Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 14:51:28 (3053)

1999-01-12 14:51:28# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, KrP
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[14:51]

Kristinn Pétursson:

Hæstv. forseti. Í sambandi við það mál sem hér er til umfjöllunar, löggjöf í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar, ætla ég að undirstrika að enn er ósvarað mörgum grundvallarspurningum til þess að menn geti myndað sér skoðun í smáatriðum hvernig eigi að útfæra stjórn fiskveiða betur en gert er í dag.

Árið 1992 bað ég Sigurð Líndal lagaprófessor að gera álitsgerð um hvort 3. gr. fiskveiðistjórnarlaganna stæðist ákvæði stjórnarskrár. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa þrjár línur úr álitsgerðinni:

,,Í 3. gr. laga um stjórn fiskveiða er ákvörðunarvald um að leggja bönd á atvinnufrelsi manna, framselt sjútvrh., og verður ekki séð að það samrýmist 69. gr. stjórnarskrárinnar svo sem Hæstiréttur hefur túlkað hana.``

Þessa álitsgerð sendi ég ríkisstjórninni og ég veit að hún var send tvíhöfða nefndinni sem þá var að störfum í sjávarútvegsmálum og síðan veit ég ekkert hvað varð um hana. Þess vegna hef ég lagt fram skriflega fyrirspurn á hv. Alþingi til sjútvrh. um hvað hafi orðið um þessa álitsgerð og hvers vegna hafi ekki verið tekið mið af henni.

Meining mín er sú að ef Alþingi ákveður aflahámark, eins og ég tel að skylt sé að gera, þá fer fram umræða í löggjafarsamkomu þjóðarinnar um hversu mikið má veiða af einstökum tegundum og þannig geta þingmenn sett sig inn í það og er það til mikilla bóta. Takmörkun á atvinnufrelsi í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar á ekki að fara fram í einhverjum lokuðum klúbbi eða jafnvel bara í einhverri tölvu úti í bæ. Það er aldeilis ófært. Án nokkurrar umræðu. Allra síst ef miðað er við reynsluna sem ég rifjaði upp í gærkvöldi.

En aðeins í sambandi við atvinnuréttindin. Það hefur verið skilgreint að útgerðarmenn ættu tiltekin atvinnuréttindi, þ.e. eignarréttindi í formi atvinnuréttinda. En ekki hefur verið spurt um atvinnuréttindi fiskvinnslu í landi, atvinnuréttindi fiskverkafólks og atvinnuréttindi sjómanna. Þessum grundvallarspurningum verður að fá svar við því að Alþingi getur ekki markað vandaða löggjöf nema fá svar við þessum spurningum. Ég ætla ekki að fullyrða að þessir aðilar eigi einhver sérstök atvinnuréttindi en löggjöfin verður að vera hafin yfir allan vafa og þess vegna á að fá svar við þessum grundvallarspurningum, lögfræðilega skilgreiningu á þessum atvinnuréttindum.

Ef ég leyfi mér aðeins að láta hugann fljúga, t.d. hvort atvinnuréttindi sjómanna eru fyrir hendi, þá getur vel verið að ef kvóti er leigður af bát eigi hluti af leigutekjunum að koma til skipta samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Þar væri kannski um að ræða atvinnuréttindi sjómanna á viðkomandi bát. Ég ætla ekki að fullyrða að svo sé en mér finnst samt líklegt að sjómenn eigi einhver atvinnuréttindi eins og aðrir ríkisborgarar.

Fiskvinnsla hlýtur líka að eiga einhver atvinnuréttindi. Ég rifjaði það upp í gær að til er lögfræðiálit Viðars Más Matthíassonar, lagaprófessors uppi í háskóla, sem unnið var fyrir ári þar sem hann kemst að því að fiskvinnsla eigi tiltekin atvinnuréttindi, þ.e. fasteignir og fjárfestingar í landi. En á meðan hv. Alþingi hefur ekki látið fara fram slíka grundvallarvinnu er mjög erfitt fyrir þingmenn að mynda sér skoðun eða semja vandaða löggjöf, og ég tala ekki um ef þetta er unnið í tímahraki. Ég vildi því undirstrika að allir alþingismenn, þingmenn í öllum flokkum eiga að sameinast um að vinna þessa grundvallarvinnu til að menn geti síðan markað sínar pólitísku stefnur í framhaldi af þeirri vinnu.

