gott.

Eftir 10 ára athuganir mínir á þorskstofninum í Norður-Atlantshafi er niðurstaðan sú að umhverfisskilyrði séu ráðandi þáttur í starfi og afrakstursgetu þorskstofna og veiði úr stofnunum hafi sáralítil áhrif, miklu minni áhrif en talið hefur verið. Auðvitað hefur veiðin einhver áhrif.

Einnig eru til dæmi um að veiðar örvi vöxt, samanber árin 1975--1980, eins og ég rakti áðan. Þá ætla ég að leyfa mér að vitna í vísindatímarit frá Hollandi frá árinu 1992. Þar kemur fram að vísindamenn þar hafi fengið upplýsingar um kolastofna í heiminum frá 20 löndum. Þeir settu upplýsingarnar í einn pott og hver var niðurstaðan? Hér í fyrirsögninni stendur: ,,Veiðar geta leitt til aukins vaxtarhraða og betri nýliðunar.`` Þetta var niðurstaða vísindamanna frá 20 ríkjum úr rannsóknum á kola. Af hverju er þá kvóti á kolanum á Íslandi? spyr maður. Ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Við höfum nýlegt dæmi um nýja skekkju hjá Hafrannsóknastofnun frá 1995. Í skýrslu frá 1995 segir: ,,Ef veidd verða 190 þús. tonn af þorski árin 1996 og 1997 mun veiðistofn sem nú er nær í sögulegu lágmarki vaxa í 760 þús. tonn árið 1998. Hrygningarstofninn mun hins vegar minnka úr 300 þús. tonnum 1995 í 280 þús. tonn 1998.``

Hver var svo hrygningarstofninn í skýrslunni sem kom út í ár? Þar er hrygningarstofninn orðinn 560 þús. tonn en ekki 280 þús. tonn. Ég spyr hvort rignt hafi 280 þús. tonnum af hrygningarfiski. Miðað við skýrslurnar hefur það væntanlega gerst. Svo slá menn sér á brjóst og segja: Nú er uppbyggingin að skila árangri. Er það svo þegar aðeins þriggja ára gömul skýrsla er í ósamræmi við það sem er að gerast í dag? Er þetta ekki bara sams konar uppsveifla og var 1975--1980? Það er miklu líklegri skýring.

Við sjáum t.d. hvernig er að fara fyrir rækjuveiðum. Er sniðugt að safna þorski í hafið, láta hann háma í sig rækju og tvístra henni út um allt svo rækjuveiðar eru ekki orðnar sáralitlar. Hvað með alla þá sem keyptu sér rækjukvóta og seldu þorskkvótann og sitja nú uppi með að hafa keypt köttinn í sekknum og veiðiskyldu á 50% af rækjukvótanum? Ef þeir veiða ekki 50% hvað þá? Þá missa þeir allan kvótann. Þannig eru reglurnar. Það verða víðar vandamál en á Breiðdalsvík, eins og lítur út í dag.

Ef ég fer lauslega yfir Atlantshafið þá er engin veiði í Kanada. Þar hafa engar veiðar verið stundaðar í 10 ár og síðast þegar þeir friðuðu, til að byggja upp stofninn, hurfu milli áranna 1992--1993 500 þús. tonn af svæðinu við Labrador þótt enginn væri að veiða. Ef menn spyrja reiknilíkanið hvað hafi gerst, þá er það ofveiði. Hvar var þessum fiski landað ef þetta var ofveiði? Var honum landað einhvers staðar? Samkvæmt reynslunni getur áhættan af því að veiða ekki, þegar náttúran gefur fisk, verið meiri en áhættan af því að veiða. Ef nota á reynsluna sem einhverja vitneskju, spyr ég þá: Er reynslan bara úti í hafsauga? Má hún fara út í hafsauga? Kaldar tölulegar staðreyndir úr gögnum Hafrannsóknastofnunar, um það hvað gerðist, á það allt að vera fyrir bí? Eiga menn bara að róa eftir tískunni í fjölmiðlum?

