Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 14:37:34 (3077)

1999-01-13 14:37:34# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[14:37]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil líka taka það fram að ég tel ákaflega brýnt að það sé haft í heiðri og menn horfi á þá staðreynd, sem ég tel grundvallarstaðreynd fyrir efnahagslífið, að veiðar á Íslandsmiðum og íslenski fiskiskipaflotinn verði ekki sundur skilinn. Þetta var það sem menn litu alltaf á þegar við vorum að berjast fyrir íslenskri landhelgi, það var að fá einir leyfi til þess að nýta Íslandsmið. Þetta held ég að sé grundvallaratriðið, þ.e. atvinnuleyfið, atvinnuréttindi íslenska fiskiskipaflotans. Með hvaða móti við tryggjum það svo getum við deilt um. Það eru ýmsar aðferðir til við það en þetta er grundvallaratriðið og ég tel að þetta grundvallaratriði eigi menn að hafa í heiðri. Það megi ekki víkja út frá því.

Svo get ég alveg tekið undir það, herra forseti, með hv. þm. að það kann að vera að ýmsir menn séu kannski með einhverja hræsni í sambandi við þetta. Ég ítreka það að ég hef aldrei litið á þetta sem fiskfriðunartæki. Þetta er hagstjórnartæki, og á að vera það til að tryggja réttindi íslenska fiskveiðiflotans til þess að stunda og nýta Íslandsmið, enda mundi það koma Íslendingum öllum til góða.