Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 15:59:16 (3159)

1999-02-02 15:59:16# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[15:59]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt því reyndar ekki fram að hv. þm. hefði farið fram á að sérhagsmunahópar ættu að hafa sérstök áhrif. Hann taldi hins að það þyrftu miklu fleiri að koma að og stærri nefnd til að vinna að tillögunni svo öll sjónarmiðin kæmust að. Ég sagði einungis að ekki væri hægt að vinna á þann hátt. Það fæst aldrei niðurstaða úr slíku og við verðum einfaldlega að beygja okkur fyrir raunveruleikanum og skipa vinnunefndina eftir því verkefni sem henni er ætlað að vinna.

Kjósendur mínir vilja ekki að búin séu til óþarflega stór og óskilvirk bákn. Ég er sannfærður um að þeir munu fallast á þær röksemdir mínar að skynsamlegt sé að hafa 11 manna nefnd þar sem gert sé ráð fyrir að þeir sem þar starfi geti tekið tillit til fleiri en eins sjónarmiðs.

Ég tel að ef hv. þm. vill fylgjast með skipulagsmálum alls staðar á landinu, hvort sem það er á deiliskipulagsstigi eða aðalskipulagsstigi, þá eigi hann tiltölulega auðvelt með að nálgast þær upplýsingar. Þær ber að kynna innan sveitarfélaganna fyrir íbúunum, svo augljóst sé og skýrt. Jafnframt ber að kynna slíkar tillögur fyrir nágrannasveitarfélögunum.

Með nútímatækni er hægt að víkka kynninguna út enn þá frekar og gera þá kröfu að allar þessar tillögur séu settar inn á netið þannig að þær séu öllum aðgengilegar. Það er sjálfsagt að við tökum það til athugunar í framtíðinni í umhvn. að skoða slíkar breytingar. Eins og staðan er í dag á ekki að vera nokkur hindrun fyrir því að sá sem vill fylgjast með skipulagstillögum hvar sem er á landinu geti það ekki og geti ekki lagt fram athugasemdir í tíma.