Álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 15:52:15 (3389)

1999-02-09 15:52:15# 123. lþ. 61.12 fundur 359. mál: #A álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga# (breyting ýmissa laga) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[15:52]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega undirstrika það sem hv. þm. sagði, þetta er tilraun. Vegna þess að hann gat um tillögur mínar í skattamálum, þá vil ég draga það fram að tekjuskattur fyrirtækja er einungis að skila um þriðjungi af þeim greiðslum til samneyslunnar, til opinberra aðila, miðað við OECD-ríkin. Það er alveg eins með laun og tryggingagjöld fyrirtækja hérlendis, þau eru einungis að skila u.þ.b. þriðjungi af því sem gerist erlendis. Íslensk fyrirtæki búa þannig við mjög óvanalegar skattaívilnanir eða getuleysi eins og kannski tekjuskatturinn sýnir, miðað við fyrirtæki í nágrannalöndunum. Þess vegna er e.t.v. sérkennilegt að ég skuli tala fyrir lækkun tekjuskatts, eins og gert er í þessu tilfelli en ég geri það vegna þess að ég tel rétt að gera þessa tilraun sem lagt er hér upp með. Það breytir því ekki að í grundvallaratriðum er tekjuskattskerfi okkar, bæði hvað viðvíkur fyrirtækjum og einstaklingum, meingallað.