Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 17:39:51 (3180)

1999-02-02 17:39:51# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[17:39]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var afar erfitt að skilja hv. þm. Kristján Pálsson í fyrri ræðu hans og ekki fannst mér það auðveldara núna. Ég skil ekki þennan málflutning: ,,... ekkert sem bendir til að herinn þurfi að fara``. Þeir eru væntanlega ekki hér í einhverjum sumarleyfisbúðum. Það hlýtur að vera ákvörðun sem tekin er út frá einhverri skilgreindri varnarþörf, öryggis- og varnarþörf innan Evrópu. Þetta er mjög sérkennilegt orðalag: ,,... ekkert sem bendir til þess að herinn þurfi að fara``.

Hvað varðar uppsagnir tvö þúsund starfsmanna þá er hv. þm. alveg sérdeilis laginn við það að toga og teygja það sem sagt er. Ég sagði: Við viljum að teknar verði upp viðræður við Bandaríkjastjórn um varnarsamninginn og samkomulag sem honum er tengt. Það er ljóst að gildistími þessa samkomulags er að renna út. Er þá ekki eðlilegt að mati hv. þm. að það sé rætt hvert framhaldið verður, hvað skuli koma í staðinn og hvernig skuli brugðist við?

Það sem við erum að segja hér fyrir hönd samfylkingarinnar er í svipaða veru og tillaga hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur og hv. þm. Ragnars Arnalds sem enn er í Alþb. Ég skil vel að hv. þm. sé kannski farinn að ruglast svolítið í því. Það er nú það eina sem ég skildi í hans málflutningi. Hann er í Alþb. Þetta eru ekki ,,fyrrverandi`` félagar mínir, heldur fyrrverandi félagi minn, í eintölu.

Hvað skal koma í staðinn og hvernig geta Íslendingar yfirtekið þennan rekstur? Hvorki í tillögu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar né því sem ég sagði kemur nokkuð fram um að það eigi að henda út tvö þúsund starfsmönnum. Það er ekkert um það að ræða. Það er bara rangtúlkun og ekki hv. þm. sæmandi.