Mig langar aðeins að vitna í margumræddan hæstaréttardóm, með leyfi hæstv. forseta:

,,Löggjafanum er rétt að takmarka fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, ef uggvænt þykir að fiskstofnar séu í hættu.``

Ég undirstrika þetta. Ef uggvænlegt þykir að fiskstofnar séu í hættu þá er heimilt að takmarka fiskveiðar. Þessi setning segir að ef það er ekki neitt uggvænlegt með einhvern fiskstofn er vafasamt að það megi beita róttækum takmörkunum, frekar að það mætti beita almennum takmörkunum en á því er mikill munur.

En síðar segir í hæstaréttardómnum:

,,Þær skorður, sem atvinnufrelsi á sviði fiskveiða við strendur Íslands eru þannig reistar með lögum, verða á hinn bóginn að samrýmast grundvallarreglum stjórnarskrárinnar. Dómstólar eiga úrskurðarvald um það, hvort löggjafinn hafi að því leyti gætt réttra sjónarmiða.``

Ég dreg þessa löggjöf í efa þó ekki væri nema vegna þess að veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, eins og ég rifjaði upp í gær, hefur aldrei reynst rétt. Aflasveiflur hafa alltaf verið á Íslandsmiðum. Ég ætla að minna á greinargerð sem Páll Bergþórsson, fyrrverandi veðurstofustjóri, vann. Hann var með samanburð á hitastigi og aflahlutum aftur til ársins 1600, þ.e. í nærri 400 ár. Hann bar saman hitastig í Stykkishólmi og aflasveiflur á Íslandsmiðum og í ljós kom að afli jókst um 40% við hverja gráðu sem hiti hækkaði í Stykkishólmi. Aflasveiflur og veðurfarssveiflur hafa því alltaf fylgst að í þessi 400 ár. Þessi 400 ára reynsla er því ekki lítið innlegg í umræðuna.

Ég ætla líka að minna á að líffræðideild Háskóla Íslands og prófessorar þar vöruðu við því þegar kvótakerfið var sett á að ekki væri verið að beita réttri nýtingarstefnu þar sem vaxtarhraði hafði fallið í þorskstofninum um 30% árin 1980--1983. Margir aðrir náttúrufræðingar, sjálfstætt starfandi fiskifræðingar og leikmenn hafa gagnrýnt forsendur fyrir þeirri friðunarstefnu sem er rekin í Norður-Atlantshafi. Ég rifjaði það upp í gær, hæstv. forseti, að þorskafli í Norður-Atlantshafi er einungis orðinn einn þriðji af því sem hann var meðan veiðar voru frjálsar og það getur ekki talist merkilegur árangur.

Á Íslandi var samin svokölluð svört skýrsla 1975 og sagt að ef ekki væri farið að tillögum Hafrannsóknastofnunar mundi þorskstofninn hrynja. Ekki var farið eftir þessum tillögum og þorskstofninn blómstraði beinlínis við meinta ofveiði, þ.e. hann var 830 þús. tonn 1975 og það var haldið áfram að veiða 360 þús. tonn að meðaltali næstu fimm árin og þorskstofninn stækkaði um helming eftir ofveiði um 600 þús. tonn.

[15:00]

Mér finnst mjög margt benda til að sams konar uppsveifla sé í sjávarskilyrðum við Ísland í dag. Enda kom út bók Hafrannsóknastofnunar um nytjastofna á Íslandsmiðum 1995 þar sem sagði að þorskstofninn á þessu ári, ef fylgt væri tillögum þeirra, mundi verða 780 þús. tonn en hrygningarstofninn mundi minnka niður í 280 þús. tonn. Síðan kemur út skýrsla þeirra núna í ár og þá er hrygningarstofninn allt í einu orðinn 560 þús. tonn, og ég orðaði það sem svo að það hefði rignt 280 þús. tonnum af hrygningarfiski óvænt ofan í miðin. En auðvitað var um að ræða uppsveiflu sjávarskilyrða eins og 1975--1980.

