Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 10:54:29 (3486)

1999-02-11 10:54:29# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[10:54]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er eitt stærsta og merkilegasta mál sem við höfum haft til umfjöllunar á þessu kjörtímabili. Það er ljóst að umræðan um jöfnun atkvæða hefur staðið lengi, og þá að sjálfsögðu kjördæmaskipanin, og kröfur hafa verið mjög ríkar um breytingar á núverandi kjördæmaskipan.

Það er síðan ekki fyrr en fyrir um einu og hálfu ári síðan sem hreyfing komst á þetta mál með þeirri nefndarskipan sem forsrh. kom á í september 1997. Það hefur gerst nú að samstaða er um það í öllum flokkum að breytinga sé þörf, en hér á árum áður var það ekki svo. Þá voru ekki aðstæður til þess að gera breytingar.

Einkenni núverandi kerfis er mikið misvægi atkvæða eftir kjördæmum. Þar að auki er kerfið mjög flókið og erfitt fyrir kjósendur að átta sig á því hvernig það virkar. Öll könnumst við t.d. við það þegar atkvæði hafa verið talin að loknum kosningum hversu flókið það kerfi er og hversu erfitt það er fyrir alla, líka okkur þingmenn, að átta sig á því hvernig það virkar jafnvel þegar úrslitin liggja fyrir. Alveg fram á síðustu stund geta verið alls konar undarlegar breytingar, svo ekki sé meira sagt, eins og við þekkjum öll.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að mjög víðtæk samstaða hefur náðst hér á þingi um meginefni frv. þó að auðvitað séu skiptar skoðanir um einstök atriði þess, eins og eðlilegt er. Auðvitað er það líka svo að allt kann að orka tvímælis sem gert er. En aðalatriðið í þessu stóra máli er auðvitað vilji allra stjórnmálaflokkanna á Alþingi til að ná sameiginlegri niðurstöðu. Og því ber svo sannarlega að fagna að það skuli hafa tekist.

Markmiðið sem menn settu sér og náðu saman um er að gera kosningakerfið einfalt og auðskiljanlegt, að draga úr misvægi atkvæða, að þingmannafjöldi í hverju kjördæmi verði sem jafnastur og að áfram verði jöfnuður á milli stjórnmálasamtaka á landsvísu til að fjöldi þingsæta hvers flokks sé í sem bestu hlutfalli við kjósendatöluna, og svo að síðustu að þingmenn verði áfram 63 eins og nú er.

Þeir sem gagnrýna frv. færa einkum fram þau rök að landsbyggðarkjördæmin verði allt of stór, það verði erfitt fyrir þingmenn að sinna skyldum sínum og vera í nægilega góðu sambandi við kjósendur sína. En því er til að svara að með því að þingmannahópur hvers kjördæmis sé 10--11 þingmenn þá ætti að vera hægt að jafna betur álagið og þingmannahópurinn sem slíkur er sterkari með því að vera af þessari stærð. Það er líka ótvíræður kostur að svipaður fjöldi þingmanna sé í öllum kjördæmum.

Það hefur einnig verið rætt um að þingmenn úr hinum landfræðilega stærri kjördæmum fái aukna aðstoð í formi styrks til að njóta liðsinnis starfsmanns eða annars konar aðstoðar og það tel ég mjög mikilvægt í þessu sambandi. Þannig væri hægt að koma til móts við gagnrýni af þessu tagi sem vissulega er skiljanleg og á rétt á sér.

Herra forseti. Ég vil gera að sérstöku umtalsefni markmiðið um að misvægi atkvæða verði aldrei meira en 1:2, eins og gert er ráð fyrir í frv. Í þessu efni hefði ég viljað ganga lengra til jöfnunar. Ég bendi á að annars staðar á Norðurlöndum er langtum minna atkvæðamisvægi en gert er ráð fyrir að verði hér á landi eftir þær breytingar sem frv. gerir ráð fyrir. Þar eru aðstæður að ýmsu leyti víða svipaðar og hér, þ.e. strjálbýli og stór kjördæmi, t.d. í Noregi. Í Noregi er mesta misvægi milli kjördæma 1:1,6 en misvægi milli flestra kjördæma þar er minna en 1:1,2. Í Danmörku er mesta misvægi milli kjördæma 1:2 en þess ber að gæta þar að misvægið er yfirleitt 1:1,3. Í Finnlandi er mesta misvægi milli kjördæma 1:1,17 og í Svíþjóð er mesta misvægi milli kjördæma sem er þá vegna jöfnunarmanna 1:1,4 en misvægi er annars staðar aðeins 1:1,04.

[11:00]

Að þessu sinni náðu menn ekki lengra en að setja mörkin við 1:2. Við því er ekkert að segja. Menn náðu saman um þá niðurstöðu en mér hefði þótt eðlilegt að miðað væri við 1:1,5.

Ég vil einnig nefna jafnréttismál í tengslum við þessar breytingar. Í skýrslu nefndarinnar kemur fram í viðræðum sem nefndin hefur átt við fræðimenn um það mál að rannsóknir sýna talsverða jákvæða fylgni milli ákveðinna þátta kosningaskipulags og fjölda kvenna á þingi og er þar þá aðallega um að ræða hlutfallskosningar og stór kjördæmi. Það er niðurstaða nefndarinnar að þær breytingar á kjördæmaskipan og kosningakerfi sem hún gerir tillögur um skapi ekki síðri skilyrði fyrir stjórnmálaþátttöku kvenna en nú eru. Skiptir það mestu máli að kjördæmin eru almennt stækkuð, og þá sérstaklega landsbyggðarkjördæmin, en á móti kemur að stærsta kjördæminu, Reykjavík, er skipt í tvennt, en fyrir því eru aðrar ástæður.

Ég tel að þetta sé ágætis innlegg í jafnréttisumræðuna sem hefur verið mjög öflug upp á síðkastið. Ég held að við hér á Alþingi séum öll sammála um að það sé markmið í sjálfu sér að sem mest jafnræði verði milli karla og kvenna á þinginu og ég tel að það sé mikilvægt að þessi mál séu skoðuð í tengslum við svo stórar breytingar eins og hér er verið að gera tillögur um á kjördæmaskipaninni.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta veigamikla mál en hlýt að lýsa ánægju með það samstarf sem þingflokkarnir á Alþingi hafa átt við umfjöllun þess.