Sjálfbær nýting lífvera á hafsbotni

Fimmtudaginn 04. febrúar 1999, kl. 15:44:10 (3323)

1999-02-04 15:44:10# 123. lþ. 59.11 fundur 140. mál: #A sjálfbær nýting lífvera á hafsbotni# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 123. lþ.

[15:44]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Sú till. til þál. sem hér hefur verið kynnt á dagskrá, um vernd og sjálfbæra nýtingu lífvera á hafsbotni, er flutt af þeim sem hér talar og efni hennar kemur fram í tillögutexta sem ég leyfi mér að hafa hér uppi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra og Hafrannsóknastofnuninni að nota lagaheimildir, fyrirliggjandi þekkingu og rannsóknaniðurstöður á lífríki hafsbotnsins innan íslenskrar efnahagslögsögu til að friða án tafar í varúðarskyni, að minnsta kosti fyrir botnlægum eða hreyfanlegum veiðarfærum, þau svæði á hafsbotni sem brýnt er talið að vernda til að koma í veg fyrir frekara tjón á lífríki og uppvaxtarskilyrðum nytjafiska en orðið er.

Leitað verði samvinnu við umhverfisráðherra, Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Fiskifélag Íslands og samtök sjómanna og útvegsmanna við undirbúning og meðferð málsins.

Jafnframt verði hafinn undirbúningur víðtækari aðgerða til að tryggja sjálfbæra nýtingu vistkerfa á hafsbotni innan efnahagslögsögunnar. Skorti á lagaheimildir til æskilegra verndaraðgerða og sjálfbærrar nýtingar hafsbotnsins verði lagðar tillögur fyrir næsta löggjafarþing þar að lútandi, sem og skýrsla um framvindu verndaraðgerða.``

[15:45]

Þetta er efni tillögunnar, virðulegur forseti. Sjálf tillögugreinin er allítarleg, en ástæða var talin til þess að hafa hana svona. Eins og hér kemur fram er viðfangsefnið tvíþætt má segja, þ.e. að grípa þegar í stað til aðgerða til þess að koma í veg fyrir spjöll og jafnframt að hefja undirbúning að víðtækari aðgerðum til að tryggja sjálfbæra nýtingu vistkerfa á hafsbotninum.

Mál þetta tengist öðru máli sem var samþykkt á síðasta þingi og sem sá sem hér talar var 1. flm. að, en fjallaði um rannóknir á áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins. Sú tillaga, sem gerð var að ályktun Alþingis, leiddi til þeirra ángæjulegu tíðinda að veitt var nokkur upphæð á fjárlögum yfirstandandi árs til þess að gera Hafrannsóknastofnun kleift að hefja átak í rannsóknum á áhrifum veiða og veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins á Íslandsmiðum. Það er mál sem hefur verið í umræðu um alllangt skeið, m.a. hafa sjómenn fyrir löngu gert sér ljóst að þörf væri að taka á því og hafa gert sér ljósar þær róttæku breytingar sem nýting Íslandsmiða með veiðarfærum sem snerta hafsbotninn og dregin eru um hafsbotninn veldur. Þetta rannsóknarátak er upphafið. 15 millj. kr. voru veittar að tilstuðlan hv. fjárln., því þaðan kom tillagan um upphæðina. Þar er í aðalatriðum fylgt forsögn samþykktar þingsins en jafnframt gert ráð fyrir því að framhald verði á. Mér segir svo hugur um að menn séu hér að leggja inn á rannsóknarsvið sem ekki ljúki á þremur árum, eins og upphaflega var gert ráð fyrir í áætlun heldur taki til lengri tíma, vegna þess að þörfin á að fylgja fyrstu yfirlitsrannsóknum eftir er áreiðanlega brýn. Eitt mun spretta þar af öðru og nýjar spurningar vakna jafnhliða þeim sem verður svarað.

