Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 16:09:51 (3518)

1999-02-11 16:09:51# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[16:09]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég átti sæti bæði í kjördæmanefndinni sem samdi þetta frv. og í stjórnarskrárnefnd þeirri sem fékk málið til umfjöllunar eftir 1. umr. og hef því fylgst með gangi málsins frá upphafi. Ég flutti ítarlega ræðu við 1. umr. og hef í sjálfu sér ekki mjög miklu við hana að bæta. Það eru þó örfá atriði sem mér finnst hafa komið fram í umræðunni í dag sem valda því að ég velti fyrir mér þessari leið, að þingið sjálft skuli breyta kjördæmaskipaninni. Ég nefndi það í ræðu minni við 1. umr. að sums staðar annars staðar mundi þetta vera gert með einhvers konar stjórnlagaþingi en ég teldi að þar sem við hefðum ekki slíkt, væri þetta líklega eina leiðin ef málið ætti að fara í gegnum Alþingi, að það væru stjórnmálaflokkarnir sem sjálfir kæmu sér saman um niðurstöðu. Ég tel að tekið hafi verið mjög mikilvægt skref í rétta átt, ekki síst í þá átt að jafna vægi atkvæða, þó að ég sé þeirrar skoðunar að ekki hafi verið gengið nægilega langt í þessum efnum.

Það hefur verið mjög fróðlegt að heyra sjónarmið þeirra sem eru andstæðir þessu frv. Einkum hafa það verið þingmenn landsbyggðarinnar sem telja að ekki sé hugað nægilega vel að landfræðilegum aðstæðum með því að hafa kjördæmin svona stór og tala um dúsu í byggðamálum og annað slíkt. Ég var samþykk því að gerðar væru hliðarráðstafanir í tengslum við samþykkt breyttrar kjördæmaskipunar og þá vildi ég einkum leggja áherslu á aðgerðir í vegamálum og aðstöðu þingmanna. Mér finnst mun umdeilanlegra hvort aðrar aðgerðir, svo sem í skólamálum o.fl., eigi að tengja við frv. af þessu tagi. Ég fagna vissulega, eftir samþykktina sem var gerð í nefndinni, þeirri tillögu sem er nú til meðferðar í hv. allshn. og vona að við sjáum hana afgreidda fyrir þinglok eins og um var samið þegar gengið var frá þessu frv.

En ég verð að segja að ég er ekki alveg sannfærð um að þessar landfræðilegu aðstæður komi í veg fyrir að þingmannahópar geti unnið saman. Ég held að það geti verið styrkur fyrir þingmenn úr hinum dreifðu byggðum að vera margir saman sem hópur þótt úr stóru kjördæmi sé og þá væntanlega að þeir fái þá þjónustu sem samræmist því.

Hinn kosturinn sem við í nefndinni stóðum frammi fyrir, eins og margoft hefur komið fram, var að hafa minni landsbyggðarkjördæmi en þá yrðu þingmennirnir mjög fáir úr viðkomandi kjördæmum. Ég tel að þessi lending hafi verið tilraunarinnar virði og vonandi meira en það, ég vona að þetta verði mjög farsæl lausn þótt vel megi vera eins og kom fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að æskilegra væri að hafa annað form á þessu. Hann nefndi þar hugmyndir um eitt kjördæmi og þriðja stjórnsýslustigið.

Ég vil taka fram að ég er sátt við þær brtt. sem voru gerðar í nefndinni, enda stend ég að þeim, þ.e. að það er aðeins innbyggður sveigjanleiki að kjördæmin geti verið sex eða sjö. Ég sé ekki alveg skýr rök fyrir þessu en þetta getur virkað í báðar áttir, bæði að fjölga kjördæmum á höfuðborgarsvæðinu, ef byggðaþróunin verður í þá átt, eða hugsanlega að skipta upp einhverju hinna kjördæmanna ef ómögulegt reynist að hafa þetta í því formi sem hér er lagt til.

