Orka fallvatna og nýting hennar

Mánudaginn 08. febrúar 1999, kl. 18:14:27 (3357)

1999-02-08 18:14:27# 123. lþ. 60.18 fundur 181. mál: #A orka fallvatna og nýting hennar# frv., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 123. lþ.

[18:14]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um orku fallvatna. Hér er um að ræða mál sem oft hefur komið fyrir Alþingi. Eins og fram kemur í greinargerð er frv. um sama efni og frv. sem flutt var á 107. þingi. Það hefur síðan verið flutt sjö sinnum á Alþingi en ekki verið útrætt. Hér er þó um að ræða mikilvægt mál sem varðar orku fallvatna og nýtingu hennar þar sem sett er fram sú stefna að orka fallvatna landsins sé eign íslenska ríkisins sem eitt hafi heimild til nýtingar hennar. Þetta er óljóst í íslenskri löggjöf. Ekkert hliðstætt ákvæði er í íslenskri löggjöf en um fallvötn og rennandi vatn er fjallað í vatnalögum, nr. 15/1923, sem enn eru í gildi.

[18:15]

Meginstefna frv. kemur fram í 1. gr. þess, en í 2. gr. er að finna vissar undantekningar frá reglu að því er varðar heimild til þeirra sem hafa virkjað fallvötn til orkuframleiðslu samkvæmt gildandi lögum og að heimildir haldist, heimildir rétthafa til virkjunar fallvatna samkvæmt því sem þar greinir, en þar er um að ræða eingöngu smáar virkjanir til raforkuframleiðslu miðað við 200 kw. og síðan eldri leyfi. Það er tekið fram að heimildir þeirra rétthafa eða aðila sem virkjað hafa fallvötn til orkuframleiðslu innan tíu ára frá gildistöku laganna haldist og ef framkvæmdir tefjast við slíka virkjun af óviðráðanlegum ástæðum þá lengist fresturinn sem þeirri töf nemur.

Virðulegur forseti. Þetta er meginefni málsins. Meginefni frv. hefur verið rakið á fyrri þingum og rætt með þátttöku þingmanna og ráðherra. Komið hafa fram mörg fyrirheit frá framkvæmdarvaldinu um að það ætlaði sér að vinna úr þessu máli, en þá einhvern veginn öðruvísi en fram kemur í þessu frv. M.a. hefur núverandi ríkisstjórn lýst því yfir og hæstv. iðnrh. núverandi ríkisstjórnar að í undirbúningi væri að flytja frv. til laga um hliðstætt efni, þ.e. sem varðar orku fallvatna, en slíkt frv. hefur enn ekki komið fram þannig að mér sýnist alveg einboðið eða augljóst að ríkisstjórnin ætlar sér ekki að koma með eigið frv. á þessu sviði, a.m.k. ekki til lögfestingar á þessu þingi.

Þessi mál voru nokkuð rædd í tengslum við mál sem fékk ítarlega umfjöllun á síðasta þingi og var mjög umdeilt, þ.e. frv. til laga um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu sem lögfest var á síðasta þingi. Þar er undanskilin orka fallvatna. Hún er ekki hluti af þeim ákvæðum sem í því frv. voru og því tel ég einsýnt að þetta frv. geti fengið lögfestingu óháð þeim samþykktum sem gerðar voru á fyrra þingi varðandi eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu og annað það sem kveðið er á um í því máli sem lögfest var síðla á síðasta þingi.

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að geta þess að upphaflega er þetta frv. samið af stjórnskipaðri nefnd. Raunar átti sá er hér talar frumkvæði að því að hefja undirbúning þessa máls og það var lagt fram upphaflega sem frv. af hálfu ríkisstjórnar sem starfaði 1980--1983. Einstök ákvæði málsins og rökstuðningur eru þau nefndarálit sem fyrir lágu og komu frá umræddri nefnd, þar á meðal minnihlutaálit þar sem lýst er annarri stefnu en felst í meginefni frv.

Virðulegur forseti. Þetta mál hefur gengið til iðnaðarnefnda þingsins á einum átta þingum en ekki fengið efnislega afgreiðslu. Það með öðru sýnir að mínu mati veikleika í störfum Alþingis að svona stórt mál, svona ákvarðandi málefni um stóra hagsmuni, skuli geta verið að velkjast fyrir þinginu án þess að fá efnislega niðurstöðu svo lengi sem raun ber vitni og að framkvæmdarvaldið skuli þrátt fyrir þá ögrun sem felst í þessu frv. ekki hafa komið fram með sína stefnu á sama tíma. Þetta er ekki forsvaranlegt, virðulegur forseti, að mínu mati og mjög óheppilegt. Það er nokkuð sérstakt að þegar fjallað var um mál sem varða brýna hagsmuni og að mörgu leyti skyld málefni, sem voru til umræðu á síðasta þingi, þá er þetta efni sem við ræðum hér undanskilið.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að lokinni umræðu um málið verði frv. vísað til hv. iðnn.