Heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 13:55:15 (3133)

1999-02-02 13:55:15# 123. lþ. 57.96 fundur 221#B heilbrigðisþjónusta í Hafnarfirði# (umræður utan dagskrár), SF
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[13:55]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil benda á allt það jákvæða sem á sér stað í Hafnarfirði í málefnum heilsugæslunnar, þar sem hv. fyrirspyrjandi vakti aðallega máls á því neikvæða og dró þá stofnun niður, sem hún á ekki skilið. Stofnunin veitir afar góða þjónustu og hún verður enn betri núna vegna þess að bætt hefur verið við læknum. Einnig er verið að stækka húsnæði stöðvarinnar um rúma 300 fermetra og verkið klárað í lok febrúar.

Það er alrangt, sem hér hefur verið haldið fram, að bæjaryfirvöld hafi staðið í leynimakki og hafi rokið til. Það er alrangt. Samráð var haft um málið við starfsfólk og yfirstjórnendur heilsugæslunnar í Hafnarfirði, líka á Sólvangi og St. Jósefsspítala um þessi mál. Það er því ekki rétt að hér sé eitthvað leynimakk á ferðinni.

Varðandi umræðuna eins og hv. fyrirspyrjandi lagði hana upp verð ég að taka undir með þeim sem átta sig ekki á henni og þeim spurningum sem hér voru lagðar fram. Spurningarnar bera vott um að þyrla eigi upp pólitísku moldviðri sem á sér ekki neina forsendu.

Ætlunin er að kanna möguleikana á að sameina heilbrigðisstofnanir Hafnarfjarðar í eina sterka stofnun svo Hafnfirðingar geti náð enn betri tök á þróun þessara mála. Hér er látið að því liggja að St. jósefsspítali sé í hættu, heilsugæslan sé í hættu og hjúkrunarheimilið Sólvangur sé í hættu. Það er alrangt. Það er einmitt verið að sameina stofnanirnar, skoða möguleikana á því hvort og hvernig sé hægt að styrkja þessar stofnanir og hlúa enn betur að heilsugæslumálum Hafnfirðinga í framtíðinni. Ég vísa því algjörlega á bug þeim dylgjum sem hér hafa komið fram, um að jafnvel eigi einkavæða þjónustuna og gera þessum stofnunum erfiðara fyrir. Það er alrangt.