Brunatryggingar

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 15:00:18 (3382)

1999-02-09 15:00:18# 123. lþ. 61.10 fundur 388. mál: #A brunatryggingar# (lækkun brunabótamats van- eða ónýttra húseigna o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[15:00]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér breytingu á lögum um brunatryggingar, sem er eins og kunnugt er, skyldutrygging hér á landi. Þróun skyldutrygginga hefur verið í þá átt að hafa vit fyrir fólki, hafa vit fyrir borgurunum. Skyldutrygging felst í því að maður sem á eign er skyldugur til að gæta hagsmuna sinna ef eignin skyldi brenna hjá honum eða skemmast á annan hátt. Haft er vit fyrir honum, að hann glati ekki eign sinni. Það er þannig, herra forseti, að eigi maður eign, þá er einn þáttur af ráðstöfunarrétti hans yfir eigninni einmitt að mega glata henni ef hann kærir sig um. En í lögum sem hafa verið í gildi hingað til er gert ráð fyrir að hann megi það ekki. Menn þurfa því að velta fyrir sér þessari forsjárhyggju, að hafa vit fyrir fólki, sem er fjárráða og fullorðið, fram eftir öllum aldri. Ég set því spurningarmerki við slíka skyldutryggingu og alveg sérstaklega í atvinnurekstri þar sem menn stofna fyrirtæki og leggja fram ákveðið framlag, hlutafé eða eitthvað slíkt og kaupa fyrir það eignir, að þá skuli verið að skylda menn til að mega ekki tapa þessum eignum. Af hverju er ekki sama hugsun í gangi varðandi t.d. hlutafjárkaupin sjálf? Það ætti að skylda menn til að tryggja hlutabréfin sín, að þeir tapi ekki á atvinnurekstri. Það er nákvæmlega sama. Það sem gæti hugsanlega búið að baki væri að sveitarfélagið þar sem eignin er staðsett þurfi ekki að lenda í kostnaði við að ryðja rústirnar þannig að menn séu tryggðir fyrir því að eiga fé til að rýma rústirnar. Ég sé enga ástæðu til að vera með brunatryggingu í atvinnurekstri að öðru leyti, nema til að gæta hagsmuna þeirra sem lána, taka veð í viðkomandi eignum en þeir geta að sjálfsögðu sett það sem skilyrði fyrir lánveitingunni að viðkomandi eign sé tryggð og gera það yfirleitt alltaf. Það er því óþarfi að vera með skyldutryggingu í atvinnurekstri yfirleitt. Sveitarfélagið gæti gert kröfu um að þær byggingar sem reistar verða á svæði þess séu tryggðar þannig að hægt sé að ryðja rústunum burt og veita einhverjum öðrum lóðina. Ég sé enga ástæðu til að hafa endalaust vit fyrir fólki sem er orðið fullorðið, eins og ég gat um. Ég styð því þessa litlu breytingu sem hér er verið að gera, þ.e. að bændum sé ekki gert skylt að tryggja húsnæði sem er löngu orðið ónýtt og til einskis nýtt.

Herra forseti. Hitt er svo annað mál að ríkisvaldið setur sig í þau spor að meta eignir fyrir brunabótamat og fasteignamat sem jafnframt er skattstofn fyrir þetta sama ríkisvald, þ.e. skattheimtuaðilinn ákveður sjálfur einhliða hvað á að borga í skatt. Komið hafa upp dæmi þar sem matið hefur verið mjög óraunhæft og hátt á eignum sem á að borga eignarskatt af eða fasteignagjöld eða annað slíkt, og borgarinn er gjörsamlega óvarinn fyrir slíku mati. Ég hef reyndar lagt fram frv. á Alþingi um eignarskatt þar sem gert er ráð fyrir að borgarinn geti gert kröfu til þess að ríkisvaldið kaupi eignina á því mati sem það metur hana á, reyndar 85% af matinu, til að vernda borgarann fyrir gerræði af hendi ríkisvaldsins sem getur komið fram þegar sá sem hirðir skattinn getur líka metið og búið til skattstofninn, eins og dæmi eru um í fasteignamati og í brunabótamati, sérstaklega í fasteignamatinu sem er grundvöllur eignarskatts og grundvöllur fasteignagjalda og margra annarra skatta og gjalda sem borgarinn þarf að greiða.

Hér er sem sagt verið að stíga örlítið skref til baka frá þessari óskaplegu forsjárhyggju og ég styð að sjálfsögðu það skref en ég mundi gjarnan vilja að hv. efh.- og viðskn. skoðaði hvort ekki mætti slaka almennilega á skyldutryggingum þeirra fasteigna sem eru í atvinnurekstri og ég sé enga ástæðu til að tryggja frekar en hlutaféð sjálft eða áhættuféð sem menn setja í atvinnureksturinn.