[16:15]

Mig langar að koma nánar inn á nokkur atriði sem komu fram í ræðum manna og ég hafði einnig aðeins tæpt á í fyrri ræðu minni um þetta mál. Þar er í fyrsta lagi þröskuldurinn, 5% þröskuldurinn sem er fyrir því að flokkur fái úthlutað uppbótarsæti. Ég get alveg verið sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um að þetta geti komið óréttlátlega niður á litlum flokki sem fær kjördæmakjörinn mann á einum stað og nær ekki þessu marki. Ég vil ítreka að þetta var málamiðlun í nefndinni sem ég sætti mig við en hefði sjálf kosið að þessi þröskuldur væri neðar. Bent er réttilega á að víða eru þessir þröskuldar einungis 2 eða 3%. Mér finnst það réttlát rök að kannski sé eðlilegt að nota annaðhvort viðmiðunina að hafa kjördæmakjörinn mann, þ.e. móðurskip eins og stundum er kallað, eða að fá 5% atkvæða á landsvísu en það varð ekki niðurstaðan hér og reynslan verður að skera úr um hvort þetta reynist farsælt. Því miður er ég hrædd um að þetta geri minni flokkum erfiðara um vik. Ég tel lýðræðislegra að litlir flokkar eigi möguleika á að koma fólki að á Alþingi, hvað svo sem aðrir segja um að það sé sterkara að hafa færri flokka og stóra, sem eru vissulega ákveðin rök.

Þá vil ég í öðru lagi ítreka að það voru mér líka ákveðin vonbrigði hvað við komumst stutt í nefndinni varðandi umræðuna um persónukjör. Í raun og veru lentum við kannski í, ég veit ekki hvort það var tímahrak eða viljaleysi, a.m.k. fannst mér sú umræða ekki nást nægilega vel á flug í nefndinni. Ég get vel tekið undir það eftir þá reynslu sem við höfum af prófkjörum að undanförnu að það væri að mörgu leyti æskilegra að auka möguleika fólks á að hafa áhrif á röðun lista. Mér finnst sú hugmynd sem nefnd var áðan af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, um að bera fram óraðaða lista, athyglisverð og ég er ekki alveg tilbúin að kaupa þau rök að það mundi þýða að fólk væri innbyrðis í baráttu alveg fram á kjördag. Það er náttúrlega ljóst að viðkomandi flokkur yrði að standa saman í kosningabaráttunni og það ætti að halda aftur af fólki að fara í hörð átök hvert við annað. Mér finnst því sú leið vera vel athugandi í framtíðinni. Ég er ekki að leggja til breytingar hér. Við höfum náð lendingu sem ég er sátt við í bili. Hin leiðin sem hefur nýlega verið nefnd í Morgunblaðsgrein, minnir mig, að hafa jafnvel tvennar kosningar með stuttu millibili þar sem fyrst væri kosið um menn og síðan um flokka, eitthvert afbrigði af þessu tagi, finnst mér vel koma til greina. Kosturinn við það fyrirkomulag er sá að þá ráða kjósendur viðkomandi flokka fólkinu og raða því. Mér finnst einmitt ókostur við núverandi form á prófkjörum sem víða tíðkast að listanum er raðað upp ekki síður af pólitískum andstæðingum en hinum. Ég tel hitt lýðræðislegra og betra líka að því leyti að þátttaka er ekki bundin við flokksstofnanir eða bara við flokksbundna einstaklinga eins og sums staðar tíðkast heldur nær valdið til að raða einstaklingum til allra kjósenda viðkomandi flokks sem ég tel lýðræðislegri og betri leið.

Að lokum, herra forseti, langaði mig að koma að einu atriði sem varðar að skipta Reykjavík upp í tvö kjördæmi. Ég reifaði það mál í fyrri ræðu minni í 1. umr. málsins og leiddi rök að því að meginástæðan fyrir því að það er lagt til hér, er þetta heildarmódel sem lagt er til grundvallar þessari breytingu, er að út komi sex kjördæmi sem hafi öll álíka marga þingmenn.