Varðandi flotastærð á Íslandsmiðum verð ég að taka undir það að ég held að strandveiðiflotann þurfi að takmarka. Reyndar er nægilegt að takmarka hann með dagatakmörkunum að mínu mati, miðað við þá reynslu sem við höfum af veiðum. En t.d. í veiðum á kolmunna eigum við engin skip þannig að ekkert væri því til fyrirstöðu að breyta eitthvað reglunum, t.d. hvað varðar kolmunna. Við eigum engin nógu stór skip til að stunda þær veiðar þannig að arðsemi sé tryggð. Það þarf mjög stór og þung skip til að draga þau veiðarfæri sem kolmunninn veiðist í. Þó að það sé kannski hægt að gera það á minni skipum er það ekki eins öruggt og ekki eins arðsamt.

Við eigum túnfisk sem við erum lítið byrjuð að veiða bæði utan við landhelgina og í landhelginni, búra og margar fleiri fisktegundir sem við erum ekkert farin að nýta. Ég spyr bara: Hvaða floti er afgangs í þetta? Er hann einhver? Ég veit ekki til þess að nein stór skip séu nokkurn tímann verkefnalaus. Ég ætla að minna á að loðnuveiðar hafa ekki náðst í mörg, mörg ár. Það hefur alltaf gengið af kvótanum 100--200 þús. tonn og gerir það sjálfsagt enn þá í ár. Er þá flotinn of stór ef við erum að tapa af kannski milljarði á ári vegna þess að við náum ekki að veiða það sem sérfræðingar segja að við megum veiða? Þá er önnur spurning: Þurfum við að takmarka veiðar þegar við náum ekki að veiða það sem við megum veiða? Það er a.m.k. rétt að spurt sé.

Mér virðist að þetta málefni, stjórn fiskveiða, og hvernig fjölmiðlar koma inn í það --- það er orðið það mikið í tísku, eins og ég sagði í gærkvöldi, að friða þorsk í Norður-Atlantshafi, að við erum eiginlega komin á sömu braut og Bandaríkjamenn með hvalafriðun. Við Íslendingar höfum orðið að þola að mega ekki veiða hval fyrir tískuþrýsting í gegnum fjölmiðla. Það er aðalmálið. Menn hafa ekki haft bein í nefinu til þess að leyfa hvalveiðar á Íslandi og spyrna á móti þessari tísku. Það finnst mér mjög miður. Enn meira miður þykir mér ef fara á sömu braut með þorskinn. Ég ítreka að þorskveiðar eru orðnar einn þriðji af því sem þær voru. Það eru engar þorskveiðar við Grænland og engar þorskveiðar við Kanada. Þorskurinn hætti að vaxa þegar hann var friðaður og ég rakti það í gærkvöldi og ég ætla ekki að gera það aftur nú, þannig að þyngsti fiskurinn á svæðinu var kominn í um 800 grömm 1993 í Kanada, og það var hrygningarstofninn, sem dó svo að lokinni hrygningu.

Aðeins hefur verið rætt um brottkast afla, hæstv. forseti, og hvað eigi að gera í því sambandi. Ég hef í sjálfu sér enga patentlausn á því. En það fyrsta sem á að gera er að auka aflaheimildir í þorski um 50 þús. tonn til að minnka þá spennu sem er um þorskveiðar. Kvótaleiga í dag á 96 kr. sýnir að menn eru að kaupa þetta í nauðvörn. Menn eru að leigja aflaheimildir í nauðvörn til þess að fá að komast að öðrum fisktegundum sem þeir hafa heimildir til að veiða, til þess að geta gert út. Þeir eru að kaupa sér aðgöngumiða að þorski, aðgöngumiða að öðrum fisktegundum með því að kaupa þorskveiðiheimildir á 96 kr. því að getur enginn keypt þorskveiðiheimild á 96 kr. til þess að hafa arð af því, því að menn fá ekki nema 90--96 kr. að meðaltali fyrir fiskinn þegar hann kemur í land. Það má kannski líkja þessu við sjúkling með 96 stiga hita þegar hann ætti vera með 37, því það væri eðlilegt að segja að verðið gæti verið 37 kr. þannig að einhver glóra væri í því.

