Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 09. febrúar 1999, kl. 16:31:05 (3394)

1999-02-09 16:31:05# 123. lþ. 61.13 fundur 149. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 123. lþ.

[16:31]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. og hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að taka til máls og ræða það frv. sem hér er á dagskránni. Ég held að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi kannski orðað þetta best þegar hann sagði að núverandi skipan væri einhver besta uppskrift að harmleikjum sem nú eiga sér stað í íslensku samfélagi, á ég við þá peningalegu fjölskylduharmleiki sem tengjast því að menn skrifa upp á fyrir aðra.

Þegar við skrifum upp á, hvort sem það er sá sem hér stendur eða aðrir, þá er það aldrei ætlunin að borga. Fyrst og fremst er hugsunin sú að gera einhverjum manni greiða, þ.e. aðstoða hann við að fá ákveðnar lánveitingar sem hann telur nauðsynlegt að fá. Það er einmitt sú hugsun, held ég, sem er kannski rótin að því að ástandið í þessum málum er eins og það er. Þegar við skrifum undir þá ætlum við ekki endilega að greiða það sem við skrifum undir heldur fyrst og fremst að gera einhverjum sem við þekkjum greiða og hjálpum honum að fá þær fjárveitingar sem hann sækist eftir.

Hæstv. viðskrh. nefndi það áðan í ræðu sinni að í þeirri stöðu sem nú er uppi væru þrjár leiðir færar. Í fyrsta lagi væri sú leið að banna uppáskriftir þriðja manns á fjárskuldbindingum annarra. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að sú leið er algerlega fráleit. Vegna þess að engin ástæða er til að banna þá hluti sem við ræðum hér. Hins vegar held ég að nauðsynlegt sé að við setjum um þetta almennar reglur, almennar reglur um samskipti ábyrgðarmanna og lánveitenda vegna þess að í samskiptum þessara aðila er langt frá því að um nokkurt jafnræði sé að ræða.

Yfirleitt er það þannig að lánveitendur, bankar og sparisjóðir og aðrar slíkar stofnanir hafa yfir að ráða her manna sem vinnur við það að útbúa skjöl af þessum toga og tryggja það að réttur og réttindi viðkomandi lánastofnunar sé tryggður í samskiptum við þetta fólk. Hins vegar er um að ræða ábyrgðarmenn eða einstaklinga sem nálgast verkefnið með þeim huga að gera fjölskyldum sínum, vinum og kunningjum þann greiða að gangast tímabundið í ábyrgð án þess nokkru sinni að hafa hugsað sér að greiða þá ábyrgð ef hún félli til. Hér er því um að ræða grundvallarmisræmi milli þeirra aðila sem hér eigast við. Í því samhengi held ég, virðulegi forseti, að algerlega nauðsynlegt sé að við tryggjum vernd þess sem minna má sín í þessu tilviki, tryggja að hann hafi, þegar hann undirritar slíka ábyrgð, allar tiltækar upplýsingar til þess að geta metið það hvort hann eigi að skrifa undir eður ei. Það eru mýmargar upplýsingar sem sjaldnast eða aldrei liggja fyrir, til að mynda hverjar heildarskuldir viðkomandi einstaklings eru í tiltekinni lánastofnun. Það er mjög sjaldgæft að það liggi fyrir. Enn fremur hvert mat þessarar lánastofnunar er á því að þær hugmyndir sem lánað er út á muni ganga eftir o.s.frv. Það eru mýmargar upplýsingar af þessum toga sem eru algerlega nauðsynlegar til að menn geti lagt mat á þá áhættu sem þeir undirgangast með því að skrifa undir.

Þetta er eitt af því sem er kjarni málsins. Því er það mín skoðun og flutningsmanna væntanlega sem með mér standa að miklum mun vænlegra sé að fara þá leið sem hér er lögð til, þ.e. að setja almennar reglur sem kveða á um þessa upplýsingaskyldu heldur en þá leið sem hæstv. iðnrh. ákvað að fara og hann gerði grein fyrir áðan, þ.e. samkomulag milli tiltekinna fjármálastofnana, því að það er langt frá því að það séu allar fjármálastofnanir í þessu, og tiltekinna ráðuneyta, þ.e. viðskrn. og félmrn.

