Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 17:54:28 (3187)

1999-02-02 17:54:28# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[17:54]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þá tillögu til þál. sem hér er til umræðu og fjallar um að gengið verði til viðræðna við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. Ég er því eindregið fylgjandi að Ísland verði herlaust land og eigi ekki aðild að hernaðarbandalögum.

Í þáltill. segir um þær viðræður sem lagt er til að gengið verði til:

,,Stefnt skal að niðurstöðu áður en gildandi samkomulag við bandarísk stjórnvöld um umfang starfseminnar á Keflavíkurflugvelli rennur út. Nefndin skal að undangenginni athugun og könnunarviðræðum við bandarísk stjórnvöld skila áfangaskýrslu til Alþingis eigi síðar en í árslok 1999 þannig að tími gefist til samninga um málið áður en uppsagnarákvæði núgildandi bókunar um umfang starfseminnar á Keflavíkurflugvelli verður virkt eða rennur út.`` Það mun vera árið 2001.

Það sem ég vildi vekja athygli á í þessari umræðu er hve mjög hún hefur breyst á undanförnum árum, að ekki sé talað um áratugi. Þegar samningurinn var gerður á sínum tíma um herstöðina á Íslandi og veru erlends hers í okkar landi þá litu flestir ef ekki allir svo á að hér væri um tímabundna ráðstöfun að ræða. Hér skyldi vera her á ófriðartímum en þegar friðvænlegar horfði skyldi hann hverfa á braut. Þetta var almennt álit í þjóðfélaginu. Nú hins vegar er öldin önnur. Nú tala menn á þann veg að NATO-herstöðin á Íslandi sé og eigi að vera hluti af varanlegu öryggis- og hernaðarkerfi heimsins alls og ég verð að segja, hæstv. forseti, að mig undrar hve langt menn ganga í yfirlýsingum sínum og hernaðarhyggju. Hvað hafa hv. þm. sagt? Hv. þm. Kristján Pálsson og hv. þm. Árni Mathiesen hafa skilgreint NATO og réttinn til að nýta vopn sem það bandalag hefur undir höndum. Þessir hv. þm. vísuðu m.a. til þess að NATO væri skjól þeirra sem minnst mega sín á alþjóðavettvangi. Það var talað um NATO sem bandalag þjóða sem vernduðu minnihlutahópa. Það væri fróðlegt að fá nánari útlistun á því hvort hér var átt við Kúrda í Tyrklandi t.d. sem eru hundeltir, myrtir, ofsóttir af stjórnvöldum í sínu landi meðan hernaðarbandalagið NATO, verndari minnihlutahópanna, setur kíkinn fyrir blinda augað, á sama tíma og sett eru upp sérstök verndarsvæði Kúrda í Írak. Það væri fróðlegt að fá nánari útlistun á þessu hlutverki NATO gagnvart minnihlutahópum og tilraunum bandalagsins til að vernda þá.

Hv. þm. Kristján Pálsson sagði að hann treysti þessum þjóðum, og vísaði þar til NATO-ríkjanna, til að hafa undir höndum þau vopn sem til eru. Væntanlega er vísað þar til kjarnavopna. Hann sagði enn fremur að þau hefðu rétt til að nýta þau vopn sem til eru, að þau vildu halda í þann rétt að nýta þau vopn sem til eru. Nú vil ég spyrja talsmenn Sjálfstfl., og það væri fróðlegt að heyra álit hæstv. utanrrh. á þessu efni einnig: Er það álit íslensku ríkisstjórnarinnar að NATO eða þau ríki sem eru innan vébanda þess bandalags hafi rétt til að nota kjarnorkuvopn? Er mönnum kunnugt um það að Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur úrskurðað kjarnorkuvopn og tilvist kjarnorkuvopna ólöglega vegna þess að þau ógna öryggi mannkyns? Það er ekki hægt að nýta þessi vopn á annan hátt en að svo verði. Það er ekki hægt. Og hvað skyldu menn í Nagasaki og Hiroshima segja um þá röksemdafærslu að kjarnorkuvopn séu til í þeim tilgangi einum að nota þau til fælingar? Þessi vopn hafa verið notuð til að deyða fólk. Síðan þegar vísað er til NATO-þjóðanna, til NATO sem friðarbandalags ekki árásarbandalags, og vísað sérstaklega til þeirra þjóða sem þar eru innan borðs, þá vek ég athygli á því að á dagskrá þessa fundar er tillaga frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um endurskoðun á viðskiptabanni á Írak. Þar hafa menn ekki látið sitja við það eitt að ofsækja þá þjóð með viðskiptabanni heldur hafa einnig verið gerðar árásir, af hálfu þessara friðelskandi þjóða væntanlega, sem valdið hafa dauða fjölda fólks, fjölda saklausra borgara.

Það væri fróðlegt og æskilegt að fá útlistanir talsmanna ríkisstjórnarinnar á þeim alvarlegu ummælum sem hér hafa komið fram um að ríki hafi rétt til þess, að það sé eðlilegt að þau hafi rétt til að nota kjarnorkuvopn. Er þetta virkilega meining manna? Er þetta afstaða og stefna íslenskra stjórnvalda? Ég óska eftir skýringum.