Samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 13:48:54 (3642)

1999-02-16 13:48:54# 123. lþ. 66.91 fundur 264#B samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[13:48]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mál upp því að hér er vissulega alvarlegt mál á ferð. Það kom fram í máli sjútvrh. hæstv., sem raunar er augljóst, að beint samband er á milli stærðar þorskstofnsins og stærðar rækjustofnsins. Ekki síst er þetta augljóst varðandi innfjarðarrækjuna þar sem mikil þorskgengd á grunnslóð hefur valdið því að stofn hennar fer nú mjög þverrandi.

Virðulegi forseti. Það eru fordæmi fyrir því að þegar sérveiðiflota gengur illa þá fái hann að njóta hlutdeildar í úthlutuðum kvóta þorskveiða. Það var gert hér um árið þegar loðnuveiðiflotinn stóð illa og því er mjög eðlilegt að menn spyrji sig hvort sama viðhorf hafi ekki komið upp gagnvart rækjunni, ekki síst ef menn taka tillit til þess að mjög víða í kvótalausum byggðarlögum er rækjan uppistaða allra veiða og allrar lífsbjargar. Það var svo að skilja á hæstv. ráðherra að hann væri ekki tilbúinn til að gefa á þessari stundu neina yfirlýsingu í þá veru en það kom líka fram í máli hans að hann virtist vera reiðubúinn til að skoða það.

Hins vegar kom fram athyglisverð afstaða hjá tveimur sjávarútvegsnefndarmönnum sem hér töluðu og þess vegna er spurningin sú og tilmælin sem mér finnst rétt að beina til þeirrar nefndar, hvort hún vilji ekki taka þetta mál fyrir, láta í ljós a.m.k. álit á því hvernig eigi að bregðast við þannig að ljóst sé hver vilji sjútvn. sé. Formaður sjútvn. er áhugamaður um að taka upp ýmis mál í tengslum við stjórn fiskveiða og hann ætti þá að beita sér fyrir því að taka þetta mál upp líka og senda hæstv. sjútvrh. erindi í samræmi við þann málflutning sem hann, formaðurinn, viðhafði hér áðan.