Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 17:46:39 (3183)

1999-02-02 17:46:39# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[17:46]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir þakkar hv. flm. fyrir að flytja þessa tillögu og hún segir: ,,Samfylkingin getur tekið undir þessa tillögu í flestum atriðum. Hún ráðgerir ekki breytingar á aðild að NATO næstu fjögur árin en ætlar að athuga málið.`` En hvað kemur fram í tillögunni? Það kemur fram í tillögunni að markmið nefndarinnar, markmið þess starfs sem nefndin á að vinna, er að ganga úr NATO og að herinn fari.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir segir líka að samfylkingin vilji móta heildstæða stefnu í öryggismálum þjóðarinnar. Við höfum heildstæða stefnu í öryggismálum þjóðarinnar og hún er að varnarliðið sé kyrrt. Hún er að við séum aðilar að NATO og hún er að við tökum þátt í þeim breytingum sem nú eiga sér stað á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Undir þessa stefnu taka forustumenn jafnaðarmannaflokkanna í Evrópu, þeir sem svo títt er vitnað til, Schröder og Blair.

En mig langar að spyrja hv. þm. Margréti Frímannsdóttur: Ef Jóhanna Sigurðardóttir, leiðtogi samfylkingarinnar í Reykjavík, og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, leiðtogi samfylkingarinnar á Vestfjörðum, væru stödd í þessum sal mundu þau þá tala á sama hátt? Væri sú stefna sem þau boðuðu sama stefnan og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, leiðtogi samfylkingarinnar á Suðurlandi, boðar? Ef svo er ekki, ef hinir leiðtogarnir boða aðra stefnu, þá hefur samfylkingin ekki stefnu í öryggismálum íslensku þjóðarinnar og það er hættulegt.