Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 11:49:32 (3030)

1999-01-12 11:49:32# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[11:49]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Vegna þessarar spurningar má ég til með að fara yfir það enn þá einu sinni að ég sagði hér í lokaorðum mínum, herra forseti: Það er skoðun mín og margra annarra --- ég er ekki að lýsa flokksskoðun --- að allir smábátar undir 6 tonnum eigi að vera undir sama veiðistjórnarkerfinu, þ.e. krókaveiðikerfinu.

Það er skoðun mín að dagakerfi, sem er líklegt til að tryggja viðunandi afkomu, ef það væri þannig, eða aflamarkið, sem hefði það sama að markmiði, geti dugað. Ég held að aflamark sé besta kerfið vegna þess að það kemur í veg fyrir óskynsamlega og áhættusama sjósókn á þeim tímum sem ég var að rekja áðan.

Herra forseti. Ég get ekki útskýrt orð mín betur. Ég er búinn að fara með þau þrisvar.

Varðandi tillöguna um verðmætaúthlutun á báta er ég búinn að reifa þessa tillögu í fimm ár, í hvert einasta skipti sem þessi mál hafa verið til umræðu á Alþingi. Í hverri einustu grein sem ég hef skrifað um sjávarútvegsmál er getið um þennan möguleika. Þær greinar eru ekki margar, þær eru svona tvær til þrjár á ári, það eru sennilega sjö til átta greinar sem liggja eftir undirritaðan um þessi mál. Þetta er í fyrsta skipti sem einhver tekur undir að það felist hugsanlega eitthvað nýtt í þessum hugmyndum.