Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 14:07:06 (3138)

1999-02-02 14:07:06# 123. lþ. 57.97 fundur 222#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[14:07]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. fyrir að hefja þessa umræðu. Full ástæða er til að ræða tekjuskiptingu sveitarfélaga og ríkis og líka er ástæða til að ræða fjárhagsstöðu sveitarfélaganna í landinu. Nokkur sveitarfélög eru í verulegum vanda, en flest eru þau sem betur fer í góðum málum. Það er mikilvægt að sveitarstjórnarmenn sýni ábyrga fjármálastjórn. Hámarksútsvarsprósenta sveitarfélaganna er 12,04%. Lágmarksútsvar er 11,24%. Á þessu ári hefur 71 sveitarfélag eða rúmur helmingur sveitarfélaga ákveðið að nýta sér hámarksútsvar, þ.e. rúmlega helmingur sveitarfélaganna og í þeim hópi eru t.d. Hafnarfjarðarkaupstaður, Akranesskaupstaður og sveitarfélagið Árborg. Þrjú sveitarfélög hafa ákveðið útsvarsprósentuna á bilinu 12--12,02%. 11 sveitarfélög eru með 11,99%, t.d. Reykjavík og Kópavogsbær. 17 sveitarfélög eru með útsvarsprósentu á bilinu 11,79--11,86% og fimm sveitarfélög eru með lágmarksútsvar. Mörg sveitarfélög hafa því ákveðið svigrúm til að hækka útsvarsprósentuna innan gildandi laga til að mæta auknum útgjöldum, t.d. í grunnskólamálum. Í þeim sveitarfélögum --- og nú bið ég hv. þm. að taka eftir --- í þeim sveitarfélögum sem hafa borð fyrir báru búa 200 þúsund manns. Það eru einungis 76 þúsund manns sem búa í sveitarfélögunum sem nú þegar hafa fullnýtt útsvarið.

Sveitarfélögin hafa í allmörg ár haft skólabyggingar á sinni könnu og gerður var samningur við sveitarfélögin um að ráðast í átak í einsetningu grunnskólans á tilteknu tímabili. Til þess að létta undir með sveitarfélögunum við það verkefni leggur ríkið til allt að 20% af normkostnaði við skólabyggingar í sveitarfélögum með fleiri en 2 þúsund íbúa, sem er þá í raun viðbótarframlag ríkisins til þessa verkefnis sveitarfélaga. Minni sveitarfélög hafa fengið framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til grunnskólabygginga og það breytist ekki nema að því leyti að grunnskólabyggingar njóta nú forgangs við úthlutun stofnframlaga úr sjóðnum. Sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins, einkum minni sveitarfélögin, eru yfirleitt lengra komin í einsetningunni en stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þótt mikil skref hafi verið stigin á þessu svæði til einsetningar.

Ef hróflað verður við þessum áformum þarf líka að taka tillit til þeirra sem búin eru að gera áætlanir sínar um einsetninguna og vilja standa við þau tímamörk. Það eru til sveitarfélög sem hafa spurt hvernig þau verði meðhöndluð ef til lengri tíma kemur, þ.e. sveitarfélög sem hafa lagt fram sínar framkvæmdaáætlanir miðað við gefnar forsendur. Það gæti komið einhverjum sveitarfélögum til góða að lengja í einsetningartímabilinu en þó er nauðsynlegt að taka tillit til þeirra sveitarfélaga sem vilja standa við fyrirliggjandi áform. Þetta er ekki alveg einfalt mál því sum sveitarfélögin hafa aukið kennslu þannig að svo gæti farið ef farið yrði að tvísetja að það yrði að hafa krakkana til klukkan sex, eða seinna hollið til klukkan sex, og býst ég við að mönnum þyki það nokkuð langt. En a.m.k. eitt sveitarfélag, þ.e. Hafnarfjörður, hefur óskað eftir umræðum um frestun á einsetningarkröfunni.

Í félmrn. hefur verið ákveðið að skipa nefnd til að athuga tekjustofna sveitarfélaga. Þetta er gert að beiðni Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í þessari nefnd munu eiga sæti fulltrúar ráðuneyta og fulltrúar þingflokka stjórnarflokkanna.

Menn hafa mikið rætt um að grunnskólinn hafi reynst sveitarfélögunum dýr. Ég er hér með í höndum yfirlit frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, gert á síðustu dögum. Inn í það eru tekin áhrifin af kjarasamningum kennara, þ.e. þessi 33% hækkun sem kennararnir fengu meðan í samflotinu var 17% hækkun og hjá ASÍ 19% hækkun. Sveitarfélögin eiga á þessu fjögurra ára tímabili að eiga 1 milljarð í afgang fram yfir gefnar forsendur og 33% hækkun til kennara.