Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 15:36:57 (3056)

1999-01-12 15:36:57# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[15:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í þessari grein, 1. gr. frv., koma fram efnislega meginviðbrögð hæstv. ríkisstjórnar við dómi Hæstaréttar. Ríkisstjórnin og meiri hluti hennar hafa valið þá sérkennilegu leið að flytja með breytingu þessari á 5. gr. laganna þá stefnu fram að afnema skuli alla stýringu á stærð eða afkastagetu íslenska fiskiskipaflotans, samanber þessa útgáfu af nýrri 5. gr. laganna.

Hins vegar er hvergi hróflað við hinu megintakmörkunarkerfi stjórnkerfisins, þ.e. aflamarkinu eða aflahlutdeildarkerfinu, þvert á móti er það fest enn betur í sessi með aðgreindum og framseljanlegum sérréttindum þeirra aðila sem eru fyrir í kerfinu. Þessi viðbrögð við dómi Hæstaréttar orka mjög tvímælis, herra forseti, og við munum ekki greiða þeim atkvæði. Hins vegar eru ekki efni til að greiða atkvæði gegn ákvæðum þessarar greinar sérstaklega. Við þingmenn óháðra munum í aðalatriðum sitja hjá við meginefni frv. en þó reyndar greiða atkvæði gegn og í öðrum tilvikum með nokkrum völdum ákvæðum frv.