Ég hef þá lausn á þessu máli að auka framboð á aflaheimildum. Þá minnkar borttkastið um leið og þá lækkar verð á veiðiheimildum og kvótakerfið fer kannski að virka eins og það átti að gera. Þorskstofninn er nefnilega miklu stærri en sérfræðingar segja og það er miklu meira af þorski því að hann er alltaf að þvælast fyrir mönnum. Þess vegna eru þeir að neyðast til þess að kaupa þessar heimildir á svona háu verði. Það er bara að menn vilja ekki skilja þetta. Það má ekki tala um að reiknilíkan veiðiráðgjafa sé ónýtt.

Alla rannsóknarstarfsemi Hafrannsóknastofnunar tel ég vera með ágætum, þó ég vildi reyndar fá samkeppni á því sviði. En ég tel að túlkun þeirra á rannsóknargögnum sé algjörlega út í hött. Ég sagði í gær að fiskifræðingar og fiskihagfræðingar uppi í háskóla ættu að biðja þjóðina afsökunar á öllu því bulli sem þeir hafa látið frá sér fara. Ég ætla að ítreka það nú. Það kemur að því að þeir verða að gera það vegna þess að þetta bull í kringum ofveiði á þorski í Norður-Atlantshafi er að verða hneyksli að mínu mati eins og Watergate-hneykslið í Bandaríkjunum á sínum tíma. En fjölmiðlar á Íslandi eru svo slappir að þeir þora ekki að kynna sér þetta af því það er ekki í tísku. Maður selur kannski enga auglýsingu á eftir umfjöllun um eitthvert mál sem er ekki í tísku. Það verður að vera í tískunni til þess að geta selt auglýsingarnar, og fjalla bara um umhverfismál, friða hval, friða þorsk, friða, friða. Vera í tískunni. Friða gelda gæs hjá Eyjabökkum, friða alls staðar. Það er tískan. Svo dansa menn eftir tískunni og stjórnmálamenn á eftir. Þannig halda þeir að þeir verði vinsælir.

En við skulum ekki gleyma því að þessi saga verður öll skráð. Þegar upp verður staðið verða þeir ekkert vinsælir sem feyktust með í vitleysunni. Auðvitað snýst þetta ekki um vinsældir. Þetta snýst um skyldur, skyldur hv. alþingismanna að vita hvað er rétt í því sem verið er að halda fram. Er það rétt sem ég er að segja að það sé engin ofveiði á þorski? Ég er búinn að kynna mér þetta sem leikmaður í tíu ár, bæði hér á Íslandsmiðum og annars staðar í Norður-Atlantshafinu. Niðurstaðan er sú að þessi veiðiráðgjöf sé alltaf röng. Mönnum datt í hug að búa til reiknilíkan fyrir 30 árum sem hefur aldrei staðist. Þetta reiknilíkan virðist vera svo heilagt að ekki má tala um að það sé ekki nothæft. Það er heldur ekki í tísku að tala um það. Við skulum ekki gleyma því.

Ég tel sem sagt að hv. alþingismenn í öllum flokkum eigi að afla sér svara við grundvallarspurningunni um atvinnuréttindi allra í sjávarútvegi. Það er númer eitt. Síðan eiga þeir að kynna sér hvað er hæft í þeirri gagnrýni sem ég og margir fleiri, vísindamenn, náttúrufræðingar, veðurfræðingar, líffræðingar, margir uppi í háskóla sem þora ekki að láta á sér kræla því að það er jafnvel mannorðsmissir að tala um þetta. Allir þessir gagnrýnendur eiga skilið að Alþingi Íslendinga hlusti á það hvað þeir hafa fram að færa þó þeir séu minnihlutahópur. Þegar upp verður staðið skráir sagan það alveg eins og þegar menn héldu því fram að jörðin væri flöt. Á hvaða forsendum héldu menn því fram þá? Ég rifjaði það upp í gærkvöldi. Samkvæmt bestu ríkjandi vísindalegu þekkingu sem þá var til. Nákvæmlega sami frasinn og í dag. 300 ár í mannkynssögunni eru ekki langur tími.

Þegar hv. alþingismenn hafa fengið svör við grundvallarspurningum um atvinnufrelsi, atvinnuréttindi, hvort framsal er í núverandi stjórnarskrá, hvort framsal er í núverandi fiskveiðistjórnarlögum og hvort jafnréttisákvæðum er fullnægt geta þeir farið að smíða vandaða löggjöf í þessari mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar. Ég harma að sú vinna skuli ekki hafa verið unnin fyrr en betra er seint en aldrei.