Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 17:04:32 (3343)

1999-02-08 17:04:32# 123. lþ. 60.16 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[17:04]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Út af niðurlagsorðum hv. þm. Ögmundar Jónassonar vil ég endurtaka það sem ég hef áður sagt í þessari umræðu, ekki bara í fyrri hluta 1. umr. um frv. heldur einnig í umræðunni sem fór fram á sl. vori. Ásetningur minn er að skipulagsvaldið verði ekki tekið af sveitarfélögunum. Það er ekki ætlun mín og hefur ekki verið. Ég tók það alveg skýrt fram í umræðunum í fyrra. Ég hef því ekki blekkt nokkurn mann í því. Út af því að hv. þm. sagði að þar hefðu verið blekkingar, þá er ljóst að ég margtók fram að meiningin er ekki að taka skipulagshlutverkið, samkvæmt lögum um skipulags- og byggingarmál, af sveitarfélögunum. Þess vegna vísaði ég í umræðunni um daginn, hæstv. forseti, til 13. gr. en ekki þeirrar 15. Nefndin hefur það hlutverk að gera tillögur um svæðisskipulag. Það fer síðan skv. 13. gr. til sveitarfélaganna. Þau hafa það hlutverk að annast og sjá um skipulag þannig að það fer til viðkomandi sveitarfélaga. Á engu stigi hef ég blekkt nokkurn í þeirri umræðu, hæstv. forseti. Ég vildi aðallega undirstrika það.

Varðandi hin frjálsu félagasamtök vil ég árétta það sem ég nefndi seinast þegar málið var á dagskrá, að það hefur ekki skapað umhvrn. vandamál að leita til félagasamtaka á þessum vettvangi til að tilnefna menn í nefndir, sendinefndir eða starfsnefndir. Ég gef mér að hægt verði að hafa þann háttinn á áfram. Hins vegar hafa komið upp vandamál þar sem einu ákveðnu sambandi félagasamtaka hefur verið ætlað að skipa í nefnd. Ég nefndi það líka í umræðunum um daginn og þarf ekki að árétta það. Ég kvíði því ekki þessari skipan sem lögð er til í frv.