Nei. Hæstv. forseti. Það kemur bara ekki til greina að þessu verði haldið áfram, ekki án athugasemda. Veiðin hér er ekki nema helmingur af því sem hún var. Það er áratuga reynsla fyrir því að frjálsar veiðar hér gerðu þorskstofninum ekkert ógagn. Það er áratuga reynsla fyrir því. Meðan veiðar voru frjálsar í Norður-Atlantshafi fór allur Evrópuflotinn og fiskaði þar sem fiskurinn var. Ég er ekkert að segja að það eigi að hafa veiðar stjórnlausar, ég hef ekki látið það út úr mér. Ég ætla að láta þeim það eftir sem eru alltaf að snúa út úr orðum mínum. Það er mikið af sérfræðingum í útúrsnúningi í þessum bransa. Ég segi hins vegar að Evrópuflotinn veiddi, í Barentshafi, á Íslandsmiðum, við Labrador, við Færeyjar og út um allt hér í Norður-Atlantshafi, í takt við það sem náttúran gaf. Þá var allt í lagi. Eftir að við fórum að stjórna veiðum til að friða smáfisk, til þess að byggja upp stofninn, þá hættu fiskarnir að vaxa og ráðgjafarnir sögðu það flotanum að kenna. Hvernig getur það verið flotanum að kenna ef dregur úr vaxtarhraða fiska, kannski um helming eftir aldri? Voru þá fiskarnir svona hræddir við skipin? Hvernig er þetta rökstutt?

Ég sagði einhvern tíma í gríni að þeir hefðu sennilega áttað sig á hvað fiskihagfræðingarnir ætluðu að gera við þá og ákveðið að hætta að stækka. Þetta er hins vegar ekkert grínmál. Ef við veiðum ekki meira þá getur núverandi stefna leitt þess að þorskstofninn, næst þegar kemur sveifla niður á við, --- við vitum ekkert hvenær, við vitum bara að hún kemur eins og alltaf hefur gerst, brestur kemur í loðnuna og umhverfisskilyrði hér við land --- þá sitjum við uppi með stóran þorskstofn og ráðum ekki við að veiða hann. Hvað gerir hann þá? Þegar hann er búinn að éta rækjuna í forrétt, þá ræðst hann á minni meðbræður sína og hefur þá í aðalrétt. Þá heitir það ofveiði samkvæmt reiknilíkaninu. Svona eru þessi fræði snjöll.

Ég er hérna með frétt úr Dagblaðinu frá 27. nóvember: Afrakstur á Íslandsmiðum. Afraksturinn er fimm botnlægir fiskstofnar, hæstv. forseti. Þetta er árangurinn af fiskveiðistjórninni. Afrakstur af hinum fimm botnlægu fiskstofnum hefur minnkað hér um bil um helming. Hvernig geta menn grobbað sig af einhverjum árangri? Þetta eru pottþéttar tölur sem ég er að nefna hér. Ég tel að árangur sjávarútvegsfyrirtækja síðan 1993 sé vegna þess að yfirdráttur ríkissjóðs í Seðlabanka var afnuminn og hætt að prenta falska seðla niðri í Seðlabanka. Hér komst á stöðugt verðlag og sjávarútvegurinn þurfti ekki lengur að búa við að skipta alltaf á röngu gengi meðan verið var að prenta seðla inn í ketilinn eins og alltaf var gert hér áður. Þetta er aðalástæðan fyrir því hve sjávarútvegurinn hefur gengið vel undanfarin ár, ekki fiskveiðistjórnin.

Ég held, miðað við það sem ég hef sagt hér, að Alþingi verði að taka þetta mál og fara ofan í það upp á nýtt. Ég ætlast ekki til að það verði gert á morgun. Það er löng vinna sem þarf að vera fagleg vinna og ætti að vera þverpólitísk. Alþingismenn verða að vita hið sanna í þessu máli.

Ég held að það sé mjög vel hægt að stjórna fiskveiðum á Íslandi með almennum takmörkunum eins og er alltaf verið að segja að sé það eina sem standist. Með almennum takmörkunum á ég við að krókaveiðar geti verið nánast frjálsar nema með dagatakmörkunum. Hver ætlar að halda því fram að frjálsar krókaveiðar geti útrýmt þorskstofni á Íslandsmiðum? Ætlar einhver að halda því fram? Ef ekki er hægt að sýna fram á þó ekki væri nema fáein rök, þá stenst ekki að takmarka krókaveiðarnar eins og gert er. Það er bara svo einfalt.

Menn eru ekki settir í fangelsi út á ágiskanir. Atvinnufrelsi er grundvallarmannréttindi. Þess vegna verður atvinnufrelsi ekki takmarkað nema sannanir liggi fyrir nauðsyn þess. Atvinnufrelsi má ekki takmarka eftir ágiskun og allra síst ágiskunum sem ekki standast sögulega reynslu eins og ég hef hér lýst. Þetta er ekki flókið mál. Þetta er aðalatriði þessarar fiskveiðistjórnar og ég sakna þess hve umræðan er lítil um þetta vegna þess að þetta er grundvallaratriðið í stjórnuninni. Eins og ég sagði í upphafi eru menn svo að deila um 500 kg eða guð má vita hvað það er, ég nenni ekki einu sinni að tala um það.

