Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 15:57:47 (3086)

1999-01-13 15:57:47# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[15:57]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru barnalegir útúrsnúningar. Ég hef lýst því alveg skýrt að ríkisstjórnin telur að það séu rétt og eðlileg viðbrögð við dómi Hæstaréttar að breyta 5. gr. á þann veg sem verið er að gera með þessu lagafrv. Ég hef hins vegar sagt: Það eru aðrir kostir færir sem samrýmast dómi Hæstaréttar. Hæstiréttur hefur útilokað ákveðna kosti sem aðrar þjóðir nota við fiskveiðistjórn. En það eru aðrir kostir færir samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar sem hægt er að fara við fiskveiðistjórn, og ég var að fara yfir þá hér. Ef það hefur farið fram hjá hv. þm. þá hafði ég verulegar efasemdir um ágæti þeirra leiða. En þær eru samkvæmt stjórnarskipunarlögum landsins færar. Og fyrr væri nú ef menn væru ekki reiðubúnir að viðurkenna það að stjórnarskipunarlög landsins leyfa fleiri möguleika í þessum efnum.

Ég hef alltaf sagt það hér að ég er tilbúinn að rökræða þá kosti sem menn standa frammi fyrir. En mér hefur fundist að á það skorti að þingmenn stjórnarandstöðunnar væru reiðubúnir að rökræða og útfæra þær hugmyndir sem þeir hafa verið með.