Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 11:00:02 (3293)

1999-02-04 11:00:02# 123. lþ. 59.2 fundur 371. mál: #A útvarpslög# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[11:00]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Á mínum vegum hefur ekki verið unnið að neinum undirbúningi þess að selja Ríkisútvarpið. Hins vegar hef ég látið fjalla um það í tengslum við þetta mál hvernig best væri að laga starfsemi ríkisins á þessu sviði að þeim breyttu kröfum sem uppi eru og ég rakti m.a. í framsöguræðu minni. Ég tel það skyldu mína að láta skoða slíka hluti en ég hef ekki flutt frv. um það og mun ekki gera það. Þetta mál tel ég að sé þess eðlis að það verði að fá afstöðu Alþingis til þessarar almennu löggjafar sem hér er verið að boða og síðan verði menn í ljósi þeirrar niðurstöðu sem fæst í þessu máli á hinu háa Alþingi að taka afstöðu til framtíðar Ríkisútvarpsins og hvernig beri að laga skipan þess að nýjum kröfum, m.a. þeirri þróun sem er að verða í Evrópuréttinum og ég rakti í máli mínu og útvarpsstjórar Norðurlandanna gerðu menningarmálaráðherrum Norðurlandanna grein fyrir á fundi okkar með þeim í byrjun desember. Ég hef ekki látið vinna annað á mínum vegum en hugmyndir um það hvernig hægt væri að nálgast þetta viðfangsefni til þess að Ríkisútvarpið svaraði þeim kröfum sem gera ber til þess. Ég hef ekki lagt neina vinnu í það að selja það fyrirtæki og mun ekki gera.