Ég held að fiskifræðingar, fiskihagfræðingar sérstaklega, skuldi þjóðinni afsökunarbeiðni miðað við þá sögu sem ég hef rakið. Ég held að þeim fyrirgefist frekar komi þeir sem fyrst út úr skápnum áður en fórnlarlömb dellunnar verða fleiri en þegar er orðið. Ég held að Háskóli Íslands, ef hann ætlar að standa undir nafni, og yfirvöld menntamála verði að grípa inn í. Mér finnst alvörumál að kenna fiskihagfræði hér við háskóla þegar reynslan er sú sem ég hef greint frá. Er það bara allt í lagi að vera að kenna eitthvert bull? Nei, það er ekki í lagi, hæstv. forseti. Það sem kennt er í háskóla verður að hafa einhvern bakgrunn, a.m.k. í læknisfræði. Þar er ekki skorið upp eftir ágiskunum. Eitthvað yrði nú sagt ef það yrði gert.

Ég ætla að minna á að landhelgi okkar, 200 mílurnar, er 750 þús. ferkílómetrar. Þar með deilast 3 ferkílómetrar á mannsbarn á Íslandi og það er býsna mikið hafsvæði. Fiskimiðin okkar eru einhver þau bestu í heimi og við eigum að mínu mati bestu sjómenn og útgerðarmenn í heimi. Ég tel að þessir menn verði að geta stundað sína vinnu með sem mestu frjálsræði. Allt annað drepur niður framleiðni og framfarir.

Hvað veldur því að Íslendingar standa svona framarlega í sjávarútvegi? Áratugafrelsi, athafnafrelsi duglegra manna, fyrirtækja og duglegra sjómanna. Ekkert annað en frelsi til sjósóknar hefur gert Ísland að því sterka ríki sem það er með mikilli velmegun.

[21:45]

Í allri þessari nákvæmni ætla ég aðeins að minnast á hve miklu er hent í sjóinn. Ræðum aðeins um faglegu vinnu. Ég tel að það sé einn af stærstu ágöllum núverandi stjórnkerfis hve miklu er hent. Ég lét SKÁÍS gera skoðanakönnun um þetta árið 1989. Í haust á sú skoðanakönnun 10 ára afmæli. Þegar ég lét gera þá skoðanakönnun fékk ég SKÁÍS til að skrifa bréf til 900 sjómanna, 300 til bátasjómanna, 300 til togarasjómanna og 300 til trillukarla og skrifleg svör voru milli 70 og 80% sem er einhver besta svörun í skriflegri skoðanakönnun hérlendis. Í raun og veru er þetta eina marktæka skoðanakönnunin sem til er um hve miklu er hent í sjóinn. En enginn hefur viljað vita af henni eða að hún væri til. Það var ráðist á mig þegar ég gerði þessa könnun og sagt að ég væri að ná mér niðri á kvótakerfinu. Hagfræðingur LÍÚ gerði það daginn eftir að þetta birtist í Morgunblaðinu. Ég var að ná mér niðri á kvótakerfinu með því að vinna þetta faglega í Alþingi og ég borgaði þetta sjálfur. Það kostaði 180 þús. kr. Ég safnaði síðan fyrir því löngu eftir á en ekki öllu.

Hæstv. sjútvrh., sem er því miður ekki staddur hérna, er búinn að skipa þrjár nefndir í sambandi við það sem hent er í sjóinn. Hvað las ég í fyrsta paragrafi? Fara bara eftir tillögum fiskifræðinga um aflahámark. Þá las ég ekki lengra og henti skýrslunni. Ekkert hefur verið tekið á því hve miklu er hent í sjóinn. Ef 50 þús. tonnum er hent árlega af þorski sem ég tel að sé kannski ekki fjarri lagi, sumir skipstjórar segja 100 þús. tonn og meira, er veiðistofn Hafrannsóknastofnunar líka skakkt reiknaður um 200 þús. tonn vegna þess að þetta kemur ekki inn í aflabókhaldið hjá þessari stofnun. Þeir sögðu að 7 þús. tonnum væri hent síðast þegar ég talaði við þá. Þeir eru enn þá fastir þar. Það vita náttúrlega allir að það er miklu meira.

Ef ég réði einhverju um þetta í dag mundi ég auka þorskkvótann um 50 þús. tonn strax til að minnka spennuna í kringum þetta því að það er spennan sem veldur því hve miklu er hent. Menn eiga engan þorskkvóta og þá er ekki um annað að ræða en henda eða svindla því í land. Hvort er betra? Eða kaupa þorskkvótann á 96 kall. Hvaða vit er í því? Af hverju er verðið á þorskkvóta 96 kr.? Af því að menn eru að kaupa sig frá sekt. Menn eru að kaupa sér aðgöngumiða að öðrum fisktegundum sem finnast ekki. Þú verður að hafa þorsk til að komast að öðrum tegundum, meðafla eins og hann er kallaður. Þess vegna neyðast menn til að kaupa á þessu verði sem er sama verð og hægt er að greiða fyrir fiskinn með húð og hári, með öllu saman, það er reyndar ekkert hár á honum.