Þessi tillaga um vernd og sjálfbæra nýtingu lífvera er til þess að bregðast við augljósri vá í þessum efnum. Það má segja að kveikjan að því að leggja til það sem hér er á ferðinni hafi verið upplýsingar sem sjónvarpið íslenska dró fram og flutti okkur í formi mynda af kórallasamfélögum á hafsbotni við Noreg og hvaða áhrif ógætilegar veiðar við botn þar sem slík samfélög er að finna hafa raunverulega á lífríkið og þau vistkerfi sem þar er um að ræða, en þau vistkerfi geta haft geysilega mikla þýðingu í sambandi við uppvaxtarskilyrði lífvera, þar á meðal nytjafiska.

Vísað er til þess í greinargerð með tillögunni að það falli undir markmið Hafrannsóknastofnunar að sinna rannsóknum af þessu tagi. Þar segir m.a., þegar vitnað er til markmiða Hafrannsóknastofnunar, með leyfi forseta:

,,Að afla alhliða þekkingar um hafið og lífríki þess, einkum til að meta hvernig hagkvæmt og skynsamlegt sé að nýta auðlindir þess.

Að afla þekkingar um lögun, gerð og jarðfræðilega eiginleika landgrunnsins, einkum með tilliti til fiskveiða.

Að rannsaka lífsskilyrði og lifnaðarhætti sjávargróðurs, dýrasvifs og botndýra, einkum vistfræðileg tengsl hinna ýmsu samfélaga og samhengi þeirra við nytjastofna.

Að gera tilraunir með og þróa veiðarfæri og veiðibúnað í þeim tilgangi að bæta hagkvæmni sóknar og koma í veg fyrir skaðleg áhrif veiða á lífríki sjávar.``

Síðan er nánar um þetta fjallað í greinargerð og tillögunni fylgir yfirlitsuppdráttur þar sem sýnd eru þau svæði landsins þar sem talið er að sé að finna verðmætustu samfélög kóralla en tillagan beinist m.a. að því að tryggja vernd og viðgang slíkra samfélaga.

Meginefnið er sem sagt það að fela Hafrannsóknastofnun að friða án tafar í varúðarskyni, a.m.k. fyrir botnlægum hreyfanlegum veiðarfærum, þau svæði sem brýnt er talið að vernda.

Virðulegur forseti. Það er mjög athyglisvert hvað menn hafa gengið blindandi til verka í sambandi við hafsbotninn. Hann er auðvitað ekki daglega fyrir augum okkar og ekki heldur þeirra sem sjóinn stunda og það er kannski meginskýringin á því að menn horfa fram hjá eða hafa ekki gefið gaum svo sem vert væri þeim áhrifum sem veiðar með botnlægum veiðarfærum hafa á hafsbotninn. Allt er það auðvitað í hrópandi mótsögn við þá miklu umræðu sem er í gangi um áhrif aðgerða mannlegra athafna á landi þar sem afleiðingarnar blasa við. Við þurfum því að nota nútímatækni og rannsóknarmöguleika til þess að átta okkur á þessum áhrifum um leið og verðmætustu samfélögin eru kortlögð og gripið er til nauðsynlegra verndaraðgerða, til friðunar, varanlega eða tímabundið eftir því sem við á.

Virðulegur forseti. Ég tel eðlilegt að þessi tillaga fari til hv. sjútvn. þingsins, þó æskilegt væri jafnframt að sjútvn. hefði samráð við umhvn. áður en tillagan yrði afgreidd eða endanleg afstaða tekin til hennar þar sem þetta eru mál sem varða auðvitað umhvn. eins og vikið er að í sjálfum tillögutextanum. Ég vænti þess að tilefnið sé svo ljóst fyrir mönnum og þörfin á að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða verði metin svo brýn að það ætti ekki að vefjast fyrir mönnum að taka afstöðu til málsins. Hér er hins vegar, eins og ég hef þegar látið fram koma, um mjög stórt mál að ræða til framtíðar litið, sem verður auðvitað að byggja á rannsóknum og upplýsingaöflun og víðtæku mati þó að við beitum varúðarreglunni til að tapa ekki meiru en orðið er miðað við þekkingu okkar og yfirsýn á þessari stundu.