Við skulum ekki gleyma því að þetta samkomulag er fyrst og fremst einhliða yfirlýsing þeirra sem að því standa og þar af leiðandi er ólíklegt að einstaklingar eða aðrir geti borið fyrir sig efni þess samkomulags ef til þess kæmi í einhvers konar málaferlum. Í mínum huga er þetta samkomulag reyndar skref fram á við. En miðað við þær aðstæður sem við búum við og það ástand sem er í þessum málum, þá er það skoðun þess sem hér stendur að það sé miklum mun vænlegra að takast á við þetta vandamál með því að setja almenna löggjöf. Ég held að miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi sé það skylda löggjafans að taka á þessu máli af miklu meiri festu en gert er í því samkomulagi sem hæstv. viðskrh. vitnaði til áðan. Enda kom það á daginn þegar hann las upp úr bréfum þar sem tiltekin voru hugsanleg áhrif af því samkomulagi, að þær breytingar sem átt hafa sér stað eru líklega innan skekkjumarka milli ára hvað varðar lánveitingar þar sem einstaklingar gangast í ábyrgð fyrir þriðja aðila. Þær tölur sem hæstv. viðskrh. vitnaði til áðan, þ.e. að þeim hafi annars vegar fækkað úr 68% í 66 í skuldabréfalánum, ef ég man þetta rétt, og úr 64% í 61% í öðrum lánum eru að mínu mati innan skekkjumarka sem kunna að vera í lánveitingum bankastofnana og annarra slíkra frá ári til árs. Þrátt fyrir að ég viðurkenni og fagni því samkomulagi sem gert var, þá tel ég að miklum mun æskilegra hefði verið að fara þá leið sem hér er lögð til, enda er það leið sem menn gætu byggt á í lögskiptum sínum við þessar bankastofnanir en þyrftu ekki að treysta því að einhliða yfirlýsingar tiltekinna stofnana gætu orðið grundvöllur að samskiptavenjum.

Að lokum langar mig, virðulegi forseti, aðeins að velta þeirri hugmynd upp sem hér var varpað fram áðan, að á ferðinni væri einhvers konar forsjárhyggja. Ég tel, virðulegi forseti, ekki að svo sé og byggi það á því að aðstaða þeirra aðila sem eigast við þegar menn gangast í ábyrgð fyrir þriðja aðila, þ.e. annars vegar einstaklingar og hins vegar lánastofnanir, sé það ójöfn að koma þurfi til almennar reglur sem kveða á um upplýsingaskyldu þessara aðila til þess að við getum talað um að aðilar séu nokkurn veginn jafnsettir þegar þeir ganga að samningaborði. Ég vil taka skýrt fram, virðulegi forseti, að með því frv. sem hér liggur fyrir er ekki lagt til að nokkuð sé bannað af því sem nú er framkvæmt að undanskildu því að verði þetta frv. að lögum, þá er lagt bann við að áfram verði viðhaldið þeirri séríslensku hefð að notast við svokallaða tryggingarvíxla, sem er ákveðið form þar sem tilteknir einstaklingar eða lögaðilar eftir því sem verkast vill gangist í ábyrgð fyrir efndum og skuldbindingum sem kunni að stofnast í framtíðinni. Líklega er þetta fyrirbæri, ef við skoðum það í samhengi, stærsti áhrifavaldur þeirra harmleikja sem vitnað var til í umræðunni áðan, og held ég að við flest ef ekki öll þekkjum til slíkra harmleikja úr einhverri þeirra fjölskyldna sem við höfum umgengist, þekkjum eða erum skyld.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að bæta neinu við í þessari umræðu en vonast til þess að hv. efh.- og viðskn. skoði þetta mál fljótlega og taki afstöðu til þess. Ég held að hér sé á ferðinni brýnt framfaramál og ég tel einnig að verði þetta frv. að lögum, sem ég vonast til, verði það í raun og veru viðskiptalífinu til framdráttar. Það muni innleiða mun faglegri vinnubrögð við lánveitingar en hingað til hafa tíðkast og það er mín bjargfasta trú þó að viðskiptabankar og sparisjóðir hafi lýst andstöðu við frv., a.m.k. að svo stöddu, að verði frv. að lögum muni það verða þeim sjálfum og starfsemi þeirra til mikilla bóta þegar fram líða stundir.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum ítreka þakkir til þeirra þingmanna sem tóku þátt í þessari umræðu og vonast til þess að efh.- og viðskn. taki þetta mál fljótlega til afgreiðslu.