Náttúruvernd

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 14:55:08 (3317)

1999-02-04 14:55:08# 123. lþ. 59.8 fundur 84. mál: #A náttúruvernd# (landslagsvernd) frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[14:55]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Frv. sem hér er flutt horfir til bóta að mörgu leyti. Þær tillögur sem fram eru settar taka á brýnu viðfangsefni. Það er afar særandi að sjá hvernig efnistaka og jarðrask hefur leikið margar landslagsgerðir hér á Íslandi hin síðari ár og þá óreiðu sem ríkt hefur vegna skorts á góðum lögum. Það er því nauðsynlegt að koma lögum yfir þetta atriði. Því hefur hæstv. umhvrh. látið vinna mjög ítarlegt frv. um náttúruvernd en þar er tekið á þeim tveimur meginþáttum sem hér eru gerð að tillöguefni hjá hv. flm. Hjörleifi Guttormssyni. Þar er annars vegar fjallað um landslagsvernd og hins vegar um efnistöku og jarðrask.

Umrædd nefnd hefur sent frá sér frv. til ráðherra. Hæstv. umhvrh. hefur lagt það fram í ríkisstjórn þar sem það er til umfjöllunar. Ég vænti þess að það frv. líti dagsins ljós á hinu háa Alþingi og tekið verði á þeim mikilvægu efnum sem hér um ræðir.

Að því sögðu vil ég þakka flm. fyrir frv. sem hann leggur hér fram að nýju og þær hugmyndir sem þar hafa komið fram. Þær hafa ýtt við þörfu máli og orðið til góðs við þá tillögugerð sem nú liggur fyrir í væntanlegu náttúruverndarfrv.