Ekkert er fjallað efnislega um það hjá alþingismönnum hvernig það getur gengið að hægt sé að leigja þorskkvóta á 96 kr.? Um það ætti að fjalla því það er bara stórskrýtið. Hver er tilbúinn til að borga það? Hvernig stendur á að einhver getur borgað það? Það er bara eftirspurn. (Gripið fram í.) Eftirspurnin er vegna neyðar manna og það er ekki góð eftirspurn. Sjútvrh. hefur því miður lítið gert í þessu en hann hundskammaði fulltrúa á fiskiþingi haustið 1996 og sagði að íslenskir sjómenn væru að svíkja þjóðina með því að henda fiski. Þá var mér öllum lokið. Íslenskir sjómenn eru ekki að svíkja þjóðina. Íslenskir sjómenn hafa alltaf staðið sig vel. Þeir eiga hins vegar erfitt með að vinna eftir þessum leikreglum, ég þekki það af samtölum við þessa menn.

Aðeins um málefni fiskvinnslunnar. Ég vitnaði í upphafi í mál Viðars Más Matthíassonar um réttindi eigenda fiskvinnsluhúsa. Um það þarf Alþingi að láta vinna álitsgerð. Sjútvn. Alþingis gæti átt frumkvæði að því að vinna þá faglegu vinnu sem vantar til þess að löggjöfin standist dómstóla. Fiskvinnslan hefur streymt stjórnlaust út á sjó þrátt fyrir að þarna séu kannski einhver eignarréttindi. Þetta hefur gerst nánast stjórnlaust. Það er ekki þeim sjómönnum eða útgerðarmönnum að kenna sem eru að gera út frystiskip. Ég mundi aldrei taka mér það orð í munn að þetta væri þeim að kenna, þeir væru vondir menn ef einhver mundi reyna að snúa út úr því. Þetta eru duglegir menn sem eru að reyna að vinna og reka fyrirtæki sín með hagnaði eftir þeim leikreglum sem Alþingi hefur sett.

Nú ætla ég aðeins að minnast á svokallaða 1. gr. laga um fiskveiðistjórnun. En ég ætla að sleppa því að tala um það sem búið er að ræða mikið og ræða frekar það sem ekki hefur verið rætt um í þessari grein. ,,Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.`` Þetta hefur mikið verið rætt og ég ætla ekki að eyða tíma í það. Síðan kemur:

,,Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.``

Þetta er helsta markmið laga um stjórn fiskveiða, að treysta byggð í landinu. Ég tel að þessi setning leggi stjórnvöldum ríkar skyldur á herðar varðandi hagkvæma nýtingu fiskstofna samkvæmt bestu fáanlegu upplýsingum og það er ekki endilega að friða fiska. Til að koma í veg fyrir misskilning þá er ég ekkert að segja að veiðar eigi að vera stjórnlausar. Ég er fyrst og fremst að fjalla um að það megi veiða meiri þorsk. Niðurstaða mín er sú að það mundi engu máli skipta þó menn mundu auka þorskkvótann um 100 þús. tonn frá því sem hann er í dag. Það kæmi þá fram. Ef það væri dagakerfi algerlega í staðinn fyrir aflamark, þá er sjálfvirkt togararall alltaf í gangi, þá er hafið alltaf að segja hvað er mikið til, afli á sóknareiningu. Afli á sóknareiningu er ein af þeim skekkjum, þorskafli á sóknareiningu er notaður sem hluti af aðferð við að reikna út stærð þorskstofna. Þegar menn hafa í vaxandi mæli forðast þorsk ár eftir ár en reynt að veiða eitthvað annað er vafasamt að fara að nota þorskafla á sóknareiningu í einhverri fastri stærð sem viðmiðun í stærðarmati á stofninum. Það verður auðvitað kolvitlaust mat. Það er eins og að brjóta bút af tommustokknum á hverju ári en halda að menn séu alltaf með 100 sm.

Ég ætla að fara að ljúka þessari ræðu. Markmiðið með lögum um stjórn fiskveiða er að nýta fiskstofna á sem hagkvæmastan hátt, ég undirstrika það, og treysta byggð í landinu. Ég vona að Alþingi Íslendinga beri gæfu til að fara ofan í það grundvallaratriði sem ég hef rætt um. Ég tel að Alþingi sé skylt að láta endurskoða áhættumat við fiskveiðar og þá muni koma nýjar áherslur.