Ég get vel tekið undir með hv. þm. Svavari Gestssyni hér áðan, að jafnvel geti verið betra fyrir þingmenn Reykjavíkur að þurfa ekki að sinna eins stóru eða mannmörgu kjördæmi. Ég get líka séð að það geti verið betra fyrir kjósandann. Þeir vita betur hverjir eru þingmenn þeirra og hverjir eru þingmenn hinna, fyrir utan það að þingmannahópar kjördæmanna allra verða þá álíka stórir.

Borgarráð hefur ályktað nýlega um þessi mál og taldi að efnisleg rök vanti fyrir þessari breytingu, þ.e. talað er um að það geti verið óheppilegt að þessi breyting eigi sér stað og varar við að skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi leiði til togstreitu eða hagsmunaátaka innan borgarinnar. Þetta er sjónarmið sem mér finnst alveg þess virði að hlusta á og þess vegna er mælt með því að teknar séu upp viðræður við borgaryfirvöld áður en breytingin verður gerð á kosningalögunum. Það þýðir strangt til tekið ekki fyrr en á næsta kjörtímabili þegar kosningalögunum verður breytt en í raun er verið að samþykkja grundvallarmódelið, þ.e. að hugmyndin er að öll kjördæmin séu jafnstór. Þess vegna tel ég rétt að stjórnarskrárnefnd taki upp viðræður við borgaryfirvöld núna á milli 2. og 3. umr. og gefi borgaryfirvöldum tækifæri til að koma þessum sjónarmiðum sínum á framfæri við Alþingi.

Hitt atriðið sem ég hef nefnt í sambandi við ókostina, meginókostina sem ég sé við það að skipta borginni upp í tvö kjördæmi, er að þá verða færri þingmenn í hvoru fyrir sig. Í nefndinni fórum við vandlega yfir hvaða forsendur þyrftu að vera til staðar til að auka líkur á að konur og karlar stæðu jöfnum fótum og þar eru ein rökin að hafa kjördæmin sem stærst, eða sem fjölmennust. Við erum vissulega að stækka landsbyggðarkjördæmin og erum að því leyti að stíga í rétta átt frá sjónarmiði jafnréttis kynjanna en við erum jafnframt að minnka fjölmennu kjördæmin, Reykjavík og Reykjanes, þ.e. fækka þingmönnum í þeim. Sú breyting getur hugsanlega vegið upp áhrif breytingarinnar sem verður með stækkun hinna kjördæmanna, þó vissulega lofi þau prófkjör sem hafa verið nú að undanförnu góðu varðandi gengi kvenna og möguleika þeirra í stjórnmálum almennt. Ég vona svo sannarlega að sá tími sé að koma að meira jafnræði verði með kynjunum í stjórnmálum á Íslandi.

Það er ekki mikið fleira, herra forseti, sem ég vildi koma á framfæri núna. Ég vil eins og aðrir sem hafa starfað í þessum nefndum þakka samstarfið sem var mjög gott og sérstaklega formanni nefndarinnar, Friðriki Sophussyni. Ég tel að þau rök sem hafa komið fram gegn þessum breytingum séu ekki nægjanlega sterk til að hætta við þær. Ég vona svo sannarlega að þessar breytingar verði gerðar núna. Deila má um hvort þetta séu nægjanlega miklar breytingar, ég tel að það hefði mátt ganga lengra í jöfnun atkvæða en ég tel þetta ásættanlegt skref og einnig mjög til bóta og ítreka að það er innbyggð sjálfkrafa breyting inn í stjórnarskrána ef byggðaröskun verður meiri en nú er orðið. En ég vona svo sannarlega að þær spár rætist ekki að þessi breyting verði til þess að ýta undir frekari byggðaröskun, þ.e. að meiri flutningar verði hingað á höfuðborgarsvæðið. Ég er alls ekkert sannfærð um að það verði. Ég tel hins vegar að það sé mjög mikilvægt lýðræðislegt atriði að vægi atkvæða verði jafnara en nú er.